Lundasumarið 2015

Lundaballið er um helgina og því rétt að fara yfir sumarið. Staðan núna, 24. sept. er ótrúleg. Mikill lundi við Eyjar og mikið af sílisfugli að bera í holur ennþá og flug lundapysjunnar rétt að ná hámarki og svolítið erfitt að átta sig á því, hvað gerðist í sumar, en þó.

Ég var staddur austur á Rófu ca. 3 mílur austan við Elliðaey um miðjan júlí mánuð, þegar ég varð vitni að því að þar gaus upp mikið af æti og ég horfði á þúsundir lunda og svartfugl koma þar á ör stuttum tíma, og ekki bara setjast og byrja veiðar, heldur sá ég eitthvað sem ég hef aldrei séð áður, bæði svartfugl og lunda skutla sér ofan í sjóinn. Ég sá svo torfuna færast smátt og smátt til lands. Eftir að ég hafði klárað að draga línu sem ég var með þarna, prófaði ég að renna með stöng og fékk þá strax makríl á stöngina, svo hann var mættur líka í veisluna. Ekki veit ég hvers konar æti þetta var, en ef við horfum á þá staðreynd að lundinn er ennþá að bera æti í holurnar og hvernig staða lundapysjunnar er í dag, þá er nokkuð ljóst að meirihlutinn af lundanum hóf ekki varp fyrr en í byrjun júlí. 

Veiðidagarnir voru 3 í sumar og miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið, þá má reikna með að milli 4-500 lundar hafi verið veiddir í sumar, en þar sem nú þegar eru komnar upp undir 600 pysjur á sædýrasafnið, þá er ljóst að veiðarnar voru sjálfbærar. 

Sjálfur fór ég ekki í lunda í Eyjum, frekar en síðustu ár, en heimsótti hins vegar 3 eyjar norður í landi í sumar, sem klárlega voru toppurinn á árinu hjá mér.

Það er mikið af lundapysju á ferðinni og maður heyrir það að ansi mörg börn eigi svolítið erfitt í skólanum þessa morgnana og mig langar að velta því upp, hvort það væri ekki sniðugt að kennarar yngri bekkjanna gerðu úr þessu verkefni, þar sem bóknámið fengi kannski frí einn dag í bekk eða svo og haldið til pysjuveiðar að morgni til og jafnvel hugsanlegt að gera einhvers konar keppni milli bekkja um það hvaða bekkur fyndi flestar pysjur. Það eru ekki öll börn sem leggja í að fara á bryggju svæðið og sumir fá ekki leyfi til þess, en kannski væri sniðugt að gera þetta að verkefnum undir eftirliti og umsjá kennara. Enda hafa öll börn gott af því að kynnast svæðinu sem klárlega er lífæð Eyjamanna. 

Sumir hafa sagt við mig að allur þessi fjöldi lunda s.l. mánuð væri hugsanlega lundi sem væri að koma að norðan á leiðinni suður, en ég er nú ekki sammála því. Þetta er bara lundinn okkar sem er að koma þegar æti er í boði í kring um Eyjar, en að öðrum kosti helgur hann sig það langt í burtu að hann kemur ekki. Varðandi það, hvort þetta sumar sé einhver vísbending um það að ástand stofnsins sé að fara að lagast, þá stór efast ég um það, því miður, þó að maður voni það nú alltaf.

Varðandi hvort það hafi einhver áhrif á afkomu pysjunnar að hún komi svona seint, þá tel ég svo ekki vera, en kannski má segja sem svo að þetta síðsumar varp lundans sé kannski svona ekki ósvipað því þegar við Eyjamenn þurfum sjálfir að takast á við erfiðleika og breyttar aðstæður, þá einfaldlega bítum við á jaxlinn og berjumst enn harðar fyrir tilveru okkar hér.

Bestu fréttirnar eru þó þær, lundinn kom til Vestmannaeyja í milljóna tali í sumar og skilaði af sér ágætis árgangi í nýliðun, miðað við þær fréttir sem berast úr sumum eyjunum, og mun koma í milljóna tali næsta sumar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband