23.3.2010 | 14:19
Til hamingju Íslenska þjóð
Ég hef haft töluverðar áhyggjur af því í langan tíma að þessi nýja vinstri stjórn væri ekki alveg að standa sig (og hef þær enn) en þess vegna er það einmitt mikið ánægjuefni að þetta skötusels frumvarp sé loksins komið í gegn og alveg ljóst að eftir að svokölluð skötusels lína var felld út úr frumvarpinu, að Eyjamenn eru í algjörri lykilaðstöðu til að nýta sér þessa breytingu og m.a. veit ég nú þegar um tvo útgerðarmenn í Eyjum, sem eru að byrja að undirbúa veiðar á skötusel. Einnig er þetta mikil breyting fyrir þá sem hafa þurft að treysta á að geta fengið þessa tegund á leigu frá núverandi handhöfum aflaheimildanna. Mér finnst því fyllsta ástæða til þess að óska bæði Íslendingum öllum og ekki síst Eyjamönnum og ríkisstjórninni til hamingju með þetta. Nú þarf bara að fara í samskonar breytingar í öðrum tegundum og að mínu mati mætti t.d. byrja á því að auka við og taka út kvóta keilu og löngu, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir Eyjamenn sem og aðra Íslendinga. Við Eyjamenn munum meðal annars eftir hörmulegar afleiðingar á kvótasetningu á þessum tveimur tegundum, þar sem við m.a. horfðum á skip eins og Byr VE, Sæfaxa VE og Guðna Ólafsson VE sigla í burtu frá Eyjum og með þeim töpuðust gríðarlega mörg störf og atvinna í byggðarlaginu, ég tel persónulega að þessu getum við náð að einhverju leyti til baka.
Varðandi þetta skötusels frumvarp, þá vil ég taka það skýrt fram, að þetta frumvarp skiptir mig persónulega engu máli, en ég tel einfaldlega að þetta skipti gríðarlega miklu máli fyrir þjóðina í dag og ekki hvað síðast og síst fyrir ungt fólk, sem að þarna sér kannski vonarneista á því að það verði hægt að fara í útgerð í framtíðinni.
Mig langar að nota þetta tækifæri í þessari grein til að þakka félögum mínum í FF fyrir óvæntan og gríðarlegan stuðning í ný loknu landsþingi, þar sem ég fékk flest atkvæði til miðstjórnar og um leið óska þeim sem fengu kosningu til hamingju. Ný stjórn hefur óskað eftir því sérstaklega við okkur sem erum í forsvari fyrir bæjarmálafélög í landinu, að við gerum okkar besta til að bjóða fram í vor og mun ég að sjálfsögðu verða við þeirri ósk, enda verið að skoða málin undanfarna mánuði, en ég ítreka þó að þó svo að við Frjálslynd höfum nægan mannskap til að fylla lista og rúmlega það, þá finnst mér samt enn mikilvægara að fá til okkar nýtt fólk. Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta er mjög erfitt, enda engir peningar eða störf í boði hjá okkur eins og t.d. hjá Sjálfstæðisflokknum. Framboð á vegum Frjálslynda flokksins snýst fyrst og fremst um heiðarleika, kjark og þor og ég hef þá einföldu skoðun að ef við bjóðum ekki fram, þá verða hér engar breytingar.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð grein Georg og það er full ástæða til að óska íslensku þjóðinni til hamingju með frumvarpið. Nú þarf að fara að vinna að því að taka aðrar tegundir út úr kerfinu.
Bestu kveðjur til Eyja.
Grétar Mar (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 18:58
svo yfir mig glöð.
Hanna Birna Jóhannsdóttir, 31.3.2010 kl. 16:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.