Hver er flóttaleið Eyjamanna?

Það var ýmislegt rætt á tíma mínum á Alþingi í síðasta mánuði, en margt miklu fleira sem ég hefði viljað koma á framfæri og koma að en vonandi kemur það síðar.

Ég náði þó að halda ræðu um málefni Grindvíkinga sem og þetta fáránlega kvótakerfi, en eftir að tíma mínum á þingi lauk núna í maí, þá sat ég svolítið uppi með þessa spurningu sem kemur fram í fyrirsögninni, en í einum matmálstímanum lenti ég á spjalli við Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðing, sem einmitt spurði mig þessara spurningar um leið og hann heyrði að ég væri frá Vestmannaeyjum.

Ég rifjaði upp að 1973 veit ég að hugmyndin var sú, að ef innsiglingin til Heimaeyjar myndi lokast þá stóð til að rjúfa Eiðið. Sem betur fer kom ekki til þess, en staðan í dag er hins vegar þannig að nú er búið að byggja svo mikið á Eiðinu að sá möguleiki er ekki lengur, að því að ég veit best, í boði og að sjálfsögðu vonar maður það svo sannarlega að maður eigi aldrei eftir að upplifa eldgos aftur hér í Eyjum, en spurningin frá Þorvaldi vísaði að sjálfsögðu til þess að  sprungan sem gosið 1973 kom á, liggur frá Surtsey, austanmegin á Heimaey og alla leið upp í Eyjafjallajökul og hann tók sem dæmi ef það kæmi nú t.d. gos og hér myndaðist sprunga sem næði hugsanlega alla leið frá flugvellinum og austur fyrir Klettsnef og hver flóttaleiðin væri ef höfnin lokaðist bara á einum sólarhring. Mitt svar í þessum matartíma var nú bara þannig að ég veit einfaldlega ekki til þess að það sé til nein flóttaleið og sennilega yrði maður bara að flýja upp í fjöll.

Ég hef verið að velta þessu aðeins fyrir mér að undanförnu, því að nú liggja fyrir hugmyndir um að gera stórskipaviðlegukant til móts við Klettsnefið, sem klárlega yrði heldur aldrei nein flóttaleið. Mér hefur reyndar verið sagt að sú hugmynd byggist á einhverjum pælingum um það að það þurfi að koma nýtt gámasvæði tengt uppbyggingunni hjá Laxey austur á eyju, en mér hefur líka verið bent á það að þó svo að gámaflutningar í gegn um miðbæinn okkar sé nú ekki heppilegt, þá væri nú svo sem kannski ekkert mikið mál, ef þetta væri eitthvað mikið magn, að keyra því bara að næturlagi, en það er einmitt mín skoðun og hefur verið það lengi, að stórskipaviðlegukantur fyrir Eiðinu sé lang heppilegasti staðurinn og sú staðsetning væri því þá að sjálfsögðu flóttaleið.

Nú veit ég ekki hvort að þetta mál hafi verið rætt hér hjá bænum eða í Almannavarnarráði og mig langar því að framlengja þessa spurningu til þeirra sem þar sitja og væri forvitnilegt að vita það, hvort að hér sé einhver flóttaleið ef allt færi á versta veg og ég trúi eiginlega ekki öðru en að hér sé amk einhverskonar B-plan.

Vonandi eru amk 1000 ár í næsta gos, en það breytir ekki því að eitthvað hlýtur þetta mál að hafa verið skoðað og ef við skoðum þetta eins og þetta lítur út t.d. hjá vinum okkar í Grindavík, þá eru 2 vegir inn í bæinn lokaðir núna út af síðasta gosi, en þeir eiga samt eftir Suðurstrandarveg og höfnina, en hér í Eyjum, eftir því sem ég veit best, höfum við bara höfnina.

Ég ræddi þetta lauslega í þingflokknum og mér var bent á að þetta mál myndi sennilega falla undir dómsmálaráðherra.


Bloggfærslur 7. júní 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband