Uppgjör við 2024 og pælingar varðandi 2025

Risastórt ár að baki hjá mér og endirinn sennilega hvað skemmtilegastur, en ég upplifði það sem að mig hafði lengi dreymt um, að halda upp á stórafmæli á sólarströnd, sem og ég gerði þann 28. nóvember þegar ég varð sextugur, á Canary eyjum. Virkilega skemmtilegt og vel heppnuð ferð.

En fleiri stórir atburðir voru í fjölskyldunni, en þann 13. júlí í sumar fékk ég að leiða elstu dóttur mína í brúðkaupi hennar og hennar eiginmanns. 

Lundasumarið

Fyrir ca. 10 árum síðan var ég spurður að því, hvaða líkur ég teldi vera á því að ég ætti eftir að upplifa það aftur að fara upp í Heimaklett og veiða lunda, en ég svaraði því þá þannig að ég teldi það afar hæpið og eiginlega alveg vonlaust, en kraftaverkin gerast. Lundinn mætti í milljóna tali til Eyja í sumar og ég fór upp í Heimaklett og veiddi nokkra lunda. Ótrúlegur viðsnúningur hjá lundastofninum núna síðustu árin og ótrúlega bjart framundan, eða hvað? 

12. desember sl. var haldinn fundur hér í Eyjum sem ég ætlaði að mæta á en missti af með ma. fuglafræðingum, en ég hef nú fengið fundargerð af fundinum, þar sem kemur alveg skýrt fram hjá fuglafræðingum að lundastofninn sé hruninn og lundinn sé kominn á válista þessvegna, en þessu var að sjálfsögðu mótmælt af eyjamönnum sem voru á fundinum, en klárlega er þessu máli ekki lokið, enda er þetta hagsmuna mál fyrir fuglafræðingana. 

Pólitíkin

Ég hef nú fjallað ýtarlega um endalok mín í Flokki fólksins, en eins og kom fram þar, þá leysti ég af á þingi í maí sl. Mér bauðst reyndar að vera fram í júní líka en ákvað að gefa næstu manneskju á listanum tækifæri til að reyna sig þarna, enda hafði ég þá þegar ákveðið að ég myndi að öllum líkindum hætta í flokknum, en það eru mjög margir sem vilja sjá mig þarna á Alþingi íslendinga og ég hef því átt erfitt með að svara því. Einnig hafa nokkrir skammað mig fyrir að hætta í flokknum núna í haust, en þeir eru ekki færri sem hafa hrósað mér fyrir það að koma hreint fram. 

Það var rætt við mig af forsvarsmönnum og stuðningsmönnum hjá tveimur öðrum framboðum, en ég hafði frekar lítinn áhuga á því.

Niðurstöðurnar úr kosningunum komu mér ekki á óvart og mér lýst bara vel á nýja ríkisstjórn, vonandi verða alvöru breytingar og þá kannski sérstaklega í sjávarútvegsmálum, sem hafa verið í frosti allt of lengi. 

Eitt af því sem kannski ýtti mér út í þetta fyrir 3 1/2 ári síðan, var að vissu leyti ákveðin forvitni um það, hvernig væri að fara í framboð þar sem kosningabaráttan væri alvöru kosningabarátta, þar sem farið væri í gríðarlega mikla auglýsingaherferð með öflugu kosningateymi og þar sem maður mátti ekkert senda frá sér án þess að það væri lesið yfir. Og já, þó þetta hafi stundum verið erfitt þá hafði ég gaman að þessu og ef einhverjir halda að baráttu Ingu Sæland fyrir kjörum þeirra sem minna mega sín sé lokið vegna þess að hún sé komin í ríkisstjórn, þá er það langt í frá svo. Inga er alveg hörku dugleg og hörku klár og hún á eftir að koma mörgum á óvart. 

Ég fór á strandveiðar í sumar, en missti reyndar af maí vegna starfa á öðrum vinnustað, en fiskiríið var ágætt og bara dapurlegt að veiðarnar væru stöðvaðar rétt liðlega hálfnaðar, þegar haft er í huga að sjórinn er fullur af fiski sem aðeins örfáir mega veiða og svolítið sérstakt að sjá alla þessa baráttu SFS gegn strandveiðunum, þegar haft er í huga að strandveiðarnar eru aðeins ca. 3% af íslenskum sjávarútvegi, en græðgin er jú botnlaus. Veðurfarið var alveg einstaklega erfitt síðasta sumar og ofboðslega misjafnt, hvernig gekk í öðrum landshlutum.

2025

Vonandi verður veðurfarið á þessu sumri betra heldur en því síðasta og vonandi verður búið að tryggja aflaheimildir fyrir næsta strandveiðisumar og vonandi mætir lundinn aftur í milljónatali.

Það eru 3 málefni sem eru sérstaklega í umræðunni hér í Eyjum sem mig langar að koma aðeins inn á. 

Nr. 1 Minnisvarði um gosið 1973

Ef ég skil málið rétt, þá var það fyrrum forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sem átti hugmyndina amk að einhverju leyti og setti einhverja fjármuni í þetta fyrir hönd ríkisins, en eyjamenn verða síðan að borga rest, en hver þessi rest verður er kannski einmitt stóra spurningin. En nú erum við bæði með hraunið, Eldfellið og Eldheima og ég set því stórt spurningamerki við það að fara að setja einhverja fjármuni í þetta, en það fer þá að sjálfsögðu hvað það á að kosta og hvað það á að gefa okkur?

Nr. 2 Hitalagnir og gerfigras á Hásteinsvelli

Þarna er komið annað mál sem mér finnst ofboðslega skrýtið allt saman vegna þess, að þegar þessi liðlega hálfa knattspyrnuhöll var byggð fyrir ekkert svo löngu síðan, þá var alltaf talað um það, að síðar meir væri þá hægt að klára höllina og koma þar fyrir alvöru keppnisvelli, en nú talar enginn um það lengur, en þar sem ég er svo heppinn að hafa fengið að upplifa alla þá risastóru sigra sem við eyjamenn höfum svo sannarlega átt á Hásteinsvelli, þá hefði ég nú helst viljað halda honum eins og hann hefur alltaf verið, mín skoðun.

Nr. 3 Hótel og sjávarböð í hrauninu austan við Skansinn

Ég fór nú ekki sjálfur á kynningarfundinn um þetta, en lenti á spjalli við nokkra sem mættu og sitt sýnist hverjum. En það sem ég hefði viljað sjá gerast ef af þessu verður, þá liggur fyrir að hér í Eyjum var stofnað lítið fyrirtæki fyrir nokkrum árum síðan með það að markmiði að kanna möguleikann á að framleiða raforku með því að nýta sjávarföllin til þess. Ég hefði viljað sjá það verkefni og þetta vinna saman og gera þar með hótelið hugsanlega að hóteli sem, á allan hátt, væri rafvætt með orku framleiddri úr hafinu við Eyjar og þar með hef ég komið því á framfæri. 

Við lifin á átaka tímum og, ef það er eitthvað sem ég vildi að ég gæti óskað mér á nýju ári, þá er það að þau mál myndu leysast farsællega á nýju ári.

Óska öllum eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs og takk fyrir það gamla.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hin ljúfsáru jól

Svolítið sérstök jólin hjá okkur í ár, en þann 17. desember sl. var bróðir eiginkonunnar, Ólafur Guðmundur Unnar Tórshamar, borinn til grafar, en konan mín var einmitt í heimsókn hjá honum á sínum tíma þegar við kynntumst, en Óli bjó þá á Heiðarveginum og vann í Vinnslustöðinni fyrir 35 árum síðan, en hann hafði átt við erfið veikindi síðustu mánuði. Hann bjó í Noregi og lést þar. 

En á fimmtudaginn þann 19. mætti ég í jarðarförina hjá honum afa mínum sem ég var skýrður eftir, I. Georg Ormsson. Þeir sem eldri eru þekkja kannski til sögunnar af því þegar skipið Surprise strandaði við Landeyjasand, en afi var einn af þeim sem keyptu flakið og vann við það árum saman að hirða allt hirðanlegt úr því. En í minningunni, þá sé ég alltaf afa fyrir mér þegar ég og frúin fórum í árgangagönguna á Ljósanótt í Reykjanesbæ, en við endann á göngunni stóð þessi glæsilegi maður í síðum frakka og með kúrekahatt á höfði, lang elstur, en afi lést 102 ára gamall og eitthvað segir mér að það sé orðið ansi fjörugt hinu megin, sennilega sest við spilaborðið með ömmu og kæmi mér ekkert á óvart þó að pabbi og Inga Rósa systir fengu að vera með.

Einn af föstu liðunum fyrir jólin er að renna yfir myndir af látnum eyjamönnum í blaðinu Fylki. Munurinn núna og fyrir kannski 30 árum síðan er að þá þekkti maður kannski bara örfáa, en í dag þekkir maður nánast alla en eins og svo oft áður, þá eiga margir um sárt að binda eftir ástvina missi og ekki hvað síst þeir sem misst hafa nána ættingja á besta aldri, en svona er víst gangur lífsins og stundum kemur það fyrir að það kitlar mann aðeins smá spenningur yfir því plássi sem bíður mín í næsta lífi, en vonandi eru nokkur ár í það a.m.k.

Óska öllum eyjamönnum og landsmönnum gleðilegra jóla.

 


Suðureyjargöng (Færeyjar) vs. Heimaeyjargöng

Nú liggur fyrir að nefnd, sem skoða á möguleikann á göngum milli lands og Eyja, er að skila af sér en mér finnst dapurlegt að lesa, og þá sérstaklega greinar eftir frambjóðendur sem setið hafa í ríkisstjórnarmeirihluta s.l. 7 ár og eru í flokkum, sem m.a. hafa haft undir höndum innviðarráðuneytið og ætla núna, rétt fyrir kosningar að fara að lofa göngum. Ekki mjög trúverðugt, að maður tali nú ekki um þá staðreynd að í sumum tilvikum eru þetta flokkar sem hugsanlega eru ekki að ná manni á þing.

En hvernig er samanburðurinn við frændur okkar í Færeyjum?

Nú liggur fyrir að hafinn er undirbúningur að því að gera göng milli Sandeyjar og Suðureyjar, eða 22,8 km löng og er áætlað að göngin þurfi að fara niður á 180 m dýpi og muni kosta einhverstaðar á milli 80-100 milljarða íslenskra króna, en í Suðurey búa ekki nema innan við 5000 manns, eða svipað og hér í Eyjum, en í dag er Suðurey þjónustuð af ferjunni Smyril sem fer 2-3 ferðir á dag milli Suðureyjar og Tórshavn, en vegalengdin er svipuð og á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafna, en Smyril gengur liðlega 20 mílur. Vegalengdin á milli Heimaeyjar og lands er ca. 18 km og myndi því göng að öllum líkindum kosta einhverstaðar á milli 60 og 70 millarða, en það er enginn vafi á því að þau myndu borga sig upp á nokkrum árum eða áratugum.

Svolítið sérstakt að hugsa til þess að frændur okkar í Færeyjum með aðeins liðlega 50 þúsund íbúa skuli fara létt með það að gera hver göngin á eftir öðrum og fjármagna það sjálfir, á meðan hér gerist eiginlega ekki neitt en samt erum við ca. 8 sinnum fleiri heldur en Færeyingar. 

Ég ætla því að nota þetta tækifæri og skora hér með á frambjóðendur í suðurkjördæmi að hætta að tala um göng, en lofa þess í stað að þeir munu beita sér fyrir því að klára fjármögnun á rannsóknum á hugsanlegum göngum og taka svo framhaldið eftir það.


Hættur í Flokki fólksins

Það er svolítið sérstakt að vera ekki í kosningaslag núna en eftir rúmlega 3 ár í Flokki fólksins, en ástæða fyrir brotthvarfi mínu úr flokknum má rekja til nokkurra atburða sem áttu sér stað bæði fyrir síðustu kosningar sem og á kjörtímabilinu, en byrjum á síðustu kosningum.

Margir af mínum dyggustu stuðningsmönnum höfðu áhyggjur af því, hvernig ég ætti að fylgja eftir stefnu og skoðunum mínum í sjávarútvegsmálum ef ég yrði ekki þingmaður, vegna þess að leiðtogi framboðsins þá sem og núna, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, hefur afar lítið vit á íslenskum sjávarútvegi. Úr þessum pælingum varð síðan loforð þar sem Ásta Lóa lofaði því að ég myndi leysa oft og reglulega af ef við næðum bara einum þingmanni. 

Sumir stuðningsmanna minna sögðu hins vegar við mig, hvað ætlar þú að gera ef hún stendur ekki við það?

Úr því varð loforð, þar sem ég lofaði því að hætta í flokknum ef ekki yrði staðið við það sem mér var lofað. 

Í kosningabaráttunni sjálfri fannst mér Ásta Lóa í raun og veru vinna gegn því að við næðum tveimur þingmönnum, sem og varð, þá vantaði okkur liðlega 200 atkvæði til að fá 2 þingmenn.

Efir kosningarnar, þar sem Ásta Lóa var orðin þingmaður okkar sunnlendinga en er íbúi í Garðabæ, þá fór ég að senda reglulega á hana í skilaboðum alltaf þegar eitthvað var að gerast í kjördæminu, sem mér fannst að hún ætti að vita og þá hugsanlega koma á framfæri athugasemdum á þinginu, en eftir nokkra mánuði, þá hafði hún samband við mig og bannaði mér að senda svona efni á sig vegna þess, að hún hefði einfaldlega ekki tíma til að sinna einhverju öðru en því, sem hún var að sinna á Alþingi. Þetta pirraði mig alveg rosalega mikið, en já, ég leysti af í viku vorið 2022 og fékk mikið lof frá mínu fólki fyrir það sem ég talaði um þar. Í framhaldinu bjóst ég að sjálfsögðu við að frá frekari afleysingar veturinn þar á eftir, en aldrei kom símtalið.

Það var svo komið fram yfir áramót þegar ágætur vinur minn af höfuðborgarsvæðinu hafði samband við mig og spurði: af hverju ertu ekki á þingi núna, því þingkonan er í fríi erlendis og þing í gangi?

Ég ákvað að hringja í Ástu Lóu, en fékk bara ansi loðin svör um það, að þetta hefði verið óvænt ferðalag og hafði ekki gefist tími til að kalla í varamann. 

En veturinn leið sem sagt án þess að ég fengi kallið og það var ekki fyrr en í lok júní sumarið 2023 sem Ásta Lóa kom og hitti mig niðri á bryggju, ekki til að heilsa uppá, heldur til að tilkynna mér það að loforðið sem hún gaf um afleysingar, væri loforð sem hún gæti ekki staðið við, vegna þess að hún hefði ekki efni á því. Mér fannst þetta mjög sérstakt í ljósi þess að hún fór amk 3 ferðir erlendis þetta árið.

Ég stend að sjálfsögðu alltaf við það sem ég lofa, svo ég fór hringinn meðal stuðningsmanna minna og tilkynnti þeim að ég hygðist þá segja mig úr flokknum vegna þessara vanefnda, en þá brá svo við, að flestir þeirra spurðu mig hvort ég væri búinn að ræða þetta við Ingu Sæland og báðu mig að fresta málinu amk fram að því. Á fund Ingu fór ég í lok nóvember það haust, ekki var ég allskostar sáttur við svörin sem ég fékk, en hún lofaði amk að ýta við þingkonunni þannig að hún færi nú amk að sýna einhvern áhuga á málefnum kjördæmisins, sem og gekk eftir því strax í vikunni eftir fundinn við Ingu, hafði þingkonan samband við mig og spurðist fyrir um hin ýmsu mál í kjördæminu, sem var bara mjög ánægjulegt, en þetta entist ekki lengi og strax um áramótin var allt komið í sama farið. 

Loka tilraun mín til þess að ræða við þingkonuna var í febrúar á þessu ári og hittumst við í kaffi í Reykjavík þar sem við ræddum ýmis mál, ekki ætla ég nú að hafa allt eftir sem við ræddum, en hún sagðist hreinlega ekki hafa tíma til að sinna kjördæminu betur vegna anna á Alþingi og tilkynnti mér líka að ef ekkert óvænt kæmi uppá, þá myndi ég ekki fá fleiri afleysingar á kjörtímabilinu. 

Efir að hafa rætt við stuðningsmenn mína, þá tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði mér að mæta á fyrirhugað landsþing Flokks fólksins, sem átti að vera í maí í vor (en var frestað) og segja mig svo úr flokknum eftir það. Það kom mér því gjörsamlega í opna skjöldu þegar ég var kallaður inn á þing í byrjun maí, þetta tímabil var mun erfiðara heldur en það fyrra, kannski eðlilega eftir allt það neikvæða sem hafði verið í gangi á milli mín og þingkonunnar, ég var því hálf fegin þegar mér var boðið að hleypa næstu manneskju að í júni og samþykkti það strax.

Um daginn, þegar ríkisstjórnin féll, heyrði ég í Ingu Sæland sem tilkynnti mér það, að þingmenn í hverju kjördæmi myndi sjá um sína lista. Ég gerði mér alveg grein fyrir því að ég væri ekki að fara að fá annað sætið hjá Ástu Lóu og þegar hún hafði samband við mig um miðja síðustu viku, hafði ég undirbúið mig aðeins fyrir það símtal, ma með því að ræða við stuðningsmenn, sumir sögðu að ég ætti að hætta strax, en aðrir að ég ætti að hætta ef hún byði mér neðar en annað sætið. Ég vildi hins vegar fá svör frá þingkonunni um þessi atriði sem ég hef nú þegar skrifað í þessari grein. Svörin komu mér ekki á óvart. 

Man ekki eftir að hafa sagt þetta, ég hef aldrei lofað þessu, ég hef aldrei sagt þetta og man ekkert eftir þessu. Og svo bauð hún mér 4. sætið.

Ég hafnaði því strax og í raun og veru, miðað við hvernig samtalið þróaðist, þá hefði ég heldur ekki tekið 2. sætið, enda kemur ekki til greina að fara í eitthvað framboð með manneskju sem maður treystir ekki og stendur ekki við það sem hún lofar. En í dag hef ég einnig sagt mig úr flokknum.

En að gefnu tilefni, þá vil ég taka það alveg skýrt fram, að mínu mati hefur Flokkur fólksins staðið sig alveg afburða vel á þingi, átt flest þingmálin og unnið ötullega að öllum sínum stefnumálum. Sama má að vissu leyti segja líka um Ástu Lóu, hún hefur staðið sig afburða vel í skuldamálum heimilina sem og vaxtarmálum.

Ég er því EKKI að setja þetta fram sem einhverja gagnrýni á Flokk fólksins, heldur fyrst og fremst að standa við loforð mitt, að útskýra fyrir mínu fólki, hvers vegna ég ákvað að hætta í Flokki fólksins. 

Ég efast ekkert um það að Flokkur fólksins fær örugglega mjög góða kosningu, enda unnið fyrir því.

Fyrir mitt leyti hins vegar, þá mun ég að öllum líkindum ekki kjósa flokkinn í komandi kosningum, en óska mínum fyrri félögum alls hins besta í kosningunum og þakka um leið öllum þeim sem stutt hafa mig í þessari vegferð, en ég vil líka taka það fram að gefnu tilefni, að ég muni aldrei útiloka það að taka þátt í einhverju framboði þar sem að möguleiki er á að hafa einhver áhrif og sem dæmi, að þá var engin sjávarútvegsstefna hjá Flokki fólksins fyrir síðustu kosningar, nema þetta litla sem ég kom þar inn sem var frjálsar handfæraveiðar, en fyrir þessar kosningar muni að öllum líkindum flestir trillukarlar á landinu kjósa Flokk fólksins, enda eini flokkurinn með alvöru sjávarútvegsstefnu, samanber frábæra ræðu Ingu Sælands hjá Landssambandi smábátaeigenda núna fyrir helgi. 

En takk fyrir mig allir.


Lundasumarið 2024

Ég hafði velt því fyrir mér að undanförnu, hvort ég ætti kannski að gera bara upp sumarið með því að setja inn nokkur myndbönd af þúsundum lunda í fjöllum og úteyjum í sumar og með þessu eina orði: Takk.

En að sjálfsögðu þarf ég að koma að ýmsu öðru. Lundasumarið var alveg frábært og lundinn mætti í milljóna tali. Sumir hafa velt því upp hvar hann hafi haldið sig síðustu árin og hvort hann sé kannski að koma að norðan, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það sé alls ekki svo, enda liggja engar sannanir fyrir um það. 

Í apríl, undanfarin ár þegar lundinn sest upp, hef ég haft það fyrir vana að óska mér þess að við færum nú að sjá meira af þessum lunda, sem klárlega væri til miðað við pysjufjöldann hér í Eyjum síðustu árin og í ár gekk þetta allt upp. Hér var allt vaðandi í æti nú í sumar og gríðarlegt magn af lunda fylgdi því, sem og aðrar fuglategundir. Ég hef t.d. aldrei nokkurn tímann séð annað eins magn af teistuungum og verið hefur hér í höfninni í sumar og bara gaman að því.

Því var spáð að hér gætu orðið allt að 10.000 bæjarpysjur og ég held að það hafi alveg örugglega gengið eftir, þó svo að talningin í Sealife sé helmingi lægri, þá er náttúrulega enginn hvati fyrir fólk til þess að fara með eða skrá pysjurnar. Óvenju mikið var líka um útlendinga á pysjuveiðum hér í ágúst og síðan voru ljósin á Heimakletti látin loga allan pysjutímann, sem að í flestum tilvikum hefði þýtt hundruð dauðra lundapysja, en í ár var pysjan einfaldlega það vel gerð að það var hægt að fylgjast með henni taka æfingaflugið hring eftir hring inni á höfn og fljúga síðan í burtu.

En árið í ár var frábært og ég man ekki eftir svona miklum lunda síðan um miðjan ágúst 2005, en það var einmitt fyrsta sumarið sem var afar lélegt og lítið af lunda nema byggðafugl að sjá, allt að þangað til einmitt um miðjan ágúst, þegar hér mætti gríðarlegt magn af lunda og sennilega meira heldur en við sáum í sumar, en þetta er bara skemmtilegt.

Ég hef tekið samtal við marga veiðimenn í sumar og sumir eru á því að lundastofninn hafi í raun og veru náð fullri stærð, miðað við þegar ástandið var sem best og nefnt þá ástæðu að það sé einfaldlega svo lítið veitt og að vissu leiti get ég tekið undir það, en ég held samt að það þurfi amk 1-2 ár með svona miklu æti hér við Eyjar, til þess að lundastofninn nái aftur fullri stærð, en þar sem makríllinn er nú horfinn þá er að öllum líkindum ekki langt í það og ég heyri það á sumum veiðimönnum, að í sumum veiðifélögum sé þetta orðin spurning um hverjir eigi að veiða fuglinn, sennilega munum við aldrei fara í það að veiða það magn sem veitt var hér á árum áður, en þó er aldrei að vita. Við hér í veiðifélaginu á Heimaey erum með þó nokkuð af ungum veiðimönnum, en sjálfur prófaði ég það í sumar að bera 70 fugla upp úr Kervíkurfjallinu og ég held að ég verði bara að viðurkenna, að sá tími, þar sem maður veiddi 3-400 lunda og bar kannski 120 í ferð, er bara liðin tíð, en það var frábært að komast m.a. upp í Heimaklett og háfa nokkra fugla þar og mikið af ungfugl.

Það eru að verða liðnir 2 mánuðir síðan að veiðitímabilinu lauk og skilaboðin sem ég hef verið að fá, alveg frá fyrsta veiðidegi, svona 5-6 sinnum á dag niður í 1 annan hvern dag um það hvort ég geti reddað nokkrum lundum eru orðin ansi mörg og neiin eftir því, enda fór ég bara í lunda fyrstu 3 dagana og lét það gott heita, en ótrúlega margir eyjamenn hafa spurt mig að undanförnu út í það, hvaða rétt fólk sem býr hérna og er alið upp á lunda, en á engan rétt eða jafnvel hefur ekki getu til þess að sækja sér í soðið sjálft. Ég hef átt svolítið erfitt að svara þessu og ætla því að svara þessu hér:

Í sumar sá ég aðeins einn veiðimann auglýsa lunda til sölu á facebook, en sá aðili hafði þá þegar sótt sér lunda til vina okkar norður í Grímsey. Ekki veit ég á hvaða verði þessi aðili var að selja lundann, en ég ætla að nota þetta tækifæri og skora á Helliseyinga, sem eru með lundaballið á næsta ári, að taka upp hinn gamla góða sið sem var hér á meðan fréttablaðið Dagskrá var gefið út á sínum tíma og birta í byrjun maí verð á eggjum og lunda, en aðeins þannig er hægt að koma í veg fyrir að einhverjir óprúttnir aðilar séu að pranga inn á fólk lunda á einhverju okur verði.

Nú hefur verið tekin ákvörðun um það, að stóra lundaballið verður haldið 16. nóvember n.k. Svolítið seint, klárlega, en fyrir því eru að sjálfsögðu margar ástæður, en miðað við þann langa lista af listamönnum sem mér skilst að sé nú þegar búið að bóka, þá verður þetta algjör veisla.

Takk fyrir sumarið.


40 ára tilraun sem mistókst

Nýtt kvótaár hófst í dag og mér varð hugsað til þess, að þegar kvótakerfið var sett á 1984 þá var ég aðeins 19 ára gamall og ekki byrjaður í útgerð og kannski má að mörgu leyti segja að stærsta vandamálið við að breyta þessu fáránlega kvótakerfi sé einmitt unga fólkið í dag sem einfaldlega skilur þetta ekki. En já, kvótakerfið var sett á 1984 og þá m.a. vegna loforðs fiskifræðinga um, að ef farið væri eftir þeim í 3 ár, þá yrðum við að þeim tíma liðnum farin að veiða 400-500 þúsund tonn af þorski á hverju ári, en eins og svo sem allir vita þá hefur þetta aldrei tekist, en til þess að viðhalda þessu kvótakerfi var tekin sú ákvörðun árið 1990 að leyfa frjálst framsal á aflaheimildum og svolítið sérstakt að hugsa til þess, að á þeim tíma var aðeins 1 stjórnmálaflokkur sem greiddi atkvæði gegn þessari tillögu á þingi og það var Sjálfstæðisflokkurinn, en margt hefur breyst síðan þá. 

Eftir 1999 hinsvegar, hefur rignt inn allskonar tegundum í kvóta til þess eins að hagsmunaaðilar gæti notað þær í tilfærslur. 

Það er talið að fjárhagslegt tjón þjóðarinnar sé uþb 100 milljarðar á ári vegna kvótakerfisins, en það er fyrir utan það tjón sem orðið hefur vegna fáránlegra vinnubragða Hafró, sem að meira að segja sumir í stórútgerðinni eru farnir að tala um og má þar t.d. nefna síðustu 2 loðnuvertíðar, en þar úthlutaði Hafró loðnukvóta sem aldrei veiddist nema að hluta til og margir loðnusjómenn tala um að það hafi í raun og veru ekki verið til í hafinu, enda hefur ekki verið úthlutað loðnu síðan þá með tilheyrandi tjóni fyrir land og þjóð og svolítið sérstakt að Hafró þurfi ekki að bera neina ábyrgð af sínum útreikningum, en um leið líka svolítið mikilvægt að hafa í huga að það er að sjálfsögðu ráðherra sem tekur endanlega ákvörðun um hvað megi veiða og þó að ráðherrar undanfarinna ríkisstjórna hafi því miður vanið sig á að fela sig á bak við ráðgjöf Hafró, þá bera þeir samt ábyrgðina. 

En hvernig var þetta fyrir daga kvótakerfisins?

Í dag heitir sjávarútvegsráðherra matvælaráðherra og fer bæði með málefni sjávarútvegs og landbúnaðar, en fyrir daga kvótakerfisins vorum við með sérstakan sjávarútvegsráðherra sem ferðaðist um landið, ræddi við sjómenn og skipstjóra í hverju landshorni og tók síðan ákvörðun í samráði við þá sem unnu við að veiða fiskinn og þekktu fiskimiðin. Árangurinn var líka sá, að þá veiddum við helmingi meira heldur en í dag. Vissulega á mun fleiri skipum, en þessi hagræðing í sjávarútvegi hefur svo sannarlega kostað mörg sjávarþorpin lífið.

Ég horfði á ágætan þátt um sjávarútvegsmálin um daginn, þar sem í viðtali voru nokkrir skipstjórar sem starfað höfðu um og yfir 50 ár á sjó og höfðu frá ýmsu að segja, en allir voru þeir þó sammála um eitt, að í dag er gríðarleg uppsveifla í þorskstofninum á Íslandi en við erum ekki að nýta okkur það og enginn þeirra skilur vinnubrögð Hafró, ráðgjöf Hafró eða þetta svokallaða togararall Hafró sem engu skilar, eins og marg hefur verið sýnt fram á.

Reyndar svolítið sérstakt líka að lesa ályktun SFS um makrílrannsóknir Hafró, en samkvæmt mælingum Hafró hefur makrílstofninn minnkað um liðlega helming í íslenskri lögsögu, en samkvæmt ályktun SFS er ekkert að marka það vegna þess að þetta sé stofn sem sé flökkustofn, en spurningin er, eru ekki allir fiskistofnar meira og minna flökkustofnar sem færa sig til eftir æti, t.d. tala sjómenn á vestfjörðum mikið um það þegar grænlandsþorskurinn gengur inn á miðin og svo aftur til baka, en það hefur hins vegar aldrei verið mælt af Hafró og þeir í raun og veru hafnað því að þetta sé til. Pínu sérstakt.

Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs nýs fiskveiðiárs.

 


Er niðurstöðum Hafró hallað?

Ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu niðurstöðu Hafró varðandi tillögur þeirra um heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár og ég er eiginlega furðu lostinn af því, að enginn fréttamaður hafi kveikt á því hversu furðuleg ráðgjöfin er og ef við horfum á aðra sérfræðinga í öðrum stéttum, þá sjáum við t.d. veðurfræðinga vera oft í vandræðum með að spá 3 daga fram í tímann og oft stenst ekki einu sinni sú spá.

Við sáum líka í vetur alla helstu jarðeðlis- og eldfjallasérfræðinga vera komna í hár saman yfir því, hver þróunin yrði í jarðhræringunum í Grindavík, en hér er hins vegar Hafró búið að gefa út áætlaðan þorskkvóta, ekki bara fyrir næsta fiskveiðiár, heldur næstu 3 árin. Ótrúlegt að engir fréttamenn skuli fjalla um þetta.

Mín skoðun er hins vegar sú, að Hafró viti í raun og veru ekkert um stöðu fiskistofnana á Íslandsmiðum og þetta svokallaða togararall sé í raun og veru einhvers konar fálm í myrkri, sem aldrei skili neinu öðru en tilviljanakenndri niðurstöðu, enda segir það sig svolítið sjálft að það að toga á ákveðnum stað á ákveðnum tíma á hverju ári gefur einfaldlega bara þá mynd um hver staðan er á slóðinni á þeim tíma þegar togað er. Ef togað væri viku síðar fengist að sjálfsögðu allt önnur niðurstaða. Einnig verður að hafa í huga að togararallið er alltaf á þeim tíma, amk sum árin, þegar allt er vaðandi í loðnu og fiskurinn því allur uppi í sjó að éta og því algjör tilviljun, hvort að hann steypi sér niður á þeim tíma sem togað er eða ekki.

Gullkarfi. Ráðgjör Hafró varðandi gullkarfann síðustu 6 árin er gott dæmi um það, hversu algjörlega mislukkað þetta togararall er. Fyrir 6 árum síðan átti á þriggja ára tímabili sér stað mikill niðurskurður á gullkarfa, þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir frá togaraskipstjórum og nú er búið að leiðrétta niðurskurðinn því síðustu 3 árin er búið að auka kvótann í gullkarfa umfram það sem hann var skorinn niður hin fyrri 3 árin, en í rökum Hafró kemur þetta fram:

Að árgangar gullkarfa 2000-2007 eru sagðir uppistaða gullkarfaaflans 2023, en að árgangar frá árunum 2009 séu metnir slakir.

Svo spurningin er því þessi: 

Hefði því gullkarfakvótinn ekki átt að vera meiri fyrri hluta þessara 6 ára, heldur en þessa seinni hluta fyrst að nýliðun í gullkarfa er léleg frá 2009, þeas ef eitthvað er að marka ráðgjöf Hafró.

Afleiðingar

Í sögulegu samhengi er og hefur þorskstofninn á Íslandi sennilega aldrei verið stærri, það sýna aflatölur allt  í kringum landið, það er einfaldlega allstaðar þorskur, en þar sem við fáum ekki að veiða hann, þá gef ég mér það að ráðherra muni gera eins og fyrirrennarar hennar og fara algjörlega að ráðgjöf Hafró.

En hvað kostar þetta okkur? Fyrir okkur hér í Vestmannaeyjum verður þetta að óbreyttu mikið högg, því að til þess að fæða á aðra milljón tonna af þorski allan ársins hring þá er augljóslega, að öllu óbreyttu, hægt að gleyma öllum loðnuveiðum. Sama gildir um humarveiðar og ömurlegt að horfa upp á myndbönd hjá mönnum sem eru að rista upp stórþorsk, sem er fullur af smáþorsk víða um land.

Áfallið er því mikið. Þetta þýðir líka það að strandveiðar eru í uppnámi og þá sérstaklega ef að spár Hafró rætist um niðurskurð á þorskkvótum eftir næsta fiskveiðiár. Kvótasetning á grásleppu mun klárlega fjölga þeim bátum sem neyðast til þess að fara á strandveiðar, enda mun Hafró gera það sama og þeir hafa alltaf gert við kvótasetningu á nýrri tegund, skera hana verulega niður. Margir munu því selja, enda snérist þetta bara um peninga hjá flestum sem börðust fyrir grásleppu í kvóta og fleiri þorpum mun blæða út í framhaldinu.

En hvers vegna er þetta svona?

Í fjölda mörg ár hef ég heyrt sögur um það að Hafró sé í raun og veru stjórnað af stórútgerðinni og flest vitum við að stjórn Hafró er jú skipuð fulltrúum hagsmunaaðila, en sjálfur hef ég átt svolítið erfitt með að trúa því að þetta sé þannig, en að undanförnu hef ég horft á nokkra ágæta þætti á samstöðinni sem vinur minn, Grétar Mar, er með um sjávarútvegsmál. Nú nýlega voru 2 þættir þar sem hann fékk í sitthvoru lagi einn af æðstu stjórnendum Hafró í settið. Margt var nú skrýtið við málflutning fulltrúa Hafró, en mig rak á rogastans þegar ég heyrði báða þessa aðila tala um það, hversu mikilvægt það væri fyrir Íslenskan sjávarútveg að vera með þessa vottun um sjálfbærni til þess að hagsmunaaðilar fengu nú hæstu verðin fyrir afurðirnar, sem og mikilvægi þess að tryggja afkomu og stöðugleika hjá hinum stærstu útgerðum. Að sjálfsögðu var þeim báðum bent á, að Hafró ætta að sjálfsögðu fyrst og fremst að vera að rannsaka stöðu fiskistofnanna, en ekki hvað hagkvæmast væri að veiða fyrir stórútgerðina.

Reyndar var mjög sérstakt í einum þættinum að þar kom fram að í viðtali rétt fyrir aldamótin 2000 við þáverandi formann LÍÚ, Friðrik J. Arngrímsson, tjáði hann sig um það, að sennilega væri hagkvæmast fyrir stórútgerðina að aflaheimildir í þorski væru bara svona ca.+/- 200 þúsund tonn og merkilegt nokkuð, þannig hefur þetta verið síðan þá. Gallinn er bara sá, að þetta kostar okkur þjóðina amk 100 milljarða í tapaðar tekjur á hverju einasta ári.

Niðurstaða

Niðurstaða mín í þessu er því óhjákvæmilega sú að sennilega væri skynsamlegast að leggja Hafró niður í núverandi mynd og taka upp sambærilega aðferð við að mæla fiskistofnana og norðmenn nota t.d. En að óbreyttu eru bara mjög erfiðir tímar framundan í íslenskum sjávarútvegi og lengi getur vont versnað.

 


Hver er flóttaleið Eyjamanna?

Það var ýmislegt rætt á tíma mínum á Alþingi í síðasta mánuði, en margt miklu fleira sem ég hefði viljað koma á framfæri og koma að en vonandi kemur það síðar.

Ég náði þó að halda ræðu um málefni Grindvíkinga sem og þetta fáránlega kvótakerfi, en eftir að tíma mínum á þingi lauk núna í maí, þá sat ég svolítið uppi með þessa spurningu sem kemur fram í fyrirsögninni, en í einum matmálstímanum lenti ég á spjalli við Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðing, sem einmitt spurði mig þessara spurningar um leið og hann heyrði að ég væri frá Vestmannaeyjum.

Ég rifjaði upp að 1973 veit ég að hugmyndin var sú, að ef innsiglingin til Heimaeyjar myndi lokast þá stóð til að rjúfa Eiðið. Sem betur fer kom ekki til þess, en staðan í dag er hins vegar þannig að nú er búið að byggja svo mikið á Eiðinu að sá möguleiki er ekki lengur, að því að ég veit best, í boði og að sjálfsögðu vonar maður það svo sannarlega að maður eigi aldrei eftir að upplifa eldgos aftur hér í Eyjum, en spurningin frá Þorvaldi vísaði að sjálfsögðu til þess að  sprungan sem gosið 1973 kom á, liggur frá Surtsey, austanmegin á Heimaey og alla leið upp í Eyjafjallajökul og hann tók sem dæmi ef það kæmi nú t.d. gos og hér myndaðist sprunga sem næði hugsanlega alla leið frá flugvellinum og austur fyrir Klettsnef og hver flóttaleiðin væri ef höfnin lokaðist bara á einum sólarhring. Mitt svar í þessum matartíma var nú bara þannig að ég veit einfaldlega ekki til þess að það sé til nein flóttaleið og sennilega yrði maður bara að flýja upp í fjöll.

Ég hef verið að velta þessu aðeins fyrir mér að undanförnu, því að nú liggja fyrir hugmyndir um að gera stórskipaviðlegukant til móts við Klettsnefið, sem klárlega yrði heldur aldrei nein flóttaleið. Mér hefur reyndar verið sagt að sú hugmynd byggist á einhverjum pælingum um það að það þurfi að koma nýtt gámasvæði tengt uppbyggingunni hjá Laxey austur á eyju, en mér hefur líka verið bent á það að þó svo að gámaflutningar í gegn um miðbæinn okkar sé nú ekki heppilegt, þá væri nú svo sem kannski ekkert mikið mál, ef þetta væri eitthvað mikið magn, að keyra því bara að næturlagi, en það er einmitt mín skoðun og hefur verið það lengi, að stórskipaviðlegukantur fyrir Eiðinu sé lang heppilegasti staðurinn og sú staðsetning væri því þá að sjálfsögðu flóttaleið.

Nú veit ég ekki hvort að þetta mál hafi verið rætt hér hjá bænum eða í Almannavarnarráði og mig langar því að framlengja þessa spurningu til þeirra sem þar sitja og væri forvitnilegt að vita það, hvort að hér sé einhver flóttaleið ef allt færi á versta veg og ég trúi eiginlega ekki öðru en að hér sé amk einhverskonar B-plan.

Vonandi eru amk 1000 ár í næsta gos, en það breytir ekki því að eitthvað hlýtur þetta mál að hafa verið skoðað og ef við skoðum þetta eins og þetta lítur út t.d. hjá vinum okkar í Grindavík, þá eru 2 vegir inn í bæinn lokaðir núna út af síðasta gosi, en þeir eiga samt eftir Suðurstrandarveg og höfnina, en hér í Eyjum, eftir því sem ég veit best, höfum við bara höfnina.

Ég ræddi þetta lauslega í þingflokknum og mér var bent á að þetta mál myndi sennilega falla undir dómsmálaráðherra.


Gleðilegt sumar 2024

Lundinn settist upp þann 17. sem er í samræmi við venjuna, sem er ca. 13.-20. apríl. Reyndar hafði ég ekkert kíkt eftir honum áður enda var mjög kalt og þann 16. voru fjöllin hvít af snjó, en lundinn er nú harður af sér og getur vel verið að hann hafi komið eitthvað fyrr, en ég frétti af honum fyrst á sjónum við Eyjar 13. apríl. 

Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og táknar fyrir mig komu sumars, reyndar munum við sjá að öllum líkindum af lunda fyrstu dagana eftir að hann kemur, enda held ég að þetta sé aðallega fullorðni fuglinn sem kemur fyrst og er því upptekinn af því að hreinsa og grafa út holurnar sínar. 

Í vetur hef ég ótrúlega oft lent í spjalli um málefni tengd lundanum hér í Eyjum og þá fyrst og fremst um skýrslu Erps frá því í fyrra vor, tek það fram að ég hef ekki lesið hana sjálfur, en mér er sagt að í henni komi fram að Erpur telji að afladagbækur í úteyjum séu rangar og að veiðin sé í raun og veru miklu meiri heldur en gefið er upp, ótrúlegt ef haft er í huga að í sumum úteyjum ná afladagbækur alveg aftur á miðja síðustu öld og hafa margir verið mjög heitt í hamsi út af þessu hjá honum og það hefur verið nefnt við mig að réttast væri að leggja niður Náttúrustofu suðurlands, en það er þá eitthvað sem heyrir þá algjörlega undir Vestmannaeyjabæ.

Það sem mér er kannski efst í huga núna er bæði þessar ályktanir frá óbyggðanefnd varðandi fjöllin og úteyjarnar í Vestmannaeyjum og vill ég nota tækifæri og lýsa yfir ánægju með framgöngu bæjarstjórnar Vestmannaeyja, en mestar áhyggjur hef ég af stöðunni í lífríkinu við Vestmannaeyjar og þá sérstaklega í hafinu og svolítið sérstakt að hugsa til þess að fyrrum forstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Páll Marvin Jónsson, reyndi á sínum tíma að ná samningum við ríkið um að ríkið fengi yfirráðarétt yfir fjöllunum hér gegn því að Þekkingarsetrið fengi einhverja fjármuni frá ríkinu, en sem betur fer tókst að stöðva það mál, en nú ætlar núverandi forstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Hörður Baldvinsson, að fara á fullt með þetta verkefni sitt að veiða rauðátu og það með stuðningi Hafró sem, ef ég skil málið rétt, ætlar að leggja til togara í verkefnið. Mjög sérstakt allt saman þegar haft er í huga að sáralítið sást af loðnu hérna á vertíðinni og lítil eða engin veiði hefur verið utan við 12 mílurnar, sem hlýtur að teljast óeðlilegt, en ætti að vera ef nóg æti væri á slóðinni en hafa verður í huga að allt sem við tökum úr hafinu hefur áhrif á lífríkið og þegar æti skortir, þá byrjar það fyrst að sjást á fuglastofninum, en vonandi verður þetta í lagi.

Það sást mikið af lunda þann 17. Vonandi verður mikið af lunda hér í sumar og vonandi mikið af pysju í haust.

Gleðilegt lunda sumar allir.

 


Framtíðarsýn

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um hugsanlegar breytingar á Vestmannaeyjahöfn, bæði við Löngu og austur í Brimnesfjöru með garði út fyrir Klettsnef, á fésbókinni og fékk ég fyrir nokkru síðan þá spurningu hver mín framtíðarsýn væri á þessum svæðum sem og öðrum sem tengjast höfninni. 

Að mörgu leyti skil ég vel þá skoðun sumra að vilja ekkert inni í Löngu, sem og ekki heldur í Brimnesfjöru og að vissu leyti er ég algjörlega sammála ályktun Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja um það, að fjaran á móti Klettsnefinu sé nú kannski ekki heppilegasti staður fyrir gáma en um þetta má, og verður sjálfsagt deilt áfram, en sjálfur hef ég meiri áhyggjur af þessum varnargarði sem á að standa þarna til varnar innsiglingunni, en þar er sjólagið einmitt gríðarlega slæmt í austan brælum og ef ekki yrði gerður brimbrjótur austan við garðinn, þá yrði sá garður varla langlífur.

En hver er mín framtíðarsýn?

Ég hef alltaf séð fyrir mér uppbyggingu fyrir Eiðinu, stórskipaviðlögukant sem væri þá helst með tveimur viðlöguköntum fyrir skip allt að 3 til 400 m löng. Þar væri síðan hægt að taka á móti ferðamönnum sem færu þá í gegnum göngin, bæði gullna hringinn og austur í jökulsárlón og í raun og veru væri þetta að einhverju leyti hægt, þó að það væru ekki komin göng, enda hafa ferðamenn farið í dagsferðir í rútum með Herjólfi upp á land og þá kannski stoppa skipin aðeins lengur hér hjá okkur, enda dugar varla dagurinn til þess að skoða allt það sem er í boði hér í Eyjum. 

En hver er framtíðarsýn mín varðandi innsiglinguna?

Ég tel gámasvæði austur í Brimnesfjöru EKKI sniðuga hugmynd út af svo mörgum ástæðum t.d. vegna náttúruspjalla, einnig er ljóst að mikil vandamál myndu skapast ef flytja ætti alla gáma frá höfninni austur í Brimnesfjöru. Helsti kosturinn væri kannski þá, að það sem kæmi í framtíðinni frá Laxey þyrfti þá ekki að fara í gegnum bæinn, en mér finnst persónulega gallarnir við hugmyndina vera fleiri en kostirnir. 

Varðandi innsiglinguna sjálfa þá sé ég hana alltaf fyrir mér eins og hún er núna. Klettsnefið með iðandi fuglalífi og hraunið á móti, Klettsvíkin síðan með allri sinni fegurð og þegar innar kemur, Skansinn með þeirri uppbyggingu sem þar hefur þegar orðið og þar á víkinni, allur nýmálaður og skveraður Blátindur eins og þegar hann var hvað flottastur með jafnvel fallbyssu á hvalbaknum, enda var hann í einhvern tíma varðskip íslendinga og að sjálfsögðu væri flaggað á hverjum degi uppi í siglutré. Hugsanlega væri hægt að nota hann í eitthvað tengt ferðaþjónustunni eða jafnvel sem skólaskip, en aðal atriðið er kannski að þessi síðasti trébátur sem smíðaður var í Vestmannaeyjum væri sýnd sú virðing sem honum ber sem minnisvarði um það tímabil sem lagði grunninn að því samfélagi sem við búum í í dag.

Nú veit ég að minjastofnun sendi sérfræðing fyrir nokkrum árum síðan til þess að taka út Blátind og að skýrsla var gerð, þar sem mér er sagt að m.a. komi fram hugmyndir um bæði hvernig best væri að gera hann upp og eins, hvernig hugsanlega væri hægt að fjármagna það og að sú skýrsla sé til hér í Vestmannaeyjum. Gaman væri ef einhver væri til í að birta hana, virðingarfyllst. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband