Gleðilegt nýtt ár (fiskveiðiár)

Á miðnætti hefst nýtt kvótaár en að þessu sinni á afar óvenjulegan hátt hjá mér, vegna þess að ég er ekki að fara á sjó, heldur er ég að hefja störf í fyrramálið sem hafnarvörður í Vestmannaeyjum. 

Ástæðurnar fyrir þessum breytingum hjá mér eru margvíslegar. Að sjálfsögðu að einhverju leyti vegna aðgerðar sem ég fór í í vor, þó svo að ég sé kominn með grænt ljós að fara að gera hvað sem er. Öllu meiri áhrif hafa þó þær breytingar sem eru að verða í hafinu, að maður tali nú ekki um þá ákvörðun núverandi ríkisstjórnar að færa veiðigjöldin yfir á landaðan afla og þar með yfir á leiguliðana, en vegna sterks gengis og ýmissar annarra utanaðkomandi aðstæðna sem og hátt kvótaleiguverð, þá var afkoman af síðustu vertíð sennilega sú lélegasta í fjölda, fjölda ára. 

Stærsta ástæðan fyrir ákvörðun minni að sækjast eftir öðru starfi og hætta í útgerð (báturinn er ekki seldur enn, svo enn er ég að sjálfsögðu ennþá í útgerð)eru vinnubrögð Hafró sem hafa enn einu sinni gert gríðarleg mistök í útreikningum sínum á því, hvað óhætt sé að veiða af vissum tegundum. Tók reyndar eftir því í umræðum á Alþingi í síðustu viku, að þingmaður minnihlutans orðaði það þannig:

Að gríðarlega mikilvægt væri að standa vörð um þann frábæra árangur við uppbyggingu fiskistofnanna með því að fara algjörlega eftir ráðleggingum Hafró. 

En svona lítur þetta út í mínum huga, síðustu 15 árin voru 2 aðal tegundir, sem skiptu mestu máli fyrir mína útgerð, á fyrri hlutanum ýsa og á seinni hlutanum langa. Um 2007 var ýsukvótinn 105 þúsund tonn og hafði farið upp í það á örfáum árum, eða úr ca. 40 þúsund tonnum. Á þessum tímapunkti greip pólitíkin inn í og þáverandi sjávarútvegsráðherra opnaði alla fjöruna við suðurströndina fyrir snurvoða veiðum að kröfu örfárra útgerða úr Þorlákshöfn, með þeim afleiðingum að ýsustofninn var strádrepinn á örfáum árum og er á nýja fiskveiðiárinu aðeins liðlega 34 þúsund tonn, og það sem merkilegra er, fjaran er ennþá opin fyrir snurvoð. 

Fyrir ca. 10 árum síðan kom mikil uppsveifla í lönguna, sem hefur verið mín grunn tegund síðustu árin. Fyrir 3 árum fór ég að verða var við það að stofninn var farinn að fara niður á við, en þrátt fyrir það, þá jók Hafró við löngukvótann öll þessi 3 ár síðan þá og með þeim afleiðingum að fyrir næsta fiskveiðiár hefur Hafró rumskað upp við vondan draum og löngukvótinn skorinn niður núna um 42%, sem er allt of seint gripið inn í, vegna þess að stórir línuveiðarar eru fyrir þó nokkru síðan búnir að hreinsa upp öll löngumið meira og minna við suðurströndina og því algjörlega vonlaust fyrir litla trillu frá Vestmannaeyjum að ætla að fara að gera út á tegundir sem eru ekki lengur til í hafinu, nema í svo litlu magni að veiðarnar borga sig ekki. (Það er alveg stór furðulegt, að Hafró skuli ekki skilja það að einhhver staðar verði fiskurinn að hafi svæði þar sem hann hefur algjöran frið fyrir stórtækum veiðarfærum.)

Ég ætlaði mér reyndar að reyna að skipta yfir í þorsk á síðustu vertíð, en vegna hruns á afurðum, sem og hárri kvótaleigu sem aldrei lækkar, sem og sendingunni frá ríkisstjórninni, veiðigjaldinu, þá er þetta bara ekki hægt en ég hef oft látið hafa það eftir mér að ég sé tilbúinn að leggja mikið á mig við að starfa hjá sjálfum mér þó að launin séu oft ekki sérstök, en ég ætla ekki að borga með mér. Þarna spilar mest inn í að vegna þess að Hafró vill ekki bæta við þorskkvótann í samræmi við magnið sem er í hafinu, sem aftur gerir það að kvótaleigan lækkar ekkert þó verðið á mörkuðunum hafi lækkað verulega. 

Það eru svona ýmsar tilfinningar í gangi með það að fara að vinna í landi, en ég er þó spenntur enda er starfsvettvangur minn áfram við höfnina. Reyndar frétti ég ekki fyrr en eftir að ég hafði fengið stöðuna að ég yrða að segja af mér í framkvæmda og hafnarráði, en við erum búin að ræða málið í Eyjalistanum og munum leysa þetta. Ég er með einhverja tilfinningu fyrir því að ég hafi nú ekki alveg sagt mitt síðasta sem sjómaður og á klárlega eftir að draga fleiri fiska úr sjó, en ég heyri líka þetta sama sjónarmið hjá mörgum strandveiðisjómanninum að framhaldið hjá þeim muni ráðast á því hverjir skipi næstu ríkisstjórn, en nóg um það í bili.

Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs nýs fiskveiðiárs. 


Bloggfærslur 31. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband