Áramót 18/19

Mikið átakaár að baki og líka mjög skrýtið ár og að vissu leyti má segja sem svo, að endirinn á árinu sé eitthvað sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér, en kem betur að því í lok greinarinnar.

Ég hef fjallað um ýmis mál á árinu, en erfiðast var að fara í gegnum uppgjörið, en að gefnu tilefni langar mig að þakka öllum þeim, sem komið hafa til mín eða haft samband og vilja þakka mér fyrir að segja sannleikann um það, hvernig pólitíkin er stundum og að vissu leyti skil ég það vel, sjálfsagt hefði ég aldrei látið neitt fara frá mér ef ég hefði verið flokksbundinn einhver staðar.

Eitt af þeim málum sem ég hef mest fjallað um sl. áratug, en ekkert á þessu ári, er mér svolítið ofarlega í huga núna, en samgöngumálin eru og verða heitasta málið hér í Vestmannaeyjum, en nú liggur fyrir að búið er að kynna siglingaáætlunina fyrir næstu 2 árin, 7 ferðir á dag alla daga ef gefur í Landeyjahöfn. Fyrir okkur hafnarverðina, mætti þess vegna sigla allan sólarhringinn ef þörf væri á því, en ég veit ekki hvort að þörf sé á 7 ferðum yfir vetrar mánuðina og hefði haldið að með því að Vestmannaeyjabær taki yfir reksturinn, þá yrði siglingaáætlunin betri og sveigjanlegri eftir þörfum á hverjum tíma, en þetta mun allt skýrast þegar á reynir. Vonandi verður þessi siglingaráætlun ekki á kostnað þess möguleika á að lækka fargjöldin. Einnig er svolítið skrýtið að heyra fréttir af því, að búið sé að opna fyrir pantanir með skipinu næsta sumar, en maður hefði einmitt haldið að með fjölgun ferða væri hægt að sleppa þessu pantanaveseni og útfæra þetta á annan hátt og þannig koma í veg fyrir að allur sá fjöldi ferðamanna hætti við að koma hingað vegna biðlistana, sérstaklega þegar haft er í huga, eins og við Eyjamenn þekkjum svo vel, að vera á biðlista og svo siglir kannski aðeins hálffullt skip yfir.

Ný ferja mun koma á næstu mánuðum, vonandi verður hún framfararspor, ég er hins vegar ósáttur við það að ekkert eigi að gera til þess að laga aðkomuna að Landeyjahöfn, sem er stóra vandamálið. Allt annað sem á að gera í Landeyjahöfn, eins og t.d. að setja dælubúnað á garðana er fyrst og fremst tilrauna starfsemi, sem enginn veit hvort að skili einhverju raunverulegu. Ég hef þrátt fyrir þetta ákveðinn skilning á því að vegagerðin vilji ekki leggja til lengingu á austurgarði til þess að verja aðkomuna að höfninni, enda ljóst að kostnaðurinn við slíkt yrði sennilega mun hærri heldur en að gera sjálfa höfnina, mín afstaða er því óbreytt, á meðan ekkert er gert til þess að verja aðkomuna að höfninni, þá verður Landeyjahöfn aldrei heilsárshöfn.

Stærstu tíðindin á árinu hjá mér voru klárlega þau, að ég náði að selja útgerðina eins og hún lagði sig. Við þetta var ég bara mjög sáttur, kominn í fasta vinnu sem hafnarvörður og ágæt laun með því að taka alla þá yfirvinnu sem í boði er, en þarna einmitt koma um leið stærstu tíðindin á árinu hjá mér, en viku fyrir jól vorum við hafnarverðir í Vestmannaeyjum boðaðir á fund, þar sem kynnt var fyrir okkur breytt vaktarfyrirkomulag sem taka á gildi frá og með 1. apríl n.k. en þar kemur fram ma. að hafnarvörðum verður fjölgað úr 3 í 5, settar á 5 vikna vaktir þar sem hver hafnarvörður fær amk. 11 frídaga og öll yfirvinna skorin niður. Okkur hafnarvörðum reiknast til að þetta muni þýða allt að 40% launalækkun, að sjálfsögðu misjafnt milli mánaða, við erum að sjálfsögðu ennþá að melta þetta og það í samráði við formann Stavey. Hvernig þetta endar er ómögulegt að segja, en fyrir mig þýðir þetta það að með sumarfríi þá mun ég hugsanlega eiga allt að 5 mánuði í fríi á ári, sem er eitthvað sem mér hugnast klárlega ekki.

Ég hafði fyrir nokkru síðan auglýst tuðruna mína til sölu og hún er enn til sölu. Hugmyndin var að finna sér lítinn bát til að leika sér á í fríum, en þar sem fríin stefna í að verða þetta mikil þá gerði ég rétt fyrir jól tilboð í tæplega 9 metra bát og fékk já. Að sjálfsögðu á ég eftir að skoða gripinn, enda er hann fyrir norðan land, svo það furðulega við þetta ár í mínu lífi er árið sem ég seldi útgerðina ákveðinn í að hætta alveg í útgerð, endaði ég hugsanlega með því að kaupa mér nýjan bát. 

Ég er bæði pínu spenntur fyrir þessu og svo alls ekki, enda veit ég ekkert hvernig líkaminn bregst við að fara að róa aftur en að sjálfsögðu fer þetta allt saman eftir því, hvernig þessir samningar enda en mér fannst ágæt lýsing á þessu koma frá félaga mínum við höfnina: Þetta var nú ekki jólagjöfin sem við höfðum óskað okkur. 

Það mun klárlega mikið ganga á á nýja árinu og vonandi fá allir óskir sínar uppfylltar.

Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.


Jól 2018

Það eru margar hefðir í kring um jólin, skatan á Þorláks og síðan margs konar kjötmeti, en eitt af því sem mér þykir hvað mikilvægast er ferðin upp í kirkjugarð á aðfangadag og gaman að sjá, hversu margir mæta á hverju ári.

Í aðdraganda að jólum kemur út jólablað Fylkis með myndum af öllum þeim Eyjamönnum sem látist hafa á árinu og maður uppgötvar það, að eftir því sem maður verður eldri þá þekkir maður orðið í amk. sjón svo til alla sem eru þarna á myndunum. Kannski eðlilega, maður er nú kominn á seinni hlutann. 

Í ár voru ótrúlega margir sem maður tengist sterkum vináttuböndum, fólk sem maður hafði náð að kynnast á ævinni og á einhvern hátt snert mann, sumir að sjálfsögðu meira en aðrir. 

Einn af þeim sem kvaddi óvænt snemma hausts var vinur minn Bergvin Oddsson. Við Beddi vorum við sömu flotbryggju og hittumst stundum daglega og ræddum þá oft bæði sjávarútvegsmál og pólitík. Það var gott að tala við Bedda, enda var hann ekkert að skafa utan af hlutunum.

Á meðan ég starfaði í stjórn Sjóve þá þurfti ég oft að leita til Bedda varðandi bæði lán á bátnum og honum sjálfum og aldrei kom ég að tómum kofanum og stuðningur hans við Sjóve algjörlega ómetanlegur. Maður upplifði því að hluta til ákveðinn spenning á árinu yfir því að Beddi var að koma með glænýjan bát. Töluverðar tafir urðu á því, en svo loksins kom báturinn, en svo skyndilega veikindi og síðan var Beddi skyndilega farinn. Maður varð eiginlega orðlaus yfir þessu en svona er víst gangur lífsins. 

Ef það er eitthvað sem ég hefði viljað segja við Bedda að lokum, þá væri það bara: Takk fyrir að vera vinur minn.

Að sjálfsögðu votta ég aðstandendum Bergvins sem og öllum þeim sem misst hafa ástvini innilegar samúðarkveðjur.

Aðfangadagur og jólapakkarnir hafa aðeins breyst á síðustu árum, en ég minnist þess að á meðan systir mín Inga Rósa lifði, en hún lést í lok janúar 2015, þá voru pakkarnir frá henni til barnanna okkar alltaf svolítið sérstakir og í raun og veru voru pakkarnir sem slíkir alveg sérstök jólagjöf, enda gerði Inga Rósa alveg sérstaklega mikið af því að festa utan á pakkana allskonar skraut og fígúrur og stundum sælgæti líka og við söknum þess í dag, en við vorum reyndar svo heppin að þegar ég og konan giftum okkur fyrir 10 árum síðan, þá sendi Inga Rósa okkur í brúðkaupsgjöf skrapalbúm með myndum af öllum fjölskyldumeðlimum og m.a. myndir sem ég hafði aldrei séð áður, en albúmið er alveg rosalega vel skreytt og m.a. með tengingum við reglur um siglingar á sjó og að sjálfsögðu með myndir af öllum bátum sem ég hef átt fram að þeim tíma, en albúmið er sérstakur dýrgripur á heimilinu.

En jólin eru ekki bara sorgarjól, þau eru að sjálfsögðu gleðijól og á mínu heimili svolítið sérstök í ár, en í ár fengum við að hafa hjá okkur 2 af barnabörnum okkar, Írena Von 19 mánaða og Anna Jórunn rúmlega 3 ára, og það var svolítið sérstakt að vera aftur farinn að upplifa það að sjá pínulitla skó úti í glugga, að maður tali nú ekki um pakkaslaginn í gær sem var ansi fjörugur og manni var eiginlega létt þegar yfir lauk. 

Fyrir mína hönd og mína fjölskyldi vil ég óska öllum gleðilegra jóla.

 

 


Uppgjörið 3 og vonandi síðasti hluti

Ætla að reyna að klára þetta hér og nú.

Eitt af þeim málum sem hvað mesta athygli vakti var bókun mín um að sett yrði saman nefnd til undirbúning fyrir það að einstaklingar eða fyrirtæki vildu fara í vistvæna orkuframleiðslu, hugmyndin er mjög víðtæk og til dæmis gæti ágæt hugmynd Davíðs í Tölvun um rafvæðingu ökutækja bæjarins rúmast þar, en þetta var snarlega fellt af meirihlutanum.

Ýmsar hugmyndir um breytingar á smábáta bryggjustæðum, bæði lagði ég fram og ræddi, en lítið er að frétta af framkvæmdum.

Það eina sem ég lagði fram á þessu tímabili og séð fyrirspurn um frá fyrrum leiðtoga Eyjalistans er varðandi Blátind, en það er ánægjulegt að hann sé loksins kominn á sinn stað og vonandi sér núverandi meirihluti sóma sinn í að fara í nauðsýnlegar lagfæringar á honum.

Það gekk mikið á um áramótin 2015-2016 og greinin sem ég skrifaði þá vakti mikla athygli, en hugmyndin á bak við greinina sem ég skrifaði á þeim tíma var einfaldlega sú, að kanna hvort möguleiki væri á því að fara einhverja aðra leið við að ná frístundakortinu í gegnum meirihlutann, en á þeim tíma lá fyrir að meirihlutinn hafði í annað skiptið á tveimur árum, fellt hugmyndina um frístundakort. Tveimur mánuðum eftir að ég skrifaði umrædda grein lagði meirihlutinn til á bæjarstjórnarfundi í lok febrúar 2016, að tekin yrðu upp frístundakort að ósk Eyjalistans frá og með áramótunum 2016-17. Ég mætti á þennan bæjarstjórnarfund og tilfinningin hjá mér fyrir þessu var svona sennilega ekki ósvipuð og hjá aðalleikaranum í Shawshank Redemption, hann fór í gegn um skít og óþverraskap og kom út svolítið rifinn og tættur, en að öðru leiti alveg tandur hreinn. Margt í kring um þetta mál olli mér miklum vonbrigðum og ekki hvað síst viðbrögð bæjarfulltrúa minnihlutans og fyrir þá sem þekkja málavexti, þá hef ég enn ekki fengið neina afsökunarbeiðni frá meirihlutanum í ráðinu en ég fékk samt stuðning og langar að þakka 3 aðilum fyrir greinarskrif sín á þessum tíma. Fyrst Guðmundur Þ.B., Þórarinn Sigurðsson og nokkru seinna Ragnar Óskarsson, kærar þakkir fyrir stuðninginn strákar. 

Síðasta bókun mín í þessu ráði var varðandi ósk um viðbótar fjármagn í utanhússframkvæmdir á Fiskiðjunni, en þar bókaði ég að ég harmaði það, að framkvæmd upp á 158 milljónir stefndi í að fara í allt að 300 milljónir, en mig minnir að í sumar hafi verið birtar tölur um að heildar utanhússframkvæmdir á Fiskiðjunni væru komnar yfir 260 milljónir. 

Í ágúst 2016 hætti ég í Framkvæmda- og hafnarráði í samræmi við sveitarstjórnarlög frá 2007, þar sem kemur fram að í mínu tilviki ég, sem hafnarvörður gæti ekki setið í stjórn hafnarinnar og mig minnir að það hafi verið leiðtogi Eyjalistans sem lagði það til að við skiptumst á ráðum og ég færi þá yfir í Umhverfis-og skipulagsráð og samþykkti ég það, en ég veit ekki í dag, hvor okkar sér meir eftir því að hafa samþykkt þetta, en sennilega hefði ég hafnað þessu ef ég hefði vitað hvernig framhaldið yrði. 

Starfið í Skipulagsráði gekk bara nokkuð vel framan af og það var ekki fyrr en komið var fram á vor 2017 sem ég fór að gera mér grein fyrir því að þetta væri ekki allt svona slétt og fellt eins og meirihlutinn vildi meina.

Ég fjallaði um afgreiðslu ráðsins á Vestmannabraut 61a og 63b í jóla- og áramóta blaði Eyjalistans. Ég fjallaði einnig í fyrsta hlutanum um afgreiðslur byggingafulltrúa. Það mál hefði aldrei orðið jafn stórt og erfitt ef meirihlutinn hefði bara komið hreint fram, en annars ætla ég ekki að fjalla meira um það.

Ég óskaði eftir umræðum um framtíðar skipulag og lagfæringar á veginum við haugasvæðið, mál sem ég var beðinn um að taka upp. Ég bókaði um slysahættu varðandi staðsetningu Léttis á Vigtartorgi, sem mér skilst að bæjarfulltrúi meirihlutans hafi gert lítið úr, en þetta hafði áhrif, í dag er engin slysahætta af Létti og vonandi fæst fjármagn í að lagfæra þetta skip, enda mikil saga á bak við það.

Ég bókaði um lagfæringar við Gaujulund. Viðbrögð meirihlutans í þessu máli ollu mér vonbrigðum, sem og viðbrögð núverandi formanns ráðsins og Njáls, en ég hef rætt þetta mál við þau bæði, en Jónas, sem séð hefur um Gaujulund árum saman, er eftir því sem ég veit best búinn að taka ákvörðun um að hætta að hugsa um þetta vegna brotinna loforða um vatn og rafmagn inn á svæðið.

Síðasta bókun mín í ráðinu var á síðasta fundinum mínum, en þar var tekin fyrir ósk frá 2Þ ehf, um viðbótar steypusíló (ekki viss um að nafnið sé rétt)við vinnusvæði sitt á Flötunum, en íbúar á svæðinu hafa ítrekað mótmælt þessu. Málið er hins vegar flóki vegna þess, að þetta svæði er skilgreint sem iðnaðar svæði. Í umsókninni kom fram, að óskað væri eftir þessu vegna óvissu um siglingar í Landeyjahöfn og í bókun meirihlutans var gefið tímabundið leyfi, eða frá mars fram í október, en bókun mín var þannig, að að gefnu tilefni vildi ég benda umsækjanda á að samgöngurnar væru ekkert að fara að lagast næsta haust.

Þegar ég lít til baka á sumt af því sem gekk á, þá fer maður að efast um að leiðtogi Eyjalistans hafi í raun og veru verið sá sem réð ferðinni hjá Eyjalistanum og sem dæmi um það, þá var tekin umræða snemma á kjörtímabilinu um það hvort við með þessa félagshyggju tengingu, sem sumir vilja meina, ættum ekki að leggja fram tillögur um það að Vestmannaeyjabær tæki að sér 1-2 flóttamanna fjölskyldur. Þetta sló leiðtoginn strax af borðinu og sagðist hafa samið við bæjarstjórann þáverandi, um að Eyjalistinn myndi ekki leggja fram neinar slíkar hugmyndir á kjörtímabilinu. Mér þótti skrítið að enginn mótmælti þessu, svo ég spurði leiðtogann á þennan hátt: "Ok, gott og vel, en hvað fáum við í staðinn?" og svarið: "Ekkert."

Á síðasta ári ræddi ég m.a. hugmyndir um að komið yrði upp sjóbaðsaðstöðu og ylströnd í Vestmannaeyjum, sem ég sá að Sjálfstæðisflokkurinn setti á stefnuskrá sína í vor. Einnig ræddi ég í báðum ráðum um hugmyndir um stórskipahöfn fyrir Eiðinu, en þessi mál og fleiri lagði ég aldrei fram formlega vegna þess að leiðtoginn var á móti þeim.

Að lokum þetta. Tíma okkar Sonju hjá Eyjalistanum er þar með endanlega lokið og ég ætla að leyfa mér að segja það, að ég tel að svo sé fyrir fullt og allt, en þessi tenging Eyjalistans við Framsóknarflokkinn, þar sem t.d. núna 2 af 3 efstu eru gall harðir Framsóknarmenn, líkar mér alls ekki og meira að segja hugsa ég að ef valkostirnir væru aðeins Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkur, þá myndi ég sennilega kjósa Sjálfstæðisflokkinn, án þess að fara nánar út í það. 

Mig langar að þakka Sonju Andrésdóttur fyrir samstarfið. Við stóðum okkur vel og erum stolt af þeim málum sem við náðum í gegn. Mig langar líka að senda sérstakar þakkir til Hönnu Birnu Jóhannsdóttir í Suðurgarði, en á árum áður störfuðum við saman í pólitík. Hanna sagði alltaf við mig, að það sem væri mikilvægast fyrir fólk sem væri að skipta sér af, væri að koma sér upp pólitísku nefi og já Hanna, þetta virkar, en kosningarnar fyrir 4 árum sem og kosningarnar í vor, sem og vinnubrögð uppstillingarnefndar Eyjalistans við að koma okkur Sonju út eða neðar á lista, sem og vinnubrögð meirihlutans í nefndum og ráðum, allt náði ég á einn eða annan hátt að lesa fyrir fram.

Takk allir fyrir stuðninginn. Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að skrifa þegar ég nenni.

 


Uppgjörið annar hluti

Og já flestir sem rætt hafa við mig um fyrsta hlutann eru sammála mér um það, að hann hafi verið allt of langur. Eina ráðið við því er að breyta því og verður þetta því sennilega í 4 hlutum.

Annað sem mig langar að taka fram á þessu stigi og svara þá um leið nokkrum sem rætt hafa þetta við mig, þetta uppgjör er ekki sett fram í þeim tilgangi að hefna sín á einhverjum eða ná sér niðri á einhverjum, þó svo að ég geri mér alveg grein fyrir því, að margir á Eyjalistanum verði ósáttir. Ég heyrði líka í Sjálfstæðismanni í vikunni sem vildi endilega að ég nafngreindi fólk, það verður ekki gert, enda er þetta fyrst og fremst ég að standa við loforð mitt um að segja sannleikann um það sem gekk á á síðasta kjörtímabili.

Það var svolítið merkilega að fylgjast með umræðunni í sumar um frístundakortið, sem að sjálfsögðu allir flokkar vilja eigna sér í dag, og mjög sérstakt að sjá Sjálfstæðismenn gera það, eftir að hafa fellt þetta í tvígang í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.

Sannleikurinn er hins vegar sá, að þetta mál rataði inn á stefnuskrá Eyjalistans eftir vinnu í vinnuhóp sem Sonja Andrésdóttir sat í og ég man ekki betur en að málið hafi komið frá henni, þó svo að við á Eyjalistanum höfum öll á sinn hátt tekið þátt í því að berjast fyrir þessu máli, þá langar mig nú samt að benda fólki á það, sem langar að þakka sérstaklega einhverjum fyrir að hafa komið þessu máli af stað, að þakka þá Sonju fyrir, eða það er amk mín skoðun. Þetta mál mun hins vegar koma fram aftur í síðasta hluta uppgjörsins.

Sonja starfaði í fræðsluráði, þar sem hún lagði ma. fram tillögu um að afnema vísitölutryggingu leikskólagjalda, en það var ekki samþykkt. Hún lagði einnig fram tillögu um að það yrði sumar frístund til að hjálpa foreldrum sem væru í vandræðum með börnin sín eftir skólann á vorin, það var samþykkt. Einnig tillögu um að allir bekkir grunnskólans fengu ókeypis ritföng, það var ekki samþykkt í fyrstu, en síðan myndaðist ákveðin umræða um þetta í samfélaginu og klárlega stuðningur við þetta hjá bæjarbúum. Lagði hún þá fram tillöguna aftur og þá var hún samþykkt.

Að sjálfsögðu tók hún síðan þátt í öllu því sem meirihlutinn lagði fram, en með þessum bókunum bókaði hún oftar og meira heldur en báðir bæjarfulltrúarnir til samans í sínum nefndum. 

Fyrsti fundur minn í nefnd var strax í nóvember 2014, en ég hafði verið beðinn um að taka sæti Eyjalistans í stjórn Náttúrustofu suðurlands. Það var svolítill aðdragandi að þessum fundi, en fyrr þennan sama dag og fundurinn var, þá hitti ég þáverandi fulltrúa Eyjalistans í Umhverfis- og skipulagsráði, sem sagði mér frá því að seint kvöldið áður var haldinn auka fundur í skipulagsráði með mjög stuttum fyrirvara, þar sem tekið var fyrir aðeins eitt mál, þ.e.a.s. tillaga bæjarstjórans um að þessa svokölluðu verndaráætlun um verndun fuglastofnana okkar og um fjöllin okkar. 

Ég kveikti nú strax á því hvað þarna væri í gangi, þarna ætlaði sem sé meirihlutinn að afhenda ríkinu yfirráð yfir fjöllunum okkar í Vestmannaeyjum. Viðbrögðin hjá mér voru mjög sterk og ég hringdi út um allt í aðila sem ég vissi að gætu náð eyrum bæjarstjórans. Á fundinum mótmælti ég þessu máli síðan, því miður gleymdist að bóka mótmælin, en að hluta til dugði þetta því þegar málið var síðan tekið fyrir í bæjarstjórn þá greiddi bæjarstjórinn sjálfur atkvæði gegn málinu. Málið var hins vegar samþykkt í fyrstu atrennu, þar sem m.a. minnihlutinn klofnaði eins og meirihlutinn. Bæjarstjórinn hins vegar setti málið á frost og þegar það var síðan tekið fyrir aftur, þá var það fellt með 6 atkvæðum gegn 1. 

Ég hóf störf í Framkvæmda- og hafnarráði snemma haust 2015. Ég ætla ekki að taka þetta í einhverri ákveðinni röð heldur bara eftir minni. Á fyrsta fundi sem ég sat, komu á fundinn fulltrúar slökkviliðs Vestmannaeyja, enda þekkt vandamál húsnæðismál slökkviliðsins. Ýmsar staðsetningar hafa verið ræddar, t.d. neðsta hæðin í Fiskiðjunni en það vakti athygli mótmæli við þeirri niðurstöðu vinnuhóps um að leggja til að það verði byggð ný aðstaða við malarvöllinn. Ég ætla hins vegar að lýsa yfir stuðningi við þessa staðsetningu, það eru stofnbrautir í allar áttir frá þessari staðsetningu. Varðandi útlit á húsinu, þá má alltaf laga það til en þetta mál þarf að fara að klára, enda slökkviliðið löngu búið að sprengja utan af sér núverandi húsnæði. 

Næsta mál er tekið var fyrir var útboð á utanhússviðgerðum á Fiskiðjunni upp á 158 milljónir, ef ég man rétt. Í samráði við leiðtoga Eyjalistans bókaði ég hins vegar að réttast væri að setja frekar meiri fjármuni í stækkun og viðbyggingu Hraunbúða. Hinn bæjarfulltrúi Eyjalistans var hins vegar mjög óhress með að tengja þessi mál saman, en fyrir því lágu hins vegar alveg skýr rök. Meirihlutinn hafði þá þegar klúðrað umsókn um styrk til framkvæmdasjóðs eldri borgara, sem var hafnað vegna formgalla ef ég man rétt og þetta virkaði og ég ætla enn og aftur að óska öllum bæjarbúum til hamingju með opnun á glæsilegri viðbyggingu við Hraunbúðir í janúar á þessu ári, en ég mætti að sjálfsögðu við opnunina.

Nýlega fjallaði eyjar.net um tillögu mína um hlið á flotbryggjur, en nú er komið eitt hlið. Tillaga mín hins vegar á sínum tíma var ekki samþykkt, en hún gekk að sjálfsögðu út á það að setja hlið á alla landgangana. Manneskjan sem bað mig um að leggja fram þessa tillögu situr núna sem fyrsti varamaður Eyjalistans í Framkvæmda- og hafnarráði, þannig að tillagan hlýtur að verða flutt aftur á þessu misseri, enda augljóst að þetta milljóna tjón sem varð í sumar hefði aldrei orðið ef komin hefðu verin hlið.

Ég bókaði um hrunmatið af mörgum ástæðum, en þetta sumar fylgdist ég með því og tók eftir að sum skemmtiferðaskipin, sem eru með mikið af tuðrum sem sigla í allar áttir, voru stundum að safnast saman áður en þau sigldu inn aftur í víkinni rétt austan við Dönskutó í Heimakletti, rétt hjá þar sem hrundi stór skella úr núna í haust.

Einnig höfum við séð uppbyggingu á varmadælu verkefninu við rætur á Hánni, þar sem klárlega á eftir að hrynja úr og til að útskýra málið betur, þá var eftir jarðskjálftana árið 2000 send fyrirspurn frá Vestmannaeyjabæ til Umhverfisstofnunnar um að gert yrði hrunmat. Viðbrögð Umhverfisstofnunnar voru þau, að senda fyrirspurn á Ingvar Atla Sigurðsson, jarðeðlisfræðing, og þáverandi yfirmann Náttúrufræðistofu suðurlands í Vestmannaeyjum. Ingvar sendi umhverfisstofnun kort af Vestmannaeyjum, þar sem hann litaði fjallsbrúnirnar í Vestmanneyjum til að benda þeim á, hvaða svæði þeir ættu að skoða en Umhverfisstofnun sendi síðan kortið áfram til Vestmannaeyja með þeirri skýringu að þetta væru svæðin sem við ættum að varast, þannið að alvöru hrunmat hefur því aldrei verið gert í Vestmannaeyjum og svo sannarlega eru þó nokkrir staðir, sem réttast væri að vara ferðamenn við, enda vill enginn sem starfar í ferðaþjónustunni upp á borð þá neikvæðu umræðu sem slys vegna hruns gæti kostað okkur.

Ég bókaði ítrekað þann möguleika okkar eyjamanna að fjölga komu skemmtiferðaskipa til Vestmannaeyja, en það liggur fyrir athugun á því að ódýrasta leiðin væri sú að koma fyrir flotbryggju fyrir Eiðinu yfir sumar mánuðina, tengja síðan landgang við krana sem myndi hífa landganginn niður að bryggjunni þegar það þurfti að nota hann.Áætlaður kostnaður er ca 30 miljónir. Ég tengdi þetta líka við mögulega aðkomu t.d. þeirra á Ribsafari að nýta sér þessa aðstöðu þegar vont væri fyrir klettinn. Einnig fína hugmynd frá Pétri Steingríms að byggja á eða við Eiðið safn í kring um fyrsta björgunarbátinn í Eyjum. Vandamálið við þetta væri kannski helst það að koma farþegunum frá Eiðinu inn í bæ, enda helsta iðnaðarsvæði okkar Eyjamanna þarna í kring, en ég reiknaði alltaf dæmið þannig, að fólk yrði flutt til og frá Eiðinu með rútum. Það væri þá ákveðin staður þar sem farþegar gætu safnast saman niðri í bæ eða farið í rútuferð. Tillagan var ekki samþykkt og það sem olli mér kannski enn meiri vonbrigðum var að amk. annar bæjarfulltrúinn greiddi atkvæði gegn tillögu minni og það þrátt fyrir að hafa áður samþykkt hana þar sem ég lagði hana fram á fundi Eyjalistans.

Að gefnu tilefni vil ég taka það fram þegar ég stoppa núna, að aldrei lagði ég fram neinar tillögur eða bókanir án þess að ræða málið fyrst við leiðtoga Eyjalistans, en ekkert af þessum málum hefur verið flutt aftur frá því um haustið 2015, enda hætti ég í ráðinu um sumarið 2016. Að sjálfsögðu er öllum, sem sitja í nefndum í dag, hvort sem er fyrir meiri eða minni hlutann, velkomið að flytja þessar tillögur aftur.

Meira mjög fljótlega.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband