Gleðilega eurovision helgi allir

Vegna anna að undanförnu, hef ég hreinlega ekki mátt vera að því að skrifa, en nú skal bætt úr. Ég hef reynt að lesa flest af því sem flokkarnir sem bjóða fram næstu helgi hafa látið frá sér, en í raun og veru hefði verið nóg að lesa frá einum flokki, vegna þess að ekkert af þessum framboðum sker sig úr í stefnumálum. 2006 hins vegar þótti mér spennandi kostur að bjóða fram með það málefni á oddinum, að koma af stað uppbyggingu á Eiðinu fyrir stórskipahöfn, ferjuaðstöðu og hugsanlega þurrkví. Gömlu flokkarnir tóku þetta málefni líka upp á sína arma á þeim tíma, en eitthvað hefur lítið verið um efndir á þessu kjörtímabili. Einnig hef ég hvergi séð minnst á þetta mál í stefnuskrám flokkanna.

Af kosningaloforðum flokkanna 2006, þá er kannski minnisstæðast sú ákvörðun Sjálfstæðismanna að höfða til þeirra sem voru á móti frekari uppbyggingu á íþróttamannvirkjum, með því að lofa því að ekki yrði farið í það að byggja knattspyrnuhús, svo nú er spurning hvort að þeir kjósendur sem keyptu þetta loforð borgi til baka? 

V-listinn gerða þá, eins og núna, að lofa litlu eða engu, enda einfaldast að standa við það sem ekki er gefið. Reyndar sagði mér eldri V-lista maður sem ekki er í framboði núna, frá því fyrir nokkru síðan, að aðal málið hjá V-listanum hefði alltaf verið: "Að berja á helvítis íhaldinu" og spurning hvort að það sé ekki svo ennþá í dag? 

Í síðustu grein minni sendi ég áskorun á frambjóðendur D og V-lista, henni hefur að sjálfsögðu ekki verið svarað og er ég í sjálfu sér sáttur við það, enda engan sérstakan áhuga að rifja upp vinnubrögð þessara flokka. 

Eitt atriði stendur sérstaklega upp úr á þessu kjörtímabili, atriði sem að mínu mati skilur algjörlega á milli kjósenda og núverandi bæjarstjórnar. Tæplega helmingur Eyjamanna skrifaði undir í undirskriftarsöfnun, þar sem óskað var eftir því að við fengum að kjósa um okkar framtíðar samgöngumál. Þessu hundsaði bæjarstjórnin algjörlega og maður spyr sig: Hvar var lýðræðið þá? Því að samgöngumál er að sjálfsögðu ekki mál sem við kjósum um til fjögurra ára í senn. Öll framboðin keppast við að dásama Landeyjarhöfn og allt sem henni tengist og þau tækifæri sem hugsanlega geta skapast þar og í vikunni gekk núverandi bæjarstjórn svo langt, að leggja til fjármuni frá bænum í samráði við Eimskip, í tilraun til þess að tryggja að farið verði 4 ferðir á dag.  (Hver sagði aftur 7-8 ferðir á dag?) Hvernig Landeyjarhöfn eigi eftir að reynast veit enginn, en staðan er hins vegar mikið áhyggjuefni, t.d. hef ég heimildir fyrir því, að þó svo að ferðir með skipinu verði hugsanlega 4 ferðir á dag, þá er ekki búið að tryggja nema 2 ferðir með rútu á dag, kvölds og morgna, en þessu á þó að vera hægt að kippa í liðinn. Öllu verra er að frá og með 1. sept. erum við búin að missa varahöfnina, Þorlákshöfn, og ljóst að mikið mun mæða á áhöfn Herjólfs næsta vetur. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið mér hvað mest á óvart í þessari kosningabaráttu með því að fara að tengja saman annars vegar sveitarstjórnarkosningar og hins vegar núverandi kvótakerfi. Afar furðulegt, en einnig lúmskt þ.e.a.s. gagnvart fólki sem ekki skilur hversu fáránlegt núverandi kvótakerfi er. Elliði bæjarstjóri þakkar í síðustu viku einnig Sjálfstæðisflokknum fyrir það, að í fyrsta skipti í mörg ár hafi Eyjamönnum fjölgað. Þetta er vissulega rétt, en svo er aftur stór spurning hvort að þetta sé ekki frekar Sjálfstæðismönnum að kenna, því þeir bera mesta ábyrgð á hruninu. Afleiðingarnar eru mestar á höfuðborgar svæðinu og fólk leitar því eðlilega út á landsbyggðina, þar sem atvinnuástandið er betra m.a. hér í Vestmannaeyjum.

Varðandi kosningaúrslitin um næstu helgi, þá finnst mér frekar ótrúlegt að hér verði einhverjar verulegar breytingar. Ekki hugnast mér Framsóknarmenn, enda höfum við Eyjamenn slæma reynslu af þeim. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að passa svolítið sín vinnubrögð á þessu kjörtímabili, en um leið mokað dyggilega undir sig og sína og keypt sér þannig frekara fylgi. V-listinn hins vegar, hefur ekki verið sýnilegur á kjörtímabilinu og í raun og veru held ég að fáir Eyjamenn geri sér grein fyrir því, út á hvað þetta framboð gengur, annað en sem mótvægi við íhaldið. Hitt er þó nokkuð augljóst, að öll þessi framboð eru með sama markmiðið, fyrst og fremst að ná völdum hér í bæ, hvað sem það kostar. Þess vegna ítreka ég enn og aftur ákvörðun og áskorun bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins, við ætlum að sitja hjá og/eða skila auðu.

Gleðilega eurovision helgi allir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband