Lundasumarið 2017

Lundaballið er um næstu helgi og því rétt að gera upp lundasumarið að venju.

Mjög skrýtið lundasumar, en mikið af lunda kom hingað í vor en í júní og stærsta hluta júlí sást varla nokkur lundi í Eyjum. En að sjálfsögðu mætti lundinn tímanlega fyrir Þjóðhátíð og framhaldið þekkjum við 5000 bæjarpysjur komnar amk. enda þekkjum við það að ekki nenna allir að fara með í vigtun. 

Ég hef spurst fyrir um það að undanförnu, hvað menn telji að hægt sé að tala um að sé nokkurn veginn eðlilegt magn af bæjarpysju miðað við árin áður og flestir eru á því að þegar komið er yfir 5000 sé einfaldlega ástandið mjög gott og að öllum líkindum mjög nálægt að vera eðlilegt og gott varp. 

Leyfðir voru 3 veiðidagar um miðjan ágúst, en að venju fór ég ekki til veiða, en miðað við þær upplýsingar sem ég hef, þá heyrist mér að veiðin gæti losað svona ca. 300 lunda, sem gerir enn eitt árið veiðarnar sjálfbærar, en að mínu mati er kannski stærsta vandamálið það að þar sem tíminn er svona takmarkaður, þá heyrir maður á þeim sem fóru til veiða að töluvert hafi verið af fullorðnum fugl í veiðinni. Að mínu mati, til þess að auka líkurnar á því að menn veiði frekar ungfugl, þá tel ég að rétt væri að skoða breytingar á þessum veiðum en þó án þess að auka veiðarnar og þá t.d. með því að hver veiðimaður fengi að hámarki 2 veiðidaga, en þá kannski á lengra veiðitímabili?

Tók reyndar eftir því í síðustu viku að Náttúrustofa Íslands er búin að setja lundann og fýlinn á válista. Stofnar sem telja tugi milljóna á Íslandi og t.d. lundinn klárlega á uppleið og eina leiðin að mínu mati til þess að útskýra það er, að sennilega hefur ríkið verið að boða niðurskurð á fjármunum til stofnunarinnar, enda er þetta tóm þvæla.

Toppurinn á sumrinu hjá mér var sá sami og í fyrra, en ég náði að heimsækja perlu norðursins, Grímsey, í sumar og að mörgu leyti var þessi ferð betri en áður, því að ég var svo heppinn að komast með heimamönnum í siglingu í kring um eyjuna í renniblíðu, en mér hafði verið sagt frá því, að austanmegin á Grímsey væri stærsta álku byggð í heimi, en að fá að sjá þetta með eigin augum var alveg með ólíkindum. Einnig er þeim megin klettur sem heitir Latur. Mjög svipaður í stærð og ummáli og kletturinn Latur sem er norðan við Ystaklett. Munurinn er hins vegar sá, að á Lat þeirra Grímseyinga verpa 450 svartfuglar. Vonandi fær maður að koma þarna einhvern tímannn aftur. 

En lundaballið er framundan. Ég er reyndar á vakt um helgina og kemst því að öllum líkindum ekki, en svona til gamans, ein lítil, gömul veiðisaga frá mér.

Saga drottningar

Það var á föstudegi viku fyrir Þjóðahátið sumarið 1987, að ég sat á mínum uppáhalds veiðistað í Miðklett í ágætis veiði, sól og blíðu, þegar skyndilega var eins og einn geislinn frá sólinni hefði breytst í fugl og flogið framhjá. Eftir smá stund áttaði ég mig á því, að þarna var kominn lundaalbinói og eftir að hafa séð betur, sá ég að þetta var lundadrottning, alhvít með pínulítið af ljósbrúnu í bakinu.

Ekki stoppaði hún lengi við, en hvarf yfir í Ystaklett og reiknaði ég ekki með að sjá hana aftur, en daginn eftir kom hún aftur og fór að fljúga fram og aftur í Miðkletti og ég hljóp upp þar sem hún sýndist koma yfir, en þá kom hún að neðan. Svo fór ég neðar en þá kom hún fyrir ofan. Svona gekk þetta í smá stund, þar til ég gafst upp og fljótlega eftir það lét hún sig aftur hverfa.

En á sunnudeginum kom hún enn og aftur, en núna fór hún beint mjög vestarlega í Miðklettinum, eða rétt hjá stað sem við köllum Kyppunef og settist þar innan um hóp af lundum. Ég hélt áfram að veiða, en hafði samt auga með henni enda sást hún langar leiðir.

Eitt skiptið sem ég lít við sé ég að hún flýgur af stað og með stefnu töluvert langt fyrir ofan mig. Ég snéri mér við í sætinu og var að horfa á hana þegar það hvarflaði að mér að kannski sæi hún flaggið frá mér, svo ég dró háfinn til mín og sat því öfugur í sætinu og þegar hún átti nokkra metra eftir, þá blakti flaggið hjá mér, hún sá það og steypti sér niður. Ég reif upp háfinn af öllum kröftum, en þar sem ég sat öfugur í sætinu, þá að sjálfsögðu datt ég ofan í holuna og rétt náði að halda í stöngina með annari hendi og fann því ekki, hvort ég hefði náð henni, en þegar ég dró háfinn til mín lá hún í netinu. 

Ég fór í land daginn eftir og beint með drottninguna til uppstoppunar hjá Inga Sigurjóns á Hólagötunni. Hann lét mig hafa hana aftur fyrir Þjóðhátíð, en þar sem tíminn var of lítill þá náði hann aldrei að klára hana þeas. að mála á henni nefið og lappirnar.

Þegar ég horfi á drottninguna í glerskápnum í stofunni heima og við hliðina á henni aðra drottningu sem ég veiddi nokkrum árum síðar í Kervíkurfjalli, þá finnst mér einfaldlega sú gamla alltaf flottust. Hún varð 30 ára í sumar og hún er veidd sama ár og ég byrjaði í útgerð og líka sama ár og ég eignaðist frumburðinn. 

Óska öllum gleðilegrar skemmtunar á lundaballinu.


Landeyjahöfn staðan í dag 18.09.2017

Það er ansi mikið búið að ganga á í sumar, en ég ætla að byrja á því að fjalla aðeins um fundina 2 sem haldnir voru í maí og nota um leið tækifærið til þess að þakka þeim fyrir sem komið höfðu að því að koma þessum fundum á, enda hafði ég ítrekað óskað eftir því að farið yrði yfir málin.Margar góðar ræður voru haldnar á fundinum, en mér fannst svolítið skrýtið að sjá engan sjómann í pontu. Reyndar hafa flestir sem ég hef hitt síðan talið að þessir fundir hafi litlu skilað, en því er ég einfaldlega ósammála. Ég náði ekki að sitja fundina, en náði þó að skoða þetta á netinu þökk sé Tryggva og þeim á eyjar.net.

Á fyrri fundinum var mjög merkilegt að hlusta á Ásmund Friðriksson fjalla um útreikninga sína um það hvort og þá hversu mikill hagnaður er af rekstri Herjólfs, en í máli hans kom fram, að samkv. útreikningi hans hefðu ca. liðlega 300 milljónir verið afgangs á rekstri Herjólfs 2015. Ekki dettur mér til hugar að rengja þessar tölur, en ég hef að undanförnu verið að skoða þetta svolítið sjálfur og þá einmitt eins og hann, að hluta til, hvers vegna það er svona mikið dýrara að sigla til Þorlákshafnar, en ég er einmitt einn af þeim sem er af þeirri skoðun að mikilvægt sé að tryggt verði að Herjólfur verði hérna áfram eftir að nýja ferjan kemur. Vandamálið er hins vegar töluvert, enda nokkuð ljóst að þó svo að Herjólfur sé að sjálfsögðu þjóðvegurinn okkar og það eigi ekki að koma okkur við, hvort hagnaður eða tap sé á þessum þjóðvegi okkar, þá er það nú samt þannig að telja verður mjög líklegt að verulegt tap sé á siglingum til og frá Þorlákshöfn og þess vegna mjög mikilvægt að ef Vestmannaeyjabær ætlar sér að taka við rekstri Herjólfs, að tryggðir séu nægilegir fjármunir með verkefninu. 

Siglingar í Landeyjahöfn eru þó klárlega reknar með hagnaði, en að sjálfsögðu ræður tíðin þar mestu um og þá hversu vel tekst til með að halda höfninni opinni. Stóra vandamálið þar er að mínu mati sú staðreynd, að Landeyjahöfn verði aldrei heilsárshöfn.

Eitt af fyrri fundinum í máli Gunnlaugs Grettissonar vakti athygli mína, en Gulli talaði m.a. um það, hversu frábært það væri fyrir okkur eyjamenn að hafa þessa biðlista, vegna þess að við kynnum að nýta okkur þetta. Þessu er ég algjörlega ósammála, enda fer enginn á biðlista nema tilneyddur og ég leyfi mér að fullyrða það, að öll myndum við frekar vilja öruggt og tryggt pláss með ferjunni, frekar en þessa óvissu sem fylgir biðlistunum. Auk þess er augljóst, að tap ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum vegna allra þeirra ferðamanna sem ekki koma til eyja vegna biðlistana hefur ekki verið metið, en ekki ólíklegt að þar sé um stórar upphæðir að ræða.

Á seinni fundinum var tvennt í svörum Jóhannesar Jóhannesarsonar sem vakti athygli mína. Í fyrsta lagi fullyrðingar hans um að nýja ferjan gæti víst farið á þremur tímum til Þorlákshafnar og það jafnvel í vondum veðrum. Ég er ekki sammála þessu og er mjög efins um það, að svona grunnrist ferja geti yfirhöfuð siglt til Þorlákshafnar, þegar ölduhæðin í Landeyjahöfn er komin yfir 3,5 m, enda augljóslega 6-8 m ölduhæð á sama tíma milli Þorlákshafnar og Eyja.

Varðandi ganghraðann (að marg gefnu tilefni) þá er það einu sinni þannig, að að öllum líkindum verður það rekstraraðili sem tekur ákvörðun um það, hvort skipinu verði siglt á 12,5 mílum eða á hámarkshraða, 15,5 mílum. Munurinn er sá, að ef við segjum að orkueyðslan á minni hraðanum sé 2, þá er hún amk. 5 til þess að ná meiri hraða og sem útgerðarmaður myndi ég sjálfur alltaf velja lægri töluna á mínu skipi. 

Eitt var mjög jákvætt í máli Jóhannesar og það er, að að sjálfsögðu verður það skoðað þegar nýja ferjan kemur sá möguleiki að koma fyrir fleirum kojum í nýju ferjunni.

Varðandi breytingar eða lagfæringar á Landeyjahöfn sjálfri, þá voru eins og svo oft áður ýmsar hugmyndir í umræðunni, en í raun og veru má segja sem svo að Sigurður Áss hafi skotið það allt í kaf með orðum sínum um það, að enn hefðu engir fjármunir fengist í neitt af þessu og vandamál Landeyjahafnar því klárlega komið til að vera. 

Margir spurðu um einhverjar tölur í sambandi við áætlaðar frátafir. Persónulega finnst mér það svona frekar vitlaust að vera að biðja menn að upplýsa um eitthvað, sem þeir ekki vita, enda fara frátafir eftir nákvæmlega því sama  og hingað til, algjörlega eftir veðri, vindum og sandburði.

Staðan í dag er þannig að Herjólfur er aftur farinn í viðgerð og Norska ferjan Röst byrjaði siglingar í morgun. Vonandi á hún eftir að reynast vel, en veðurspáin næstu vikuna er ekki góð. Heyrði reyndar þá kjaftasögu í síðustu viku,að sumir ráðamenn bæjarins hefðu vitað það strax í júlí, að Röst yrði fyrir valinu og að aðal ástæðan fyrir því að ekki væri fengin öflugri ferja væri, að sömu aðilar hefðu ekki áhuga á að fá eitthvað sem hin nýja ferja sem koma á á næsta ári gæti ekki staðist samanburðar við .  

Það var annars ansi skemmtilegt að fá Akranes ferjuna hér um Þjóðhátíð, þar sem við eyjamenn fengum svona lítið sýnishorn af því, sem við hefðum átt að vera að berjast fyrir, en ég ætla að enda þetta í þetta sinn með orðum þingmanns Sjálfstæðisflokksins á fundinum í vor, vonandi nálægt því að vera orðrétt: Þegar kemur að því að taka einhverjar ákvarðanir í samgöngumálum eyjamanna, þá er í 90% tilvika fyrst og fremst farið eftir óskum bæjarstjórnar. 

Meira síðar.


Fiskveiðiárið 2016/17

Þann fyrsta september byrjaði nýtt fiskveiðiár og því rétt að skoða það sem var að enda , mjög skrítið fiskveiðiár að baki , með löngu verkfalli sem að sögn sjómanna skilaði engu . Mjög góðri vertíð og þá bæði í bolfiskveiðum og uppsjávarveiðum , verðið hinsvegar á bolfiskinum hefur verið afar lélegt og þá sérstaklega verðlagsstofuverðið sem margar útgerðir með vinnslu greiða ,verðið erlendis hinsvegar hefur verið með ágætum og því góður gangur í gámaútflutningum . Lélegt verð í beinum viðskiptum hinsvegar hefur annars orðið til þess að æ verr gengur að manna þau skip sem landa hjá eigin vinnslu og dæmi um það að flytja verður inn sjómenn til þess að halda úti sumum bolfiskveiði skipum . Ekki góð þróun það og nokkuð ljóst að leita verður annarra leiða til þess að leysa það .

Af minni eigin útgerð er það að segja að ekkert gengur að selja bátinn og það þrátt fyrir að ég sé búin að lækka hann um helming í verði ,sem betur fer tókst mér þó að losna við kvótann , en Ísfélagsmenn tóku kvótann fyrir mig og losuðu mig því við ansi þungan andardrátt bankans manns niður um hálsmálið á mér og kann ég þeim Ísfélagsmönnum miklar þakkir fyrir , það er ekkert grín að skulda í banka kerfinu okkar og vextirnir maður , vá, er nema furða þó bankarnir græði ,ég er því kvótalaus og hef frekar lítinn áhuga á að róa enda er ennþá þannig að veiðigjöld eru greidd af lönduðum afla og því þessi ríkisstjórn líka braskara ríkisstjórn eins og sú á undan . Það eina jákvæða sem ég hef séð er að línuívilnun er komin á allar tegundir en það hrekkur skammt enda bara fyrir landbeittar línuveiðar .

Veiði ráðgjöf hafró er enn einu sinni skrítinn , en eins og ég hafði áður spáð fyrir um þá lækkar Langan enn og hefur nú lækkað  um 50% á aðeins 2 árum , viðbót í Ýsu er hinsvegar góð en í Þorski allt of lítil , ufsa víðbótin fer hinsvegar í flokk með Launguviðbótinni síðustu ár , sem tóm vitleysa enda mörg ár síðan Ufsa kvótinn hefur náðst .

En hvað sem verður þá hefur fiskverðið hækkað að undanförnu og það er aðeins aukning á sumum tegundum og á þeim nótum óska ég öllum sjómönnum og útgerðar mönnum gleðilegs nýs kvótaárs. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband