Til hamingju Eyjamenn og aðrir Íslendingar

Landeyjahöfn er komin í gagnið og fyllsta ástæða til að óska öllum til hamingju með það, þó svo að enn muni líða bæði mánuðir og ár áður en kemur í ljós, hversu góð eða slæm áhrif þessi nýja höfn hefur fyrir okkur Eyjamenn, en tækifærin eru svo sannarlega til staðar sérstaklega yfir sumarmánuðina, ég hins vegar skil vel áhyggjur þeirra sem þurfa að treysta á örugga vöruflutninga allan ársins hring. Einnig er nokkuð augljóst að flutningsgjöld til og frá höfuðborgarsvæðinu muni að öllum líkindum hækka, en vonandi náum við að ráða fram úr því og vonandi verða kostirnir fleiri og sterkari heldu en gallarnir.

Ég lendi enn á spjalli við fólk sem oft á tíðum hefur afar ólíkar skoðanir á Landeyjahöfn, sumir sjá ekkert nema bjart yfir þessu á meðan t.d. kona sagði við mig fyrir nokkru síðan:"Og svo verðum við bara innilokuð allan veturinn." Ekki er ég nú sammála þessu, en við verðum bara að vona það besta, mínar skoðanir hins vegar á samgöngumálum okkar eru óbreyttar. Af þeim þremur kostum sem voru í umræðunni þá var þessi, að mínu mati, lakasti kosturinn. 

Það vakti líka athygli mína hörð viðbrögð þeirra úr áhöfn Herjólfs sem misstu vinnuna, en um leið talsverða undrun, því að þetta höfðum við vitað í þó nokkurn tíma. Ég hef hins vegar meiri áhyggjur af því hvort að ríkið noti nú ekki tækifærið og skerði þjónustuna við bæjarbúa. Einnig tók ég eftir því að bæjarstjórinn okkar hafði orð á því að þjónustustigið hér væri of hátt og að hann hefði hug á því að skoða þann möguleika á því að samnýta það með nágrönnum okkar á fastalandinu. Það ánægjulegasta þó, er sú frétt að nú þegar verði hafin vinna við að undirbúa smíði á nýrri ferju, enda löngu orðið tímabært að endurnýja skipið. Vonandi fara menn ekki að smíða minna skip vegna styttri siglingar. 

Á laugardaginn hefst lundaveiðitímabilið í ár, aðeins er leyfð veiði í 5 daga, sem er afar lítið en þó afar mikilvægt og mun betri kostur heldur en að loka alveg. Ekki hefur verið mikið af lunda að sjá að undanförnu, en þó talsvert í þessari viku, en veðrið undanfarin mánuð hefur verið lundanum afar óhagstætt. Eitthvað er um að einstakir veiðimenn og veiðifélög tali um að fara ekki í veiði, en mín skoðun á þessu er afar einföld: Ef það er góð vindátt á góðum veiðistað og gott flug, þá á að sjálfsögðu að veiða, því það er hin eina raunverulega leið til þess að sjá hvaða breytingar eru í lundastofninum og þá sérstaklega hvort að einhver ungfugl verði af ráði. 

Ég var mjög ánægður að heyra í fréttunum í gærkvöldi að þekktur skipstjóri á uppsjávar veiðiskipi, lýsti yfir sömu skoðun á makrílnum og ég hef skrifað um s.l. tvö ár: Þessi fiskur er fyrst og fremst kominn hingað til þess að éta og þá allt sem hann nær í og m.a. sílið, sem gerir það að verkum, eins og við Eyjamenn sjáum svo vel, að lundinn fær ekki æti handa unganum. Hin ástæðan sem ég hef oft skrifað um er kannski orðin svolítið skrítin þ.e.a.s. opnun fjörunnar fyrir snurvoð í okt. 2007, fjaran sem er uppeldissvæði fyrir síli og smáýsu og var opnuð á sínum tíma þegar ýsukvótinn var kominn í 105 þús. tonn. Núna, þegar lagt er til að kvótinn verði aðeins um 50 þús. tonn er samt enginn farinn að tala um að loka fjörunni, því svæði sem allir sem þekkja til, vita að er það svæði sem er, þegar allt þrýtur, að lundinn getur bjargað sér.

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband