14.4.2010 | 20:50
Gleðilegt sumar allir
Þar sem lundinn settist upp í gærkvöldi, þá er það eins og vanalega hjá mér merki um að sumarið sé komið. Í öll þessi ár sem ég hef fylgst með komu lundans til eyja, þá sýnist mér að þetta sé í aðeins annað skiptið, síðustu 20-30 árin sem lundinn kemur svona snemma, en t.d. í fyrra var hann viku seinna. Ástæðan er í mínum huga nokkuð augljós, ástandið í sjónum er þannig að ég hef ekki í sennilega jafn mörg ár og frá því að lundinn kom svona snemma síðast, séð jafn mikið líf í sjónum og virðist sjórinn hreinlega vera sneisafullur af öllum tegundum af fiski, bæði uppsjávar og botnfiski (eiginlega alveg ótrúlegt að lesa síðan allt bullið sem kemur frá Hafró).
Þessi góða byrjun er því miður hins vegar, engin ávísun á góða nýliðun síðla sumars, því margt á eftir að gerast áður en við förum að sjá bæjarpysjuna mæta í bæinn. Hins vegar er nokkuð ljóst, að þessi góða byrjun á lunda sumrinu 2010 muni að öllum líkindum gefa af sér ágætt varp, en þar sem að fjaran er ennþá opin fyrir snurvoð og engir af þessum svokölluðu lundarannsóknar aðilum virðast hafa nokkurn áhuga á að gera eitthvað raunverulegt til að bæta úr fæðuskorti pysjunnar síðla sumars, þá er því miður engin merki um það að stofninn fari upp á við í sumar, á það skal þó bent að lundastofninn á Íslandi skiptir mörgum tugum milljóna.
Varðandi hugsanlega lundaveiði í sumar, þá bind ég mestar vonir við það að þetta verði á svipuðum nótum og í fyrra, en frjálsar veiðar í einhverjar 4-6 vikur tel ég að sé alls ekki raunhæft, en ætla þó að enda þetta á sama hátt og svo oft áður og þegar ég fjalla um lundann: Ég hef tröllatrú á þeim svarthvíta og trúi því að löngu eftir minn dag, muni lundinn koma til Vestmannaeyja í milljóna tali eins og nú.
Að gefnu tilefni, vegna framboðs Frjálslyndra hér í Eyjum í næsta mánuði, enn er pláss fyrir heiðarlegt fólk á listanum okkar sem hefur kjark og hugrekki til að takast á við spillingarliðið.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
hæjj pabbi minn ég sé að gömlu veiðihárin eru risin haha en það er gott að lundinn er kominn en allt gott að frétta héðan af vestfjörðum (ísafyrði) nánartiltekið á bæ sem heitir gemlufall en það fer að stittast i virið herna lika fyrsta lambið reyndar ekki komið enn en beljurnar mjólka og bara bullandi hamingja :) æðislegt að vera kominn uppi sveit frá miðbænum i rvk :) en u veist af mer herna ef u átt eitthverntiman leið framhja endilega kíktu þá við :) kær kveðja heim
svavar þór Georgsson (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.