Árið 2015 gert upp

Það er ágætur siður hjá mörgum að gera upp árið sem er að líða, og það ætla ég líka að gera eins og vanalega. 

Tíðin síðasta vetur var hundleiðinleg, þó svo að ég benti á það að ég hefði séð það verra. Það voru ansi margir sem kvörtuðu en ég hef svolitlar áhyggjur af því, miðað við veðrið um jól og áramót, hvort að þessi vetur verði enn verri, en vonandi verður svo ekki. 

Mikið af lunda og lundapysju í haust, sem er mjög ánægjulegt, en í sumar lét ég loksins verða af gömlum draum að heimsækja Grímsey fyrir norðan land og mæli eindregið með því, enda Grímseyingar góðir heim að sækja. Náttúran og fuglalífið rosalegt og ég er strax farinn að gera mér vonir um að komast þangað einhvern tímann aftur. Náði líka síðan í fríinu í ágúst að heimsækja bæði Vigur í Ísafjarðardjúpi og litlu Grímsey við Drangsnes. Gríðarlega mikið af lunda í öllum þessum eyjum.

Pólitíkin er farin að spila töluvert inn í mitt líf. Reyndar hafa óvenju margir spurt mig að því að undanförnu, hvort að ég sé kominn í bæjarstjórn, en svo er ekki. Ég er hins vegar í stjórn Náttúrustofu suðurlands og í Framkvæmda og hafnarráði. Í störfum mínum þar hef ég lagt fram þó nokkrar tillögur og bókanir, sem að sjálfsögðu fara síðan líka sjálfkrafa til umfjöllunar í bæjarstjórn. Meirihlutinn hefur, eins og ég bjóst við, verið á móti öllum tillögum og bókunum frá okkur á Eyjalistanum og það hvarflar að mér að við á Eyjalistanum séum að vinna fyrir bæjarbúa, en meirihlutinn fyrst og fremst fyrir bæjarstjórann og þennan hóp sem er í kring um hann. Ég neyta því ekki að þetta eru viss vonbrigði, en kannski má segja sem svo að maður hafi kannski orðið töluverðar áhyggjur af því, hvernig mál eru að þróast hér í bæ, þar sem stefna bæjarstjórans virðist vera sú að koma einhverjum úr hirðinni í kring um sig inn í allar stjórnir og stofnanir á vegum bæjarins og sem dæmi um það nýjasta, þá var hlutverk skipstjórans á Lóðsinum sem vara hafnarstjóri tekið af honum og fært í aðrar hendur, að sögn vegna samskipta örðuleika og þessu til viðbótar ganga síðan sögusagnir út um allan bæ um að starf slökkviliðsstjóra, sem hættir núna um áramótin vegna aldurs, standi ekki vara slökkviliðsstjóra til boða, sem starfað hefur í slökkviliði Vestmannaeyja í yfir 40 ár, né heldur eigi að auglýsa stöðuna, heldur standi til að setja þetta mikilvæga starf í hendurnar á einhverjum úr hirðinni í kring um bæjarstjórann. En eins og staðan er í dag, þá hefur þetta mál ekki verið borið undir fagráð, en nýr slökkviliðsstjóri á samkv. öllu að taka við starfinu föstudaginn 1. janúar. Mjög undarleg vinnubrögð þetta og það getur ekki verið holt fyrir nokkurt bæjarfélag að allir þeir sem fara með ábyrgðarstöður á vegum bæjarins koma úr einhverjum þröngum hóp og maður spyr sig, hvað gerist ef upp koma mál þar sem fólk lendir hugsanlega í þeirri aðstöðu að vera á móti skoðunum bæjarstjórans? 

Að vissu leyti get ég svarað þessu sjálfur og gerði það í raun og veru í grein í apríl s.l. þar sem ég fjallaði um tillögur frá bæjarstjóranum á borði stjórnar Náttúrustofu suðurlands, sem ég ætla ekki að endurtaka hér, en langar að gefnu tilefni að hafa eftir orð eins fulltrúa meirihlutans í stjórninni, sem sagði þetta fyrir ári síðan: Hva, er eitthvað að þessu? 

Eftir mótmæli og ábendingar hjá mér kom sami aðili með þetta ári síðar á fundi í nóvember s.l.: Þetta fer aldrei í gegn.

En nóg um pólitík.

Fyrir mig persónulega var þetta ár mjög erfitt. Ég hef t.d. haft það fyrir venju síðan ég fór að búa, að senda pabba mínum fisk fyrir jólin og hringja síðan í hann um jól og áramót, en hann lést í sumar. Sólargeislinn er síðan lítil dama sem kom í heiminn í nóvember s.l. og eru afabörnin þar með orðin 3 og eitt á leiðinni, svo það má í sjálfu sér segja að lífið heldur áfram. Hvernig næsta ár verður er ómögulegt að segja, en ég neita því ekki að það er smá beygur í mér, ekki bara fyrir mína hönd heldur okkar Eyjamanna allra. Samgöngurnar verða greinilega áfram í tómu rugli, fargjöldin á Herjólfi voru að hækka töluvert þó að reksturinn sé í hagnaði og vakti athygli að þeir hækkuðu meira í siglingum í Landeyjahöfn og ekkert heyrist frá bæjarráði.

Ég hringdi niður í Landsbankann í gær til að fá stöðu á reikningi og fékk að heyra það, að ef ég fengi að heyra það hvað væri á bókinni minni, þá yrði ég rukkaður um 95 kr fyrir það.

Það er mikið byggt af iðnaðarhúsnæði í Eyjum þessa mánuðina, en á sama tíma er störfum að fækka vegna hagræðingar og ég heyrði það hjá faseignasala fyrir nokkru að stærri eignir í Vestmannaeyjum hreyfðust varla og hef séð dæmi um það, að eignir séu jafnvel seldar á í kring um 20 milljónir, en sambærilegar eignir væru metnar í kring um 80 milljónir á höfuðborgarsvæðinu. Einnig virðist vera óvenju mikið framboð á leiguhúsnæði í Vestmannaeyjum, svo maður fær svolítið á tilfinninguna að staðan sé aðeins niður á við hjá okkur Eyjamönnum, en við erum svo sem ekkert óvön því að þurfa að berjast fyrir tilveru okkar og framtíðin er óskrifað blað. Mitt áramótaheit er það sama á hverju ári, að reyna að gera betur í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur en ég gerði á síðasta ári.

Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Georg, Þakka þér fyrir góða grein.

Gleðilega jólarest, og gleðilegt nýtt ár og takk fyrir gömlu árinn.

Helgi Þór Gunnarsson, 30.12.2015 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband