Jólin, einu sinni var

Jólin eru tími barnanna ásamt fjölskyldum þeirra og hjá mér, eins og svo mörgum öðrum, þá rifjast ýmislegt upp um hvernig þetta var, þegar maður var barn sjálfur.

Í minningunni var alltaf mikill spenningur heima hjá mömmu þegar hún dró fram litla jóaltréð okkar, sem mig minnir að hafi verið innan við metur á hæð, en við systkinin fengum að hjálpa til við að setja bæði kúlur og allskonar fígúrur á tréð. Mamma setti svo ljósaseríu á tréð og svo englahár yfir og ég man, hvað okkur fannst þetta æðislega flott. 

Ekki minnkaði fjörið þegar mamma bakaði fyrir jólin, en hún bakaði alltaf brúntertu með þykku kremi á milli, en það var mikil veisla þegar hún skar endana af. 

Mamma passaði líka alltaf upp á það, að við fengum nýja flík fyrir jólin eins og hefð var og er að einhverju leyti enn. Ekki var nú úrvalið mikið hér í Eyjum, en oft keypti hún efni og saumaði á okkur systkinin, en jólin og jólafríið var nú oftast þannig að í minningunni var oftast allt á kafi í snjó á veturna hér í Eyjum, annað en í dag. Mesta fjörið var þá, eins og núna, á Stakkóinu og skemmtilegast var þegar maður náði sér í stóran bút úr byggingaplasti og kom það fyrir að jafnvel 20-30 krakkar hentu sér á plastið og renndu sér í einni kös niður Stakkóið. 

Þegar maður var aðeins eldri, þá var nú oft aðal fjörið að teyka hér í Eyjum, eitthvað sem væri nú eiginlega ekki hægt í dag, enda flestir bílar í dag með plast stuðara að aftan, annað en í gamla daga, en sumir bílstjórarnir voru reyndar ansi erfiðir og ég man alltaf eftir einum olíubílstjóra á olíubíl, sem hafði þann sið að smyrja afturstuðarann á olíubílnum með feiti, sem kostaði manni nokkur vettlingapör á þeim tíma.

Við systkinin fengum alltaf töluvert af pökkum og var oft mikill spenningur að sjá hvað maður fengi, ekki hvað síst frá afa og ömmu í Keflavík, en það eru akkúrat 10 ár í haust síðan amma kvaddi og sérstakt að upplifa það fyrir þessi jól, að nú erum það við, ég og frúin, sem skrifum frá afa og ömmu og það á 10 pakka og mér skilst að það sé fjölgun á næsta ári í hópnum.

En jólin eru líka tími til að minnast þeirra sem eru farnir, en núna í janúar eru 10 ár síðan Inga systir kvaddi okkur, en pakkarnir frá henni voru alltaf hálfgert ævintýri út af fyrir sig, enda lagði hún mikið upp með að festa allskonar sælgæti og fígúrur utan á pakkana, sem og litlum leikföngum, handa börnunum okkar.

En já, minningin um þau sem eru farin lifir með okkur hinum.

Fyrir mína hönd og minnar fjölskyldu óska ég öllum Eyjamönnum og landsmönnum Gleðilegra jóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband