Fleiri trillukarlar

Eins og við var að búast, þá fannst mörgum mörg nöfn vanta í grein mína um trillukarla svo hér koma nokkrir í viðbót:

Má þar m.a. nefna Rabba á Þórdísi Guðmunds, Einsa á Kristínu (Eiður Marínósson), Valur á Evunni, Pétur á Gustinum, Siggi í Bæ, nafni minn Stanley á Krata Pál, Marínó á Normu, Braga og Svabba á Þrasa og Hauki og Gústa á Ugganum, að ógleymdum þeim jöxlum sem enn eru að Óli Már, Kjartan, Fúsi, Siggi Ella, að maður tali nú ekki um jaxlinn sjálfan, Guðfinn á Ingu.

Elsta minningin sem ég man eftir af trillukarli er nokkrum árum áður en ég fór í útgerð og var sú saga svona:

Ég var staddur niðri á Gestgjafa með vinkonu minni, sem sagði mér að kaupa í glas, fara og færa það Ása í Bæ og fá hann til að spá fyrir okkur. Gerði ég það og man alltaf eftir því að m.a. spáði Ási því, eftir að hafa blikkað ljóshærðu ungu stúlkuna sem sat hjá mér, að ég ætti eftir að eignast dökkhærða konu.

Það er stundum sagt meðal trillukarla að það sjáist fljótlega, hvort að menn endist í starfinu eða ekki. Tvær slíkar sögur kann ég. Það var eitt sinn að Stanley og sonur voru á veiðum ásamt fleirum, að við tókum eftir því að þeir hífðu upp færin og tóku stefnuna á fleygi ferð í vestur. Við hinir héldum áfram þessu kroppi sem var á þessu svæði, en svona ca. fjórum tímum seinna kallaði einn af okkur þarna í Stanley til að fá fréttir, var hann þá kominn austur undir opinn foss og sagðist vera búinn að fara yfir allt vestur svæðið, suður fyrir Surt og kominn núna austur í Kant, en sennilega hefði hann tekið þrjá til fjóra klukkutíma að sigla allt þetta svæði, enda sagðist Stanley ekki vera kominn með einn einasta fisk.

Nokkrum árum seinna vorum við nokkrir bátar í ágætis fiskiríi á þessu svæði, þegar einn sem var nýbyrjaður hífir skyndilega upp færin og setur allt á fulla ferð með stefnuna í land. Rabbi á Þórdísi kallar þá í hann og spurði hvort eitthvað væri að, en fékk það svar að þessi trillukarl hefði verið að fá tilkynningu í símanum um að hann ætti sendingu uppi á flugvelli, ferðaklósettið væri komið. Það kom smá þögn í talstöðina, en svo sagði Rabbi:" Ja, ef þú ert alveg í spreng, þá get ég svo sem lánað þér fötuna mína." Ekki man ég svarið, en menn höfðu það á orði í landi að keyra úr fiskiríi til að sækja eitthvað í landi sem ekkert liggur á, þannig menn endast ekki í útgerð og það gekk eftir. 

Af þeim sögum sem mér hafa verið sagðar í gegnum árin, þá hugsa ég að flestar hafi komið frá vini mínum, Begga heitnum á Skuldinni, en flestar voru þær sögur um stórlúðuveiðar, en ég man svo sem ekki eftir neinni sérstakri, en gaman hefði þó verið að eiga þær einhver staðar skráðar.

Eina sögu á ég af Val á Evunni. Valur sagði oft að beitning væri eitthvað það leiðinlegasta sem hann stæði í og Dolli kom stundum til mín yfir sig hneykslaður og sagði að stundum tæki Valur hreinlega flækjurnar, setti beitu á nokkra króka og setti flækjurnar ógreiddar ofan í stampinn, en eitt sinn tók þó Valur sig til í brælutíð, tók nokkur bjóð, greiddi þau, skar burtu alla hnúta og splæsti og gerði fín, fór síðan í næsta róður á eftir með sex bjóð, þar af fjögur sem hann var ný búinn að laga til, en hélt að þar með gæti hann lagt á harðari botn en hann var vanur, en viti menn, hann tapaði þessum fjórum bjóðum og sagði þegar hann kom í land:"Aldrei mun ég nokkurn tímann aftur splæsa línu."

Að lokum ein lítil saga frá sjálfum mér: 

Á löngum ferli sem trillukarl í Vestmannaeyjum lendir maður oft í margs konar hremmingum og hef m.a. misst bát í hafið, en ætla nú ekki að segja þá sögu hér, en þegar maður er nýr og óreyndur í þessu fagi sem öðru, þá þarf ekki mikið til, til þess að mistök geti orðið ansi dýrkeypt. Það var sennilega á öðru ári mínu í útgerð, ég hafði verið á sjó allan daginn og var ný búinn að draga upp síðustu bjóðin sunnan við Suðurey, báturinn var gamall afturbyggður trébátur með palli bakborðs megin við stýrishúsið. Ég kúplaði að og báturinn fór í minnstu ferð, þá tók ég eftir því að fríholtið, dekk sem ég var með fremst á pallinum við hliðina á stýrishúsinu, hafði fallið í sjóinn og dró þar með verulega úr ferð bátsins, svo ég vippa mér upp á pallinn til að kippa dekkið inn fyrir, en þá vildi ekki betur til, en að undiralda kastar bátnum aðeins til hliðar og ég flýg í sjóinn. Náði þó að grípa í fríholtið og reyndi strax að hífa mig upp, en báturinn var á ferð svo átakið var alveg gríðarlegt og sem snöggvast hvarfaði að mér, að ekki væri langt að synda að Suðureynni, en ég var ekki tilbúinn að gefast upp og reyndi aftur að hífa mig upp, en það tókst ekki heldur. Ákvað ég þá að gera loka tilraun, náði góðu taki á lunnunginni og náði síðan að smeygja annarri löppinni upp í dekkið, með því að nota alla lífs og sálar krafta náði ég þannig að hífa mig upp í bátinn, en það tók mig alveg tvo daga að jafna mig eftir þau átök, en ég var reynslunni ríkari.

Það er mikil umræða í þjóðfélaginu þessa dagana um hugmyndir Ríkisstjórnar meirihlutans, sérstaklega um þessa fyrningarleið og sitt sýnist hverjum. Ekki veit ég hvort þessi leið sé sú rétta, en ég verð þó að viðurkenna það, að miðað við allt ruglið sem er í gangi í núverandi kvótakerfi, þá er maður í raun og veru tilbúinn að skoða hvað sem er. Lykil atriðið er þó að þegar verði farið í auka aflaheimildir í flest öllum tegundum, en sem mótvægi við það væri t.d. hægt að loka ákveðnum svæðum, ein og t.d. fjörunni þar sem fiskurinn fengi einfaldlega frið fyrir öllum veiðarfærum, en að lokum þetta fyrir fólk sem ekki skilur umræðuna, þá er mín skoðun á þessu einföld og skýr, hagsmunir byggðanna, sjómanna, fiskverkafólks og fjölskyldna þeirra er ekki best varið með því að búa við kvótakerfi eins og núverandi kerfi, þar sem útgerðarmaðurinn einn ræður því hvort að hann veiðir, leigir, veðsetur eða selur kvótann. Því verðum við að breyta.

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þér með kvótamálin.  kannast við flesta sem þú telur upp þarna

 Ási í Bæ var vinur minn, við fengum okkur stundum skota

Robert (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband