26.1.2010 | 12:19
Trillukarlar
Trillukarlar eru mér eðlilega nokkuð hugleiknir, enda starfað sem slíkur í tæp 24 ár og fyrir ári síðan skrifaði ég tvær greinar um trillukarla sem vöktu talsverða athygli þ.e.a.s. draum trillukarlsins, sem margir hafa þakkað mér fyrir og ekki var minni ánægja með minningargreinina mína um besta vin minn, Dolla á Freyjunni og endaði sú grein m.a. í Sjómannadagsblaði eyjamanna. Ég hitti barnabarn og nafna hans Dolla um daginn á spjalli, sem sagði mér það að þau hefðu tekið eftir því að einhver annar en úr fjölskyldunni virtist fara reglulega og hlú að gröfinni hans Dolla og var ég spurður að því, hvort ég vissi hver það væri, en svo er ekki en ég svaraði því bara til þannig að allir sem kynntust Dolla á sínum tíma þótti vænt um hann, enda ekki hægt annað, en það fylgir mér reyndar hvert sem ég fer, gamli lykillinn af Freyjunni. Skráin var reyndar löngu ónýt, en lykillinn er svona eins og við segjum "upp á gamla mátann". Þegar ég kom með nýjasta bátinn minn til eyja kom Dolli og færði mér í gjöf platta með þessari þekktu bæn og er hún á góðum stað á mínu heimili:
Ef komumst vér í voða
og varnir engar stoða,
þá hugsum upp til hans,
er stormum burtu bægir
og bylgjur hafsins lægir
og bjargar mörgum bát til landa.
Þeir eru margir, trillukarlarnir sem ég hef kynnst í gegnum ævina, sumir farnir og aðrir ekki. Af þeim minnisstæðustu sem eru farnir þá man ég fyrst eftir Gauja Ingibergs (man ekki fullt nafn lengur, né heldur nafnið á trillunni) en ég minnist hans kannski fyrst og fremst fyrir að vera sérstakur áhugamaður um lúðuveiðar og eitt sinn þegar að frekar trekt hafði verið í töluverðan tíma, þá man ég eftir því að frændi hans, Óli á Gæfunni, sem var þá á lúðuveiðum úti í Kanti, gerði sér sérstaka ferð þangað sem hann vissi á Gauji átti lúðulínu í sjó, hífði hana upp og setti á einn krókinn 100 kg lúðu sem þeir höfðu stungið á en ekki blóðgað öðruvísi, en mikil var ánægjan hjá Gauja þegar hann kom með lúðuna í land, en honum þótti svolítið skrítið hvað hún var róleg á meðan hann var að draga hana inn. Dauðdagi Gauja er mér einnig mjög minnisstæður. Ég var staddur norður úr Elliðaey á keyrslu suður eftir þegar ég mætti honum og heilsaði að trillukarla sið. Gauji heilsaði mér á móti, settist síðan þunglega niður, að því er mér virtist, báturinn tók smá hring og virtist stoppa. Ég var að velta því fyrir mér að snúa við til að athuga hvort ekki væri allt í lagi, en sá þá aðra trillu koma siglandi með stefnuna á bátinn hjá honum, en þegar ég kom í land var mér sagt að Gauji hefði verið látinn þegar þeir komu að.
Einhver al mesti jaxlinn sem ég hef kynnst af trillukörlum er sennilega Jón í Sjólyst. Sennilega er einhver frægasta sagan af Jóni af mörgum, þegar að skoðunarmaður kom og spurði Jón hvar ferðaklósettið væri? Brá þá Jón skjótt við, hljóp aftur í og kom til baka með fötu í hendinni og bauð skoðunarmanninum ef hann væri nú alveg í spreng. Eitt sinn á morgni dags kom ég niður á bryggju og sé hvar Jón var að leggja að og þótti það skrítið að sjá hann við bryggju snemma morguns, fór til hans og kastaði á hann kveðju. Jón var hinn sallarólegasti og tókum við spjall í nokkrar mínútur. Spurði ég hann þá hverju það sætti að hann var kominn í land svona snemma morguns? Lyfti hann þá hendinni og sýndi mér og sagði að hann hefði misst sökkuna þegar hann var að láta slóðann fara, einn krókurinn farið á kaf í lófann alveg inn að agnhaldi og þar sem hann náði honum ekki út, hefði hann einfaldlega ýtt honum í gegnum lófann á sér, en því miður ekki haft nógu öfluga töng til að klippa krókinn í sundur. Mér brá töluvert og bauðst til að skutla sér upp á sjúkrahús, en Jón sagði í fyrstu að hann gæti nú alveg rölt þetta og þurfti ég að suða svolítið í honum til að fá að keyra honum.
Já, þeir eru margir jaxlarnir. Sumir farnir og aðrir ekki, Svenni á Svaninum, Siggi í Bæ á Byr, Halli á Skúmnum, Arthúr á Eldingu, Hilmar (nínon) á Sigurbirni, Halli á Veigunni, Jón og Gauji gamli á Gauja gamla, Óli á einfara og fleiri og fleiri. Mig langar að nefna einn sérstaklega í viðbót, Hjalli á Bravó var sennilega einhver al trúaðasti trillukarlinn í Vestmannaeyjum og þó víðar væri farið. Ég varð einu sinni svo frægur að fara með honum að sækja lunda suður í Litlahöfða í hauga austan brælu og roki, en mér þótti mikið til þegar Hjalli stoppaði við Klettsnefið, spennti greypar og fór með sjóferðar bænina, síðan lögðum við í hann og ég fékk það ansi sterkt á tilfinninguna, að við værum í góðum höndum, en Hjalli er að mínu mati einn af þeim fjölmörgu sem fór allt of snemma yfir móðuna miklu.
Reyndar eru nýjustu fréttir þær að það er kominn nýr eigandi af Bravó sem ætlar sér að róa frá eyjum í sumar og þrátt fyrir harða gagnrýni stórútgerðarinnar í eyjum á þetta svokallaði strandveiðikerfi, þá er ljóst að það stefnir í það að í sumar verði sá fjöldi smábáta sem rær frá Vestmannaeyjum á handfærum sennilega fleiri heldur en nokkurn tímann nokkru sinni áður, eða allavega síðan ég byrjaði í útgerð. Reyndar sé ég á eyjamiðlunum enn einn íhaldsmanninn tala um það að stefnu Frjálslynda flokksins hafi verið hafnað í kosningunum í vor, en svarið við því er nokkuð augljóst, bæði Samfylking, Vinstri grænir að ógleymdi Borgarahreyfingin tóku að mörgu leyti upp stefnu Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var sá flokkur sem tapað flestum þingmönnum í kosningunum s.l. vor, svo það er spurning hvort að það megi ekki túlka það þá þannig, að Íslenska þjóðin hafi þar með að einhverju leyti hafnað stefnu Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:19 | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Goggi
Góð lesning
Takk Kv.Dollý
Sólveig Adólfsdóttir (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 09:44
Góður pistill Georg.Kveðja.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 12:17
Góð grein Georg og mikil sannindi í því að kjósendur hafi hafnað sjávarútvegsstefnu sjálfstæðisflokksins í síðustu kostningum.
Kveðja til Eyja,
Grétar Mar
Grétar Mar Jónsson (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.