1.7.2014 | 11:57
1. júlí.......
......er í dag og sunnan strekkingur, sem hefði á árum áður þýtt það að talsverður fjöldi Eyjamanna hefði tekið strikið upp í fjöll og eyjar til lundaveiða og svona til þess að minnast míns gamla vinar, sem ekki er með okkur lengur, Hallgríms Þórðarsonar, þá renndi ég í morgun upp á flakkarann með sjónaukann og sá í raun og veru það sem ég bjóst við. Aðeins örfáir lundar á lofti. Það var nokkuð ljóst strax í maí að framundan væri erfitt sumar hjá lundanum, enda hefur makríllinn aldrei verið jafn snemma á ferðinni, eða um miðjan maí voru menn farnir að verða varir við hann. Sú staðreynd, ásamt ýmsu öðru gerir það að verkum, að lundinn þarf að sækja æ lengra eftir æti og miðað við hvað lítið hefur sést af lunda að undanförnu, þá er þetta orðið það langt í ætið að augljóslega mun varpið að mestu leyti misfarast, sem þýðir að sumarið í sumar verður að öllum líkindum fimmta sumarið af síðustu sjö, þar sem varpið misferst algjörlega.
Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, að lundastofninn fyrir norðan land er í gríðarlegum vexti og hófust veiðar þar strax í morgun.
Varðandi hugsanlegar lundaveiðar í Eyjum, þá er eins og ég hef sagt svo oft áður mín tilfinning sú að veiðidögum mínum í Vestmannaeyjum sé lokið og í raun og veru, eins og útlitið er núna, þá finnst mér ansi hæpið að tala um einhverja veiðidaga núna í júlí mánuði, eða fyrir Þjóðhátíð eins og áður fyr tíðkaðist. Almennt heyrist mér veiðimenn vera á þessari skoðun, en mig langar þó að taka undir með Sigurgeiri í Álsey, en Sigurgeir var á þerri skoðun, eins og svo margir reyndir veiðimenn, að veiðidagarnir sl. sumar hefðu verið of snemma á tímabilinu og hann spáði því að mikið yrði af lunda eftir Þjóðhátíð, sem að gekk að mestu leyti eftir og hann er á þeirri skoðun núna, að leyfa eigi veiðar eingöngu eina helgi í ágúst t.d. helgina eftir Þjóðhátíð. Væri þetta gert þá væri hægt að nota þá helgi til þess að kanna og aldursgreina lundastofninn í Eyjum, og komast þannig að því í raun hvernig aldurhlutfallið á lundastofninum sé orðið í dag.
Eitt að lokum sem að mér þætti áhugavert að væri skoðað. Ef við reynum að horfa á breytingar á lundastofnum á heimsvísu, þá er ljóst að stofninn er hruninn að mestu leyti í Færeyjum og Noregi, en á móti kemur að þá er mér sagt að lundastofninn fari stækkandi á Bretlandseyjum og Skotlandi og maður veltir því fyrir sér, að ef stærsta ástæðan sé makríllinn og hann sé búinn að færa sig það mikið norður á bóginn að hann sé hættur að hafa þessi slæmu áhrif á því svæði. Þetta þyrfti að sjálfsögðu að skoða betur, en vonandi nær lundastofninn sér á skrið aftur á næstu árum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.