2.2.2012 | 20:25
Landeyjarhöfn, staðan
Mikil umfjöllun um Landeyjarhöfn að undanförnu í Eyjamiðlum, en mig langar að byrja á að þakka Gísla Jónassyni og Sigmund Jóhannessyni fyrir þeirra framlög í síðustu fréttum, Gísli er reyndar með sömu grein eða svipaða og hann hefur skrifað frá því löngu áður en framkvæmdir við Landeyjarhöfn hófust, en Gísli, eins og svo margir þessir svo kölluðu úrtölumenn, hafa einfaldlega bara haft rétt fyrir sér í einu og öllu. En það sem helst hefur vakið athygli mína síðustu mánuði, er frétt um að verktakinn sem gerði veginn upp að námunni þar sem grjótið í höfnina var tekið, var fyrir nokkru tilkynnt að ef hann ekki gengi frá veginum upp að grjótnámunni þá fengi hann ekki borgað. Forsaga málsins er sú að hluti verksins var að breikka veginn fyrir þungavinnuvélar, en mér skilst að íbúarnir í nágreninnu hafi þótt vegurinn mun betri eftir breikkunina og vertakinn ýjað að því, hvort ekki yrði síðar meir frekari flutningar á grjóti úr námunni ( til dæmis ef byggja ætti varnargarð ) en svarið liggur sem sé fyrir.
Margar kjaftasögur eru í gangi varðandi hugsanlegan opnunartíma á Landeyjahöfn og það nýjasta sem ég hef heyrt er, að það eigi að reyna að opna í lok mars í fyrsta lagi, en í raun og veru skiptir engu máli hvað hver ákveður í þessu máli, því að veðrið einfaldlega ræður þessu, sem er eiginlega alveg með ólíkindum að búa við það á tuttugustu og fyrstu öldinni að veðurfar og vindáttir, ráði því hvort að höfnin sé nothæf eða ekki. Nýjasta nýtt frá bæjarstjórnar meirihlutanum, sem ég hef heyrt, er að þar tala menn nú um að eftir svona ca. 5 ár verði öll vandamál Landeyjahafnar að baki og menn muni einfaldlega hlægja að þessum vandræðagangi á fyrstu árum Landeyjahafnar. Það væri óskandi að þetta gengi eftir, en því miður sé ég ekkert í stöðunni í dag sem bendir til þess að þetta gangi eftir.
Það vakti athygli mína í síðustu viku, að á sama tíma og Samgönguráðherra gefur það út að það eigi að byggja nýtt skip, sérstaklega hannað fyrir Landeyjahöfn og megi að hámarki kosta ca. 4 milljarða, þá sjá bæjarstjórinn og fulltrúi minnihlutans ástæðu til þess að setja nöfn sín undir grein, þar sem þeir reyna að fullvissa Eyjamenn um að nýtt skip muni líka geta siglt til Þorlákshafnar. Þetta hljómar frekar ótrúverðugt amk. enda gert ráð fyrir því að nýtt skip muni rista amk. meter minna heldur en núverandi ferja og því augljóst að ef ekki verða gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir í smíði skipsins, þá mun það að öllum líkindum ekki geta siglt til Þorlákshafnar í jafn slæmum veðrum og núverandi ferja, en að mínu mati er það algjört lykilatriði að sjóhæfni nýrrar ferju verði sambærileg og núverandi ferju. Það er nógu slæmt að samgöngumál okkar séu núna í mun verri stöðu yfir vetrarmánuðina heldur en áður en Landeyjahöfn var byggð, og á það er ekki bætandi.
Í byrjun janúar fundaði bæjarstjórnin með Siglingamálastofnun og kom sú ályktun frá þeim fundi að enn væri stefnt að því að gera Landeyjahöfn að heilsárs höfn. Þetta breytir í sjálfu sér engu, það er hægt að segja hvað sem er og álykta hvernig sem er. Í einni af greinum Elliða kemur fram m.a. að hann hafi áhyggjur af því að ekkert muni gerast næstu 3 árin. Ég er sammála honum í því og einnig mjög ánægður með það, að bæjarstjórnin hafi áhuga á að skoða það að leiga lítið skip til farþegaflutninga í Landeyjahöfn þegar Herjólfur kemst þangað ekki, en ég hef sjálfur nokkrum sinnum orðað þann möguleika og væri það góð viðbót við Herjólf.
Eitt af því sem vakti mesta athygli mína í haust er einmitt viðtal við bæjarstjórann, þar sem Heilbrigðisráðherra boðaði hugsanlega sameiningu á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og Suðurlands með fækkun starfa hér í Eyjum, eitthvað sem við Eyjamenn erum öll á móti, en í viðtali við Elliða, þá segir hann að menn verði að hafa það í huga að það tekur okkur Eyjamenn um 4 klst. að komast upp á Selfoss. Ekki orð um Landeyjahöfn þar, en þarna kom enn einu sinni fram eitt af því sem ég varaði við á árum áður ef Landeyjahöfn kemur einhvern tímann til með að virka, þá er enginn vafi á því að hvaða ríkisstjórn sem mun stjórna þá, þá mun hún að öllum líkindum fækka störfum hér á vegum Ríkisins í nafni hagræðinga og vegna bættra samgangna Eyjamanna við fastalandið og gegn því þarf að berjast.
Þetta er orðið ágætt í bili, meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég held nú að það taki aðeins meira en fimm ár að vandræðin vegna Landeyjahafnar hverfi, ÉG HELD AÐ ÞAÐ TAKI LENGRI TÍMA FYRIR HANA AÐ FYLLAST AF SANDI OG KOMAST ÞANNIG UPP Í LAND OG VERÐA AÐ "HLÆGILEGU" MINNISMERKI UM HEYMSKU OG VITLEYSISGANG. Að flestu leyti er ég alveg sammála grein þinni og sérstaklega vitlaus finnst mér hugmyndin að fara að huga að smíði nýrrar ferju, með Landeyjahöfn í huga, loksins núna.
Jóhann Elíasson, 2.2.2012 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.