Lundasumarið 2024

Ég hafði velt því fyrir mér að undanförnu, hvort ég ætti kannski að gera bara upp sumarið með því að setja inn nokkur myndbönd af þúsundum lunda í fjöllum og úteyjum í sumar og með þessu eina orði: Takk.

En að sjálfsögðu þarf ég að koma að ýmsu öðru. Lundasumarið var alveg frábært og lundinn mætti í milljóna tali. Sumir hafa velt því upp hvar hann hafi haldið sig síðustu árin og hvort hann sé kannski að koma að norðan, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það sé alls ekki svo, enda liggja engar sannanir fyrir um það. 

Í apríl, undanfarin ár þegar lundinn sest upp, hef ég haft það fyrir vana að óska mér þess að við færum nú að sjá meira af þessum lunda, sem klárlega væri til miðað við pysjufjöldann hér í Eyjum síðustu árin og í ár gekk þetta allt upp. Hér var allt vaðandi í æti nú í sumar og gríðarlegt magn af lunda fylgdi því, sem og aðrar fuglategundir. Ég hef t.d. aldrei nokkurn tímann séð annað eins magn af teistuungum og verið hefur hér í höfninni í sumar og bara gaman að því.

Því var spáð að hér gætu orðið allt að 10.000 bæjarpysjur og ég held að það hafi alveg örugglega gengið eftir, þó svo að talningin í Sealife sé helmingi lægri, þá er náttúrulega enginn hvati fyrir fólk til þess að fara með eða skrá pysjurnar. Óvenju mikið var líka um útlendinga á pysjuveiðum hér í ágúst og síðan voru ljósin á Heimakletti látin loga allan pysjutímann, sem að í flestum tilvikum hefði þýtt hundruð dauðra lundapysja, en í ár var pysjan einfaldlega það vel gerð að það var hægt að fylgjast með henni taka æfingaflugið hring eftir hring inni á höfn og fljúga síðan í burtu.

En árið í ár var frábært og ég man ekki eftir svona miklum lunda síðan um miðjan ágúst 2005, en það var einmitt fyrsta sumarið sem var afar lélegt og lítið af lunda nema byggðafugl að sjá, allt að þangað til einmitt um miðjan ágúst, þegar hér mætti gríðarlegt magn af lunda og sennilega meira heldur en við sáum í sumar, en þetta er bara skemmtilegt.

Ég hef tekið samtal við marga veiðimenn í sumar og sumir eru á því að lundastofninn hafi í raun og veru náð fullri stærð, miðað við þegar ástandið var sem best og nefnt þá ástæðu að það sé einfaldlega svo lítið veitt og að vissu leiti get ég tekið undir það, en ég held samt að það þurfi amk 1-2 ár með svona miklu æti hér við Eyjar, til þess að lundastofninn nái aftur fullri stærð, en þar sem makríllinn er nú horfinn þá er að öllum líkindum ekki langt í það og ég heyri það á sumum veiðimönnum, að í sumum veiðifélögum sé þetta orðin spurning um hverjir eigi að veiða fuglinn, sennilega munum við aldrei fara í það að veiða það magn sem veitt var hér á árum áður, en þó er aldrei að vita. Við hér í veiðifélaginu á Heimaey erum með þó nokkuð af ungum veiðimönnum, en sjálfur prófaði ég það í sumar að bera 70 fugla upp úr Kervíkurfjallinu og ég held að ég verði bara að viðurkenna, að sá tími, þar sem maður veiddi 3-400 lunda og bar kannski 120 í ferð, er bara liðin tíð, en það var frábært að komast m.a. upp í Heimaklett og háfa nokkra fugla þar og mikið af ungfugl.

Það eru að verða liðnir 2 mánuðir síðan að veiðitímabilinu lauk og skilaboðin sem ég hef verið að fá, alveg frá fyrsta veiðidegi, svona 5-6 sinnum á dag niður í 1 annan hvern dag um það hvort ég geti reddað nokkrum lundum eru orðin ansi mörg og neiin eftir því, enda fór ég bara í lunda fyrstu 3 dagana og lét það gott heita, en ótrúlega margir eyjamenn hafa spurt mig að undanförnu út í það, hvaða rétt fólk sem býr hérna og er alið upp á lunda, en á engan rétt eða jafnvel hefur ekki getu til þess að sækja sér í soðið sjálft. Ég hef átt svolítið erfitt að svara þessu og ætla því að svara þessu hér:

Í sumar sá ég aðeins einn veiðimann auglýsa lunda til sölu á facebook, en sá aðili hafði þá þegar sótt sér lunda til vina okkar norður í Grímsey. Ekki veit ég á hvaða verði þessi aðili var að selja lundann, en ég ætla að nota þetta tækifæri og skora á Helliseyinga, sem eru með lundaballið á næsta ári, að taka upp hinn gamla góða sið sem var hér á meðan fréttablaðið Dagskrá var gefið út á sínum tíma og birta í byrjun maí verð á eggjum og lunda, en aðeins þannig er hægt að koma í veg fyrir að einhverjir óprúttnir aðilar séu að pranga inn á fólk lunda á einhverju okur verði.

Nú hefur verið tekin ákvörðun um það, að stóra lundaballið verður haldið 16. nóvember n.k. Svolítið seint, klárlega, en fyrir því eru að sjálfsögðu margar ástæður, en miðað við þann langa lista af listamönnum sem mér skilst að sé nú þegar búið að bóka, þá verður þetta algjör veisla.

Takk fyrir sumarið.


Bloggfærslur 29. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband