Hættur í Flokki fólksins

Það er svolítið sérstakt að vera ekki í kosningaslag núna en eftir rúmlega 3 ár í Flokki fólksins, en ástæða fyrir brotthvarfi mínu úr flokknum má rekja til nokkurra atburða sem áttu sér stað bæði fyrir síðustu kosningar sem og á kjörtímabilinu, en byrjum á síðustu kosningum.

Margir af mínum dyggustu stuðningsmönnum höfðu áhyggjur af því, hvernig ég ætti að fylgja eftir stefnu og skoðunum mínum í sjávarútvegsmálum ef ég yrði ekki þingmaður, vegna þess að leiðtogi framboðsins þá sem og núna, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, hefur afar lítið vit á íslenskum sjávarútvegi. Úr þessum pælingum varð síðan loforð þar sem Ásta Lóa lofaði því að ég myndi leysa oft og reglulega af ef við næðum bara einum þingmanni. 

Sumir stuðningsmanna minna sögðu hins vegar við mig, hvað ætlar þú að gera ef hún stendur ekki við það?

Úr því varð loforð, þar sem ég lofaði því að hætta í flokknum ef ekki yrði staðið við það sem mér var lofað. 

Í kosningabaráttunni sjálfri fannst mér Ásta Lóa í raun og veru vinna gegn því að við næðum tveimur þingmönnum, sem og varð, þá vantaði okkur liðlega 200 atkvæði til að fá 2 þingmenn.

Efir kosningarnar, þar sem Ásta Lóa var orðin þingmaður okkar sunnlendinga en er íbúi í Garðabæ, þá fór ég að senda reglulega á hana í skilaboðum alltaf þegar eitthvað var að gerast í kjördæminu, sem mér fannst að hún ætti að vita og þá hugsanlega koma á framfæri athugasemdum á þinginu, en eftir nokkra mánuði, þá hafði hún samband við mig og bannaði mér að senda svona efni á sig vegna þess, að hún hefði einfaldlega ekki tíma til að sinna einhverju öðru en því, sem hún var að sinna á Alþingi. Þetta pirraði mig alveg rosalega mikið, en já, ég leysti af í viku vorið 2022 og fékk mikið lof frá mínu fólki fyrir það sem ég talaði um þar. Í framhaldinu bjóst ég að sjálfsögðu við að frá frekari afleysingar veturinn þar á eftir, en aldrei kom símtalið.

Það var svo komið fram yfir áramót þegar ágætur vinur minn af höfuðborgarsvæðinu hafði samband við mig og spurði: af hverju ertu ekki á þingi núna, því þingkonan er í fríi erlendis og þing í gangi?

Ég ákvað að hringja í Ástu Lóu, en fékk bara ansi loðin svör um það, að þetta hefði verið óvænt ferðalag og hafði ekki gefist tími til að kalla í varamann. 

En veturinn leið sem sagt án þess að ég fengi kallið og það var ekki fyrr en í lok júní sumarið 2023 sem Ásta Lóa kom og hitti mig niðri á bryggju, ekki til að heilsa uppá, heldur til að tilkynna mér það að loforðið sem hún gaf um afleysingar, væri loforð sem hún gæti ekki staðið við, vegna þess að hún hefði ekki efni á því. Mér fannst þetta mjög sérstakt í ljósi þess að hún fór amk 3 ferðir erlendis þetta árið.

Ég stend að sjálfsögðu alltaf við það sem ég lofa, svo ég fór hringinn meðal stuðningsmanna minna og tilkynnti þeim að ég hygðist þá segja mig úr flokknum vegna þessara vanefnda, en þá brá svo við, að flestir þeirra spurðu mig hvort ég væri búinn að ræða þetta við Ingu Sæland og báðu mig að fresta málinu amk fram að því. Á fund Ingu fór ég í lok nóvember það haust, ekki var ég allskostar sáttur við svörin sem ég fékk, en hún lofaði amk að ýta við þingkonunni þannig að hún færi nú amk að sýna einhvern áhuga á málefnum kjördæmisins, sem og gekk eftir því strax í vikunni eftir fundinn við Ingu, hafði þingkonan samband við mig og spurðist fyrir um hin ýmsu mál í kjördæminu, sem var bara mjög ánægjulegt, en þetta entist ekki lengi og strax um áramótin var allt komið í sama farið. 

