Landeyjahöfn, framhald af síðustu grein

Það var mjög ánægjulegt að sjá svar Sigurðar Áss við minni síðustu grein og kannski svolítið skrítið fyrir mig vegna þess, að eftir vandræðaganginn haustið 2010, þar sem í ljós kom að öll varnarorð mín frá því árunum áður varðandi Landeyjahöfn reyndust á rökum reist, heftur ríkt hálfgerð þöggun um mín skrif um Landeyjahöfn og vil ég þakka þeim á Eyjafréttum fyrir að ná eyrum Sigurðar.

Svar Sigurðar kom mér kannski ekki á óvart, enda heyrt svipað frá honum á opnum fundum og ekki dettur mér til hugar að efast um að hann fari með rétt mál varðandi þessi A-B-C svæði. Vandamálið hjá mér er kannski það, að ég setti þetta í mína síðustu grein vegna orða reynds skipstjóra úr eyjaflotanum, sem mér dettur ekki heldur til hugar að rengja, svo mér er nokkur vandi á höndum og þó. 

Orð Sigurðar segja í raun og veru allt sem segja þarf, nýja ferjan mun geta siglt, samkv. þessu, til Þorlákshafnar, en hún er fyrst og fremst hönnuð og smíðuð til siglinga í Landeyjahöfn. Svo spurningin er því kannski fyrst og fremst þessi: Mun ferjunni nokkurn tímann verða siglt til Þorlákshafnar og hvað gerist ef frátafir verða sambærilegar til Landeyjahöfn og með núverandi ferju. 

Það eru ótrúlega margir sem hafa komið að máli við mig núna í vikunni og ég hef fengið hinar ótrúlegust spurningar og jú, líka kjaftasögur. Svo mig langar að minna á það, að fyrir ári síðan var ákveðinn hópur fólks hér í bæ að vinna að því að koma á opnum fundi með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu, fyrirtækjum í Vestmannaeyjum ásamt fulltrúum Siglingamálastofnunar, samgönguráðherra og annarra.

Ég kalla eftir því að slíkur fundur verði haldinn, það eru einfaldlega allt of margar kjaftasögur í gangi og um leið allt of mörgum spurningum ósvarað. Svo ég taki nú bara tvö pínulítil dæmi, sem samt skipta gríðarleg miklu máli. Margir sem skoðað hafa teikningar af nýju ferjunni, hafa verið óhressir með það, að kojunum í ferjunni skyldi vera snúið þversum, en svo heyrði ég það í dag, að búið væri nýlega að breyta þeim í langsum, sem breytir ansi miklu fyrir þá sem þekkja til.

En mikilvægara, að aðeins í þessari viku er ég búinn að heyra sennilega um 3 útgáfur af því, að samningurinn við þá sem eiga að smíða ferjuna, sé í uppnámi vegna þess að þeir neiti að bera ábyrgð á ferju, svona grunnristri, sem þeir áttu enga aðkomu að að hanna.

Að öðru leyti veit ég ekkert um þetta, en þessum spurningum þarf að svara og ég skora hér með á bæjarstjórn Vestmannaeyja að beita sér fyrir því að slíkur fundur verði haldinn sem fyrst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband