Landeyjahöfn - klúður eða tækifæri?

Ég hef ekki skrifað um Landeyjahöfn síðan 25. apríl s.l. enda kannski óþarfi að vera alltaf að japla á sömu hlutunum, en sú grein stendur einfaldlega enn fyrir sínu.

Margt er búið að gerast í sumar sem vakið hefur athygli, en ég ætla fyrst og fremst að fjalla um það sem er að gerast í dag. Nú er ljóst að það er ætlunin að óska eftir því að Baldur verði fenginn aftur til Eyja og að það sé vilji til þess að láta hann sjá um siglingar til Landeyjahafnar í vetur. Að mínu mati er tvennt sem þarf að hafa í huga, í fyrsta lagi að ef þetta er sem viðbót við Herjólf og að Herjólfur sigli áfram til Þorlákshafnar, þá er þetta einfaldlega algjör snilld og í samræmi við mínar skoðanir sem ég hef sett fram áður, þ.e.a.s. að kannski væri rétt að láta einkaaðila um rekstur og siglingar til Landeyjahafnar. Hitt atriðið sem þarf að hafa í huga er það, að ef mönnum dettur til hugar að ætla að skipta út Herjólfi fyrir flóabátinn Baldur, þá er sú hugmynd að mínu mati jafn fáránleg og sú fyrri er snilld. Ég var mjög spenntur fyrir þessu tækifæri sem við Eyjamenn fengum í haust þ.e.a.s. að fá minna og liprara skip til siglinga í Landeyjahöfn og mjög ánægður með það að sjá Baldur sigla í allt að 3,5 m ölduhæð, en það verður að hafa það í huga, að á tímabilinu jan-apríl á þessu ári, í frekar risjóttri tíð en þó engu ofsaveðri, þá var ölduhæðin við Landeyjahöfn í ca. 2 mánuði aldrei undir 4 m og augljóslega vonlaust að reyna að sigla í slíku sjólagi á Baldri til Þorlákshafnar. 

Nokkrar hugmyndir hafa verið settar fram um hinar og þessar ferjur, sem gætu hentað betur til siglinga í Landeyjahöfn heldur en þessi tvö skip og er í sjálfu sér allt í lagi að skoða það, en að mínu mati þarf að sér hanna skip fyrir Landeyjahöfn, skip sem getur í neyð siglt til Þorlákshafnar í verstu veðrum, því að eins og komið hefur fram, þá rennur leyfi Herjólfs til farþegaflutninga út í nóv. 2015 eða eftir aðeins 4 ár. Næsti Herjólfur þarf því bæði að vera grunnristari en núverandi skip, en þá væri hugsanlega hægt að hafa öfluga veltiugga og jafnvel veltitanka sem hægt væri að dæli í við verstu aðstæður, einnig þarf að vera til staðar aðstaða fyrir farþega til þess að leggja sig og auk þess, að mínu mati, algjört lykilatriði að nýr Herjólfur geti siglt mun hraðar en núverandi skip.

Eitt af því sem vakti hvað mestu athygli mína af öllu því sem ég hef lesið frá hinum og þessum um Landeyjahöfn í sumar, er grein Sigurðar Áss Grétarssonar hjá Siglingamálastofnun frá því í júní, þar sem Sigurður hafnar algjörlega þeirri hugmynd að austari garðurinn verði lengdur til þess að verja innsiglinguna á þeim forsemdum, að þá myndi einfaldlega sandur hlaðast meir upp vestan megin. Þessari skoðun er ég ósammála enda tel ég þetta vera eitt af lykilatriðum til þess að Landeyjahöfn geti nálgast það að vera heilsárs höfn, en kannski er þetta bara misskilningur hjá mér og Sigurði, enda er ég ekki að tala um að framlengingin á austari garðinum verði frá innsiglings horninu, heldur að tekið yrði framlenging syðst og austast á austari garðinum í hálf boga, frá suð-austri yfir í vestur. Einnig stend ég enn við það að rétt væri að skoða það að koma upp sírennsli út úr höfninni sem hægt væri að slökkva á þegar skipið væri að koma og fara og teldi ég það mun betri kost heldur en að ætla að dæla öllum sandinum í burtu.

Landeyjahöfn er svo sannarlega tækifæri, en tækifæri eru þannig að það er mjög auðvelt að klúðra þeim. Það er enginn vafi á því, að Landeyjahöfn hefur haft mikil og góð áhrif á ferðaþjónustuna, reyndar ekki bara vegna hafnarinnar sjálfrar, heldur hafa ferðaþjónustu aðilar í Vestmannaeyjum lagt í mikinn kostnað við að auglýsa upp bæði höfnina og Vestmannaeyjar og nægir þar að minnast á t.d. Rib safari þar sem mikið var pantað fram á haust, en núna þegar vandræðagangurinn með samgöngumálin hefur byrjað aftur, þá er hjá þeim, eins og öðrum, mikið um afpantanir. 

Næstu skref eru því gríðarlega mikilvæg ef ekki á illa að fara. Ég ætla því að enda þetta með því að skora á alla aðila sem eru í þessum svokallaða samráðshóp, sem þingmenn og aðra, að vanda nú til verksins, hlusta á skoðanir allra, hvort sem þær eru túlkaðar jákvæðar eða neikvæðar, þannig og aðeins þannig munum við fá rétta lausn á þeim vandamálum sem tengjast Landeyjahöfn og höfum það í huga, að höfnin á að duga ekki bara næstu árin, heldur áratugina í það minnsta.

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband