6.4.2010 | 21:07
Saga Dufþaks
Saga Dufþaks kemur fram í sögunni um landnám Vestmannaeyja, þar sem segir frá því að Ingólfur Arnarson hafi elt hann ásamt fleiri Írskum þrælum til Eyja árið 920, vegna þess að þeir höfðu drepið fóstbróður hans. Þessi saga hefur oft verið í huga mér, vegna þess að sennilega eru fáir núlifandi Eyjamenn sem hafa farið jafn oft og ég í Dufþekju til eggjatöku, en mér telst til að ferðirnar hafi orðið á þriðja hundrað. Í sögunni um landnám eyjanna er talið að Dufþekja hafi verið skýrð í höfuðið á Dufþaki vegna þess, að hann hafi kastað sér þar fram af til þess að sleppa við sverð Ingólfs. En er þetta svona?
Fyrir mörgum árum, þegar ég stundaði eggjatöku í Dufþekju sem mest, þá kom til mín eldri maður og sagði mér frá því að afi sinn hefði sagt sér frá því að þessi saga væri ekki sönn og að Dufþekja héti í rauninni Duftþekja og Duftþekja væri í raun og veru halli í berginu sem væri þakinn dufti eða mold. Ekki var ég nú alveg í fyrstu að kaupa þetta, en þá benti hann mér á það að þar sem ég hef nú farið víða í Heimakletti, ef ég færi af augum beinustu og auðveldustu leiðina, hvar mundi ég enda? Ég gat staðfest það, að með því að fara beina leið og hlaupa eftir því sem við köllum í dag neðri göngustíg í Heimakletti, alveg austur í klett og undir þar sem kallað er Þuríðarnef, þá endar þar göngustígurinn skyndilega á þverhnípi. Merkilegt, ekki veit ég hvað er satt og rétt í þessu, en velti þessu upp svona til gamans en sennilega munum við aldrei vita allan sannleikan.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alltaf gott að rifja upp söguna.
Þess má svo bæta við fyrir þá sem ekki það vita að á höfuðborgarsvðæðinu er starfrækt knattspyrnulið stofnað af Eyjamönnum sem spilar í Utandeildinni og heitir Dufþakur eða duffi í daglegu tali. Á síðu Dufþaks www.duffi.is er einmitt sagan á bakvið nafnið einsog sú sem við flestir þekkjum hana en gaman væri nú samt að vita hvað er til í hinni sögunni... Eigum við kanski að kalla okkur Dufta núna ? Það hljómar óneitanlega meira í líkingu við lið fyrrverandi fíkla.
Stefán Þór Steindórsson (IP-tala skráð) 6.4.2010 kl. 23:24
Sæll Stefán, gaman að frétta af þessu fótboltaliði. Í gamla daga man ég einmitt eftir tveimur liðum sem ég spilaði í sem stráklingur, fyrir gos voru það urðarkettirnir sem að sjálfsögðu voru flestir ættaðir úr Urðunum austur á eyju, en eftir gos stofnaði ég sjálfur lið sem ég skírði einmitt Vestmenn í höfuðið á þeim sem talið er að hafi fyrst numið land hér í Vestmannaeyjum, en svona hverfalið heyra víst fortíðinni til, en að lokum Áfram Dufþakur.
Kveðja
Georg Eiður Arnarson, 9.4.2010 kl. 20:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.