Ef Bakkafjöruhöfnin verður að veruleika

Þá þurfa eyjamenn allir að fara þarna um ef þeir eru á leiðinni í bæinn. Ansi hætt við því að áhættumatið breytist aðeins við það.  Einnig er ljóst að yfir vetrar mánuðina mun það taka mun lengri tíma að komast þetta heldur en sumir gera sér vonir um.


mbl.is Bílvelta á Hellisheiði, varað við mikilli hálku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gerirðu ráð fyrir að Þrengslunum verði lokað við gerð Bakkafjöruhafnar?

Vigfús (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 18:48

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Vigfús, nei en ég efast um að nokkur maður fari þá leið og lengi þar með aksturinn.  Allavega ekki nema það sé allgerlega ófært yfir Hellisleiðina.

Georg Eiður Arnarson, 27.10.2007 kl. 19:47

3 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Og heim aftur Georg, ekki bara í bæinn.

Að öllu jöfnu er heiðin öruggari og betri yfirferðar en Þrengslin.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 27.10.2007 kl. 22:09

4 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Bara aðeins að kíkja á þessi Bakkafjörumál Takk fyrir heimsóknina á mína síðu og kveðjuna

Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.10.2007 kl. 22:48

5 identicon

Veistu Georg þú hlýtur að vera að grínast heldurðu að það séu eitthvað minni líkur að þú keyrir á eða veltir bílnum í þrengslunum en heiðinni ? Það bætist við aksturinn s.s lengri leið en hættulegasti kaflinn á þessari leið verður alltaf heiðin og hún er alls ekkert hættulegri en þrengslin.

Þú ert farinn að grípa í öll hálmstrá til að gera bakkafjöru tortryggilega þetta fer að verða fyndið hvað þú ert neikvæður. 

hjölli (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 10:47

6 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Langflest þeirra sem fara með Herjólfi eru á leið til og frá höfuðborgarsvæðinu. Ég fæ ekki skilið hvers vegna fólk vill ekki frekar sigla lungann úr þessari leið í makindum þar sem hægt er að spjalla við aðrar manneskjur, lesa, horfa á mynd eða leggja sig - í staðinn fyrir að keyra eftir varasömum þjóðvegi með mikla slysatíðni í rúma tvo tíma.

Bensínsverðið á ekki eftir að lækka í framtíðinni - það er öruggt. Það hækkar verulega ef eitthvað er og hefur aldrei verið hærra en nú. Halda Eyjamenn virkilega að það verði eitthvað ódýrara fyrir þá að fara með ferju upp á Bakka og þurfa svo að keyra í bæinn, en að sigla Eyjar-Þorlákshöfn-Eyjar?

Og með fullri virðingu fyrir Bakka þá er sá staður ekkert annað en eyðisandur "in the middle of nowhere". Sé fólk á leið upp á land til að ná sér í þjónustu eða versla þá verður það að ferðast dágóðan spöl til að komast í eitthvað sem ekki fæst í Eyjum. Líklega alla leið á Selfoss hið minnsta.

Svo finnst mér Þorlákshöfn oft gleymast í þessari umræðu. Af hverju tala engir um hagsmuni Þorlákshafnar í því sambandi að þjóðvegurinn til Eyja liggi gegnum höfnina þar? Og hvað með þá miklu fjárfestingu sem sett hefur verið í höfnina þar og greidd hefur verið að landsmönnum? Á bara að henda henni sisona út um gluggann og það fyrir eitthvað ævintýri sem fjölmargir og ekki síst sjómenn - telja hreina vitleysu? Við vitum þó að leiðin til Þorlákshafnar virkar. Ef  Bakkafjara klikkar sem framkvæmd þá verður það svo mikið áfall fyrir Vestmannaeyjar að samfélagið þar mun aldrei bera sitt barr.

Menn verða að athuga að þeim ber að vanda sig mjög. Samfélagið í Eyjum hefur lengi verið í algerri nauðvörn með hnignun í atvinnulífi, stöðugri fólksfækkun, hækkun á meðalaldri íbúa og fækkun barnsfæðinga. Þó að þetta sé staðan þá mega menn ekki höndla í örvæntingu. Mistök verða dýr. Hér er verið að taka ákvarðanir á ögurstundu.

Þegar Suðurstrandarvegur verður tilbúinn þá verður önnur láglendisþjóðbraut (í mjög fallegu landslagi) til viðbótar við veginn um Hellisheiði Þrengsli, beint frá Þorlákshöfn til Keflavíkur og reyndar inn á höfuðborgarsvæðið einnig gegnum Krísuvíkurveginn sem liggur beint inn í Hafnarfjörð. Þeir sem eru að fara erlendis frá Eyjum munu þá ekki einu sinni þurfa að fara gegnum borgina heldur beint vestur á völl upp úr Herjólfi. Sama þegar komið er til baka frá útlöndum.

Ég hef svo séð Suðurstrandarveginn fullbúinn alltaf öðrum þræði fyrir mér sem veg þar sem ferðamenn færu beint frá Keflavík til Suðurlands án viðkomu á höfuðborgarsvæðinu. Ef það væri góð og glæst ferja í Þorlákshöfn yrði hægur vandi að lokka þá í skemmtisiglingu með suðurströndinni til Vestmannaeyja. Með Bakkafjöru minnka líkur á þessu að ég tel. Suðurland býður upp á svo ótal aðra möguleika í ferðaþjónustu að þeir ná ferðamönnunum til sín að verulega miklu leyti áður en þeir komast austur á Hvolsvöll.

Þetta eru bara svona nokkrir punktar. Mér finnst bara þessi  Bakkafjara svo vitlaust dæmi. Miklu skynsamara væri að fá nýjan, stærri og hraðskreiðari Herjólf - ferjur í dag eru allt önnur tæki en ferjur sem byggðar voru þegar sá Herjólfur sem nú er var smíðaður. Síðan höfum við flugsamgöngurnar til Eyja í góðu lagi og hlúum að þeim - bæði á Bakka og Reykjavík.

Svona færi ég í þetta.

Magnús Þór Hafsteinsson, 28.10.2007 kl. 12:48

7 identicon

Sæl öll.

Verð að fá að svara þessu hjá Magnúsi: 

"Ég fæ ekki skilið hvers vegna fólk vill ekki frekar sigla lungann úr þessari leið í makindum þar sem hægt er að spjalla við aðrar manneskjur, lesa, horfa á mynd eða leggja sig - í staðinn fyrir að keyra eftir varasömum þjóðvegi með mikla slysatíðni í rúma tvo tíma".

Það er greinilegt að sumir þekkja sjóveiki aðeins af afspurn. Hafa ekki þá ítrekuðu lífsreynslu að liggja hálfmeðvitundarlaus í krampaköstum með börn í svipuðu ásigkomulagi, heitandi því að fara þetta aldrei aldrei aftur, vonandi hálfvegis að skipið sökkvi NÚNA og það taki bara fljótt af. Að byrja að kvíða fyrir sjóveikinni hálfum mánuði fyrir brottför. 

Og jú, það skiptir máli hvort sjóveikin stendur yfir í hálftíma eða þrjá tíma.  Trúðu mér. Það skiptir máli.

Ég veit persónulega um fjölda fólks sem fer einfaldlega ekki til Vestmannaeyja vegna sjóveiki.  Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar? Nei ég hélt ekki.

Guðrún J (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 13:30

8 identicon

Magnús ef að bensínverð á eftir að hækka mikið meira þá á olíuverð alveg eins eftir að hækka og þar af leiðandi ferðin með Herjólfi þannig að þetta eru lítil rök að keyra 120 km í langkeyrslu á venjulegum fólksbíl mun líklega vera eitthvað um 10 lítrar s.s 1280 kr og ef það mun kosta í bakkaferjuna 1000 kr þá eru þetta 2280 kr. Að fara með Herjólfi núna kostar 2000 kr og ferðin er um 50 km s.s um 4 lítrar sem er um 500 kr þannig að það verður ekkert dýrara á bakka.

Og að halda því fram sem allir í ferðaþjónustu eru á móti að við náum að lokka ferðamenn í 2 + stunda siglingu til eyja ef ferjan verður glæsileg er í besta falli grín hjá þér ferðamenn hafa takmarkaðann tíma og til að sækja á í þeim markaði verður að vera hæft að bjóða uppá dagsferðir. Og hafa siglinguna sem styðsta þetta eru allir eða langflestir í ferðamannabransanum sammála.

Og í sambandi við suðurstrandarveginn getum við þá ekki nýtt hann líka á bakka ?  Þá er þessi heiði sem Georg er svo hræddur við farinn úr dæminu og jafnvel styttist vegalengdin sem þarf að keyra frá bakka.

Og í sambandi við Þorlákshöfn þá er bara ekkert verið að tala um hana það er verið að tala um að reyna að fá ungt fólk til að búa í eyjum og því ver og miður þá verður ekki hægt að sækja á þar ef að haldið verður áfram að sigla í þorlákshöfn.

Og eins og Guðrún bendir á þá munar alveg svakalega miklu að sigla í 30 mínútur til staðar sem þú sérð væntanlega allan tímann heldur en að sigla í 2 - 3 tíma að svæði sem þú sérð síðustu 40-50 mínúturnar. Fyrir sjóveikt og sjóhrætt fólk þá munar það svakalega miklu.

hjölli (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 14:12

9 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

1. Það hefur orðið framför í skipasmíðum frá því núsiglandi Herjólfur var smíðaður. Stærra og betur búið skip en það sem nú er myndi væntanlega velta miklu minna.

2. Verður þessi "fjöldi fólks" líka sjóveik í flugvélum?

Magnús Þór Hafsteinsson, 28.10.2007 kl. 14:16

10 identicon

Nei væntanlega yrðu þau ekki sjóveik en síðast þegar ég vissi þá taka flugvélarnar ekki bílana og það er nú aðalástæðann að fólk fer með Herjólfi og að sjálfsögðu verðið sem það kostar að fara með flugi.

Já svo sannarlega hafa orðið framfarir í skipasmíðum en 2 tíma sigling er það sem flestar ferðaskrifstofur setja fyrir sig og flestir ferðamenn, en gleymið þið ekki einu með ef það verður bakkafjara þá getur fólk t.d keyrt á bakka og ef það er gott flugveður þá flýgurðu bara yfir með bakkaflugi og sendir bílinn yfir ef þú vilt fara með bílinn með þér en vilt ekki sigla það er nú líka möguleiki.

Og Magnús með það að nýr stærri og öflugri Herjólfur eigi að snúa við íbúaþróun þá er búið að reyna það með þessum sem er núna hann kom 1992 og það er búið að vera stanslaus fólksfækkun síðan þá og er það aðallega ungt fólk sem flytur frá eyjum og allmargir af þeim fluttu útaf samgöngum og hvernig eigum við að snúa þessari íbúaþróun við?  Því eins og ég segi þá er búið að reyna að koma með stærra flottara og öflugra skip, og það virkaði ekki og af hverju að reyna það aftur ?

hjölli (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 14:42

11 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Það er ekki Herjólfi að kenna að fólki hefur fækkað í Eyjum. Ég er ekki einu sinni að segja að nýr Herjólfur muni snúa þeirri þróun. Þar þarf annað að koma til samfara góðum samgöngum. Heimskuleg fiskveiðistjórnun sem bara hefur skilað neikvæðum árangri, og vitlaus opinber atvinnustefna á hér miklu stærri þátt.

Og varðandi hækkun á bensíni þá er það nokkuð sem kemur beint og strax við pyngjuna á þeim sem eru neytendur - það er bíleigendur. Síðan má náttúrulega reikna inn í þetta slit og afskriftir á bílum við keyrsluna. Er það t. a. m. með í útreikningum varðandi ferðakostnað á fjórum hjólum milli Bakka og Reykjavíkur?

Og fyrst menn eru svo trúaðir á vitleysuna um að helsta ástæða þess að ungt fólk vilji ekki búa í Eyjum sé sú að það þarf kannski að fara með Herjólfi - hvað segja menn þá um Bakkaferjuna? Ef kenningin um að ferjumöguleikar hafi svo mikil áhrif á búsetuval á að standast er þá ekki alveg eins hægt að spyrja hvort að ungt fólk eða jafnvel flestir í framtíðinni muni bara búa uppi á landi með tilkomu Bakkaferju og greiða sitt útsvar og eyða sínum fjármunum þar, en Vestmannaeyjabær breytist að miklu leyti í sumarbústaðabyggð og útróðrastöð með bryggjuhverfi umhverfis höfnina?

Með öðrum orðum - að sú þróun sem nú er komin af stað haldi bara áfram af meiri krafti en nokkru sinni fyrr?

Magnús Þór Hafsteinsson, 28.10.2007 kl. 15:22

12 identicon

Miðað við fólk sem ég hef talað við sem er á svipuðu reiki og ég og eru flutt frá eyjum þá er það asskoti oft nefnt sem ástæða að vilja ekki búa í eyjum sé vegna þess að það vill komast af eyjunni þegar því þóknast s.s oftar en 2svar á dag og að þurfta ekki að panta með löngum fyrirvara, og eitt sem ég vill spyrja ykkur að það er að ef þið eruð með skip sem siglir til Þorlákshafnar og segjum sem svo að það skip verði svipað og smyrill s.s tekur yfir 200 bíla og 750 farþega haldiði að það skip muni sigla 2 ferðir á dag allt árið ?  það held ég að sé hæpinn rekstrargrundvöllur fyrir því að sigla með hálftómann dallinn 8-9 mánuði á ári þegar samkvæmt tölum náum við sjaldan að fylla þennan sem er núna og ef að það á að einkareka þetta skip þá þarf ríkið að punga vel út til að borga með því.

Og ef að ríkið mundi nú reka það þá væri það bara þess mun dýrara nema þið ætlið bara að láta hækka fargjöldin til að reka skipið ? 

hjölli (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 19:14

13 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Hvernig væri nú að menn færu til Færeyja og kynntu sér almennilega reksturinn á Smyrli þar í landi, hönnun og smíði þess skips? Mér finnst það undarlegt að Færeyingar jafn fáir og íbúar þar eru - skuli tíma að fjárfesta í svona skipi og reka það á meðan menn væla hér á landi undan því sem það kostar að rekja Herjólf og jafnvel sumir Vestmannaeyjingar sjálfir taki þátt í þeim kór eins og mér sýnist um þennan hjölla sem skrifar nafnlaust hér fyrir ofan.  

Hafa Vestmannaeyjingar, til að mynda íhaldið sem er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn - nú eða samgönguyfirvöld á Íslandi með kratakommaferjuséní Samfylkingar þá Möller&Marshall í fararbroddi - látið svo lítið að fara til Færeyja til að kynna sér mál þar?

Magnús Þór Hafsteinsson, 28.10.2007 kl. 20:38

14 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Til hvers að breita einhverju, af hverju ekki bara að hafa Herjólf áfram milli Vestmannaeyjar og Þorlákshafnar? og sleppa þessu Bakkafjöruævintýri, þar til göngin koma.

Sigfús Sigurþórsson., 28.10.2007 kl. 22:22

15 identicon

Ótrúlegt að lesa þessa pistla hjá Magnúsi.  Ég verð að fá að skrifa nokkur orð um þá.

 

Gaman væri að vita hversu oft hann hefur setið í makindum með Herjólfi á leið til útréttinga í bænum.  Búinn að panta sér hótelherbergi eða verða sér úti um einhverskonar gistipláss þar sem útréttingarnar taka tíma sem fer illa saman við tvær ferðir Herjólfs.  Börnin eru búin að æla nokkrum sinnum og hann í makindum að skipta um æludalla.  Kannski hefur hann rekist á kunningja sinn sem einnig er að skipta um æludalla og þeir geta þá í makindum spjallað um daginn og veginn og kannski þetta sameiginlega verkefni sitt.  Ótrúlegt að nokkur maður skuli vilja missa af þessu. 

 

Mér finnst þetta spjall hjá honum með ólíkindum og greinilegt að hann hefur ekkert vit á því um hvað lífið snýst í Eyjum.  Að halda því fram að samgöngur hafi ekkert með íbúaþróun að gera finnst mér með ólíkindum. 

 

Það er alveg sama hvernig á það er litið að þá mun ferja í Bakkafjöru alltaf verða fljótlegri leið milli lands og Eyja heldur en nýr Herjólfur sem siglir í Þorlákshöfn.  Það þarf ekki flókna útreikninga til að finna það út.  Það eru 42 sml. á móti 6 sml.  Það má reikna þetta fram og til baka og fá skip sem sigla svo og svo hratt en staðreyndin er sú að vegalengdin upp í Bakkafjöru er ekki nema 1/7 af vegalengdinni í Þorlákshöfn. 

 

Ég veit ekki hvort Magnús hefur nokkurn tíma orðið sjóveikur, (geri ráð fyrir því að það hafi hann ekki orðið miðað við skrif hans hér og skilning hans á þeirri veiki)  en það hef ég oftar en einusinni og oftar en tvisvar.  Að vera sjóveikur er hræðilegt, það vita þeir sem til þekkja.  Að vera sjóveikur með sjóveik börn og eiga eftir að sigla í kannski rúmar 2 klst er ekki hægt að líkja saman við að fara í hálftíma sjóferð.  Fólk setur þetta fyrir sig og ferðast ekki til Eyja vegna þessa.  Jafnvel brottfluttir Eyjamenn veigra sér við að fara með fjölskyldur sínar til að hitta ættingja og vini vegna sjóveiki.

 

Magnús talar um að við eigum að fara og kynna okkur rekstur Smyrils og læra af því.  Ég veit vel að Smyrill er glæsilegt skip og Færeyingum til sóma að reka svo glæsilegt skip.  En ég er líka viss um að ef Færeyingar hefðu tök á að stytta siglingaleið Smyrils niður í 1/7 af núverandi siglingaleið þá myndu þeir ekki hika við að ráðast í þá framkvæmd og færu ekki að líta á einhverjar ódýrari leiðir í þeim efnum.  Þeir mega nefnilega eiga það Færeyingar að þeir hugsa vel um samgöngur hjá sér, enda sjálfsagt búnir að gera sér grein fyrir mikilvægi þeirra fyrir íbúa hinna dreifðu byggða.  Því myndi ég vilja benda Magnúsi á að kynna sér einmitt hvernig staðið er að samgöngumálum í Færeyjum.

 

Ég verð nú líka að segja að sú framtíðarsýn Magnúsar þar sem hann sér ferðamenn í hrönnum taka strikið beint frá Keflavík og að sjálfsögðu stystu leið beint til Þorlákshafnar til að geta setið í ferju í rúma tvo tíma, er í mínum huga mjög þokukennd sýn.  Í dag eru það samgöngur sem stöðva flesta ferðamenn í að koma til Eyja.  Ferðatíðnin er svo lítil að ferðaskrifstofur hafa okkur ekki einusinni á dagskrá hjá sér.  Það þarf að vera hægt að komast til og frá Eyjum sama daginn til þess að ferðaþjónustan fari að horfa til Eyja.  Ferðaskrifstofur erlendis einfaldlega selja ekki ferðir til Eyja.  Með ferju í Bakkafjöru er hægt að auka ferðatíðnina úr 3 ferðum í 12 á sólarhring. 

Ég get þó að nokkru leiti tekið undir með Magnúsi að nýr Suðurstrandarvegur gæti aukið umferð ferðamanna um þetta svæði og þá er ég ekki í nokkrum vafa um að það skilar sér niður á Bakka.  Því ef Magnús hefur einhvern tíma ekið um suðurlandsundirlendið þá hefur hann líklega veitt því eftirtekt að eyjarnar sjást mjög vel frá þjóðvegi 1 um suðurland.  Ferðalangar á þessari leið hafa einmitt oft spurt fólk á Hvolsvelli og víðar á Suðurlandi hversu lengi sé verið að aka eða ganga að þessum klettum sem virðast rísa upp úr suðurlandsundirlendinu.  Þegar svarið er að snúa þurfi við og bíða eftir ferju sem kemur kannski ekki fyrr en daginn eftir og engin leið sé að komast með henni aftur til baka  fyrr en þá þarnæsta dag þá minnkar nú áhuginn að því að skoða náttúruperluna Vestmannaeyjar.  Höfn í Bakkafjöru breytir þarna öllu. 

 

Fyrir okkur sem búum hér er það einnig ferðatíðnin sem skiptir mestu máli.  Við erum í dag bundin af því að fara annað hvort kl 8 eða 16 ef við ætlum upp á land. Þetta þýðir að það er næstum sama hversu lítið erindi okkar er á fasta landið þá fylgir því nótt að heiman.  Að geta valið um fleiri ferðir breytir þessu algerlega.  Nýr Herjólfur sem gengur í Þorlákshöfn gæti mögulega aukið ferðatíðnina um eina ferð á sólarhring, við hlið ferjulægis í Bakkafjöru er það ekki mikil viðbót.

 

Að spyrða hagsmuni Þorlákshafnar við samgöngumál milli lands og Eyja finnst mér ekki eiga heima í þessari umræðu.  Vissulega skiptir það máli fyrir nágranna okkar í Þorlákshöfn hvort Herjólfur sigli þangað eða eitthvert annað.  En með sömu rökum gætum við þá kannski lokað Hellisheiðinni og fært suðurlandsveginn í gegn um Þorlákshöfn til að skapa fleiri störf þar tengd þjóðvegaumferðinni.  Það yrði náttúrulega svolítið lengra og dýrara fyrir þá sem veginn þyrftu að nota, en yrði væntanlega til hagsbóta fyrir íbúa í Þorlákshöfn að fá þessa miklu umferð í gegn um bæinn hjá sér.  Nú við gætum allt eins látið Herjólf sigla til einhverra sjávarþorpa á landinu sem illa hafa orðið úti vegna kvótaskerðingar.  Það myndi að sjálfsögðu lengja Herjólfsferðina talsvert og þá einnig þá leið sem við þyrftum að aka á bílum okkar.  Samgöngur milli lands og Eyja eiga ekki að stjórnast af þessum hagsmunum.

 

Eftir að hafa lesið pistla Magnúsar hér að ofan átta ég mig betur á því hvers vegna hann ákvað að skipta um kjördæmi, það var viturleg ákvörðun hjá honum.  Veit reyndar ekki hvert hann fór, en væntanlega er hann betur inni í málum þar heldur en hér.

  

Jarl Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 02:15

16 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Það er ávallt merkilegt en líka pínulítið skondið að eiga rökræðu við menn eins og Jarl Sigurgeirsson. Slíkir menn hrósa sér gjarnan af því að þeir séu svo "málefnalegir" en við nánari skoðun kemur yfirleitt í ljós að enginn er "málefnalegur" nema þeir sem eru sammála þeim. Það fólk sem er svo (ó)gæfusamt að vera ósammála svona mönnum í grundvallaratriðum er svona undir rós stimplað sem heiglar og vitleysingar sem viti ekkert hvað þeir eru að tala um. Þeim sé því hollast að halda kjafti um málin.

Gott og vel.

Sjálfsagt er ég hvorki jafn gáfaður eða álíka vitur og Jarl Sigurgeirsson og skoðanabræður hans, en ég ætla nú samt sem skattborgari í þessu landi sem ber hag Vestmannaeyja og þjóðarheildarinnar fyrir brjósti, að leyfa  mér að hafa opinbera skoðun á þessum málum og spyrja spurninga og viðra mín sjónarmið eftir bestu takmarkaðri getu og brjóstviti.

Ég skynja að áhangendur Bakkafjörulausnarinnar eru sumir hverjir að minnsta kosti hræddir við umræðuna og að fólk láti efasemdir í ljós, spyrji krítískra spurninga. Í hugum þessara einstaklinga er það versta sem gæti gerst það að framkvæmd verði einhvers konar íbúakosning um málið í Vestmannaeyjum.  Það er mín skoðun að hver sem yrði niðurstaðan af slíku, þá gæti það aldrei orðið nema jákvætt þar sem slíkt tryggði væntanlega að vönduð umræða færi fram og fólk tæki afstöðu. Það er alger fásinna að halda því fram að kosið hafi verið um þessi mál í bæjarstjórnarkosningunum 2006 enda hefur bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum ekkert ákvörðunarvald í þessum málum. Það er í hendi Alþingis.

Það er fullkomlega eðlilegt að hafa efasemdir um Bakkafjöru - fjölmargir aðrir en ég hafa þær. En annars fáein stutt svör þó manni hálf ói við að svara mörgum þeim ótrúlegu og barnalegu útúrsnúningum og hártogunum sem birtast skrifum JS:

1. Ég tel mig vita sæmilega vel um hvað lífið snýst í Eyjum.

2. Ég hef aldrei sagt að samgöngur hafi ekkert með íbúaþróun að gera. Það sem ég er að segja er að aðrir þættir eins og vitlaus atvinnustefna og enn vitlausari fiskveiðistjórnun hafa valdið meira tjóni fyrir þróun atvinnulífs og byggðar í Eyjum en siglingar með Herjólfi.

3. Jú, ég hef orðið sjóveikur og ég hef sinnt sjóveikum börnum meðal annars í Herjólfi. Vissulega er það bagalegt en sjóveikin hefur nú aldrei drepið neinn og það eru til ráð við henni. Fólk á nú líka eftir að verða sjóveikt með Bakkaferjunni verði hún að veruleika. Það er rökleysa að slá út samgönguleiðir með skírskotun til þess að fólk kunni illa við þær vegna kvilla sem hrjá það. Til er flughræðsla, flugveiki, bílhræðsla, bílveiki - en engum dettur í hug að hætta að fljúga, loka flugvöllum, hætta að keyra eða loka vegum vegna þessa.

4. Ég veit mjög vel hvernig samgöngum er háttað í Færeyjum og fylgist vel með málum þar. Hef komið þangað margoft og oftar en ég get talið í fljótu bragði. Var þar síðast fyrir tveim mánuðum. Það er rétt að Færeyingar eru mjög framarlega og til fyrirmyndar í samgöngumálum. Við Íslendingar gætum lært margt af þeim í slíkum efnum eins og fleiru. Einmitt þess vegna væri nú vert að Vestmannaeyjingar fjölmenntu nú til Færeyja til að kynna sér vandlega hvernig málin hafa verið leyst þar. Færeyjar eru rétt suður af Íslandi og ekki langur vegur að fara.

5. Sýn mín í ferðamálum er ekkert þokukennd. Var bara að benda á einn af fjölmörgum punktum í þessu máli sem er tengingin Alþjóðaflugvöllur - Suðurstrandarvegur - Vestmannaeyjar.

6. Auðvitað skiptir Þorlákshöfn máli og þær fjárfestingar sem þar eru fyrir hendi í hafnarmannvirkjum og öðru. Málið er að við höfum höfn í Þorlákshöfn og  Vestmannaeyjum. Ef það á að taka upp fjörusiglingar á Bakka þá kostar það nýtt og mjög dýrt hafnarmannvirki sem margir hafa sett alvarleg spurningamerki við.

Að mínu mati vantar okkur sem allra fyrst nýja ferju sem hentar á leiðinni Eyjar - Þorlákshöfn. Það er mín skoðun að við eigum að útvega slíkt skip sem hentar og það hið fyrsta.

Varðandi Bakkafjöru, nú eða jafnvel göng, þá er það nokkuð sem ég tel að þurfi að rannsaka miklu betur og það er sjálfsagt að setja pening í slíkt. Sjálfur hef ég alltaf verið veikur fyrir gangahugmyndinni og öðru henni tengdri, svo sem stórskipahöfn og hálendisvegi norður úr yfir land.

Reynist  Bakkafjöruhugmyndin fær að undangengnum rannsóknum sem meðal annars sanna að efasemdarraddir frá reyndum sjómönnum sem ég tek mark á, eiga ekki við rök að styðjast - þá væri kannski hægt að fara í það að búa til höfn í sandfjörunni sem er fyrir opnu Atlantshafi allt suður til Antartíku. Hér verður krafan meðal annars á heilsársgrundvelli að vera sú, að það verði hægt að sigla á Bakka í viku hverri allan ársins hring nánast upp á hvern dag og í takt við ítrustu öryggiskröfur. Sé sannað að Bakki sé fær hvað þetta varðar þá er líka alltaf hægt að selja nýja flotta, fína og hraðskreiða skipið sem fer milli Þorlákshafnar og Eyja og taka upp Bakkasiglingar í staðinn.

Í grunninn það sem ég er að reyna að segja er að með leiðinni Eyjar-Þorlákshöfn-Eyjar þá vitum við hvað við höfum og við getum gert okkur nokkuð öruggar hugmyndir um hvernig við getum bætt það. Í Bakkafjöru eru hins vegar margar efasemdir á lofti og reynist þær á rökum reistar eftir að farið hefur verið af stað í framkvæmdir og þeim jafnvel lokið - þá sitjum við uppi með það með öllum kostum og göllum, og höfum jafnframt tapað reglubundnum siglingum milli Eyja og Þorlákshafnar, - sem og væntanlega líka reglubundnu flugi milli lands og Eyja um Bakkaflugvöll.

Getur verið að þetta sé rétt eða er ég bara að misskilja svona rosalega?

Magnús Þór Hafsteinsson, 29.10.2007 kl. 12:30

17 identicon

Svo ég svari lið 3 svona snögglega Magnús hjá þér þá nefnirðu flughræðslu bílhræðslu bílveiki og flugveiki og segir að ekki dettur fólki í hug að hætta að fljúga og loka flugvöllum eða hætta að keyra, en þú ert eitthvað að misskilja þetta hrapalega því ef að maður sem er bílveikur býðst að aka frá RVK til selfossar í 30 mínútur eða 2 tíma er þá ekki rökrétt að hann tæki 30 mínútna aksturinn?  Þannig finnst mér liggja í máli með sjóveikina.

Og magnús minn ég er ekki í neinum grátkór þó ég spyrji hvernig þið ætlið að leysa þann vanda að fáranlega dýrt er að taka Herjólf og ef þið stækkið það í 115 metra og 200+ bíla heldurðu að fargjödlin lækki kannski?

Og þar sem þú ert svona mikið inní samgöngum í færeyjum og það er ég ekki hvernig er áætlun smyrils s.s hvað fer hann margar ferðir á dag?  

hjölli (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 18:31

18 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Bara leita á netinu gott fólk.  

Er á hlaupum en hér er kort af siglingaleið milli Þórhafnar og Suðureyjar. Það er leið 7.

Þetta er heimasíða Strandfaraskipa Landsins sem er fyrirtækið sem sér um ferjur, þyrluflug og rútur á milli staða í Færeyjum.

Hér er áætlunin. Reyndar sýnist mér að St. Ola sigli þetta núna (er það ekki sama skip og leysti Herjólf af?) Smyrill er væntanlega í slipp.

Hér eru myndir og fleiri upplýsingar á alfræðinetorðabókinni wikipedia.org

Magnús Þór Hafsteinsson, 29.10.2007 kl. 18:51

19 identicon

Mér finnst ótrúlegt að þú Magnús skulir kvarta yfir að menn séu ekki málefnalegir eins og Jarl og svo ert þú með hvert skítaskotið á fætur öðru á mig og svo snýrðu þessu í pólitískt og ferð að skjóta villt og galið á íhaldið í bæjarstjórn kratakommaferjuséní í samgönguyfirvöldum og kvartar yfir ómálefnalegum umræðum byrjaðu á sjálfum þér að vera málefnalegur á móti þeim sem eru ekki sammála þér og þá verður þér vonandi svarað málefnalega því ekki hef ég verið með neitt skítaskot á þig og finnst mér ég ekkert eiga það skilið frá þér, þekki þig ekki mikið kynntist þér aðeins þegar þú varst hérna á kosningarferðalagi fyrir þarsíðustu alþingiskosningar s.s þegar þú bauðst fram hér og hélt nú persónulega að þú gætir rökrætt hlutina án þess að vera með svona skítaskot útí bláinn.

Kveðja

Hjörleifur svo ég sé nú ekki að skrifa nafnlaust eins og þú segir. 

hjölli (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 18:51

20 identicon

Magnús Þór. 

Að kalla skoðanir fólks sem hefur áhyggjur af þróun byggðarlags síns vitlausar, eins og þú gerir hér í bloggfærslu rétt ofar kallar að sjálfsögðu á viðbrögð frá hinu sama fólki.  Vel má vera að þú sért ekki sömu skoðunar og þeir sem búa hér og þurfa að lifa við þær samgöngur sem við erum hér að tala um, en það er óvirðing við hinn almenna bæjarbúa að kalla þær skoðanir vitlausar.  Að fara síðan að tala um að ég svari þér ekki með tilhlýðilegri virðingu fellur algerlega um sjálft sig.  Að kalla áhyggjur heimamanna barnalegan útúrsnúning og hártoganir verður þú að eiga við þig sjálfur. 

 

Þegar þú talar um þessar vitlausu skoðanir fólks að samgöngur hér á milli lands og Eyja hafi eitthvað með íbúaþróun að gera

(“Og fyrst menn eru svo trúaðir á vitleysuna um að helsta ástæða þess að ungt fólk vilji ekki búa í Eyjum sé sú að það þarf kannski að fara með Herjólfi - hvað segja menn þá um Bakkaferjuna?”)

þá get ég ekki annað lesið út úr því að þú metir ekki mikils þátt samgagna á íbúaþróun.  Vissulega koma til fleiri þættir og mætti þar helst nefna þá þenslu sem orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi aðdráttarafli á vinuafl frá landsbyggðinni.  En við því getum við ekki mikið gert annað en að reyna að gera landsbyggðina fýsilegri kost fyrir þá sem leita sér að framtíðarheimili.  Það gerum við, í okkar tilfelli, best að því er margir telja með því að styrkja samgöngur milli lands og Eyja og þá sérstaklega með því að auka ferðatíðnina hér á milli sjóleiðina og stytta siglingatímann til muna.  Þessum markiðum verður betur náð með ferjulægi í Bakkafjöru heldur en nýjum Herjólfi. 

 

Þetta kemur atvinnulífinu ekki síður til góða heldur en einstaklingum sem ferðast hér á milli.  Fram hefur komið í máli þeirra er stunda ferðaþjónustu hér í Eyjum að Bakkafjara komi til með að skipta sköpum fyrir framtíð þeirrar greinar.  Líklegt er að allt atvinnulíf í Eyjum komi til með að njóta góðs af væntanlegum breytingum í samgöngumálum og hefur það þá líklega bein áhrif á það hvort fólk líti á Eyjarnar sem álitlegan kost til búsetu. 

 

Hitt er síðan annað mál að ég get alveg verið sammála þér í umræðu um jarðgöng.  Þau tel ég vera langbesta kostinn í samgöngumálum okkar Eyjamanna.  Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að eins og málin standa í dag þá eru þau ekki fýsilegur kostur vegna mikils kostnaðar.  Hvað framtíðin mun leiða í ljós í þeim efnum er síðan mál sem stöðugt ætti að vera í skoðun.

 

Að segja fólki að sjóveiki hafi aldrei drepið neinn á kannski að vera einhver brandari hjá þér í þessu máli, en mér finnst hann ekki sérlega fyndinn.  Ef við myndum haga öllum okkar framkvæmdum hér á þessu landi með þeim hætti að allt umfram það sem hreinlega dræpi mann væri umfram það sem eðlilegt gæti talist þá er ég hræddur um að lítið væri yfirleitt um framkvæmdir.  Það er ekkert grín að þurfa að láta fjölskyldu sína ganga í gegn um tveggja til þriggja tíma sjóferð með tilheyrandi sjóveiki, þó það drepi engan, að halda öðru fram er mjög ótrúverðugur málflutningur þegar lesendur eru fólkið sem býr við þessar samgöngur. 

 

Þú segir í upphafi máls þíns að þú skiljir ekki fólk sem vill heldur aka í rúma tvo tíma á varasömum þjóðvegi með mikla slysatíðni frekar en sitja í makindum lungann úr þessari leið.  Þetta er málflutningur sem er gegnum gangandi í umræðu þeirra sem vilja finna Bakkafjöru allt til foráttu.  Ég hef áður bent á að vegalengdin frá Bakka til Reykjavíkur eru 134 km.  Það tekur ekki rúma tvo tíma að aka þessa vegalengd, á löglegum hraða nær þetta ekki einni og hálfri klukkustund.  Ekki að þetta skipti höfuðmáli en það er merkilegt að reka sig alltaf á þessar rangfærslur í máli manna sem tala niður Bakkafjöru.

 

Ég hef heyrt reynda sjómenn og skipstjóra lýsa því í mín eyru að höfn í Bakkafjöru sé vel gerleg og hinn besti kostur.  Þá hafa rannsóknir sýnt að við Bakkafjöru er hafaldan minni en annarsstaðar við suðurströndina og er þar um að ræða skjól af Eyjum.  Þá hafa rannsóknir á sandburði sýnt að gerð hafnar á þessum stað er möguleg og í raun góður kostur.  Ég hef enga ástæðu til að rengja starfsmenn siglingastofnunnar og tel þá vinna að þessu máli af fullum heilindum. 

 

Vissulega vitum við hvað við höfum með Herjólfi sem siglir í Þorlákshöfn.  Þannig hefur samgöngum okkar verið háttað allt mitt líf.  Samgöngumál eiga að vera í sífelldri þróun og þannig hafa þau verið á Íslandi.  Ég fór oft í sveit á sumrin þegar ég var yngri.  Þá fór ég vestur í Dali og var það ansi langt ferðalag með rútu.  Í dag tekur þetta ferðalag aðeins brot þess tíma og er þar um að þakka framkvæmdum sem sumir töldu algert glapræði þegar í þær var ráðist.  Ferðin milli lands og Eyja tekur ennþá svipaðan tíma og það tók á þessum árum og ferðatíðnin hefur lítið aukist, enda ekki mikið svigrúm þar um að ræða.  Að sjálfsögðu hafa menn áhyggjur af gerð ferjulægis í Bakkafjöru. Þetta er stór framkvæmd sem kostar mikla peninga og sjálfsagt að gera kröfu um að vel sé að verki staðið og ég fæ ekki betur séð en svo sé. 

 

Framfarir í samgöngumálum verða ekki með því að fara alltaf sömu leiðirnar.  Það sanna dæmin og þarf ekki að leita út fyrir landsteinana til að finna þau.  Þegar skoðuð er síða Spalar, sem rekur Hvalfjarðargöngin þá sér maður sömu umræðuna og er í gangi núna.  Framþróun í samgöngumálum verður áreiðanlega alltaf þrætuepli manna, en framfarir verða ekki ef menn hjakka stöðugt í sömu förunum bara vegna þess að þeir vita hvert þau liggja.  Nýr Herjólfur yrði vissulega samgöngubót en höfn í Bakkafjöru verður bylting.

  

Jarl Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 22:42

21 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Það er hægt að rífast endalaust um þetta. En í grunninn get ég sagt þetta:

1. Ég er ekki sannfærður um kosti  Bakkafjöru. Ef höfn þar er gerleg með skynsamlegum hætti , það er að þetta virki - þá get ég tekið undir að þetta verður bylting. Enginn vafi um það. En það er þetta EF....

2. Ég er enn fullur efasemda, en sjái ég ljósið og sannfærist skal ég verða fyrstur til að viðurkenna það og þá mun ég ekki liggja á liði mínu í því að "agitera" fyrir þessu. En ekki fyrr.

3. Ég er mikill áhugamaður um samgöngur til og frá Eyjum og mér er ekki sama um það hvernig ákvarðanir verða teknar því hér er um að ræða gríðarlegt hagsmunamál og við höfum ekki efni á að gera mistök. Ástæða þess að ég skipti mér af þessu með því að blanda mér í umræður hér er einfaldlega sú að ég er áhugamaður um velferð Vestmannaeyja. Vona að fólk virði það og fyrirgefi mér þá í leiðinni framhleypnina.

4. Það er varasamt að bera þetta saman við Hvalfjarðargöngin. Slíkt er eins og gamli samanburðurinn á eplum og appelsínum. En ég veit allt um það að þau voru og eru bylting og ég get að sjálfsögðu unnt Vestmannaeyjum þess sama.

En nú er ég að fara út á land og verð ekki í tölvusambandi næstu tvo sólarhringa, svo ég kveð í bili.

Með góðri kveðju,

Magnús Þór Hafsteinsson, 29.10.2007 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband