Gleðilegt sumar

Lundinn er að setjast upp í kvöld 13. og þar með komið sumar hjá mér. Mig minnir að þetta sé aðeins í 3. skiptið sem hann sest upp þann 13. og ef miðað er við tíðarfarið að undanförnu, þá hefði maður frekar haldið að hann kæmi eitthvað seinna, en lundinn er óútreiknanlegur.

Í fyrra settist hann hins vegar ekki upp fyrr en þann 20. en ég hef aldrei séð hann setjast upp seinna en þann 20. en í fyrradag settist hann upp norður í Grímsey, en hann kemur yfirleitt fyrr það og fer fyrr.

Margir veiðimenn hafa haft samband við mig að undanförnu, vitandi það að ég myndi skrifa þessa grein, og viljað að ég kæmi inn á nýlegt viðtal við Erp, en í því viðtali kemur fram hjá Erpi að mikill pysjudauði hafi verið árið 2018, en nú er einfaldlega hægt að fletta upp í skránni hjá pysjueftirlitinu og fá þar staðfest að árið 2018 var metár í pysjum í Vestmannaeyjum og þar sem ég nenni ekki að fjalla um Erp, þá ætla ég að leyfa öðrum að lesa í þessar tölur.

Umhverfisráðherra er hins vegar sá aðili sem mig langar að fjalla aðeins um. 

Ég hef nú varað nokkrum sinnum við þessum aðila, en í nýlegu viðtali við hann, þá fagnar hann því mjög að hafa náð að friða nokkur landsvæði á landinu okkar og nefnir að hann ætli sér að reyna að friða 15-20 staði í viðbót fyrir næstu kosningar. Margir hafa bent á mjög furðulega afstöðu hans varðandi friðun á fýlnum og súlunni sem eru stofnar, sem miðað við það sem ég og margir höfum séð, eru að öllum líkindum í sögulegu hámarki. En það er auðvelt að láta glepjast. 

Fyrir nokkru síðan voru Látrabjörg friðuð og í viðtali við einn af þeim sem haft hefur nytjar þarna árum saman, kemur fram að þeir hafi engar áhyggjur af þessari friðun vegna þess að það sé tryggt að þeir haldi rétti sínum til að nýta aðallega svartfuglsegg á svæðinu. 

En þarna kemur einmitt að aðal atriðinu. Um leið og ríkið er komið með friðun á svæðinu, þá þarf ekki nema einn fuglafræðing sem segir að ástandið á stofninum sé ekki nógu gott til þess að öllu sé skellt í lás.

Í máli ráðherra kom alveg skýrt fram að hann ætli sér að friða fjöllin í Vestmannaeyjum og því miður er til fólk sem heldur að það sé bara allt í lagi, en tökum dæmi: Ein af Vestmannaeyjunum er nefnilega Surtsey og hún er friðuð og þangað má enginn fara nema með sérstöku leyfi.

Það kostaði mikil átök að koma í veg fyrir að fjöllin í Vestmannaeyjum færu undir yfirráð ríkisins á síðasta kjörtímabili. Ég treysti því að fólkið okkar sem situr hér í nefndum og ráðum hafi það í huga.

Varðandi væntingar fyrir sumarið, þá eru það þær sömu og yfirleitt áður, vonandi förum við að sjá mikið af lunda í fjöllunum fyrr en síðustu árin og ótrúlegt að strax í dag, 13. er maður búinn að sjá lunda í öllum fjöllum í Eyjum, það er ótrúlega bjart yfir þessu öllu, enda má með sanni segja að sjórinn í kring um Eyjar sé smekk fullur af æti.

Gleðilegt sumar allir.


Bloggfærslur 13. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband