17.4.2013 | 21:06
Gleðilegt sumar
Lundinn er að setjast upp í fjöllunum hér í Eyjum í kvöld 17. apríl, og þar með er komið sumar hjá mér, og stenst það þar með því sem ég spáði, en ég hef oftast séð fyrsta lundann fljúga upp í fjöllin á tímabilinu 13. - 17. apríl.
Reyndar fékk fyrsti lundinn í ár ekki góðar móttökur, en ég frétti af mönnum á svartfuglaskytteríi fyrir viku síðan sem einmitt fengu einn lunda og svolítið skrítið að hugsa til þess, að mönnum er algjörlega frjálst að skjóta lunda, sem í flestum tilvikum er fullorðinn fugl, en á móti er bannað að taka lunda í háf, sem í flestum tilvikum er ungfugl eða ókynþroska fugl.
Nokkuð margir lundaveiðimenn hafa að venju farið að gera sér vonir um að í sumar verði leyfð einhver veiði, en ég er ekki svo bjartsýnn. Að mínu mati er ákvörðun umhverfis og skipulags ráðs um að banna lundaveiðar byggð á rökum meints vísindamanns og því augljóst að á meðan ekki koma mótrök, þá hlýtur bannið að halda áfram og skiptir þá engu máli, þó að veiðimenn sem fylgst hafa með lundastofninum hér í Eyjum í meira en hálfa öld, tali um að aldrei hafi sést jafn mikið af lunda í Eyjum.
Margir hafa komið að máli við mig vegna skýrslu Erps sem birtist á Eyjamiðlunum í janúar, þar sem kemur fram að samkv. útreikningum hans hafi lundaveiðar í Vestmannaeyjum verið ósjálfbærar síðan 1968. Flestir hafa nú bara hlegið að þessu, en ég hafði svona hálft í hvoru vonað að Erpur myndi senda frá sér leiðréttingar skýrslu, enda eru þessir útreikningar ótrúlega galnir, en ef þeir væri réttir, þá væri að sjálfsögðu enginn lundi lengur í Vestmannaeyjum.
En ég ætla að enda þetta með því að vitna í Simma á Viking Tours: "Lundastofninn í Vestmannaeyjum telur ca. 7 milljónir fugla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.