Kosningarúrslitin síðustu helgi, kvótakerfið og lundinn

Kosningarnar hér í Eyjum síðustu helgi fóru nákvæmlega eins og ég spáði fyrir um, og það nánast upp á atkvæði og í sjálfu sér er lítið um þau að segja. Á landsvísu eignuðumst við Frjálslynd tvo bæjarfulltrúa, en áttum engan fyrir og erum því nokkuð sátt. Varðandi þá hugmynd okkar að skila auðu eða hundsa þessar kosningar, þá er ég kannski fyrst og fremst ánægður með það, hversu margir höfðu samband við mig og lýstu yfir stuðningi við okkur Frjálslynd, en sjálfur mætti ég ekki á kjörstað. Að sjálfsögðu óska ég kjörnum bæjarfulltrúum til hamingju með sitt, en þar sem engar breytingar urðu, þá er nokkuð ljóst að eina aðhaldið sem þessi nýi og gamli meirihluti fær næstu 4 árin, verður á svipuðum nótum og síðustu 4 árin, þ.e.a.s. frá undirrituðum og öðrum bæjarbúum.

Eitt vakti þó sérstaka athygli mína í málflutningi meirihlutans, það var þetta stöðuga umfjöllun á þeim nótum að hagsmunir allra Eyjamanna fælist í því að verja óbreytt kvótakerfi. Í sjálfu sér er ég að hluta til sammála því að þessi svokallaða fyrningarleið hljómar ekki mjög vel, en að mínu mati vantar fyrst og fremst upp á að nánari útskýringar liggi fyrir og þá t.d. hvað yrði um þann kvóta sem yrði fyrndur og þá hvaða möguleika við Eyjamenn ættum á að ná honum til okkar, en eftir öll þessi ár sem þetta kvótakerfi hefur mallað, þá finnst mér alltaf jafn undarlegt að heyra fólk verja þetta kerfi, en það er nú svo, hræðsluáróðurinn virkar og það kannski ekki síðast og síst í því mikla atvinnuleysi sem nú er á landinu. 

Ég þekki afar vel allt það rugl sem tíðkast hefur í þessu kvótakerfi, sumt hef ég fjallað um, annað ekki. Í dag, hins vegar, fékk ég spurningu sem kom mér á óvart og varð til þess að ég þurfti að velta þessu öllu upp enn og aftur, þegar dóttir mín, 7 ára, spurði mig þessarar spurningar:

Hversvegna færð þú þér ekki svona stóran bát með mörgum mönnum?

Það er ekki auðvelt að útskýra fyrir 7 ára þetta fáránlega kvótakerfi, en ég reyndi þó og sagði:

Fyrir mörgum árum síðan, þá fengu þessir menn sem eiga þessi stóru skip úthlutað til sín hlutdeild í fiskinum í sjónum, tóku síðan lán út á fiskinn sem þeir áttu og keyptu þá sem voru minni og áttu enga peninga og minna af fiski og eiga í dag allan fiskinn í sjónum. 

Dóttir mín horfði á mig stórum augum og sagði svo:

Á einhver fiskinn í sjónum?

Og ég svaraði: 

Já, en þú lærir þetta betur þegar þú verður eldri.

Auðvitað hljómar þetta furðulega í huga þeirra yngstu, að einhver geti átt fiskinn sem syndir í sjónum. Ég held hins vegar, að í framtíðinni muni börnin okkar og barnabörnin ekki spyrja hvers vegna einhver hefði eignast fiskinn, heldur hvers vegna í ósköpunum hefði okkur dottið í hug að leyfa mönnum að veðsetja allan fiskinn í sjónum margfalt. Sem betur fer þarf ég ekki að svara fyrir það, þó svo að vissulega ég hafi neyðst til að taka þátt í þessu fáránlega kvótakerfi. Dapurlegast af öllu er þó sú staðreynd, að ef ekki verða gerðar breytingar á þessu kerfi þá mun það einmitt verða framtíðin, sem mun þurfa að takast á við þær skuldir, ekki ósvipað og við með Icesave og útrásarskuldirnar. 

Ég heyrði reyndar viðtal í vikunni við erlendan hagfræðing, að því er ég held, sem var að vara okkur Íslendinga við því að taka frekari erlend lán, því að það gæti hugsanlega bitnað á auðlindum okkar?

Það vakti athygli mína, eins og tvö síðastliðin ár, að enn og aftur er Erpur Snær kominn fram með sínar dómsdagsspár um lundastofninn í Eyjum. Merkilegt nokkuð, þá var það einmitt félagi í Veiðifélaginu á Heimaey, sem gerð sér ferð vestur á Hamar til að skoða í lundaholur sem eru mjög grunnar. Sá hann þar egg í hverri einustu holu, fór og sagði Erpi fréttirnar sem kom alveg af fjöllum, enda ekkert að fylgjast með því, en Erpur segir síðan í viðtali að hann leggist gegn veiðum eins og vanalega, þó svo að varpið fari betur af stað heldur en tvö síðustu árin.

Eitt vakti sérstaka athygli mína í þessu stutta viðtali við Erp, þar sem hann segir: 

Nú vantar ungfuglinn þar sem varp hefur misfarist undanfarin ár, er aðeins 10% af því sem eðlilegt getur talist. Stofninn er að minnka og veiðin verður varpfugl.

Alveg stórfurðulegt og í raun lætur Erpur í það skína á öðrum stað, að hann sé búinn að reikna út náttúrulegar breytingar á stofnstærð lundastofnsins í Vestmannaeyjum og gleymir þar algjörlega fjölmörgum staðreyndum, eins og t.d. töluvert af merktum ungfugl í Vestmannaeyjum hefur verið að veiðast fyrir norðan land. Lundastofninn í Vestmannaeyjum skiptir mörgum milljónum. Lundastofninn á Íslandi skiptir mörgum tugum milljóna. Megin hluti þeirra pysja sem komst á legg s.l. haust gerði það vegna þess, að lundinn var farinn að bera gulldeplu í pysjuna og fleira mætti telja til. Mín tillaga er því þessi: Veiðar verði leyfðar síðustu 10 dagana í júlí, hvort sem einhver veiði verður eða ekki, en skorað verði á veiðimenn að fara ekki oftar en 4-5 sinnum, í mesta lagi, í veiði og framhaldið skoðað eftir því, hvernig málin þróast.

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband