Af Titanic Eyjamanna.

Nokkuð síðan ég skrifaði síðast, og nenni varla að skrifa meira um Landeyjahöfn en þar sem ég hef fengið nokkrar spurningar varðandi síðustu skrif, þá ætla ég að svara þeim núna og taka stöðuna eins og hún er í dag. Varðandi nýjustu hugmyndir Siglingarstofnunar um að leysa vandamál hafnarinnar að einhverju leiti með því að færa Markarfljót, þá hef ég borið þetta undir töluverðan fjölda fólks og eru allir einróma sammála um það, að þetta muni engu breyta. Þessar nýjustu hugmyndir ollu mér einnig miklu vonbrigðum vegna þess, að fyrir nokkru síðan heyrði ég af því að hjá Siglingamálastofnun væru uppi hugmyndir um að lengja austari garðinn, sem að ég tel að sé virkilega spennandi lausn varðandi austanáttina og sandburðinn, en hvers vegna sú hugmynd er síðan ekki borinn upp verð ég að leyfa mér að giska á að sé vegna kostnaðar, en menn hafa nefnt við mig að kostnaður við að lengja austari garðana um eitt til tvö hundruð metra gæti farið í allt að tvo milljarða og ljóst að þar með væri höfnin færi langt fram úr kostanaðar áætlum, en að mínu mati væri þetta virkilega spennandi lausn uppá austanáttina og sandburðinn.

Það ömurlegasta sem ég hef heyrt að undanförnu, er afar mikil gagnrýni á skipstjóra Herjólfs og meira að segja landkrabbar sem aldrei hafa migið í saltan sjó farnir að tala um vanhæfa skipstjóra og að þeir séu hræddir við Landeyjahöfn. Ótrúlegt að heyra þetta, en eins og allir vita þá er það skipstjórinn á skipinu sem ekki bara ræður, heldur ber alla ábyrgð á því ef eitthvað fer úrskeiðis og sem ágætt dæmi um slæm áhrif á því þegar landkrabbar grípa inní störf skipstjóra, þá minni ég á söguna um Titanic þar sem eigandinn á skipinu heimtar meiri ferð til að reyna að setja met með þeim hörmulegu afleiðingum sem þar urðu.

Margir hafa komið að máli við mig vegna síðustu greinar, þar sem ég skora á þá fimm sem að mínu mati bera mesta ábyrgð á því að farið var í þessa framkvæmd. Gagnrýnin hefur fyrst og fremst falist í því að fólk vilji bæta við aðilum sem eigi að segja af sér og til dæmis eru nefndir þingmennirnir Björgvin G. og Unnur Brá. Einnig hefur verið nefnt við mig Gísli Viggósson hjá Siglingastofnun, en ég hef svarað þessu þannig, að Gísli er vissulega að hluta til arkitektinn af höfninni, en hann er hinsvegar ekki yfirmaður sem stjórnar verkinu og hann hefur ítrekað gefið upp þá skoðun sína, að ekki yrði hægt að nota núverandi Herjólf í Landeyjahöfn yfir vetrarmánuðina. Varðandi þingmennina, þá nefni ég aðeins þessa þrjá sem ég nefndi vegna þess, að þeir höfðu mest um það að segja að þessi leið var farin. Varðandi bæjarstjórann, þá er að mínu mati nægilegt að benda á hálfhlægileg skrif hans í fréttum í lok ágúst, þar sem að hann þakkar sér og bæjarstjórninni fyrir að hafa staðið af sér undirskriftarsafnanir, eins og til dæmis undir nafninu "ströndum ekki" og það aðeins þremur dögum áður en skipið tók niðri í fyrsta skiptið í haust. En svo er það kannski aftur spurning hvort að fleiri í bæjarstjórninni ættu ekki líka að segja af sér?

Margir hafa spurt mig um kostnaði hjá mér í haust, eða rétt er að segja tap, og hvernig ég reikna þetta út. Því er auðsvara. Meðal róður hjá mér er ca tvö hundruð þúsundir og er ég búin að missa af tveimur róðrum í haust og samtals fimm vinnudaga, þar af var frúin með mér í byrjun september þegar við vorum föst í þrjá daga upp á landi og missti þar af leiðandi launin þá daga, en við vorum á ódýru gistiheimili í bænum  sem kostaði tíu þúsund krónur með morgunnmat, en samtals er tjón mitt í haust vegna Landeyjahafnar komið í ca sex hundruð þúsund og því að mínu mati eðlilegt að ég hafi verið orðinn pínulítið pirraður á þessu ástandi þegar ég skrifaði síðustu grein, en ég stend að sjálfsögðu við greinina þó að ég voni að sjálfsögðu, eins og allir Eyjamenn, að hægt verði að laga Landeyjarhöfn, en til þess að svo verði, þá verða starfsmenn Siglingamálastofnunar og ráðamenn að fara að hlusta á Eyjamenn og ekki bara landkrabbana. 

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband