10.8.2011 | 23:12
Lundasumarið 2011 og Erpur Snær Hansen
Sumarið reyndar ekki alveg búið og enn óljóst hvort einhver pysja kemst á legg, en samt einhver merki um það, en hér kemur árviss grein mín um lundasumarið.
Ég hafði eiginlega ákveðið það á síðasta ári að nefna nafn Erps í mínum greinum ekki oftar, en miðað við afrek hans í lyga og kjaftasögum í sumar þá er það einfaldlega ekki hægt, enda afrek Erps óvenju gróf og komu meira að segja mér á óvart.
En fyrst, ákvörðun Umhverfisráðs og Vestmannaeyjabæjar um að banna alfarið lundaveiðar í sumar, var einfaldlega röng og skiptir það þá engu máli, þó að ég sé hættur veiðum hér í Eyjum vegna ástandsins, það hefði átt að leyfa þessa 5 daga en kannski beina því til veiðimanna, að þeir færu kannski ekki nema einu sinni eða mesta lagi tvisvar og nota þau gögn sem hefðu fengist með þeim veiðum, til þess að fylgjast með því hvernig stofninn þróast og þá t.d. hvort einhver ungfugl hefði komist á legg síðustu 3 árin, en m.a. vitum við það að varpið 2007 tókst ágætlega þó að það hefði verið undir meðallagi og ljóst að sá árgangur hefði getað borið uppi ágæta veið í sumar. Dapurlegast af öllu er þó sú staðreynd að ákvörðun Umhverfisráðs er byggð á bulli frá Erpi og þeirri staðreind að innan umhverfisráðs er, eftir því sem mér er sagt, manneskja sem er mjög framarlega í ferðaþjónustunni hér í Eyjum, en það hefur svo sannarlega marg sýnt sig að ferðaþjónustuaðilar eru alfarið á móti öllum veiðum. Einnig þótti mér mjög slæmt að ekkert var rætt við veiðimenn eða bjargveiðifélögin og sjónarmið þeirra í þessari ákvörðun því ekki tekin inn í myndina.
Eins og kemur fram í upphafi greinarinnar, þá er algjörlega vonlaust að fjalla um lundann án þess að minnast á Erp, en ég ætla hér að taka nokkur dæmi úr samtölum sem áttu sér stað í sumar, án þess að nafngreina þá sem eiga í hlut, og ekki verður þetta kannski alveg orðrétt en ég held að þetta skiljist. Ég sagði frá því á síðasta ári að vinum mínum hefði verið boðið í veiði norður í land og stefnan væri á að fara aftur í sumar. Hafði Erpur samband við einn félaga mína til að fá nánari fréttir af þessum ferðum og hafði síðan samband við vin minn norður í landi, sem hafði leyft okkur að koma þar á ónafngreindan stað í veiði og þetta fór þeim á milli:
Erpur: "Þú leyfðir nokkrum strákum úr Eyjum að koma þarna í veiði hjá þér."
Vinur: "Já, það er rétt, þeir komu hingað í fyrra og veiddu nokkur hundruð lunda."
Erpur: "Já, ég heyrði nú aðra sögu sem gengur út á það, að þeir hefðu platað þig og veitt a.m.k. 3000 lunda og logið því að þér, að veiðin væri ekki nema nokkur hundruð lundar."
Vinur: "Það er ekki rétt. Ég hef það að venju að taka á móti veiðimönnum þegar þeir koma úr veiði og ég hjálpaði þeim að bera veiðina upp í bíl og þetta voru bara nokkur hundruð lundar."
Erpur: "Já, þú segir það, en ég heyrði annað."
Félagar mínir hafa nú gengði á Erp og óskað eftir skýringum á þessu bulli hans og hefur hann viðurkennt að hafa látið þessi orð falla, en neitað að draga þau til baka né biðjast afsökunnar. Sannleikurinn er sá, að Erpur og félagar fóru um allt norðurlandið í sumar, en hvað þeir sögðu á hverjum stað veit ég ekki, en það er mjög undarleg staðreynd hins vegar, að ég hef heyrt í fjölmörgum veiðimönnum hér í Eyjum sem höfðu hugsað sér að komast í veiði á norðurlandi, en skyndilega eru Eyjamenn ekki velkomnir nokkur staðar án þess að nokkrar skýringar fáist, en með því að fara krókaleiðir fengið þær skýringar að Eyjamenn séu einfaldlega ekki velkomnir í veiði vegna þess, að þeir séu óheiðarlegir veiðimenn sem hafi rústað lundastofninum í Vestmannaeyjum. Ekki ætla ég að halda því fram að þetta komi allt frá Erpi, en eins og sést á þessu samtali hans við vin minn fyrir norðan, þá hlýt ég að spyrja mig þeirrar spurningar, hvað maður sem er ráðinn til þess að leita orsaka á hruni varps í Vestmanneyjum sé að gera með að fara með svona bull kjaftasögu í fólk á norðurlandi? En sem dæmi um ástandið fyrir norðan þá er mér sagt að í Lundey sem er ca á stærð við Hellisey bara grasi vaxin, þá er búið að veiða þar 15 þúsund lunda í sumar og sér ekki högg á vatni.
Ég hef víða rætt þessi mál nú í sumar og í raun og veru verið í miklum erfiðleikum um að ákveða það, hvernig ég ætti að takast á við þessa lygasögu frá Erpi og hvernig ég ætti að skilgreina ástæðuna fyrir henni, en ætla að reyna það með því að vitna í stutt samtal hjá mér og gömlum kennara mínum, mikils virtum Eyjamanni sem ég hef einhverntímann í gamni kallað fjallageit Vestmannaeyja og kalla hann því í greininni geitina.
Við hittumst niður við bryggju og eftir að ég hafði útskýrt málið, þá sagði geitin þetta:
"Þetta kemur mér ekki á óvart, ég þurfti ekki að tala við Erp nema í 15 mínútur til þess að skilja það, að ef Erpur fær einhverju um það ráðið, þá verða allar lundaveiðar á Íslandi bannaðar."
Ég: "Þannig að það má segja sem svo að Erpur sé einhvers konar öfgafullur umhverfissinni?"
Geitin: "Já, þú getur sagt það."
Mér fannst þetta nokkuð merkilegt spjall.
Að lokum ætla ég að vitna í yfirmann Erps úr samtali okkar, en þar kom m.a. fram að t.d. útskýring Erps og félaga á því að 2005 hafi verið fyrsta árið sem varp misfórst í Eyjum og ég gagnrýnt mjög harðlega, enda höfnin full af pysju það árið og mikil lundaveiði, fyrir utan það að Erpur hóf ekki rannsóknir fyrr en 2007, sé byggð á því að tekin hafi verið mynd af brekku í Elliðaey 2005 þar sem mikið var af dauðri pysju. Frábær sönnunargögn það.
Annað vakti þó mun meiri athygli mína í samtali okkar yfirmann Erps, en þar kom m.a. fram að hluti af herferð þeirra um norðurlandið sé til þess að undirbúa frekari umsóknir um styrk til ríkisins til að stunda þessar svo kölluðu lunda rannsóknir og að ef ekki fengjust frekari styrkir fyrir haustið, þá yrði hann sennilega að segja Erpi upp með haustinu. Ég ætla því að nota þetta tækifæri að skora á alla veiðimenn og þingmenn að standa nú saman um að losa okkur við Erp, en ég ítreka það að ég var algjörlega fylgjandi því að hann yrði fenginn hingað 2007 til þess að rannsaka og reyna að finna út ástæðuna fyrir hruni varpsins, en á 4 árum er árangurinn enginn, engar hugmyndir, engar tillögur, ekkert sem gæti hugsanlega hjálpað lundanum og pysjunni, ekkert nema árásir á lundaveiðimenn og tillögur um að banna allar lundaveiðar. Ég sé reyndar í Mogganum í dag að þar reynir hann að ýja að því að þetta tengist allt saman hlýnun jarðar og á næstu árum sé framundan frekari hlýnun, en í viðtali við hinn virta veðurfræðing, Pál Bergþórsson, frá því í vor þá er árið í ár einmitt fyrsta árið í kuldaskeiði sem einmitt byrjar í ár og mun standa næstu árin og ég held að fáir efist um það hvor hafi rétt fyrir sér sé miðað við kuldann í vor.
Að lokum vil ég endurtaka það enn einu sinni sem ég hef skrifað svo oft áður, ég tel að það þurfi að rannsaka betur áhrif bæði makrílsins og snurvoðarinnar á fæðu pysjunnar, en stærsta vandamál okkar Eyjamanna að mínu mati, er í dag meintur lunda sérfræðingur. Eins og sést hefur í fjöllunum í Eyjum undanfarnar vikur, þá kom lundinn til Eyja í sumar í milljóna tali. Lundastofninn á Íslandi er a.m.k. á annan tug milljóna og lundinn mun koma til Eyja í milljóna tali löngu eftir minn dag.
Greinin er orðin allt of löng og ætla ég að enda núna, en mun bæta við ef þarf.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.