19.9.2013 | 11:33
Sjúkrahús Vestmannaeyja og Landeyjahöfn.........
.......eru heitustu umræðuefnin í Vestmannaeyjum þessa dagana og vikurnar. Varðandi sjúkrahúsið þá er umræðan nánast tæmd, en samt varðandi lokun skurðstofunnar og það að fjölskyldur þurfi að flytja til Reykjavíkur til þess að eignast börnin sín. Ég ræddi þetta við vin minn sem að einmitt átti barn um síðustu mánaðarmót, en barnið fæddist viku eftir ásettan tíma, sem þýðir að með því að fara tímanlega fyrir ásettan tíma, þá hefðu þau þurft að dvelja í bænum í amk. 10 daga og kostnaðurinn því hlaupið á hundruð þúsunda þegar allt er talið. Ekki gott mál og því einfalt að mínu mati: það má ekki loka skurðstofunni.
Önnur hlið á þessu er varðandi hugsanlega fækkun legurýma og skerta þjónustu við aldraða. Svolítið skrítið, því eins og við vitum erum við alltaf að verða eldri og eldri og því svolítil vafasöm aðgerð að fara að skerða þjónustu við aldraða á sama tíma og öldruðum fjölgar. Lausnin á þessu öllu er að sjálfsögðu fólginn í því að leggja þessum málaflokki til meira fjármagn, en hvar á að taka það? Að mínu mati væri það kannski eitthvað sem ráðamenn þjóðarinnar ættu að hugleiða að taka ákveðna prósentu, segjum t.d. 10% af hinu nýja aflagjaldi sem nýlega var sett á Eyjamenn, en mér skilst að það sé einhverstaðar á milli 3-4 milljarðar sem bætast á útgerðir í Eyjum og spurning hvort að ekki yrði meiri sátt um þetta ef ákveðin prósenta af þessu t.d. 10% rynnu til sjúkrahús Vestmanneyja og leystu þar með þau fjárhagslegu vandamál sem stofnunin er í. Enn fremur þarf að skoða það hvort ekki verði að lagfæra laun þeirra sem þarna starfa, því að nú þegar fækkaði um einn læknir í sumar og annar hefur sagt upp, svo útlitið er ekki gott.
Mikil og merkileg umfjöllun um Landeyjahöfn í síðustu viku og svolítið merkilegt að sjá viðtöl við nokkra skipstjóra úr Eyjaflotanum, enda orðuðu þeir allir sínar skoðanir nánast orðrétt eins og ég hef skrifað þær frá sjálfum mér. Málið er ekki Herjólfur heldur höfnin. Inni á Eyjafréttum í síðustu viku var síðan mynd tekin af síðu Siglingamálastofnunnar, þar sem lagt er upp með það að það sé svo sannarlega rétt hjá þeim, að það sé skjól í Landeyjahöfn í suðvestan átt vegna nálægðar við Vestmannaeyjar og að staðsetning hafnarinnar sé því rétt út frá því sjónarmiði. Þetta er að sjálfsögðu al rangt að því leytinu til, að þó að kannski sé minni vindur norðaustan við eyjar í suðvestan átt, þá þekkja það allir sjófarendur að í alvöru suðvestan átt, þá brimar einfaldlega allan hringinn. Út frá því sjónarmiði skiptir því í raun og veru engu máli hvar höfnin væri, en ef höfnin hins vegar hefði verið nokkrum mílum vestar, þá hefði verið skjól þar í austan áttum, sem eru ríkjandi brælu áttir í Vestmannaeyjum.
Ég mætti á ágætan fund í vor hjá samtökum áhugafólks um bættar samgöngur, en hef ekki séð ástæðu fyrr til þess að fjalla um fundinn, vegna þess að allir frummælendur byrjuðu sína ræðu á því að tilkynna það að þeir væru ekki að tala gegn því að smíðuð væri ný ferja. En enn og aftur, málið snýst ekki um ferju, heldur höfnina. Mesta athygli vakti hörð gagnrýni Gríms Gíslasonar á Siglingamálastofnun, en svör Sigurðar Áss Grétarssonar sýndi kannski í hnotskurn hversu slæm staðan er í raun og veru, ég ætla að vitna hérna nokkurn veginn í eina setningu frá honum:
Við vitum nú orðið að hið erlenda fyrirtæki sem reiknaði þetta út fyrir okkur hafði rangt fyrir sér, en nú erum við hins vegar búnir að reikna þetta aftur, vandamálið er ekki höfnin, heldur ferjan.
Að lokum þetta: til mín kom maður í síðustu viku með gamlar teikningar frá því þegar í umræðunni voru þær hugmyndir að gera hugsanlega höfn við Dyrhólaey og/eða við Þykkvabæjarfjöru. Mjög merkilegar teikningar, því að á þeim kemur alveg skýrt fram, að gert er ráð fyrir innri og ytri höfn, á meðan í Landeyjahöfn er bara gert ráð fyrir innri höfn og höfnin algjörlega opin fyrir úthafs öldunni í suðlægum áttum. Ég ætla að reyna að ná í þessar teikningar á næstunni og birta þær hér á síðunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Georg, það er með ólíkindum hvað menn eru á því að vandamálið sé ferjan en ekki höfnin, og þeir æltla ekki að skilja það!
Kær kveðja.
Helgi Þór Gunnarsson, 23.9.2013 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.