Lundasumarið 2024

Ég hafði velt því fyrir mér að undanförnu, hvort ég ætti kannski að gera bara upp sumarið með því að setja inn nokkur myndbönd af þúsundum lunda í fjöllum og úteyjum í sumar og með þessu eina orði: Takk.

En að sjálfsögðu þarf ég að koma að ýmsu öðru. Lundasumarið var alveg frábært og lundinn mætti í milljóna tali. Sumir hafa velt því upp hvar hann hafi haldið sig síðustu árin og hvort hann sé kannski að koma að norðan, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það sé alls ekki svo, enda liggja engar sannanir fyrir um það. 

Í apríl, undanfarin ár þegar lundinn sest upp, hef ég haft það fyrir vana að óska mér þess að við færum nú að sjá meira af þessum lunda, sem klárlega væri til miðað við pysjufjöldann hér í Eyjum síðustu árin og í ár gekk þetta allt upp. Hér var allt vaðandi í æti nú í sumar og gríðarlegt magn af lunda fylgdi því, sem og aðrar fuglategundir. Ég hef t.d. aldrei nokkurn tímann séð annað eins magn af teistuungum og verið hefur hér í höfninni í sumar og bara gaman að því.

Því var spáð að hér gætu orðið allt að 10.000 bæjarpysjur og ég held að það hafi alveg örugglega gengið eftir, þó svo að talningin í Sealife sé helmingi lægri, þá er náttúrulega enginn hvati fyrir fólk til þess að fara með eða skrá pysjurnar. Óvenju mikið var líka um útlendinga á pysjuveiðum hér í ágúst og síðan voru ljósin á Heimakletti látin loga allan pysjutímann, sem að í flestum tilvikum hefði þýtt hundruð dauðra lundapysja, en í ár var pysjan einfaldlega það vel gerð að það var hægt að fylgjast með henni taka æfingaflugið hring eftir hring inni á höfn og fljúga síðan í burtu.

En árið í ár var frábært og ég man ekki eftir svona miklum lunda síðan um miðjan ágúst 2005, en það var einmitt fyrsta sumarið sem var afar lélegt og lítið af lunda nema byggðafugl að sjá, allt að þangað til einmitt um miðjan ágúst, þegar hér mætti gríðarlegt magn af lunda og sennilega meira heldur en við sáum í sumar, en þetta er bara skemmtilegt.

Ég hef tekið samtal við marga veiðimenn í sumar og sumir eru á því að lundastofninn hafi í raun og veru náð fullri stærð, miðað við þegar ástandið var sem best og nefnt þá ástæðu að það sé einfaldlega svo lítið veitt og að vissu leiti get ég tekið undir það, en ég held samt að það þurfi amk 1-2 ár með svona miklu æti hér við Eyjar, til þess að lundastofninn nái aftur fullri stærð, en þar sem makríllinn er nú horfinn þá er að öllum líkindum ekki langt í það og ég heyri það á sumum veiðimönnum, að í sumum veiðifélögum sé þetta orðin spurning um hverjir eigi að veiða fuglinn, sennilega munum við aldrei fara í það að veiða það magn sem veitt var hér á árum áður, en þó er aldrei að vita. Við hér í veiðifélaginu á Heimaey erum með þó nokkuð af ungum veiðimönnum, en sjálfur prófaði ég það í sumar að bera 70 fugla upp úr Kervíkurfjallinu og ég held að ég verði bara að viðurkenna, að sá tími, þar sem maður veiddi 3-400 lunda og bar kannski 120 í ferð, er bara liðin tíð, en það var frábært að komast m.a. upp í Heimaklett og háfa nokkra fugla þar og mikið af ungfugl.

Það eru að verða liðnir 2 mánuðir síðan að veiðitímabilinu lauk og skilaboðin sem ég hef verið að fá, alveg frá fyrsta veiðidegi, svona 5-6 sinnum á dag niður í 1 annan hvern dag um það hvort ég geti reddað nokkrum lundum eru orðin ansi mörg og neiin eftir því, enda fór ég bara í lunda fyrstu 3 dagana og lét það gott heita, en ótrúlega margir eyjamenn hafa spurt mig að undanförnu út í það, hvaða rétt fólk sem býr hérna og er alið upp á lunda, en á engan rétt eða jafnvel hefur ekki getu til þess að sækja sér í soðið sjálft. Ég hef átt svolítið erfitt að svara þessu og ætla því að svara þessu hér:

Í sumar sá ég aðeins einn veiðimann auglýsa lunda til sölu á facebook, en sá aðili hafði þá þegar sótt sér lunda til vina okkar norður í Grímsey. Ekki veit ég á hvaða verði þessi aðili var að selja lundann, en ég ætla að nota þetta tækifæri og skora á Helliseyinga, sem eru með lundaballið á næsta ári, að taka upp hinn gamla góða sið sem var hér á meðan fréttablaðið Dagskrá var gefið út á sínum tíma og birta í byrjun maí verð á eggjum og lunda, en aðeins þannig er hægt að koma í veg fyrir að einhverjir óprúttnir aðilar séu að pranga inn á fólk lunda á einhverju okur verði.

Nú hefur verið tekin ákvörðun um það, að stóra lundaballið verður haldið 16. nóvember n.k. Svolítið seint, klárlega, en fyrir því eru að sjálfsögðu margar ástæður, en miðað við þann langa lista af listamönnum sem mér skilst að sé nú þegar búið að bóka, þá verður þetta algjör veisla.

Takk fyrir sumarið.


40 ára tilraun sem mistókst

Nýtt kvótaár hófst í dag og mér varð hugsað til þess, að þegar kvótakerfið var sett á 1984 þá var ég aðeins 19 ára gamall og ekki byrjaður í útgerð og kannski má að mörgu leyti segja að stærsta vandamálið við að breyta þessu fáránlega kvótakerfi sé einmitt unga fólkið í dag sem einfaldlega skilur þetta ekki. En já, kvótakerfið var sett á 1984 og þá m.a. vegna loforðs fiskifræðinga um, að ef farið væri eftir þeim í 3 ár, þá yrðum við að þeim tíma liðnum farin að veiða 400-500 þúsund tonn af þorski á hverju ári, en eins og svo sem allir vita þá hefur þetta aldrei tekist, en til þess að viðhalda þessu kvótakerfi var tekin sú ákvörðun árið 1990 að leyfa frjálst framsal á aflaheimildum og svolítið sérstakt að hugsa til þess, að á þeim tíma var aðeins 1 stjórnmálaflokkur sem greiddi atkvæði gegn þessari tillögu á þingi og það var Sjálfstæðisflokkurinn, en margt hefur breyst síðan þá. 

Eftir 1999 hinsvegar, hefur rignt inn allskonar tegundum í kvóta til þess eins að hagsmunaaðilar gæti notað þær í tilfærslur. 

Það er talið að fjárhagslegt tjón þjóðarinnar sé uþb 100 milljarðar á ári vegna kvótakerfisins, en það er fyrir utan það tjón sem orðið hefur vegna fáránlegra vinnubragða Hafró, sem að meira að segja sumir í stórútgerðinni eru farnir að tala um og má þar t.d. nefna síðustu 2 loðnuvertíðar, en þar úthlutaði Hafró loðnukvóta sem aldrei veiddist nema að hluta til og margir loðnusjómenn tala um að það hafi í raun og veru ekki verið til í hafinu, enda hefur ekki verið úthlutað loðnu síðan þá með tilheyrandi tjóni fyrir land og þjóð og svolítið sérstakt að Hafró þurfi ekki að bera neina ábyrgð af sínum útreikningum, en um leið líka svolítið mikilvægt að hafa í huga að það er að sjálfsögðu ráðherra sem tekur endanlega ákvörðun um hvað megi veiða og þó að ráðherrar undanfarinna ríkisstjórna hafi því miður vanið sig á að fela sig á bak við ráðgjöf Hafró, þá bera þeir samt ábyrgðina. 

En hvernig var þetta fyrir daga kvótakerfisins?

Í dag heitir sjávarútvegsráðherra matvælaráðherra og fer bæði með málefni sjávarútvegs og landbúnaðar, en fyrir daga kvótakerfisins vorum við með sérstakan sjávarútvegsráðherra sem ferðaðist um landið, ræddi við sjómenn og skipstjóra í hverju landshorni og tók síðan ákvörðun í samráði við þá sem unnu við að veiða fiskinn og þekktu fiskimiðin. Árangurinn var líka sá, að þá veiddum við helmingi meira heldur en í dag. Vissulega á mun fleiri skipum, en þessi hagræðing í sjávarútvegi hefur svo sannarlega kostað mörg sjávarþorpin lífið.

Ég horfði á ágætan þátt um sjávarútvegsmálin um daginn, þar sem í viðtali voru nokkrir skipstjórar sem starfað höfðu um og yfir 50 ár á sjó og höfðu frá ýmsu að segja, en allir voru þeir þó sammála um eitt, að í dag er gríðarleg uppsveifla í þorskstofninum á Íslandi en við erum ekki að nýta okkur það og enginn þeirra skilur vinnubrögð Hafró, ráðgjöf Hafró eða þetta svokallaða togararall Hafró sem engu skilar, eins og marg hefur verið sýnt fram á.

Reyndar svolítið sérstakt líka að lesa ályktun SFS um makrílrannsóknir Hafró, en samkvæmt mælingum Hafró hefur makrílstofninn minnkað um liðlega helming í íslenskri lögsögu, en samkvæmt ályktun SFS er ekkert að marka það vegna þess að þetta sé stofn sem sé flökkustofn, en spurningin er, eru ekki allir fiskistofnar meira og minna flökkustofnar sem færa sig til eftir æti, t.d. tala sjómenn á vestfjörðum mikið um það þegar grænlandsþorskurinn gengur inn á miðin og svo aftur til baka, en það hefur hins vegar aldrei verið mælt af Hafró og þeir í raun og veru hafnað því að þetta sé til. Pínu sérstakt.

Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs nýs fiskveiðiárs.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband