Gleðilegt sumar 2024

Lundinn settist upp þann 17. sem er í samræmi við venjuna, sem er ca. 13.-20. apríl. Reyndar hafði ég ekkert kíkt eftir honum áður enda var mjög kalt og þann 16. voru fjöllin hvít af snjó, en lundinn er nú harður af sér og getur vel verið að hann hafi komið eitthvað fyrr, en ég frétti af honum fyrst á sjónum við Eyjar 13. apríl. 

Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og táknar fyrir mig komu sumars, reyndar munum við sjá að öllum líkindum af lunda fyrstu dagana eftir að hann kemur, enda held ég að þetta sé aðallega fullorðni fuglinn sem kemur fyrst og er því upptekinn af því að hreinsa og grafa út holurnar sínar. 

Í vetur hef ég ótrúlega oft lent í spjalli um málefni tengd lundanum hér í Eyjum og þá fyrst og fremst um skýrslu Erps frá því í fyrra vor, tek það fram að ég hef ekki lesið hana sjálfur, en mér er sagt að í henni komi fram að Erpur telji að afladagbækur í úteyjum séu rangar og að veiðin sé í raun og veru miklu meiri heldur en gefið er upp, ótrúlegt ef haft er í huga að í sumum úteyjum ná afladagbækur alveg aftur á miðja síðustu öld og hafa margir verið mjög heitt í hamsi út af þessu hjá honum og það hefur verið nefnt við mig að réttast væri að leggja niður Náttúrustofu suðurlands, en það er þá eitthvað sem heyrir þá algjörlega undir Vestmannaeyjabæ.

Það sem mér er kannski efst í huga núna er bæði þessar ályktanir frá óbyggðanefnd varðandi fjöllin og úteyjarnar í Vestmannaeyjum og vill ég nota tækifæri og lýsa yfir ánægju með framgöngu bæjarstjórnar Vestmannaeyja, en mestar áhyggjur hef ég af stöðunni í lífríkinu við Vestmannaeyjar og þá sérstaklega í hafinu og svolítið sérstakt að hugsa til þess að fyrrum forstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Páll Marvin Jónsson, reyndi á sínum tíma að ná samningum við ríkið um að ríkið fengi yfirráðarétt yfir fjöllunum hér gegn því að Þekkingarsetrið fengi einhverja fjármuni frá ríkinu, en sem betur fer tókst að stöðva það mál, en nú ætlar núverandi forstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Hörður Baldvinsson, að fara á fullt með þetta verkefni sitt að veiða rauðátu og það með stuðningi Hafró sem, ef ég skil málið rétt, ætlar að leggja til togara í verkefnið. Mjög sérstakt allt saman þegar haft er í huga að sáralítið sást af loðnu hérna á vertíðinni og lítil eða engin veiði hefur verið utan við 12 mílurnar, sem hlýtur að teljast óeðlilegt, en ætti að vera ef nóg æti væri á slóðinni en hafa verður í huga að allt sem við tökum úr hafinu hefur áhrif á lífríkið og þegar æti skortir, þá byrjar það fyrst að sjást á fuglastofninum, en vonandi verður þetta í lagi.

Það sást mikið af lunda þann 17. Vonandi verður mikið af lunda hér í sumar og vonandi mikið af pysju í haust.

Gleðilegt lunda sumar allir.

 


Framtíðarsýn

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um hugsanlegar breytingar á Vestmannaeyjahöfn, bæði við Löngu og austur í Brimnesfjöru með garði út fyrir Klettsnef, á fésbókinni og fékk ég fyrir nokkru síðan þá spurningu hver mín framtíðarsýn væri á þessum svæðum sem og öðrum sem tengjast höfninni. 

Að mörgu leyti skil ég vel þá skoðun sumra að vilja ekkert inni í Löngu, sem og ekki heldur í Brimnesfjöru og að vissu leyti er ég algjörlega sammála ályktun Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja um það, að fjaran á móti Klettsnefinu sé nú kannski ekki heppilegasti staður fyrir gáma en um þetta má, og verður sjálfsagt deilt áfram, en sjálfur hef ég meiri áhyggjur af þessum varnargarði sem á að standa þarna til varnar innsiglingunni, en þar er sjólagið einmitt gríðarlega slæmt í austan brælum og ef ekki yrði gerður brimbrjótur austan við garðinn, þá yrði sá garður varla langlífur.

En hver er mín framtíðarsýn?

Ég hef alltaf séð fyrir mér uppbyggingu fyrir Eiðinu, stórskipaviðlögukant sem væri þá helst með tveimur viðlöguköntum fyrir skip allt að 3 til 400 m löng. Þar væri síðan hægt að taka á móti ferðamönnum sem færu þá í gegnum göngin, bæði gullna hringinn og austur í jökulsárlón og í raun og veru væri þetta að einhverju leyti hægt, þó að það væru ekki komin göng, enda hafa ferðamenn farið í dagsferðir í rútum með Herjólfi upp á land og þá kannski stoppa skipin aðeins lengur hér hjá okkur, enda dugar varla dagurinn til þess að skoða allt það sem er í boði hér í Eyjum. 

En hver er framtíðarsýn mín varðandi innsiglinguna?

Ég tel gámasvæði austur í Brimnesfjöru EKKI sniðuga hugmynd út af svo mörgum ástæðum t.d. vegna náttúruspjalla, einnig er ljóst að mikil vandamál myndu skapast ef flytja ætti alla gáma frá höfninni austur í Brimnesfjöru. Helsti kosturinn væri kannski þá, að það sem kæmi í framtíðinni frá Laxey þyrfti þá ekki að fara í gegnum bæinn, en mér finnst persónulega gallarnir við hugmyndina vera fleiri en kostirnir. 

Varðandi innsiglinguna sjálfa þá sé ég hana alltaf fyrir mér eins og hún er núna. Klettsnefið með iðandi fuglalífi og hraunið á móti, Klettsvíkin síðan með allri sinni fegurð og þegar innar kemur, Skansinn með þeirri uppbyggingu sem þar hefur þegar orðið og þar á víkinni, allur nýmálaður og skveraður Blátindur eins og þegar hann var hvað flottastur með jafnvel fallbyssu á hvalbaknum, enda var hann í einhvern tíma varðskip íslendinga og að sjálfsögðu væri flaggað á hverjum degi uppi í siglutré. Hugsanlega væri hægt að nota hann í eitthvað tengt ferðaþjónustunni eða jafnvel sem skólaskip, en aðal atriðið er kannski að þessi síðasti trébátur sem smíðaður var í Vestmannaeyjum væri sýnd sú virðing sem honum ber sem minnisvarði um það tímabil sem lagði grunninn að því samfélagi sem við búum í í dag.

Nú veit ég að minjastofnun sendi sérfræðing fyrir nokkrum árum síðan til þess að taka út Blátind og að skýrsla var gerð, þar sem mér er sagt að m.a. komi fram hugmyndir um bæði hvernig best væri að gera hann upp og eins, hvernig hugsanlega væri hægt að fjármagna það og að sú skýrsla sé til hér í Vestmannaeyjum. Gaman væri ef einhver væri til í að birta hana, virðingarfyllst. 

 


Saga Landeyjahafnar (smá viðbót)

Það eru mikil vonbrigði að ráðherra skyldi ekki komast til Eyja til þess að mæta á fundinn í kvöld, en svona til gamans, hvernig er saga Landeyjahafnar út frá mínu sjónarmiði?

Ég tók þátt í bæjarstjórnarkosningunum vorið 2006 og fékk þá á mig þessa spurningu: Hvort myndir þú vilja göng, Landeyjahöfn eða nýja, hraðskreiðari ferju til Þorlákshafnar?

Fyrsta svarið var auðvelt, göng væru alltaf nr. 1. Annar valkostur var hins vegar flóknari fyrir mig, vegna þess að ég hafði t.d. lesið bækur eins og Öruggt var áralag þar sem fjallað er um langafa minn, Sigga Munda, og þegar útgerð var frá Landeyjasandi, með öllum þeim hörmungum sem þeim fylgdu.

Ég hafði einnig rætt þetta við afa minn og nafna úr Keflavík, sem var einn af þeim sem keyptu flakið af Surprise sem strandaði í Landeyjasandi árið 1966, ef ég man rétt, og lenti hann í miklum hremmingum við að rífa það.

Einnig hafði ég hlustað eftir því sem góður vinur minn, Gísli Jónasson heitinn, hafði að segja varðandi hreyfingarnar á sandinum. Einnig var það eitt af því fyrsta sem gömlu trillukarlarnir sögðu við mig þegar ég var að byrja í útgerð, passaðu þig á því að lenda ekki uppi í sandi. Þessu til viðbótar, þá stundaði ég netaveiðar á Pétursey VE sumarið 2004 einmitt uppi í sandi og kynntist því vel hversu ofboðslega sjórinn er fljótur að rjúka upp, og þá jafnvel við engan vind.

Niðurstaða mín var því afar einföld: Ferja sem gæti farið á 1,5 tíma til Þorlákshafnar og tekið 1000 farþega og 250 bíla væri klárlega valkostur nr. 2 hjá mér. En eins og við vitum þá varð Landeyjahöfn fyrir valinu, að mörgu leyti skiljanlegt, styttri siglingatími en samt miðað við vegalengd, sambærilegur ferðatími og valkostur nr. 2 hjá mér  miðað við höfuðborgarsvæðið. 

Margir vöruðu við þessari leið og þá sérstaklega reyndir sjómenn, en á þá var ekki hlustað.

Í janúar 2007 var haldinn stór fundur uppi í höll, þar sem Gísli Viggósson og félagar voru að kynna þetta verkefni. Ég ákvað að mæta og láta sannfæra mig um að þetta gæti gengið, en það fór nú ekki betur en svo að fyrsta hugsunin eftir að ég gekk út af þessum fundi var, að menn væru bara hreinlega stór bilaðir. Ástæðan fyrir þessu var, að í kynningunni hjá Gísla Viggóssyni kom fram, að í vondum veðrum yrðum við að reikna með því að ferjan myndi rekast í, í innsiglingunni (þess vegna voru sett rör sitt hvoru megin í innsiglingunni, en þau hurfu eftir fyrsta árið eða svo). Einnig gætum við í verstu veðrum mátt búast við því, að ferjan tæki niður inn og út úr höfninni, en þetta eru að sjálfsögðu hlutir sem að vissulega hafa gerst að einhverju leyti, en að sjálfsögðu engin gerir á farþegaferju, hvað þá á öðrum skipum. 

En til þess að reyna að fá einhver svör fór ég ásamt vini mínum eftir fundinn niður á það sem hét þá Café María og hitti þar einmitt Gísla Viggóssyni og óskaði eftir því að fá að leggja fyrir hann eina spurningu. Spurningin var svo hljóðandi: Nú er höfnin svo austarlega, hvað með austanáttina? Og svarið: Hafðu engar áhyggjur vinurinn, það kemur eiginlega aldrei austanátt í Eyjum.

Nú veit ég að Gísli þekkti ekki mig eða mína þekkingu, en þegar ég bæti þessu öllu við þá fullyrðingu frá Gísla Viggóssyni um það að höfnin yrði að vera á þessum stað, vegna þess að þarna væri skjól í suðvestan áttinni, þá var niðurstaðan hjá mér alveg skýr, þetta getur aldrei gengið og hefur ekki gengið í bráðum 14 ár. 

Mér er líka minnisstætt í lok ágúst 2010 þegar þáverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum skrifaði grein í Eyjafréttir með þessum orðum: Stoltur af því að við í bæjarstjórninni stóðum af okkur allar úrtölu raddirnar. Daginn eftir lokaðist höfnin í fyrsta skipti og vandræðagangurinn hófst. 

Fyrr um sumarið 2010 er mér kunnugt um að það kom fyrirspurn frá Þorlákshöfn um hvað ætti að gera við aðstöðu Herjólfs þar, og svar frá Eyjum að það væri óhætt að rífa þetta, við ætlum ekkert að sigla þangað oftar. 

Ég sé stundum á fésbókinni að sumir eru á þeirri skoðun að kannski hefði verið best, ef aðstaðan í Þorlákshöfn hefði verið rifin, en ég stór efast um að það hefði nokkuð lagað Landeyjahöfn og eins og núverandi bæjarstjóri í Þorlákshöfn skrifaði í grein fyrir nokkrum árum síðan: Þorlákshöfn mun áfram vera varahöfn fyrir Vestamannaeyinga um ókomin ár. 

En svona er jú staðan bara í dag. En hvað á að gera?

Uppástungurnar eru fyrir löngu síðan orðnar óteljandi. Margs konar útfærslur á lengri görðum eða varnargörðum sem að öllum líkindum eiga allar það sameiginlegt, eftir því sem ég hef heyrt frá einstaka starfsmönnum Vegagerðarinnar, muni að öllum líkindum bara stækka vandamálið. 

Einnig hefur verið nefnd sú hugmynd að veita Markarfljótinu í gegnum höfnina, sem ég tel ekki sniðugt vegna leirburðar og straums, en sjálfur hef ég frá upphafi verið á þeirri skoðun, að einfaldast væri að setja upp ca. 4 sjódælur inni í höfninni og láta þær dæla út úr höfninni, til þess að koma í veg fyrir að sandur gangi inn í höfnina og auka þá líkurnar á því að auðveldara sé að opna hana, en að sjálfsögðu yrði að vera hægt að slökkva á þessum dælum (ég bar þessa hugmynd upp á stórum fundi í ráðhúsi Vestmannaeyja í október 2015, en henni var hafnað af þáverandi starfsmanni Vestmannaeyjabæjar á þeim forsendum að þetta væri allt of dýrt). En er það svo? Nýjasta nýtt var þessi sanddælubúnaður sem átti að vera tengdur við krana, sem átti að vera staðsettur uppi á garðinum, en þannig að hann væri færanlegur, en hætt var við þetta eftir því sem mér var sagt, vegna þess að kraninn sem átti að kaupa átti, þegar betur var að gáð átti ekki að þola nema 15 metra vindstyrk, en spurning hvort ekki væri hægt að fá öflugri krana í verkið?

Staðan í dag er því, eins og áður hefur komið fram, að mestu óbreytt frá því haustið 2010. Reyndar hefur aðeins hrunið úr báðum görðunum, en hvað sem verður þá vonar maður samt svo sannarlega að ráðherra eða vegamálastjóri komi með einhverjar lausnir, eða amk einhverjar hugmyndir að lausnum, svona þegar að fundur verður haldinn. Ef ekki, þá er að mínu mati krafan einfaldlega sú, að strax verði hafist handa við að klára rannsóknir varðandi hugsanleg göng. 

 

Ég hlaut að gleyma einhverju og þess vegna kemur hérna smá í viðbót.

Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2014 boðaði Árni Johnsen heitinn, fyrrverandi Alþingismaður til opins fundar með frambjóðendum niðri í Café Kró, til þess að hvetja okkur, sem voru þarna í framboði, að einbeita okkur í gangna hugmyndinni vegna þess, að hann hefði verið á fundi hjá Vegagerðinni nokkrum dögum áður, þar sem starfsmenn Vegagerðarinnar hefðu tilkynnt honum að þeir teldu að Landeyjahöfn gæti aldrei orðið heilsárshöfn.

Svolítið sérstakt þegar haft er í huga, þá minnir mig að núverandi bæjarstjóri Vestmannaeyja hafi einmitt sent fyrirspurn á Vegamálastjóra á síðasta kjörtímabili með einmitt þessari spurningu, um það hvort að það væri hugsanlega að Landeyjahöfn yrði aldrei heilsárshöfn, en mig minnir að svörin hafi verið á þá leið að stefnt væri á að Landeyjahöfn, en verkið væri í þróun. 

Ég hef stundum verið spurður út í það, vegna greinaskrifa minna, hvar ég hefði sett höfnina ef ég hefði haft eitthvað um málið að segja á sínum tíma. Nú þekkjum við Eyjamenn það ansi vel að sigla til Eyja í austan brælu, en þá er oftast farið með fjörunni nánast alla leið, en svo er beygt yfir Álinn og Flúðirnar til móts við Eyjar, en einmitt þar, svona ca. í beinni uppi á landi tekið frá Smáeyjum, þar er alltaf logn í austan áttum. Ég hefði síðan haft vestari garðinn aðeins lengri, svipað og í Þorlákshöfn, þannig að bein lína út frá innsiglingunni hefði verið beint á Faxa. 

Að mínu mati hefði þessi útfærsla á höfninni verið betri, en að sjálfsögðu hefði þurft að setja einhvers konar sandfangara suðaustur af þessari höfn, en þessi hugmynd er, eins og svo margar aðrar, án ábyrgðar.

Mig langar að benda á mjög góða grein frá vini Guðlaugi Ólafssyni, fyrrverandi skipstjóri á Herjólfi, en hún er reyndar bara á fésbókinni, en ma kemur þar fram reynsla Gulla að fara sem lóðs með Belgunum á Galiley, en þrátt fyrir miklu öflugra grafskip heldur en Álfsnesið, þá gátu þeir bara samt unnið í 1,5 metra öldu eða minni.

Vonandi kemur ráðherra eða forstjóri Vegagerðarinnar með eitthvað nýtt til málanna.

 


Áramót 2023-24

Árið 2023 byrjaði með mikilli kuldatíð hér í Eyjum þar sem allt fór á kaf í snjó, og í sjálfu sér hefði ég eiginlega frekar viljað það heldur en þennan klaka sem er hérna núna, en þetta stóð nú stutt yfir.

Vertíðin var eins og árið allt, allt fullt af fiski, vantar bara aflaheimildir. 

Lundinn kom á sínum tíma og í gríðarlegu magni eins og síðustu ár. Sjálfur komst ég til Grímseyjar í lok júlí, enn eitt árið og það er svo skrítið að maður er varla farinn frá Grímsey, þegar manni er farið að langa til að koma þangað aftur. 

Pysjufjöldinn í Eyjum í ár var í lægri kantinum miðað við síðustu ár, en samt mun meiri heldur en hrun árin 2008-2013. 

Í fyrsta skipti á ævinni skellti ég mér á strandveiðar í sumar og upplifði þetta ævintýri sem strandveiðarnar eru, en það voru gríðarleg vonbrigði að enn og aftur eru veiðarnar stöðvaðar áður en tímabilinu er lokið. Og enn og aftur fór ég á línuveiðar í haust og náði í einhver 30 tonn, en kvótaleigan er orðin tómt rugl og ofboðslega erfitt að hafa eitthvað út úr þessu. 

Gengi fótboltaliða okkar voru gríðarleg vonbrigði, vægast sagt. Vonandi verður það betra á næsta ári.

Í handboltanum hins vegar, náðum við frábærum árangri.

Í haust rættist síðan draumur konunnar um að fara í ævintýraferð til Egyptalands og fórum við m.a. í siglingu á Níl, úlfaldareið og kláruðum svo ferðina á brúðkaupafmælisdaginn með því að heimsækja Konungadalinn ásamt ýmsum hofum. 

Árið hefur því bara verið nokkuð gott, þrátt fyrir að við Eyjamenn höfum, eins og svo oft áður, lent í vandræðum með samgöngurnar hjá okkur og auk þess vorum við í vandræðum með rafmagn síðasta vetur og vatnið hugsanlega þennan vetur, þannig að ýmislegt hefur gengið á. 

Vonir og væntingar fyrir 2024.

Pólitíkin: Já, ég er í Flokki fólksins, varaþingmaður, fékk reyndar ekki að leysa neitt af á síðasta ári en vonandi verður það á nýja árinu. Margir stjórnmálaspekingar spá því reyndar að ríkisstjórnin muni springa í vetur og að það verði kosið í vor, en ég er nú ekki eins viss um það, enda þekkt að ríkisstjórnir sem engjast um í dauðastríðinu og hafa ekkert fram að færa, hanga nú á því bara stólanna vegna en það kemur annars bara í ljós. Hef reyndar aðeins verið að kynna mér frumvarp Matvælaráðherra um breytingar á kvótakerfinu og ég auglýsi hér með eftir einhverjum Vinstri grænum, sem veit hvað er að gerast með þennan flokk, en frumvarpið er fyrst og fremst árásir á trillukarla og ekkert annað eiginlega í því. 

Vonandi verður mikið af lunda í sumar eins og í fyrra og vonandi verður af pysju og helst meira heldur en í fyrra.

Vonandi gengur okkur betur í fótboltanum í sumar heldur en í fyrra.

Samgöngumálin okkar eru, eins og oft áður, mikið í umræðunni og sjálfur er ég nú eiginlega hættur að nenna að svara öllu því bulli, sem maður sér á fésinu, en vonandi verða tekin alvöru skref í áttina að alvöru lausnum á samgöngumálum okkar á nýja árinu og vonandi heldur vatnsleiðslan þangað til við fáum nýja. 

Annars verður árið 2024 risastórt ár hjá árgangi 1964 og klárlega verður eitthvað um stór veislur hjá árganginum. Reyndar var árgangurinn óvenju stór á sínum tíma, en um leið ótrúlega margir sem er horfnir af sjónarsviðinu og það allt of margir á jafnvel besta aldri. 

Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs. 

 


Jólin, einu sinni var

Jólin eru tími barnanna ásamt fjölskyldum þeirra og hjá mér, eins og svo mörgum öðrum, þá rifjast ýmislegt upp um hvernig þetta var, þegar maður var barn sjálfur.

Í minningunni var alltaf mikill spenningur heima hjá mömmu þegar hún dró fram litla jóaltréð okkar, sem mig minnir að hafi verið innan við metur á hæð, en við systkinin fengum að hjálpa til við að setja bæði kúlur og allskonar fígúrur á tréð. Mamma setti svo ljósaseríu á tréð og svo englahár yfir og ég man, hvað okkur fannst þetta æðislega flott. 

Ekki minnkaði fjörið þegar mamma bakaði fyrir jólin, en hún bakaði alltaf brúntertu með þykku kremi á milli, en það var mikil veisla þegar hún skar endana af. 

Mamma passaði líka alltaf upp á það, að við fengum nýja flík fyrir jólin eins og hefð var og er að einhverju leyti enn. Ekki var nú úrvalið mikið hér í Eyjum, en oft keypti hún efni og saumaði á okkur systkinin, en jólin og jólafríið var nú oftast þannig að í minningunni var oftast allt á kafi í snjó á veturna hér í Eyjum, annað en í dag. Mesta fjörið var þá, eins og núna, á Stakkóinu og skemmtilegast var þegar maður náði sér í stóran bút úr byggingaplasti og kom það fyrir að jafnvel 20-30 krakkar hentu sér á plastið og renndu sér í einni kös niður Stakkóið. 

Þegar maður var aðeins eldri, þá var nú oft aðal fjörið að teyka hér í Eyjum, eitthvað sem væri nú eiginlega ekki hægt í dag, enda flestir bílar í dag með plast stuðara að aftan, annað en í gamla daga, en sumir bílstjórarnir voru reyndar ansi erfiðir og ég man alltaf eftir einum olíubílstjóra á olíubíl, sem hafði þann sið að smyrja afturstuðarann á olíubílnum með feiti, sem kostaði manni nokkur vettlingapör á þeim tíma.

Við systkinin fengum alltaf töluvert af pökkum og var oft mikill spenningur að sjá hvað maður fengi, ekki hvað síst frá afa og ömmu í Keflavík, en það eru akkúrat 10 ár í haust síðan amma kvaddi og sérstakt að upplifa það fyrir þessi jól, að nú erum það við, ég og frúin, sem skrifum frá afa og ömmu og það á 10 pakka og mér skilst að það sé fjölgun á næsta ári í hópnum.

En jólin eru líka tími til að minnast þeirra sem eru farnir, en núna í janúar eru 10 ár síðan Inga systir kvaddi okkur, en pakkarnir frá henni voru alltaf hálfgert ævintýri út af fyrir sig, enda lagði hún mikið upp með að festa allskonar sælgæti og fígúrur utan á pakkana, sem og litlum leikföngum, handa börnunum okkar.

En já, minningin um þau sem eru farin lifir með okkur hinum.

Fyrir mína hönd og minnar fjölskyldu óska ég öllum Eyjamönnum og landsmönnum Gleðilegra jóla.


Að gefnu tilefni

Við hjónin fórum til Reykjavíkur um síðustu helgi, sem er í sjálfu sér algjört aukaatriði, en við gistum í miðbæ Reykjavíkur, beint á mathöllinni við Hlemm en á föstudagskvöldið ætluðum við einmitt að fara út að borða á einhverjum af þessum nýju stöðum í miðbænum, en allstaðar þar sem við komum var biðröð út að dyrum og tók töluverðan tíma að finna stað með lausu borði, enda allt fullt af ferðamönnum í miðbæ Reykjavíkur sem og víðar á suðurlandinu. 

En hvernig er samanburðurinn á við Vestmannaeyjar?

Hér hafa flestir veitingastaðir lokað og loka mjög margir yfir vetrarmánuðina eða um leið og ferðir í Landeyjahöfn fara að detta út á haustin. Þeir staðir sem ennþá hafa opið og gera sitt besta til þess að halda uppi lágmarks þjónustustigi, eiga oft mjög erfitt yfir vetrarmánuðina enda eru engir ferðamenn hér. 

En hvað er til ráða?

Nú liggur fyrir að verið er að klára neðansjávar göngin milli Straumey og Sandey í Færeyjum, samtals 10,8 km. Farið er niður á 155m dýpi fyrir neðan sjávarmál og áætlaður heildarkostnaður á göngunum eru 17,2 milljarðar ískr. Ef við setjum þetta í samhengi miðað við göng á milli lands og Eyja, þá yrðu þau ca. 18 km löng og myndu kosta innan við 30 milljarða, miðað við þessar forsendur hjá þeim í Færeyjum. Þess má geta að Færeyingar stefna á að gera amk 4 göng í viðbót á næstu árum.

Á ágætum fundi sem ég mætti á fyrir forvitni sakir síðasta vetur, þar sem umræðuefnið var göng milli lands og Eyja, kom fram að heildar kostnaður á Landeyjahöfn + ný ferja + rekstur á ferjunni fyrstu 12 árin væru um 44 milljarðar króna, sem að augljóslega er þá mun hærri upphæð heldur en hugsanleg göng og augljóslega þyrftu engin veitingahús að loka yfir vetrarmánuðina ef hægt væri að aka á milli lands og eyja. 

Einnig kom fram á fundinum að í sjálfu sér væri ekkert mál að fjármagna göngin, enda t.d. allir lífeyrissjóðir fullir af fjármagni sem og bankarnir sem græða á tá og fingri þessi árin. Hlutabréf hafa hins vegar að undanförnu aðeins lækkað í verði og því nokkuð augljóst að amk einhverjir fjárfestar eru að leita að fjárfestingarverkefni, en hvers vegna er þá ekkert að gerast í málinu?

Fyrir nokkrum dögum síðan heyrði ég að bæjarstjórinn okkar eyjamanna var í viðtali á Bylgjunni um hugsanleg göng, en það vakti sérstaka athygli mína að í máli bæjarstjórans kom fyrst og fremst fram að þetta snérist aðallega um einhvers konar vinnugöng, þannig að hægt væri að koma rafmagns- og vatnsleiðslum í gegn, en ekki um alvöru göng. Mjög sérstakt.

Að gefnu tilefni, það er nú þannig með okkur eyjamenn að við höfum alltaf þurft að berjast fyrir okkar og því gríðarlega mikilvægt að þau skilaboð sem við sendum út á við séu alveg skýr. Við höfðum tækifæri í aðdragandanum að gerð Landeyjahafnar, en nú vitum við að Landeyjahöfn er fyrst og fremst sumarhöfn gangvart ferðamönnum.

Í nútíma samfélagi þekkist það varla, að íbúum sé boðið upp á það að liggja þvers og kruss ælandi í farþegaferju stóran hluta af vetrinum og því gríðarlega mikilvægt að við sameinumst öll um að berjast fyrir bættum samgöngum og af því að nú eru miklir óvissutímar hjá vinum okkar í Grindavík, þá skulum við hafa það í huga að ef það hefðu verið komin göng milli lands og Eyja í janúar 1973, þá hefði aðeins tekið 2-3 tíma að tæma alla eyjuna.


Lundasumarið 2023

Lundaballið er um næstu helgi og því rétt að gera sumarið upp.

Pysjueftirlitið er að detta í 3000 bæjarpysjur, sem þýðir að bæjarpysjan er þá ca. 5000 pysjur og miðað við að bæjarpysjan sé um eða innan við 1%, þá er pysjufjöldin úr öllum fjöllum Vestmannaeyja ca. 5-700 þúsund og miðað við tæplega 90% varp, má reikna með að fjöldi fullorðins lunda í Vestmanneyjum sé ca. 15-1600 þúsund og miðað við pysjufjöldan síðustu 5 árin, þá er lundastofninn í Vestmannaeyjum ca. 5 milljónir fugla.

Einhverjum finnst þetta kannski háar tölur, en hafa verður í huga að þegar ástand lundans var sem best hér í Eyjum, þá var alltaf talað um að hann væri ca. 8 milljónir, þannig að töluvert vantar upp á að við náum aftur fyrri styrk, en svolítið sérstakt þegar maður rennir yfir þessar tölur að hugsa til þess að fuglafræðingar á Íslandi hafa fyrir nokkrum árum síðan komið lundanum á válista á þeim forsendum að stofninn telji aðeins um 2 milljónir fugla á Íslandi. 

Mín skoðun er hins vegar óbreytt, ég tel að heildarfjöldi lunda á Íslandi sem amk. upp undir 20 milljónir fugla.

Það olli töluverðum vonbrigðum að sjá frá núverandi umhverfisráðherra nýja nefnd sem á að fjalla um fuglaveiðar á Íslandi í samráði við hagsmunaaðila, en þar er enginn lundaveiðimaður. Mjög sérstakt og eiginlega stórfurðulegt, en ég held að við hér í Eyjum þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur amk ekki á meðan bæjarstjórnin stendur í lappirnar og svo er að sjálfsögðu ekkert mál að skoða allan lundann sem er hér yfir besta tímann. 

Hafa verður þó í huga, að þessi seinkun hjá lundanum um amk mánuð ætti að vera rannsóknarverkefni út af fyrir sig, og ekki bara það, heldur virðist skrofan hafa seinkað sér líka, en miðað við það sem ég hef heyrt, þá voru veiddir ca. tæplega 2000 lundar í Vestmannaeyjum í sumar, sem er að sjálfsögðu bara dropi í hafið miðað við pysjufjöldann.

Spurt og svarað.

Þó ég sé nú enginn sérfræðingur í málefnum lundans, þá fæ ég samt alltaf nokkrar spurningar sem ég ætla nú að reyna að svara hér.

Margir veiðimenn höfðu samband við mig eftir að hafa hlustað á konu í viðtali á RÚV í byrjun ágúst, sem ég veit ekki betur að sé fædd og uppalin hér í Vestmannaeyjum, fá þá spurning:

Hvers vegna fljúga lundapysjurnar á ljósin í bænum?

og heyra þetta furðulega svar:

Þær ruglast á ljósunum og stjörnunum.

Þar sem ég þekki manneskjuna, þá prófaði ég að senda á hana fyrirspurn, hvort að hún hafi ekki verið að ruglast á t.d. glampanum frá sjónum og ljósunum, eða einhverju slíku? En fékk þetta skemmtilega svar:

Þú veist ekkert hvað pysjurnar hugsa.

Þannig var nú það, en ástæðan fyrir því að pysjan flýgur aðallega í myrkri er til þess að sleppa við að vera étin á leiðinni niður á sjó, þar sem hún eyði amk 80% af ævinni. 

Ruglingurinn í sambandi við ljósin er að mínu mati einfaldlega vegna þess, að hún sér eitthvað og bara eðlilegt að stefna því á það sem þú sérð. 

Ég var spurður af því í sumar, hvort veiðst hefði lundi í Vestmannaeyjum sem merktur var annarstaðar?

Mér er ekki kunnugt um að pysjur séu merktar annarstaðar á landinu, en ef svo er, þá er það alveg klárlega í mjög litlu magni, allavega miðað við hér. 

Ég hef einnig þurft að heyra ansi oft þá fullyrðingu, að þegar allt fyllist af lunda hér í byrjun ágúst, þá sé það hugsanlega lundi sem er að koma að norðan. Ég tel einfaldlega að þetta sé alrangt, enda engar sannanir séð fyrir þessu, enda nokkuð augljóst að lundi sem hefur klárað sín mál í sinni heimabyggð, til hvers í ósköpunum ætti hann að koma hingað?

Það er líka hægt að svara þessu á annan hátt, en eftir því sem ég veit best hefur verið lítið um endurheimtur á merkjum frá Eyjum síðustu árin. Fyrir ca. 35-40 árum síðan var ég á leiðinni upp í Klif, en sé þá að það er maður þar, svo ég settist bara bakvið klett í brekkunni. Mikið af fugli þar á þeim tíma og háfaði á stuttum tíma 46 lunda, en ég man alltaf eftir þessu vegna þess, að það voru 20 merktir. Einnig fékk ég einu sinni 12 merkta neðst í Vatnsskilunum á þessum árum, en yfirleitt fékk maður kannski 1 merktan á viku vestur á fjalli eða í suðurfjöllunum, þannig að lundinn sem er merktur sem bæjarpysja fer því ekkert mjög langt og heldur sig því, að mestu leyti, þar sem hann kemur upphaflega úr varpi og þar sem ekkert hefur verið veitt í Klifi, Heimakletti og Halldórsskoru vestur á fjalli síðustu 15 árin eða svo, þá er eðlilegt að lítið sé um endurheimtu á merkjum.

Að gefnu tilefni. Ég hef eins og allir aðrir fylgst með umræðunum um hinar mjög svo umdeildu hvalaveiðar. Fyrir mér, sem sjómanni, þá er allt sem er í hafinu ein heild og ef þú tekur af einum stofni, sem margir nýta, þannig að ójafnvægi skapast í hafinu, þá að sjálfsögðu lenda þeir stofnar sem neðstir eru í goggunarröðinni illi í því. Nú er metfjöldi af þorski á Íslandsmiðum og allt fullt af hval. Á meðan við nýtum ekki þessa stofna, eins og vera ætti, þá mun það að sjálfsögðu, fyrr eða síðar, bitna á þeim sem eru aftast í röðinni og það eru að sjálfsögðu fuglastofnarnir.

Óska öllum gleðilegrar skemmtunar á lundaballinu.


Fiskveiðiáramót 2023

Það kom ekkert sérstaklega á óvart að hæstvirtur matvælaráðherra skyldi ákveða að fara aðgjörlega að ráðgjóf Hafró fyrir næsta fiskveiðiár, en svolítið sérstakt að lesa röksemdir hæstvirts ráðherra fyrir því.

En þar kemur m.a. annars fram, að mati ráðherra, að það sé ekkert óeðlilegt þó að skekkja sé í útreikningum Hafró, en það sé betra, hinsvegar, ef um er að tala vanmat á stofnstærð vegna þess að þá er bara hægt að geyma fiskinn í hafinu og veiða hann seinna. 

Mjög sérstakt að lesa þetta, en það er augljóst fyrir alla sem starfa í sjávarútvegi að eftir því sem að meira verður af stærra þorski, þá þarf einfaldlega meiri lífsmassa til að halda honum við, en í sumum skýrslum Hafró hefur verið nefnt að það vanti allan smáa þorskinn, en hann er að sjálfsögðu hluti af því sem stórþorskurinn étur.

Einnig er augljóst að með því að geyma þorskinn í hafinu, þá munum við ekki sjá humarstofninn ná sér og mikil óvissa er um komandi loðnuvertíð en loðnustofninn væri að sjálfsögðu í betra standi, ef ekki væri of mikið af stórþorsk sem þarf að fæða. 

En hvað á ráðherrann við með að ef skekkjur eru í útreikningum Hafró? Tökum dæmi. 

Gullkarfinn var skorinn niður fyrst fyrir þremur árum síðan og svo aftur ári seinna um samtals liðlega 50% á tveimur árum, en er núna aukinn um 46%. Nú er það þannig að gullkarfinn er mjög lengi að vaxa, svo hversvegna er sveifla á þremur árum á gullkarfanum upp á 100%?

Svarið er mjög einfalt. Fyrri útreikningar eru rangir og svo er verið að leiðrétta, en kostnaðurinn fyrir okkur sem störfum í sjávarútveginum er hins vegar sá að mörg störf töpuðust í millitíðinni og nokkrar útgerðir lögðu upp laupana.

Tökum annað dæmi, ýsan. Fyrir fiskveiðiárið 18/19 er ýsan aukin um 40%. Sumarið 2019 kemur svo frá Hafró úps, reikningsskekkja og niðurskurðum upp á 36%, en viti menn, síðan þá hefur ýsukvótinn verið aukinn um hátt í 50%, svo vissulega er það rétt hjá ráðherranum að því leytinu til að það eru svo sannarlega skekkjur í útreikningum Hafró. Hins vegar er alrangt hjá henni að hægt sé að geyma fiskinn þangað til seinna, nema ef vera kynni til þess að þjóna hagsmunum þeirra örfáu sem eiga einhverjar aflaheimildir.

Fékk þessa ágætu útreikninga í dag. 

Núverandi kvótakerfi er 40 ára gamalt á næsta ári. Ef tekinn er allur hagnaður í sjávarútvegi í öll þessi ár og deilt með tveimur, þá værum við sennilega komin með þá upphæð sem þjóðin hefur tapað á þessu kvótakerfi á þessum tíma. 

Er ekki tími kominn til að fara að breyta þessu?

Ps. Að gefnu tilefni, ef hæstvirtur matvælaráðherra skyldi nú óvart lesa þetta einhverstaðar hjá mér, þá þykir mér það miður að ég skyldi óvart senda henni útskýringar Jóns Kristjánssonar, fiskifræðings, á ákvörðun ráðherrans og þá ákvörðun ráðherrans að blokkera mig á facobook með það sama, en við erum nú orðnir amk 2 varaþingmenn hjá Flokki fólksins sem hún hefur blokkerað og af því er virðist fyrir það eitt að hafa smá vit á Íslenskum sjávarútvegi. Eitthvað sem ráðherrann hefur svo sannarlega ekki. 


Sjómannadagurinn 2023

Smá hugleiðing í tilefni sjómannadagshelgarinnar, en í flestu því efni sem gefið er út núna fyrir sjómannadaginn eru gamlar myndir af höfninni frá þeim tíma þegar hún var smekk full af bátum sem lágu í röðum utan á hvor öðrum, en á þessu eru einmitt ákveðin tímamót núna, því að þó að allur flotinn sem á kennitölu í Vestmannaeyjum í dag, væri í höfn þá gætu öll skipin fengið stæði við bryggju og samt þyrfti ekki að setja skip við gámabryggjurnar. Ekki kannski rosalega jákvætt en hvers vegna er þetta svona?

Fyrir okkur sem erum eldri og þekkjum sögu kvótakerfisins sem sett var á 1984 og er því 40 ára gamalt á næsta ári, þá munum við ennþá loforð fiskifræðinganna frá því 1984 um það, að ef farið væri eftir tillögum Hafró næst 3 árin þar á eftir þá myndi það skila af sér jafnstöðu afla á árunum eftir á þorski, upp á 400 þúsund tonn, en núna, tæplega 40 árum síðar, vitum við að þetta tókst aldrei og til hvers í ósköpunum ættum við þá að halda áfram með kvótakerfi sem aldrei hefur skilað því, sem það átti að skila?

Svarið er nú svo sem nokkuð augljóst, verð á varanlegum aflaheimildum á þorski í dag eru komnar yfir 5 milljónir tonnið og hagsmunaaðilar munu því gera allt til þess að verja kerfið, alveg sama hvað. 

Svolítið sérstakt að hugsa til þess að einn af höfundum kvótakerfisins á sínum tíma, Halldór heitinn Ásgrímsson, sagði fyrir mörgum árum síðan, þegar varanlegur þorskkvóti fór upp í 1,4 milljónir tonnið, að hann hefði nú aldrei trúað því að verð á aflaheimildum gæti farið þetta hátt.

Um svipað leyti sögði fjármálaspekingar að það væri algjörlega óraunverulegt að menn væru að kaupa aflaheimildir á slíku verði og ekki möguleiki að láta dæmið ganga upp, en síðan eru liðin nokkur ár.

Reyndar er merkilegt að í sögulegu samhengi held ég að flestir sem stunda sjóinn í dag, geri sér grein fyrir því að aldrei nokkrun tímann, síðan kvótakerfið var tekið upp, hefur verið annað eins magn af fiski á miðunum í kring um landið okkar og æti út um allt, en spurning hvort að Hafró sé ekki bara fyrir löngu síðan búið að missa kjarkinn til þess að leggja til verulega auknar veiðar í t.d. þorsk og ýsu, en svo eru aftur þeir sem telja að Hafró hafi nú ekki einu sinni leyfi til þess. Málið verður ennþá flóknara, þegar haft er í huga að núverandi sjávarútvegsráðherra veit því miður minna en ekkert um Íslenskan sjávarútveg. Reyndar er líka svolítið forvitnilegt að skoða, hvar fiskurinn sem kemur á land hér í Eyjum er unninn. Eyjarnar setja allt í gáma, mest upp á land en stundum eitthvað út. Ísfélagsbátarnir setja oftast ýsuna inn á fiskmarkað, taka yfirleitt þorskinn upp í hús og senda svo karfann út. Vinnslustöðin gerir þetta svipað en með þeirri undantekningu með því að kaupa sig inn í þessa fiskvinnslu í Hafnarfirði, þangað sem þeir senda alla ýsuna, sem aftur þýðir það að sennilega muni þá öll ýsan af Þórunni Sveins fara þangað líka og maður spyr sig svolítið hvað varð um Böddabita t.d. en mín reynsla er sú, að í flestum tilvikum þar sem fiskur er seldur eða fluttur til fyrirtækja á suðvestur horninu þá er það oftast til þess að vinna hann í svokallaðan flugfisk. En það merkilega við þessa samantekt er að sennilega er aðeins um helmingurinn að þeim fiski sem landaður er hér í Eyjum, unnin hér í Eyjum. En þetta myndi að sjálfsögðu að einhverju leiti breytast ef við værum komin með göng.

Strandveiðar

Í fyrsta skipti í minni útgerðarsögu ákvað ég að reyna fyrir mér á strandveiðum. Tíðin hefur reyndar verið mjög erfið núna í maí en maður hefur nú samt svolítið gaman af þessu.

Mikil umræða hefur skapast um hugsanlegar breytingar á strandveiðikerfinu og mjög óljóst í dag hvernig verður, en ég hefði viljað sjá strandveiðar þróast áfram og hefði viljað sjá þær byrja strax 1. mars og vera út október og þannig gera mönnum mögulegt, að geta kannski lifað á þessu á ársgrundvelli. Vandamálið er að sjálfsögðu kvótinn, en að mínu mati ætti þær aflaheimildir sem fara til strandveiða einfaldlega að vera utan við úthlutaðar aflaheimildir, bæði eru veiðarnar gríðarlega vistvænar, en síðan vitum við að svigrúmið á Íslands miðum er bara miklu meira heldur en þarf til þess að tryggja þessar strandveiðar.

Við trillukarlar í Vestmannaeyjum urðum fyrir miklum missi á þessu ári. Fyrst fór hann Fúsi okkar á Byr í byrjun árs og síðan hið hörmulega slys á Óla Már núna í vor, en það var hluti af morgunrúntinum hjá mér, bæði hjá höfninni og sem trillukarl að hitta og heilsa Óla Már. Mér varð einnig hugsað til hans í síðasta róðri núna á fimmtudaginn, þar sem ég endaði róðurinn á einum af hans uppáhalds veiðistöðum, Hólnum í Háadýpinu, en þeir félagar eru núna komnir á hin eilífu mið þar sem alltaf er blíða.

Mig langar að enda þennan pistil á að senda aðstandendum þeirra beggja innilegar samúðarkveðjur.

Óska sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs sjómannadags. 


Gleðilegt lundasumar 2023

Lundinn settist upp í Eyjum í gær, 14. apríl, sem er svona í fyrra lagi en samt ekki, því ég hef einhvern tímann séð hann setjast upp 13. apríl, en yfirleitt er þetta á tímabilinu 13.-20. apríl. 

Reyndar fréttist af lunda á brúnum Dyrhólaeyjar fyrir ca. 3 dögum síðan og það er ca. vika síðan hann settist upp norður í Grímsey, sem er svolítið sérstakt þegar haft er í huga að þar hefur verið töluverð kuldatíð alveg fram undir þetta, en hann er harður af sér og í sjálfu sér hef ég litlar áhyggjur af lundastofninum sem slíkum, en vandamálið er hinsvegar pysjan.

Rauðátan

Rauðátan er klárlega hluti af fyrstu fæðunni fyrir pysjuna og ef hana skortir, þá deyr pysjan. Ég las nýlega grein um rauðátuna þar sem kemur fram að rauðátan er uppistaðan í fæðu makrílsins, sem að nokkuð augljóslega skýrir stöðuna hérna við Ísland síðasta áratug eða svo. Einnig sáum við skýrt dæmi síðasta sumar þar sem skyndilega varð vart við makríl um mánaðamótin júlí/ágúst við Reykjanesbæ og um svipað leytið varð vart við töluverðan pysjudauða hér í Eyjum.

Málið er því ekkert flókið þegar kemur að rauðátunni, en í greininni um hana kemur einnig fram að hún komi upp úr djúpinu á vorin, hrygnir þá og drepist um leið og lifir því aðeins í eitt ár. 

Fullyrðingar um að þessi stofn sé gríðarlega sterkur eru því einfaldlega bara fullyrðingar sem ekki standast skoðun. Ég var því mjög ánægður í vikunni að heyra það, að útgerð Bylgju VE sé hætt við að fara í þessar veiðar á vegum Þekkingarsetursins hér í Eyjum. Vonandi láta menn þetta bara alveg eiga sig, þó það séu einhverjir peningar í þessu. 

Vonir og væntingar

Lundastofninn sjálfur er sterkur þegar tekið er landið allt, en svona högg eins og stofninn fékk í Eyjum sl sumar er nú ekki til þess að auka manni bjartsýnina á framhaldið. Hafa verðir þó í huga að nýliðun lundastofnsins hér í Eyjum sl 7 ár telur nokkrar milljónir fugla. Vonandi förum við að sjá meira af þessari nýliðun núna í sumar. Sjálfur er ég búinn að gera ráðstafanir til þess að kíkja á vini okkar norður í Grímsey í sumar, en allt getur breyst. Vonandi fáum við mikið af pysju í haust.Gleðilegt sumar allir .

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband