Covid19

Covid19 tröllríður öllum fjölmiðlum alla daga og sumum finnst kannski nóg um, en hér frá mér kemur smá reynslusaga, tillaga og skoðun.

Í fyrstu bylgjunni sl. vetur vildi þannig til að mjög nánir ættingjar mínir, eldri borgarar, voru staddir á sólarströnd þegar allt fór á fleygi ferð. Ákveðið var að stytta ferðina og koma heim nokkrum dögum fyrr en áætlað var, en það vakti athygli að hvorki í rútunni út á flugvöll né í flugvélinni var grímuskylda og því fullt af fólki sem var ekki með grímur.

Í flugvélinni var síðan hvorki boðið upp á mat né drykk og við komuna til Keflavíkur var þeim eiginlega smalað út af vellinum með hraði og til að kóróna það, þá var búið að loka gistiheimilinu sem þau áttu að gista í, en þau komu til landsins að kvöldi til. 

Ég fékk símtal frá þessum nánu ættingjum kl 11 um kvöldið, þar sem þau voru eiginlega farin að plana það að sofa í bílnum niðri á bryggju, en þau áttu pantað með Herjólfi daginn eftir. Mér tókst að redda þeim gistingu í sumarbústað hjá góðum vini, en mér finnst ýmislegt í þessari frásögn vera eitthvað sem við svo sannarlega verðum að læra af.

Í Herjólfi hins vegar var tekið á móti þeim af aðila bæði með grímur og hanska, sem afhenti þeim líka grímur og hanska, sem síðan fylgdi þeim á afvikinn stað í ferjunni, virkilega vel að málum staðið þar. 

Við heyrðum í vikunni fréttir af því að búið væri að bæta við verkefnum hjá sjúkrahúsi Selfoss og um leið berast fréttir af löngum biðlistum hjá fólki sem er enn að glíma við eftirköst eftir Covid og ég velti því upp, afhverju ekki að nýta sjúkrahús Vestmannaeyja t.d. í þessu tilviki. Hér höfum við nægt gistirými, nóg af veitingastöðum með frábærum kokkum og það sumum á heims mælikvarða. Hreina loftið og náttúran (hugsanlega sjóböð). Hér er einfaldlega allt sem til þarf til þess að hjálpa fólki til þess að ná sér eftir þessi erfiðu, illvígu veikindi svo hvers vegna ekki?

Ég heyrði í vikunni að sumir fréttamenn eru farnir að velta því fyrir sér hver eða hverjir verði menn ársins. Í mínum huga er þetta sára einfalt, þá á ég að sjálfsöðgu við allt það heilbrigðisstarfsfólk sem hefur lagt sig og jafnvel fjölskyldur sínar í hættu við að hjúkra Covid sjúklingunum okkar og sumt hvert jafnvel fengið veikina, en haldið áfram störfum um leið og það hefur náð sér og svo sannarlega myndi ég styðja það að þetta fólk fengi auka jólabónus, eða kannski frekar áhættuþóknun, þau eiga það svo sannarlega skilið.

Að lokum þetta, um leið og ég votta öllum þeim sem mist hafa ættingja og vini innilegar samúðarkveðjur, vil ég samt um leið þakka fyrir það að enginn Eyjamaður hafi látist, en gleymum því ekki að þessu er hvergi nærri lokið.

Höldum áfram að passa upp á okkur sjálf, þannig getum við best passað upp á okkar nánustu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Sammála þér um að heilbrigðisstarfsfólk sé "maður ársins" eða réttara sagt einstaklingar ársins. Þeir hafa lagt mikið á sig, íklæddir búningum með grímur og hanska alla daga. Þetta eru einstaklingar/menn/konur ársins!

Ingibjörg Magnúsdóttir, 10.12.2020 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband