Peningar.......

.........eru nokkuð örugglega heitasta umræðuefnið í dag, og aðeins varðandi nýframkomið frumvarp Ríkisstjórnarinnar um niðurfærslu húsnæðisskulda, þá er ég að sjálfsögðu hlynntur þessu, en tek það þó fram að ef ekki verður tekið á verðtryggingunni, að maður tali nú ekki um að seinna komi fram skattareikningur frá ríkinu vegna niðurfærslunnar, þá hafi þetta í raun og veru engan tilgang.

Heitasta umræðuefnið í síðustu viku voru uppsagnir hjá Rúv, þar sem 39 manns var sagt upp og mikil mótmæli við því og umfjöllun, skiljanlega, þó svo að miðað við atvinnusvæði höfuðborgarinnar þetta sé nú ekki stór tala í því samhengi, en það hefur einmitt vakið athygli mína hér í Vestmannaeyjum lítil, eða réttara sagt engin, umfjöllum um uppsagnir á haustdögum. Sem dæmi þá voru um 40 manns sem misstu vinnuna þegar fiskvinnslan Pétursey lokaði í byrjun september, en hefur sem betur fer eftir því sem mér er sagt, verið reddað vinnu annarstaðar. Einnig misstu amk. 12 sjómenn atvinnuna þegar Kristbjörginni var lagt 1. okt. Í svona litlu bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjum hefði maður haldið að þetta myndi teljast til fjölda uppsagna með mikilli umfjöllun í bæjarfélaginu, en um þetta virðist ríkja algjör dauðaþögn, skrítið mál það. 

Ég fór að reikna saman svona til gamans, hvar ég gæti hugsanlega fundið upphæðina sem skorið er niður hjá Rúv og sem vantar til þess að hægt sé að halda uppi fullum rekstri á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og viti menn, þetta er sennilega mjög nálægt þeirri upphæð sem nú þegar er búið að setja í að moka sandi í Landeyjahöfn síðustu árin, og maður hlýtur að velta því upp fyrir sér þvílík vitleysa það er að fara þannig með fjármagnið.

Talandi um Landeyjahöfn, þá vildi þannig til að snemma í haust var ég á leiðinni með Herjólfi yfir í Landeyjahöfn, mætti þar stýrimanninum á útleiðinni sem bauð mér að koma upp í brú og standa á milli stýrimannsins og skipstjórans á meðan siglt væri inn í höfnina, og ég verð að segja alveg eins og er að ég dáist að þeim fyrir þetta afrek að ná að sigla 70 metra ferju inn um 90 metra innsiglingu án þess að lenda í meira tjóni heldur en nú þegar er orðið, en sorgarsaga Landeyjahafnar mun vist, að öllu óbreyttu, halda áfram með tilheyrandi peningaaustri.

Eitt enn varðandi peninga. Nú er ljóst að það stefni í að fara í amk. um eða yfir milljarð í þessa svokölluðu Eldheima, sem ég ætla rétt að vona að muni þá skila einhverju á næstu árum, en ég lenti á spjalli við smiði um helgina sem sögðu mér það, að það væri verið að nota efni í Eldheima sem væri ekki ryðfrítt og þetta myndi ryðga niður á skömmum tíma, sem þýðir, ef rétt er, aukið fjármagn til viðhalds á næstu árum, vonandi er þetta ekki rétt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband