Landeyjahöfn, framhald af síðustu grein

Það var mjög ánægjulegt að sjá svar Sigurðar Áss við minni síðustu grein og kannski svolítið skrítið fyrir mig vegna þess, að eftir vandræðaganginn haustið 2010, þar sem í ljós kom að öll varnarorð mín frá því árunum áður varðandi Landeyjahöfn reyndust á rökum reist, heftur ríkt hálfgerð þöggun um mín skrif um Landeyjahöfn og vil ég þakka þeim á Eyjafréttum fyrir að ná eyrum Sigurðar.

Svar Sigurðar kom mér kannski ekki á óvart, enda heyrt svipað frá honum á opnum fundum og ekki dettur mér til hugar að efast um að hann fari með rétt mál varðandi þessi A-B-C svæði. Vandamálið hjá mér er kannski það, að ég setti þetta í mína síðustu grein vegna orða reynds skipstjóra úr eyjaflotanum, sem mér dettur ekki heldur til hugar að rengja, svo mér er nokkur vandi á höndum og þó. 

Orð Sigurðar segja í raun og veru allt sem segja þarf, nýja ferjan mun geta siglt, samkv. þessu, til Þorlákshafnar, en hún er fyrst og fremst hönnuð og smíðuð til siglinga í Landeyjahöfn. Svo spurningin er því kannski fyrst og fremst þessi: Mun ferjunni nokkurn tímann verða siglt til Þorlákshafnar og hvað gerist ef frátafir verða sambærilegar til Landeyjahöfn og með núverandi ferju. 

Það eru ótrúlega margir sem hafa komið að máli við mig núna í vikunni og ég hef fengið hinar ótrúlegust spurningar og jú, líka kjaftasögur. Svo mig langar að minna á það, að fyrir ári síðan var ákveðinn hópur fólks hér í bæ að vinna að því að koma á opnum fundi með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu, fyrirtækjum í Vestmannaeyjum ásamt fulltrúum Siglingamálastofnunar, samgönguráðherra og annarra.

Ég kalla eftir því að slíkur fundur verði haldinn, það eru einfaldlega allt of margar kjaftasögur í gangi og um leið allt of mörgum spurningum ósvarað. Svo ég taki nú bara tvö pínulítil dæmi, sem samt skipta gríðarleg miklu máli. Margir sem skoðað hafa teikningar af nýju ferjunni, hafa verið óhressir með það, að kojunum í ferjunni skyldi vera snúið þversum, en svo heyrði ég það í dag, að búið væri nýlega að breyta þeim í langsum, sem breytir ansi miklu fyrir þá sem þekkja til.

En mikilvægara, að aðeins í þessari viku er ég búinn að heyra sennilega um 3 útgáfur af því, að samningurinn við þá sem eiga að smíða ferjuna, sé í uppnámi vegna þess að þeir neiti að bera ábyrgð á ferju, svona grunnristri, sem þeir áttu enga aðkomu að að hanna.

Að öðru leyti veit ég ekkert um þetta, en þessum spurningum þarf að svara og ég skora hér með á bæjarstjórn Vestmannaeyja að beita sér fyrir því að slíkur fundur verði haldinn sem fyrst.


Landeyjahöfn, staðan í dag 12.03.2017

Landeyjahöfn opnaði í vikunni sem er óvenju snemmt. en fyrst og fremst ánægjulegt. Ástæðan er fyrst og fremst hagstæðar vindáttir að undanförnu þannig að Galilei fékk nægan tíma til þess að dæla út úr höfninni. Ég minni þó á að það er enn vetur og er t.d. ölduspáin að sýna allt að 7 metra ölduhæð um miðja vikuna, en veðurspáin fyrir næstu helgi er mun betri.

Eins og svo oft áður, þá rignir inn kjaftasögunum, fyrir sumum er einhver fótur en aðrar eru oft á tíðum tóm þvæla. Það vakti þó athygli mína að í morgunfréttum á Bylgjunni í síðustu viku kom fram að í gagnið væri komin ný aðferð til að losna við sandinn úr höfninni, sem gengi út á það að Galilei dældi niður sjó í höfninni, sem gerði það að verkum að sandurinn þyrlaðist upp og straumurinn bæri síðan sandinn í burtu. Þetta er, eftir því sem ég veit best, tóm þvæla, en rörið sem er framan á Galilei sem vissulega er ætlað til þess að dæla niður í sjó, en er fyrst og fremst til þess að ná betur sandinum frá görðunum, en rörið sem Galilei notar til að dæla sandi upp í skipið nær einfaldlega ekki til að dæla meðfram görðunum, og þess vegna var þessi aðferð fundin upp.

Mér er hins vegar sagt að það sé byrjað að setja upp einhvers konar þil í kring um höfnina landmegin, til þess að reyna að minnka foksandinn í höfninni, en það verður svo bara að koma í ljós hvort að það virkar eða ekki.

Sumar kjaftasögur eru svo ágengar að maður hefur heyrt þær oft, að maður leggur það á sig að leita eftir svörum m.a. hafði ég heyrt það nokkrum sinnum í vetur að ekki yrðu neinar festingar á bílaþilfarinu á nýju ferjunni m.a. til þess að geta fækkað verulega í áhöfninni. Mér þótti þessi saga frekar galin en sannleikurinn er sá, að á þilfari nýju ferjunnar verða svokallaðir fýlsfætur, eða í staðin fyrir raufar eins og á núverandi ferju, verða kúlur með götum í sem hægt er að krækja í þegar binda þarf farartæki niður. Um leið er nokkuð ljóst að ekki verður um verulega fækkun á nýju ferjunni, en hef þó nýlega heyrt það að hugsanlega verður fækkað úr 12 niður í 10 í áhöfn nýju ferjunnar. 

Aðrar kjaftasögur hins vegar, vekja meiri athygli mína og sú nýjasta gengur út á það, að nýlega hafi siglingarleiðinni milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verið færð yfir í svokallað B svæði. Ef það er eitthvað til í því, að nýja ferjan muni aðeins fá siglingaleyfi til siglinga á A og B svæðum, þá er staðan ótrúlega slæm því að veruleikinn er sá, að hafsvæðið milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar telst vera C svæði og ef þetta er rétt, þá skiptir það engu máli þó að nýja ferjan gæti siglt til Þorlákshafnar, þá hefði hún einfaldlega ekki leyfi til þess. Þessu til viðbótar er mér sagt, enn einu sinni, að það sé nánast forms atriði að ganga frá sölu á núverandi ferju og að henni verði hugsanlega flaggað út sama dag og nýja ferjan kemur til Eyja. Í mínum huga er þetta graf alvarlegt mál ef eitthvað af þessu er satt og ég skora hér með á þá, sem hugsanlega vita betur að svara þessu. 

Það skiptir í mínum huga engu máli, þó að sumir geri grín að því að það þurfi B plan þ.e.a.s. að halda núverandi ferju í einhvern tíma eftir að nýja ferjan kemur. Það er hins vegar ekki búið að ganga frá þessu máli. 

Að lokum þetta: Það hefur verið bara gaman að fylgjast með skrifum annarra um samgöngumálin okkar og fer þar fremstur í flokki bæjarstjórinn okkar. Ég er nú sammála Elliða í því, að ef ekki hefði verið búið að skrifa undir samning varðandi nýju ferjuna, þá hefði sá samningur að öllum líkindum hugsanlega lent undir niðurskurðar hnífnum hjá núverandi ríkisstjórn. Hin hliðin á þessu máli er sú að, nokkuð augljóslega erum við ekki að fara að fá háar upphæðir í nauðsinlegar breytingar og eða lagfæringar á Landeyjahöfn.

Elliði skrifar einnig um að hugsanlega muni fólki fjölga með tilkomu nýrrar ferju, ég hef hins vegar heyrt í fólki á öllum aldri sem er tilbúið að forða sér héðan ef þetta reynist ein illa og margir sjómenn spá. Reyndar hefur því miður líka orðið sú þróun að fólk sem á eldri fasteignir hér í bæ stendur frammi fyrir því að losna ekki við þær, nema jafnvel niður í hálfvirði, sem aftur hefur orðið til þess að fólk svilítið situr fast hérna.

Grein Ómars Garðarssonar frá því fyrr í vetur vakti líka athygli mína, en Ómar furðaði sig á því, hvers vegna ekki fengust neinir fjármunir í að bæta heilsugæsluna okkar og þeirri fáránlegu stöðu að Eyjamenn skuli þurfa að flytja til Reykjavíkur til að fæða börnin okkar. Margir hafa nú fjallað um þetta undanfarin ár og bent þá sérstaklega á þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn með allri sitt vald hér í Eyjum og á Alþingi Íslendinga, skuli ekki skila okkur neinu. 

Varðandi hins vegar niðurskurðinn á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, þá fjallaði ég nokkrum sinnum um hann áður en Landeyjahöfn var opnuð, þar sem ég varaði m.a. við því að ef Landeyjahafnar leiðin yrði valin, þá myndi það þýða niðurskurð á hinum ýmsu stofnunum á vegum ríkisins hér í bæ, svo þessi niðurskurður í sjálfu sér hefur ekki komið mér á óvart. Þetta er hins vegar að mínu mati, mikið réttlætismál og í því þurfum við öll að standa saman, en ég harma það enn einu sinni að spádómar mínir um afleiðingar Landeyjahafnar skuli enn einu sinn hafa staðist. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband