Þjóðhátíð 2016................

...........verður fyrst og fremst minnst fyrir frábært veður, mikið af fólki, mikið gaman, ágætis dagskrá með sínum vanalegu hápunktum á hverju kvöldi. 

Fyrir mig persónulega hins vegar, verður þetta lang lakasta hátíðin í mínu minni, eðlilega, eftir að hafa mætt í 40 ár í röð þá mætti ég ekki núna. Svolítið skrýtin tilfinning, en það vakti þó athygli mína að ég fann ekki fyrir neinum sérstökum söknuði eða annars slíks, enda búin að hafa það sterkt á tilfinninguni síðustu árin að þetta væri svona frekar eins og skyldumæting, þó að sjálfsögðu væri alltaf gaman. 

Ég ákvað hins vegar að nota þessa Þjóðhátíðarvikuna til þess að koma mér í betra líkamlegt ástand, eftir erfiða aðgerð sem ég fór í í vor. Á göngum mínum að undanförnu, þá hefur eins og gengur og gerist mikið verið um spjall og kannski sérstaklega lent oft á spjalli við fólk sem ætlaði ekki í dalinn. 

Fljótlega fór ég að fiska eftir því, hversvegna Eyjamenn eru ekki að mæta í dalinn. Kom þá í ljós að nánast allir nefndu sama atriðið, þ.e.a.s. merkingu tjaldstæða. Rifjaðist þá upp fyrir mér, færsla sem ég setti á fb á miðvikudagskvöldinu 2015 sen var nokkurn veginn svona:

Sem betur fer er leiðinlegasta hluta Þjóðhátíðarinnar í ár lokið, merking stæða, en í ár var þetta óvenju slæmt, vegna þess að börnin mín sem höfðu hlaupið og náð ágætum stað og voru hálfnuð við að merkja fyrir tjaldstæði, urðu fyrir hálfgerðri áras af fullorðnum manni, sem sagðist eiga þenna blett vegna þess að hann hafði alltaf tjaldað þarna áður. Þegar börnin mín neituðu að víkja, þá tók þessi aðili sig til og reif upp hælana hjá þeim og henti þeim í burtu. Frúin var þá mætt á svæðið og ákvað að fara eitthvað annað, vegna þess að hún vildi ekki tjalda við hliðina á svona liði. 

Það hefur rifjast upp fyrir mér að undanförnu nokkur leiðinleg atvik af svipuðum toga í gegnum árin, en mig óraði ekki fyrir því, sem ég hef fengið að heyra í nokkrum samtölum að undanförnu, að það sé til töluvert af Eyjamönnum sem hafa jafnvel í sumum tilvikum ekki mætt árum saman á Þjóðhátíð og það bara út af þessu litla atriði. 

Einnig hef ég heyrt af fólki sem var búið að ákveða að mæta ekki í ár, að málið hafi reddast vegna þess að það hafði frétt af einhverjum ættingja, sem starfar sem sjálfboðaliði í undirbúningi að Þjóðhátíð og á þannig rétt á ákveðnu forskoti í merkingu að stæðum og málinu þannig verið reddað. 

En á þetta að vera svona? Ég skil að mörgu leyti afstöðu ÍBV um að láta þetta afskiptalaust, enda margt verið reynt í gegnum árin, en hvað væri hægt að gera? Margir hafa nefnt að skemmtilegt hefði verið að setja þetta upp í einhvers konar bingo þar sem númeruð stæði væru einfaldlega dregin, en ekki er ég viss um að fólk sem telur að Þjóðhátíðin hjá sér sé bara ónýt, ef það fær ekki að tjalda á blettinum sínum myndi sætta sig við það. En þá er aftur spurning um hvort ekki væri hægt að fela einhverri deild innan ÍBV að nota þetta sem fjáröflun með því einfaldlega að bjóða upp stæðin, þannig að þeir sem VERÐA að fá að tjalda á blettinum sínum gætu þá einfaldlega boðið í og keypt sér sitt stæði eitt ár í senn. Þannig gætu fjölskyldur og ættir tekið sig saman um að bjóða í ákveðnar raðir á ákveðnum götum, í staðinn fyrir að þurfa að standa í einhverjum leiðindum, eins og t.d. í ár, en mér er sagt að í ár hafi brotist út slagsmál við eina götuna. Þeir sem ekki hefðu áhuga á að kaupa sér stæði gætu síðan hlaupið á tilsettum tíma í þau stæði sem eftir væru, en ég held að það sé í raun og veru ekki mikið mál að útfæra þetta, en það hlýtur að vera markmið okkar allra að fá sem flesta Eyjamenn á Þjóðhátíð Vestmannaeyja og skora ég hér með á ÍBV að skoða nú þessi mál í alvöru og lýsi mig um leið reiðubúinn að taka þátt í að útfæra þetta nánar,

Óska annars ÍBV til hamingju með vel heppnaða Þjóðhátíð. 


Bloggfærslur 1. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband