18.2.2010 | 23:29
Bakkafjara staðan og dorgarar á koppum
Staðan á Bakkafjöru ævintýrinu er núna þannig að þrátt fyrir yfirlýsingar bæjarstjórnarinnar um að höfnin yrði fyrst og fremst ferjuhöfn , fargjaldið yrði verulega lækkað (500 kr ) og 8 ferðir á dag , þá er staðan svona : Í viðtali við yfirumsjónarmanns hafnargerðarinnar í fréttum nýlega kemur fram að nú þegar er hafin undirbúningur fyrir smábáta aðstöðu , vegagerðin hefur þegar hafnað tillögu bæjarráðs um fargjald að upphæð 1000 kr og núna er aðeins talað um 4 ferðir á dag . Niðurstaðan er því þessi : Ferðirnar verða vissulega fleiri en það mun að öllum líkindum verða helmingi dýrara að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu ( þangað sem flestir eru að fara ) og vísir að löndunarhöfn sem mun keppa við Vestmannaeyjahöfn er nú þegar í kortunum.Nýjasta nýtt er svo tilboð bæjarstjórnarinnar um að Vestmannaeyjabær yfirtaki ferju reksturinn , það eru greinlega að koma kosningar.
Vonandi verðu þetta bara í lagi allt saman en að gefnu tilefni smá saga og hugmynd: Fyrir nokkrum dögum síðan kom smábátasjómaður niður á bryggju og sér hvar nokkrir ungir menn eru að gera sig klára fyrir tuðruferð. Sögðust þeir vera að fara að heimsækja vin sinn sem ætlaði að sækja þá niður í Bakkafjöru ,benti trillukarlinn þeim á það að á höfðanum væru suðaustan 15 metrar og 3,7 metrar í Bakkafjöru og fékk þá til að hætta við ferðina.
Mig langar að velta upp þeirri hugmynd hvort að ekki væri sniðugt að setja upp rafmagnskilti niður við höfn sem væri beintengt við veðurstofu Íslands með upplýsingum sem væru uppfærðar á klukkutíma fresti þar sem fram kæmi vindhraði á höfðanum, ölduhæð í Bakkafjöru og við Surtsey og tildæmis væri hægt að hafa svipað og á götuvitum þannig að stafirnir fyrir ölduhæð í Bakkafjöru væru rauðir við ákveðna ölduhæð þannig að smábátar og tuðrueigendur yrðu meira meðvitaðir um það hvort það væri ófært eða ekki.
Margir hafa komið að máli við mig í sambandi við ótrúlega ræðu bæjarstjórans á fundinum í Höllinni fyrir nokkru, þar sem bæjarstjórinn talar niður til smábáta á skammarlegan hátt. Þetta hefur hins vegar verið tekið fyrir hjá Smábátafélaginu með afgreiðslu sem ég er ekki sáttur við. Að mínu mati er bæjarstjórinn ekki bara að tala niður til smábáta útgerðarmanna í dag, heldur líka til þeirra sem gerðu Vestmannaeyjar að því bæjarfélagi sem það er í dag, því að án hörkuduglegra smábátasjómanna, sem fyrir hundrað árum síðan lögðu grunninn að byggðinni hér í eyjum, þá væri hér ekki byggð.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég verð að vera sammála þessu með því sem að bæjarstjórinn sagði í annars ágætis ræðu þarna uppfrá.
mér fannst comment hans um smábátasjómenn til skammar
Árni Sigurður Pétursson, 19.2.2010 kl. 19:21
Ég gat nú ekki greint neitt í þessari ræðu sem neikvæðni í garð smábátasjómanna. Menn mega hafa ansi mikinn vilja til að leggja þann skilning í málið. Geri ráð fyrir að þetta sé kannski einhver undanfari kosningaskjálftans sem virðist um það bil að losna úr læðingi.
Legg til að þið hlustið frekar á ræðuna heldur en að vera að hlusta á þessa menn sem koma alltaf að máli við mann.
http://www.eyjafrettir.is/frettir/2010/01/22/um_4500_fylgdust_med_fundinum_a_netinu
Þessi fundur var hið besta mál og ræða míns góða vinar mjög gott innlegg í umræðuna og fjarri því að hann hafi verið að tala niður til smábáta, smábátasjómanna eða sjómanna yfirleitt. Tók það einmitt fram að við byggðum afkomu okkar á verkum þessara manna sem frá upphafi byggðar hafa staðið hér undir mannlífinu.
Jarl Sigurgeirsson, 20.2.2010 kl. 00:37
Sæll jarl ,ræða Elliða birtist í fréttum og ég las hana vel og vandlega yfir auk þess þá hefur Elliði nú þegar sent Farsæl félagi smábátaeigenda í Vestmannaeyjum skriflega afsökunarbeiðni en greinilega beðið um að hún yrði ekki birt opinberlega . Að öðru leiti stend ég við mín skrif .
Tek það fram að skrif Elliða voru borin undir formenn landsambands smábátaeigenda og voru viðbrögð þeirra algerlega í samræmi við mín . kv .
Georg Eiður Arnarson, 20.2.2010 kl. 18:20
Blessaður Georg.
Við vitum báðir að Elliði var ekki að veitast að trillukörlum í sinni ræðu. Það má hins vegar alveg leggja þannig út af ræðunni kjósi menn að túlka hana þannig, andstæðingar í pólitík beita iðulega þannig brögðum hver á annann.
Það er í góðu lagi að vera ósammála um hlutina og vel má vera að þú hafir ekki verið sammála þeim skoðunum sem fram komu á fundinum í ræðu Bæjarstjórans. Þá er um að gera að benda á það. En að gera honum upp að tala niður til þeirra sem byggðu upp okkar góða bæjarfélag veit ég að er þér algerlega ljóst að eru rangindi.
Annars langar mig að taka undir hugmynd þína um upplýsingaskilti niðri á bryggju um ölduhæð og veðurfar. Þó svo sjómenn fylgist grannt með ölduhæð og veðurlagi þá er ekki víst að allir sem stunda siglingar hér í kring séu meðvitaðir um þessa hluti. Þetta gætu orðið mjög gagnlegar upplýsingar sem þarna kæmu fram og gætu jafnvel forðað einhverjum frá vandræðum.
Jarl Sigurgeirsson, 20.2.2010 kl. 20:07
Sæll Jarl ,í afsökun Elliða tekur hann það fram að hann hafi fyrst og fremst verið að gera athugasemdir við svokallað strandveiðikerfi , kerfi sem hefur blásið nýju lífi í mörg smærri byggðalög í landinu. Sennilega verða allt að 30 bátar í þessu kerfi frá Eyjum í sumar fyrir utan öll þau störf sem þetta mun gefa af sér í landi .
Aðalatriðið er þetta:Stórútgerðin hefur í mörg ár beitt sér gegn smábátaútgerðinni og í mörgum tilvikum borgað kosninga baráttu Sjálfstæðisflokksins á sama tíma, þetta kemur greinilega fram í ræðu Elliða , þetta sama sjáum við í öllum greinum íhaldsmanna á Eyjamiðlunum að undanförnu þar sem þeir hamast á þessari svokölluðu fyrningarleið .
Á fundi okkar stjórnarmanna í Farsæl kom ég með þá tillögu að við birtum afsökun Elliða og málinu væri lokið ,en nei það var ekki hægt því að hann væri að fara í framboð og þess vegna kom tillaga frá frænda Páleyjar um að birta þetta ekki , þetta kalla ég pólitík .
Ég reyni alltaf að skrifa bara um sannleikann eins og ég sé hann ,ef þér finnst þetta snúast um pólitík hjá mér þá er það bara þitt álit en hvað ert þú að gera vinur getur Elliði virkilega ekki svarað fyrir sig sjálfur? Ég veit að hann les allt sem ég skrifa og leifi mér að telja að þetta sé honum holl lesning . kv .
Georg Eiður Arnarson, 20.2.2010 kl. 21:26
Stórgóður pistill Georg.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 21.2.2010 kl. 00:48
Blessaður Georg.
Skemmtilega orðað hjá þér að skrifa bara um sannleikann eins og þú sérð hann. Eða eins og skáldið sagði "sannleikurinn þinn er ekki sannleikurinn minn"
Elliði er nú örugglega fullfær um að svara fyrir sig sjálfur ef hann kýs svo. Ég lít nú bara þannig á að ég sé að tjá mínar skoðanir á þessum málum. Vona að það sé í lagi þín vegna.
Mér finnst í raun miður að maður með jafn mikla pólitíska sannfæringu og þú Georg skulir ekki hafa fengið að finna skoðunum þínum öruggari farveg í pólitíkinni. Þín skrif eru ávallt pólitísk þó svo þú lítir ekki svo á sjálfur. En með sínum augum lítur hver sannleikann.
Ég var nú líka bara að átta mig á því að ég hef ekki minnst á skrif þín um Bakkafjöru í þessu spjalli mínu :)
En hvað sem framtíðin ber með sér, þá vona ég að það verði atvinnulífinu í Eyjum til góða, jafnt hjá trillukörlum sem og stórútgerðarmönnum. Vona í því tilviki að boðuð fyrningarleið ná aldrei fram að ganga. Vona svo sannarlega að þú og aðrir útgerðarmenn fáið áfram tækifæri til að redda okkur hinum, ekki er vanþörf á því.
Jarl Sigurgeirsson, 21.2.2010 kl. 17:03
Sæll Georg, af hverju ertu að minnast á þessa afsökunnarbeðni ef Elliði og co. vildu það ekki? Að ég tali nú ekki um þá virðingu sem menn eiga að sýna hver öðrum.
Kær kveðja.
Helgi Þór Gunnarsson, 23.2.2010 kl. 12:54
úff, ekki biði ég í að heyra hvaða verð við fengjum ef við værum að fara fá miklu stærra og öflugara skip eins og einhverjir vildu, nokkuð ljóst að verð með því skipi yrði mjög hátt vegna mikils rekstrarkostnaðar að sigla milli þorláks og eyja, einnig er borðleggjandi að við værum þá enn föst í sama ömurlega farinu þ.e fáar ferðir milli lands og eyja og alveg pottþétt að eins og í dag þyrftum við að sætta okkur við 1 ferð á dag, en sem betur fer með landeyjarhöfn þá fáum við mun fleiri ferðir, fólk ekki svona háð lélegri ferðatíðni og fólk þarf ekki að sætta sig við að hanga í dallinum alla þessa tíma, n.b er eyjamaður sem bý í Reykjavík og það er gríðarleg eftirvænting eftir bakkafjöru, fólkið sem vinnur með mér er duglegt að fara útá land á sumrin og starfsmannafélagið hefur aldrei viljað fara til eyja útaf siglingartímanum og hættunni á að lenda í slæmu veðri og þar af leiðandi mjög slæmri sjóferð en þetta sama fólk getur ekki beðið eftir að fá að skjótast til eyja núna, það þykir lítið tiltökumál að skjótast norður, austur og vestur en eyjar hafa verið lítt eftirsóknarverð útaf siglingarleiðinni en nú horfir betri tíð við, amk hjá þeim sem ekki vilja mála skrattann á vegginn.
Halldór (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 14:10
Sælir strákar og takk fyrir þessar athugasemdir , að venju reyni ég að svara öllum .
Helgi , eins og þú sérð þá minnist ég ekki á afsökunarbeiðnina í greininni en tel að Jarl og Elliði séu eins og tvær tvíbökur úr sama pokanum og er fyrst og fremst að benda Jarli á það, að þó að hann sjái ekkert athugavert við ræðu Elliða, þá sá Elliði samt ástæðu til þess að biðjast afsökunar. En að öðru leyti ber ég fulla virðingu fyrir bæjarstjóra okkar.
Halldór, ekki vitum við hvort að nýtt stærra, gangmeira skip hefði endilega þurft að þýða hærra gjald, en við vitum hins vegar að með Bakkafjöru leiðinni verður dýrara að komast til og frá höfuðborgar svæðinu. Þér finnst ég kannski vera að mála skrattann á vegginn með því að orða þetta þannig, en í mínum huga er þetta bara einföld staðreynd. Að öðru leyti er ég þér algjörlega sammála, ég tel að fleiri ferðir og styttri sigling verði mikil breyting til batnaðar fyrir fólk sem er sjóveikt eða sjóhrætt og ég efast ekki um það, að fleiri ferðamenn munu heimsækja eyjuna okkar fögru vegna tilkomu Bakkafjöru.
Jarl, varðandi það að öll mín skrif séu pólitísk, þá er ég algjörlega ósammála því, en ber samt fulla virðingu fyrir því að þú sjáir mín skrif ekki með sömu augum og ég. Varðandi fyrningarleiðina, þá finnst mér rétt að horfa aðeins til baka svona ca. 10 ár á þær ákvarðanir sem þeir sjávarútvegsráðherrar sem þá störfuðu tóku, og hvaða áhrif þær hafa haft á Vestmannaeyjar. Fyrir það fyrsta tel ég að ákvörðun Árna Mathiessen um að setja allar tegundir í kvóta, m.a. keilu, löngu og skötusel, einhverja skelfilegustu og verstu ákvörðun sem nokkur sjávarútvegsráðherra hefur tekið. Þessu hlýtur þú að vera sammála sem fyrrverandi skipverji á Guðmundi Ólafssyni VE (nýlega heyrði ég sögu af því, hvers vegna sumar stórútgerðir í Grindavík hefðu sótt svona stíft að keila og langa væru sett í kvóta, allir vita að þeir áttu mestu reynsluna og eiga meirihlutann af kvótanum í þessum tegundum í dag, en fáir vita hvernig þeir fóru að, skýringin var einföld, áður en eftirlitið var hert þá einfaldlega lönduðu þeir þorski sem keilu og löngu). Ákvarðanir Einars Kristins hafa nú ekki verið skárri m.a. opnun á fjöruborðinu fyrir snurvoð, með hrikalegum afleiðingum fyrir lífríkið í og við eyjarnar, svo fyrir mitt leyti má segja sem svo að margar umdeildar ákvarðanir hafa verið teknar. Ákvörðun núverandi stjórnar meirihluta að fara fyrningarleiðina, ef hún verður farin, þarfnast að mínu mati aðeins frekari upplýsingar og útskýringar um það t.d. hvað á að gera við kvótann sem verður fyrndur, verður hann t.d. leigður út á frjálsum markaði, eða eins og ég hefði viljað, munu þau fyrirtæki sem í dag eiga ákveðinn rétt njóta forgangs í að leigja til sín aftur það sem ríkið tekur til sín. Eins og við vitum, þá leigja eyjamenn þúsundir tonna af aflaheimildum, mest megins upp á land, þessu þarf að breyta eða eins og ég hef orðað það stundum: Ég mun aldrei samþykkja neinar breytingar á kvótakerfinu sem gera það að verkum, að eitt einasta kvótakíló sé tekið af eyjamönnum til þess að færa það einhverjum öðrum.
Kveðja
Georg Eiður Arnarson, 23.2.2010 kl. 18:10
Sæll Georg, jú þú segir það í athugasemd sem svar hjá honum Jarl! Rétt skal vera rétt. Ég hlustaði á ræðu Elliða bæjarstjóra, og ekki fann ég þessa niðurlægingu sem þú talar um .
Kær kveðja.
Helgi Þór Gunnarsson, 23.2.2010 kl. 20:34
Sæll Georg.
"ekki vitum við hvort að nýtt stærra, gangmeira skip hefði endilega þurft að þýða hærra gjald, en við vitum hins vegar að með Bakkafjöru leiðinni verður dýrara að komast til og frá höfuðborgar svæðinu. Þér finnst ég kannski vera að mála skrattann á vegginn með því að orða þetta þannig, en í mínum huga er þetta bara einföld staðreynd"
-----> Þetta er bein tilvitnun í orð þín hérna að ofan, og ætla ég ekkert að gera lítið úr þeim. Hinsvegar er ég með smá áskorun á þig. Hvernig væri að þú mundir reikna þetta saman og birta þetta hérna á síðuni þinni þannig að við hin gætum nú glöggvað okkur á þessum útreikningum þínum. Til þess að við séum með sömu forsendur að þá notaði ég: 2x fullorðna, bíl sem eyðir 10 lítrum á 100km og að bensín líterinn sé á 210kr líterinn. Í fargjöldum notaði ég bara listaverð á báða staði. Ekki er komin gjaldskrá í Bakkafjöru en notaðist ég við verðin sem boðuð hafa verið. Einnig reiknaði ég verð miðað við 1 fullorðinn og bíl. Tek það skýrt fram að ég gerði ekki tilraun til að reikna verð á einstakling sem ekki er á bíl, og er það eingöngu vegna þess að ekki er búið að ræða neitt varðandi verð á rútufargjöldum á milli Bakka og Reykjavíkur. Ég er heldur ekki með klefa eða aðra þjónustu um borð í mínum útreikningum sem og afsláttarkjör.
Ég held Georg að það gæti verið málefnalegt og skemmtilegt ef að þú sýndir okkur hvernig þú reiknar þetta út..
Friðberg Egill Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 11:01
Sæll Egill
Ég hef nú ekki reiknað þetta út neitt sérstaklega vegna þess einfaldlega, að ég tel þetta svo augljóst. Lengri ökuleið + sama gjald með skipinu, en vonandi verður það eitthvað lækkað.
kveðja
Georg Eiður Arnarson, 3.3.2010 kl. 17:26
Sæll aftur Egill , það eru ágætis útreikningar í Fréttum sem nú eru komnar í verslanir . þar fær Grímur Gísla það út að það verði ca 3 sinnum dýrara að fara til og frá höfuðborgarsvæðinu með Bakkafjöruleiðinni heldur en núverandi siglingaleið . þetta kemur mér ekki á óvart en í raun og veru hef ég miklu meiri áhyggjur af öðrum mögulegum kostnaði við þessa leið eins og t,d fækkun starfa og ýmsu öðru en vonandi reddast þetta úr þessu . kv .
Georg Eiður Arnarson, 3.3.2010 kl. 22:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.