Áramót (seinni hluti)

Ég sé í athugasemdum að huldu persónan "Vestmanneyja-vaktin" hálfkvartar yfir því að ekki sé minnst á Landeyjarhöfn eða lundann í áramótagrein minni og ætla því að sjálfsögðu að bæta úr því. 

Lítið, og í raun og veru ekkert, er að gerast varðandi Landeyjarhöfn, sem að mér þykir merkilegt en það vakti þó athygli mína grein, í síðustu fréttum, um að þýskir sérfræðingar vilji gera breytingar á Herjólfi til þess að hann haldi betur stefnunni. Ekki þekki ég þetta vel, en ég er þó sammála því að Herjólfur rásar óvenju mikið á siglingu, sérstaklega eftir að hann hefur hægt ferðina, svo vonandi verður eitthvað hægt að laga það. En það sem mér þótti kannski meira merkilegt við þessa grein í fréttum er það sem stóð ekki þar, en augljóslega má lesa út úr greininni að ekki sé það komið á dagskrá að smíða nýtt skip, og að öllum líkindum, ekki næstu árin.
Lenti á spjalli við Simma víking í vikunni, en Simmi vill að við hættum að tala um Landeyjarhöfn, endurvekjum félagið Ægisdyr, og förum að tala um alvöru samgöngubætur. Ég er nokkuð sammála Simma í þessu, enda augljóst að Landeyjarhöfn er, og verður, að öllum líkindum, alltaf klúður.
Merkilegustu ummælin um Landeyjarhöfn eru að sjálfsögðu tengd pólitíkinni, og koma frá engum öðrum en sjálfum bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum, og birtust í fréttum í lok ágúst 2010. Þau voru svona: "Ég er stoltur af því að við í bæjarstjórninni skildum standa af okkur allar úrtölu- og niðurrifsraddir."
Daginn eftir að þessi grein bæjarstjórans birtist duttu út fyrstu ferðirnar í Landeyjarhöfn og vandræðagangurinn hófst. Nokkrum vikum síðar skoraði ég reyndar á bæjarstjórann og fleiri að axla nú ábyrgðina af þessu klúðri og segja af sér, en ég bjóst reyndar ekki við neinum viðbrigðum við því. En það er svolítið merkilegt að heyra nýju kjaftasöguna um það að bæjarstjórinn okkar sé hugsanlega að hætta í vor, og jafnvel hugsanlega að flytja í bæinn, en ég hef ekki mikla trú á því sjálfur.
En til að gæta jafnræðis, ein setning frá fulltrúa minnihlutans í sumar, sem vakti athygli mína, en hún var nokkurnvegin svona: "Við eigum að fara eftir því sem sérfræðingarnir segja og trúa og treysta þeim í einu og öllu."
Mér brá töluvert þegar ég heyrði þetta af bæjarstjórnarfundi síðastliðið sumar, enda hef ég oft fjallað um sérfræðingabáknið á Íslandi, og tel það vera eitt stærsta vandamálið á landinu okkar. En ummæli þessi áttu sér stað í umfjöllun um lundann þar sem að meirihluti vildi leyfa veiðidaga, en minnihlutinn ekki. Veiðidagar voru leyfðir, en lundinn lét bara ekki sjá sig. Lundinn hinsvegar kom í milljóna tali hérna síðastliðið sumar, þó hann stoppaði lítið við og varpið misfarist. En í dag eru sirka 15 vikur í að lundinn mæti aftur, og hann mun mæta í milljóna tali. 

Mig langar að setja fram eina ósk, sérstaklega ætlaða eyjamönnum. Það er til mjög góður og gildur siður út um allan heim, sem oft hefur verið talið merki um tillitssemi og skynsemi, og er í raun og veru bundið í lög, auk þess sem að þessi litla aðgerð hefur mjög oft komið í veg fyrir slys vegna misskilnings, en ég hef tekið eftir því undanfarna daga að virðist því miður gleymast ansi oft hér í Vestmannaeyjum. Svo ég ætla hér með að skora á alla eyjamenn að hefja nýja árið með loforði um það að gefa hér eftir stefnumerki. 

Ég ætla mér að vera rosalega bjartsýnn á nýja árið og spá því að tíðin verði bara nokkuð góð, aflabrögð góð, mikið af lunda, gott sumar, vonandi mikið af pysjum og ekki væri nú verra ef ÍBV kæmi heim með dollu í haust. 

Gleðilegt nýtt ár allir og takk fyrir það gamla! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband