20.4.2024 | 21:40
Gleðilegt sumar 2024
Lundinn settist upp þann 17. sem er í samræmi við venjuna, sem er ca. 13.-20. apríl. Reyndar hafði ég ekkert kíkt eftir honum áður enda var mjög kalt og þann 16. voru fjöllin hvít af snjó, en lundinn er nú harður af sér og getur vel verið að hann hafi komið eitthvað fyrr, en ég frétti af honum fyrst á sjónum við Eyjar 13. apríl.
Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og táknar fyrir mig komu sumars, reyndar munum við sjá að öllum líkindum af lunda fyrstu dagana eftir að hann kemur, enda held ég að þetta sé aðallega fullorðni fuglinn sem kemur fyrst og er því upptekinn af því að hreinsa og grafa út holurnar sínar.
Í vetur hef ég ótrúlega oft lent í spjalli um málefni tengd lundanum hér í Eyjum og þá fyrst og fremst um skýrslu Erps frá því í fyrra vor, tek það fram að ég hef ekki lesið hana sjálfur, en mér er sagt að í henni komi fram að Erpur telji að afladagbækur í úteyjum séu rangar og að veiðin sé í raun og veru miklu meiri heldur en gefið er upp, ótrúlegt ef haft er í huga að í sumum úteyjum ná afladagbækur alveg aftur á miðja síðustu öld og hafa margir verið mjög heitt í hamsi út af þessu hjá honum og það hefur verið nefnt við mig að réttast væri að leggja niður Náttúrustofu suðurlands, en það er þá eitthvað sem heyrir þá algjörlega undir Vestmannaeyjabæ.
Það sem mér er kannski efst í huga núna er bæði þessar ályktanir frá óbyggðanefnd varðandi fjöllin og úteyjarnar í Vestmannaeyjum og vill ég nota tækifæri og lýsa yfir ánægju með framgöngu bæjarstjórnar Vestmannaeyja, en mestar áhyggjur hef ég af stöðunni í lífríkinu við Vestmannaeyjar og þá sérstaklega í hafinu og svolítið sérstakt að hugsa til þess að fyrrum forstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Páll Marvin Jónsson, reyndi á sínum tíma að ná samningum við ríkið um að ríkið fengi yfirráðarétt yfir fjöllunum hér gegn því að Þekkingarsetrið fengi einhverja fjármuni frá ríkinu, en sem betur fer tókst að stöðva það mál, en nú ætlar núverandi forstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Hörður Baldvinsson, að fara á fullt með þetta verkefni sitt að veiða rauðátu og það með stuðningi Hafró sem, ef ég skil málið rétt, ætlar að leggja til togara í verkefnið. Mjög sérstakt allt saman þegar haft er í huga að sáralítið sást af loðnu hérna á vertíðinni og lítil eða engin veiði hefur verið utan við 12 mílurnar, sem hlýtur að teljast óeðlilegt, en ætti að vera ef nóg æti væri á slóðinni en hafa verður í huga að allt sem við tökum úr hafinu hefur áhrif á lífríkið og þegar æti skortir, þá byrjar það fyrst að sjást á fuglastofninum, en vonandi verður þetta í lagi.
Það sást mikið af lunda þann 17. Vonandi verður mikið af lunda hér í sumar og vonandi mikið af pysju í haust.
Gleðilegt lunda sumar allir.