4.5.2013 | 12:23
Það gott að búa í Eyjum, en........
Mig langar að byrja þessa grein á að þakka þeim feðgum Pálma og Óskari í Höfðanum, fyrir góð störf undanfarin ár og áratugi við að sjá um og þjónusta Stórhöfðavita, en oft hefur geisli Stórhöfðavitans yljað manni á köldum vetrarnóttum og á fyrst árum minnar útgerðar, notaði maður einmitt vitana mikið til að staðsetja sig og til að finna fiskimið.
Fór í sundlaugina í gær og lenti í heitum potti sem var fullur af túristum, bæði Íslenskum og erlendum og var svolítið gaman að því hvað fólki fannst aðstaðan okkar í sundlauginni, og útisvæðinu sérstaklega frábær og löngu orðið ljóst að þær vel heppnuðu breytingar sem ráðist var í fyrir nokkrum árum síðan, er enn ein skrautfjöðurinn í þjónustu okkar við ferðamenn, enda öll þjónusta þar og umgjörð til mikilla fyrirmynda, það er gott að búa í Eyjum, en.............
........ekki er allt sem sýnist. Ég fékk fréttir í gær sem gerðu mig algjörlega gapandi af undrun. Ég hef nokkuð oft gagnrýnt Siglingamálastofnun vegna útreikninga þeirra og vinnubragða vegna Landeyjahafnar og í sjálfu sér hafa þeir, eins og flestir nú orðið vita, viðurkennt ótrúlega miklar vitleysur í útreikningi þeirra varðandi höfnina. Nýjasta afrek Siglingamálastofnunnar birtist okkur í vikunni með tilkynningu frá þeim til aðstandenda Rib-Safari um að þeir gætu ekki fengið að hefja siglingar í maí og ekki að sigla í október heldur, nema að allir farþegar hjá þeim væru í neyðarbjörgunarbúningi. Ég hef nú sjálfur prófað að fara í neyðarbjörgunarbúning og veit ég vel að það er afar óþægilegt og á ekkert sameiginlegt með skemmtisiglingu. Ákvörðun Siglingamálastofnunnar í þessu máli, sem að mér skilst að byggist á því að ákveðið hafi verið að taka upp einhverja Norska reglugerð, er að mínu mati ótrúlega vitlaus. Það sem verra er, Rib-Safari fólk var búið að vinna allan apríl við að undirbúa bátana og áttu þegar, bara þessa fyrstu helgi í maí, liðlega 200 manns bókað í Rib-Safari ferð. Tjónið er því gríðarlegt vegna þessar ákvörðunar Siglingamálastofnunnar.
Önnur hlið á þessu er svo sú að auðvitað þó margir ferðamenn komi sérstaklega til þess að fara í Rib-Safari ferð, þá að sjálfsögðu notfæra þeir sér ýmislegt annað sem er í boði bæði í mat og drykk og verslun og sýningar o.a. Heildartjón Eyjamanna er því augljóslega nokkrar tugi milljóna og ég ætla hér með að skora á Siglingamálastofnun að endurskoða sína ákvörðun, enda að mínu mati engin rök fyrir henni.
Langar líka að skora á stjórn ferðamála í Vestmannaeyjum og bæjarstjórn og þingmenn að beita sér í þessu máli, þetta alræðis vald sem Siglingamálastofnun virðist geta tekið sér í þessu máli sem og öðrum sambærilegum, ásamt öðrum sambærilegum stofnunum og ákvörðun þeirra í hinum ýmsu málum er fyrir löngu orðið eitt af stærstu vandamálum í Íslensku samfélagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.