Þú seldir eitt sinn kvóta

Að undanförnu hef ég æ oftar heyrt hvaða kjaftasögu íhaldsmenn nota oftast um mig. Kjaftasagan gengur út á það, að ég megi ekki hafa skoðun á núverandi kvótakerfi vegna þess að ég hafi einhvern tímann selt kvóta. Einnig var ég var við þetta s.l. vor, þar sem ég var staddur umborð í trillubát í spjalli við tvo trillukarla, þar sem ég m.a. var að safna meðmælum fyrir framboði s.l. vor. Báðir skrifuðu þeir undir, en ég tók eftir því að annar þeirra, sem er gallharður íhaldsmaður, virtist liggja eitthvað mikið niðri fyrir svo ég hinkraði aðeins og þá kom þessi setning:"Þú seldir eitt sinn 3 tonn af þorski." Eftir að ég hafði hlegið að þessu í svona korter þarna umborð, þá svaraði ég þessu, en kunni samt ekki við að segja það sem ég hugsaði, vegna þess að þessi aðili hafði nokkrum árum áður byrjað sinn sjómannsferil umborð hjá föður sínum, sem síðar hafði selt sinn kvóta, nokkur hundruð tonn minnir mig, og þeir feðgar síðan slegið saman í dagabát til að komast inn í kerfið aftur. En hver er sannleikurinn í þessu máli? Hann er svona: Upp úr 2000, ég man ekki nákvæmlega hvenær, tók þáverandi Sjávarútvegsráðherra, Árni Matthiesen, eina af sínum al verstu ákvörðunum á sínum ferli, þ.e.a.s. að kvótasetja smábáta sem starfað höfðu í friði í kvótakerfi sem kallað var þorskaflahámarks kerfi (að mínu mati besta kvótakerfi sem nokkurn tímann hefur verið notað). Þetta gerði hann vegna þess að stór útgerðin var að öfundast út í smábáta útgerðina, vegna þess að í þessu kerfi þurfti maður bara að hafa kvóta fyrir þorskinum, en var frjáls í veiðum í öllum öðrum tegundum. Afleiðingarnar voru alveg skelfilegar, smábátum fækkaði um helming á fyrstu tveimur árunum. Sjálfur þurfti ég að taka ákvörðun á þessum tíma um að annaðhvort að hætta og selja, eða að kaupa mér stærri bát til að halda áfram. Valdi ég síðari kostinn, en það voru svo sannarlega ekki góð kaup, því að sá bátur sem ég keypti reyndist mikið óhappafley og eftir aðeins eitt ár í baráttu við erfitt tíðarfar, mikið bilerí og síðast en ekki síst, Íslensk lán með Íslenskum vöxtum. Þá fór ég á fund hjá báðum bankastofnunum bæjarins til að reyna að fá frekari fyrirgreiðslu í vandræðum mínum, en því var hafnað. Í öðrum bankanum var mér hins vegar sagt:" Af hverju selurðu ekki nokkur tonn?" Ég svaraði því strax að ég væri ekki tilbúinn til þess, enda kvótinn afar lítill og svaraði því þannig, að ef ég ekki fengi fyrirgreiðslu þá myndi ég einfaldlega setja bátinn, kvótann og allt útgerðardótið mitt á sölu og hætta fyrir fullt og allt og varð sú niðurstaðan. Peningaaustur bankanna í allt og alla sem vildu, var ekki byrjað á þessum tíma, sem varð til þess að það liðu 2 mánuðir áður en ég fékk tilboð í útgerðina hjá mér og var tilboðið í raun og veru afar furðulegt og merkilegt fyrir margar sakir, því að hann vildi fyrst og fremst kaupa bátinn, en ekki kvótann nema að litlu leyti. Þetta tilboð var ekki nægilega hátt til að dekka þær skuldir sem voru í vanskilum, en ég náði samt samkomulagi við bankann um að hann fengi hverja einustu krónu sem kæmi út úr þessari sölu, restin af láninu yrði síðan sett á húsið hjá mér, þannig að út úr þessu fór ég með 90% af þeim kvóta sem ég átti á þeim tíma og hef reyndar að stórum hluta til keypt til baka þann kvóta sem fór með bátnum. Um framhaldið vita flestir, besti vinur minn Dolli á Freyjunni fékk mig til að kaupa Freyjuna nokkrum mánuðum seinna og ég sá að í spilunum var veruleg aukning í aflaheimildum á ýsu og þess vegna tækifæri fyrir leiguliða að þrauka nokkur ár í viðbót. Mér finnst svolítið furðulegt að líkja því saman, þegar trillukarl selur nokkur tonn, þá að sjálfsögðu hefur það engin áhrif á byggðina og bæjarfélagið, hins vegar þegar stór útgerðin selur þá sitja að sjálfsögðu öll áhöfnin eftir, í mörgum tilvikum atvinnulaus og með heimili sín og eignir jafnvel verðlaus, eins og nú þegar hefur gerst á mörgum stöðum á landinu. Þessu verðum við að breyta. Þetta er í raun og veru afar einfalt, það getur enginn starfað í núverandi kótakerfi án þess að taka þátt í öllum göllunum og ég set það undir sama hattinn, hvort sem menn kaupa, selja, leigja til sín eða frá sér kvóta, allt er þetta sama ruglið.

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sæll Georg.Þú og Arthúr Bogason tala stöðugt um stórútgerðina og eigið þá við LÍÚ.Nú eru margar útgerðir innan Landsambands Smábátaeigenda með meiri aflahlutdeild en sumir innan LÍÚ. Samt haldið þið stöðugt áfram að klifa á þessu.Eins og þú veist þá eru það bara nokkrir aðilar sem halda uppi fjárhag LS, það er þeir stærstu.Eru þið ekki með þessu tali ykkar um stórútgerð í raun að ráðast að ykkar eigin félögum og er ekki tími til komin að menn innan sjávarútvegsins fari að standa saman í stað þess að níða stöðugt hver annan niður.Þeim fyrirætlunum sem núverandi ríkisstjórn boðar var hafnað samhljóða á Landsþingi LS síðastliðið haust þótt formaður LS og ýmsir aðrir neiti að skilja það.Er ekki kominn tími til að menn fari að standa saman gegn þeirri aðför sem ríkisstjórnin ætlar að fara í gegn landsbyggðinni.Sú aðferðarfræði sem Arthúr Bogason boðar að það þjóni best hagsmunum Smábátaeigenda að vera með stöðugt skítkast út í einhverja sem heita stórútgerðin, gengur ekki upp í þeirri baráttu gegn þjóðnýtingarstefnu og landeyðingarstefnu sem ríkisstjórnin boðar.Kv.

Sigurgeir Jónsson, 5.2.2010 kl. 22:14

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Það er mikil umræða í þjóðfélaginu þessa dagana um hugmyndir Ríkisstjórnar meirihlutans, sérstaklega um þessa fyrningarleið og sitt sýnist hverjum. Ekki veit ég hvort þessi leið sé sú rétta, en ég verð þó að viðurkenna það, að miðað við allt ruglið sem er í gangi í núverandi kvótakerfi, þá er maður í raun og veru tilbúinn að skoða hvað sem er. Lykil atriðið er þó að þegar verði farið í auka aflaheimildir í flest öllum tegundum, en sem mótvægi við það væri t.d. hægt að loka ákveðnum svæðum, ein og t.d. fjörunni þar sem fiskurinn fengi einfaldlega frið fyrir öllum veiðarfærum, en að lokum þetta fyrir fólk sem ekki skilur umræðuna, þá er mín skoðun á þessu einföld og skýr, hagsmunir byggðanna, sjómanna, fiskverkafólks og fjölskyldna þeirra er ekki best varið með því að búa við kvótakerfi eins og núverandi kerfi, þar sem útgerðarmaðurinn einn ræður því hvort að hann veiðir, leigir, veðsetur eða selur kvótann. Því verðum við að breyta . Sigurgeir , þetta segir allt sem segja þarf . kv .

Georg Eiður Arnarson, 11.2.2010 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband