8.8.2013 | 17:50
Ferðaþjónustan...........
...............er á mikilli siglingu þessa dagana (þeas ef undanskilinn er dagurinn í dag, ófært í Landeyjahöfn) en það eru þrjú atriði sem mig langar að koma inn á að gefnu tilefni.
Í fyrsta lagi, þá finnst mér vinnubrögð Siglingamálastofnunnar gagnvart Rib Safari og nýja bátnum hans Simma, Vikingi, afar furðuleg, en kannski ekki hvað síst vinnubrögðum, eða ætti maður kannski frekar að segja engum viðbrögðum hjá sjálfstæðismönnum, sem ekki bara sitja í hreinum meirihluta hér í bæjarstjórn, heldur eru líka í nýrri ríkisstjórn, flokkur sem að einu sinni gaf sig út fyrir það að styðja við frelsi einstaklingsins til að skapa sér og sínum atvinnu og tekjur, en virðist núna vera algjörlega fastur í því að stofnanavaldið eigi algjörlega að ráða ferðinni, en kannski er sjálfstæðisflokkurinn orðinn einhvers konar einu sinni var?
Annað sem mig langar að nefna er að ég heyrði í hjónum sem komi til Vestmannaeyja í dagsferð nokkru fyrir Þjóðhátíð. Gengu upp á Dalfjall og víðar og nutu útsýnisins í frábæru veðri, fóru síðan niður í dal og fundu fínan stað rétt hjá salerninu inni í dal og ætluðu þar að snæða sitt nesti. Kom þá kona þar að og nánast rak þau í burtu og var að þeirra sögn afar illileg og orðhvöss í þeirra garð. Til þess að kanna þetta mál, þá hafði ég samband við Jónas hjá Sólbakkablómum sem sér um tjaldsvæðin og fékk þessa skýringu: Já, þetta er rétt, þetta er ekki í fyrsta skipti sem við þurfum að reka fólk í burtu sem ekki hefur greitt sig inn á tjaldsvæðið. Enn fremur vildi Jónas taka það skýrt fram að þeir sem hafa ekki greitt sig inn á tjaldsvæðið, þurfi að greiða 200 kr fyrir afnot af salerninu inni í dal. Ástæðan fyrir þessu er að þau fá ekkert greitt frá bænum, hvorki fyrir að þrífa salernin né tjaldsvæðin og tók hann sem dæmi um það að reglulega kæmu heilu rúturnar af ferðamönnum t.d. til að skoða Herjólfsbæ og oft notaði fólk tækifærið til þess að borða þar nestið sitt og nota salernið og alt of oft án þess að borga nokkuð fyrir. Að mínu mati heyrir þetta fyrst og fremst upp á bæinn, það er ekki nóg að henda hundruðum milljóna í verkefni eins og Eldheima, en að bjóða ferðamönnum á sama tíma upp á það að komast ekki einu sinni á salerni og miðað við reynslu mína af að ferðast um landið okkar, þá hefur það mikil áhrif á þá ákvörðun mína um hvort ég vilji heimsækja einhvern stað aftur, hvernig staðið er að hreinlætis og salernis málum og ef mið er tekið af spám um fjölgun ferðamanna, þá þykir mér nokkuð ljóst að þarna þurfi að bæta verulega úr og skora ég hér með á bæjarráð og ferðaþjónustu aðila að gera nú góðan skurk í þessu máli. Og að sjálfsögðu þurfa þeir sem eiga að sjá um þrif eftir ferðamennina að fá eitthvað greitt fyrir.
Í þriðja lagi, þá er það Herjólfur. Ég var uppi á landi í júlí og átti pantað heim á laugardegi, en þar sem ég var kominn á suðurlandið og frétti að það var mjög gott veður í eyjum, þá ákvað ég að hringja og athuga með ferð kl 7 á föstudeginum og fékk það svar að það væri laust fyrir bílinn, en að fellihýsið færi á biðlista. Ég tók að sjálfsögðu sénsinn á þessu og fékk far fyrir mig og fellihýsið, en samferða fólk mitt, sem statt var í Reykjavík og þekkir ekki til, var ekki tilbúið að keyra alla þessa leið upp á að vera á biðlista. Það sem sló mig hins vegar mest er að þegar allir voru komnir umborð var bílaþilfarið aðeins hálft, sem þýðir að allt að 30 bílar hefðu komist í viðbót. Þegar ég spurði stýrimanninn út í þetta, þá svaraði hann því til að þetta væri orðin viðtekin venja hjá fullt af fólki sem virtist vera alveg sama þó það borgaði 2000 kr á dag, bara ef það ætti öruggt pláss alla daga. Herjólfur tapar að sjálfsögðu engu á þessu, en að sjálfsögðu tapa allir aðrir ferðaþjónustuaðilar í Vestmannaeyjum á þessu, erfitt mál að leysa en ég velti því upp að ef það er rétt sem mér er sagt, að það sé oft jafnvel sama fólkið að panta alla vikuna, er þá ekki kominn tími til að slíkir aðilar, sem telja sig ekkert muna um það að borga 2000 kr á dag fyrir fast pláss, borgi einfaldlega meira? Amk held ég að það verði að taka á þessu máli, heildin á að sjálfsögðu ekki að líða fyrir persónulega hagsmuni örfárra.
Aðeins um lundann að lokum. Veiðistofninn er mættur í milljóna tali, mætti fyrst 28. júlí og því kjörið tækifæri þessa dagana að gera sér ferð út í eitthvert fjall og sjá þetta með eigin augum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður .......
Níels A. Ársælsson., 8.8.2013 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.