Loka tilraun mín til þess að ræða við þingkonuna var í febrúar á þessu ári og hittumst við í kaffi í Reykjavík þar sem við ræddum ýmis mál, ekki ætla ég nú að hafa allt eftir sem við ræddum, en hún sagðist hreinlega ekki hafa tíma til að sinna kjördæminu betur vegna anna á Alþingi og tilkynnti mér líka að ef ekkert óvænt kæmi uppá, þá myndi ég ekki fá fleiri afleysingar á kjörtímabilinu. 

Efir að hafa rætt við stuðningsmenn mína, þá tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði mér að mæta á fyrirhugað landsþing Flokks fólksins, sem átti að vera í maí í vor (en var frestað) og segja mig svo úr flokknum eftir það. Það kom mér því gjörsamlega í opna skjöldu þegar ég var kallaður inn á þing í byrjun maí, þetta tímabil var mun erfiðara heldur en það fyrra, kannski eðlilega eftir allt það neikvæða sem hafði verið í gangi á milli mín og þingkonunnar, ég var því hálf fegin þegar mér var boðið að hleypa næstu manneskju að í júni og samþykkti það strax.

Um daginn, þegar ríkisstjórnin féll, heyrði ég í Ingu Sæland sem tilkynnti mér það, að þingmenn í hverju kjördæmi myndi sjá um sína lista. Ég gerði mér alveg grein fyrir því að ég væri ekki að fara að fá annað sætið hjá Ástu Lóu og þegar hún hafði samband við mig um miðja síðustu viku, hafði ég undirbúið mig aðeins fyrir það símtal, ma með því að ræða við stuðningsmenn, sumir sögðu að ég ætti að hætta strax, en aðrir að ég ætti að hætta ef hún byði mér neðar en annað sætið. Ég vildi hins vegar fá svör frá þingkonunni um þessi atriði sem ég hef nú þegar skrifað í þessari grein. Svörin komu mér ekki á óvart. 

Man ekki eftir að hafa sagt þetta, ég hef aldrei lofað þessu, ég hef aldrei sagt þetta og man ekkert eftir þessu. Og svo bauð hún mér 4. sætið.

Ég hafnaði því strax og í raun og veru, miðað við hvernig samtalið þróaðist, þá hefði ég heldur ekki tekið 2. sætið, enda kemur ekki til greina að fara í eitthvað framboð með manneskju sem maður treystir ekki og stendur ekki við það sem hún lofar. En í dag hef ég einnig sagt mig úr flokknum.

En að gefnu tilefni, þá vil ég taka það alveg skýrt fram, að mínu mati hefur Flokkur fólksins staðið sig alveg afburða vel á þingi, átt flest þingmálin og unnið ötullega að öllum sínum stefnumálum. Sama má að vissu leyti segja líka um Ástu Lóu, hún hefur staðið sig afburða vel í skuldamálum heimilina sem og vaxtarmálum.

Ég er því EKKI að setja þetta fram sem einhverja gagnrýni á Flokk fólksins, heldur fyrst og fremst að standa við loforð mitt, að útskýra fyrir mínu fólki, hvers vegna ég ákvað að hætta í Flokki fólksins. 

Ég efast ekkert um það að Flokkur fólksins fær örugglega mjög góða kosningu, enda unnið fyrir því.

Fyrir mitt leyti hins vegar, þá mun ég að öllum líkindum ekki kjósa flokkinn í komandi kosningum, en óska mínum fyrri félögum alls hins besta í kosningunum og þakka um leið öllum þeim sem stutt hafa mig í þessari vegferð, en ég vil líka taka það fram að gefnu tilefni, að ég muni aldrei útiloka það að taka þátt í einhverju framboði þar sem að möguleiki er á að hafa einhver áhrif og sem dæmi, að þá var engin sjávarútvegsstefna hjá Flokki fólksins fyrir síðustu kosningar, nema þetta litla sem ég kom þar inn sem var frjálsar handfæraveiðar, en fyrir þessar kosningar muni að öllum líkindum flestir trillukarlar á landinu kjósa Flokk fólksins, enda eini flokkurinn með alvöru sjávarútvegsstefnu, samanber frábæra ræðu Ingu Sælands hjá Landssambandi smábátaeigenda núna fyrir helgi. 

En takk fyrir mig allir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband