Þjóðhátíðin 2014.......

.....var frábær eins og alltaf, brennan, flugeldasýningin, brekkusöngurinn og blysin tókust allt saman frábærlega, eins voru mörg skemmtiatriðin frábær og öll umgjörðin til fyrirmyndar. Töluvert kom af mínum ættingjum ofan af landi og eftir samtal við þau sem og aðra, bæði Eyjamenn og aðkomufólk, þá eru nokkur atriði sem hefðu mátt vera betri og í flestum tilvikum hægt að laga.

Varðandi tónlistarflutninginn, þá hef ég því miður engan hitt sem lýst hefur yfir ánægju með kvöldvökuna á laugardagskvöldinu eftir Skítamóral og fram að miðnætti og hafi þeir tónlistarmenn sem komu fram á þessu tímabili staðið langt undir væntingum Þjóðhátíðargesta. En úr þessu er að sjálfsögðu hægt að bæta á næstu Þjóðhátíð.

Fækkun bekkjarbíla er líka orðin afar slæm og maður fékk það stundum á tilfinninguna, þegar búið var að troða sem mest í bílana, að maður væri orðinn eins og síld í síldartunnu og einnig hef ég heyrt af því að undir morgun hafi stundum legið við slagsmálum við að reyna að komast í bílana. Klárlega mál sem þarf að endurskoða og það sem fyrst. 

Við konan gerðum það sem við gerum á hverju ári, að kíkja í veitingatjaldið síðustu nóttina, enda gott að fá sér eitthvað heitt áður en lagt er af stað heim á leið, en í þetta skipti var troðningurinn svo rosalegur að það var algjörlega vonlaust að komast að og við ekki tilbúin að hanga þarna í 1-2 tíma, svo við slepptum þessu í þetta skiptið, en ef ég man rétt, þá var Fabrikkan hérna bæði í fyrra og hitt í fyrra sem viðbót við veitingatjaldið og mun auðveldara að komast að bæði þau árin, Þjóðhátíðar gestir voru reyndar fleiri núna en síðustu tvö árin, en einmitt það áttu menn að geta séð fyrir vegna alls fjöldans sem var búinn að kaupa sér miða í forsölu og gera því ráðstafanir og í raun finnst mér furðulegt að Þjóðhátíðarnefnd skuli ekki setjast niður með "Eyjapeyjanum" Kára Fúsa t.d. og fá hann til að koma þarna inn á svæðið sem viðbót, en mér hefur verið sagt að Kári hafi sóst eftir því, en ekki fengið. 

Ég var mjög ánægður með það að salernisaðstöðunni skyldi vera svæðisskipt fyrir konur og karla sér og ljóst að hið mikla átak til að sporna við kynferðisafbrotum er virkilega farið að hafa áhrif í rétta átt. Hins vegar frétti ég af afar löngum biðröðum á salerninu við sviðið og spurning hvort að ekki sé hægt að bæta einhvern veginn úr því, en það eins og öll önnur atriði hljóta að koma til endurskoðunar fyrir næstu Þjóðhátíðir.

Eitt að lokum. Nú voru allar matvöruverslanir lokaðar á mánudeginum og þegar ég keyrði seinni partinn á mánudeginum fram hjá Kjarval, sem er einmitt rétt hjá mjög stóru tjaldsvæði, þá var fullt af ungu fólki þar, sem vissi ekkert hvert það ætti að fara til þess að ná sér í matvöru og ég velti því upp, hvort að ekki sé hægt að koma einhvern veginn til móts við þetta unga fólk á þessu svæði, með því t.d. að setja upp lítinn söluturn sem væri þá opinn fram á mánudagskvöld t.d. 

Eins og áður segir, frábær Þjóðhátíð annars að baki og sumir ættingjarnir ofan af landi nú þegar búnir að panta gistingu fyrir næstu Þjóðhátíð. Sjálfur gef ég það aldrei upp, hvort ég ætli að mæta næst fyrr en nær líður, en ef ég mæti næst, þá verður það Þjóðhátíð nr. 40 hjá mér í röð. En mig langar að lokum að þakka Þjóðhátíðarnefnd sem og öllum sem komu að hátíðinni á einn eða annan hátt fyrir frábæra þjónustu og skemmtun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fín grein hjá þér. Var ekki á þjóðhátíð að þessu sinni. Vildi bara benda þér á að það eru fleiri verslanir en Kjarval og Krónan í bænum.Það var opið í Vöruval á mánudaginn :)

Hjördís Inga (IP-tala skráð) 6.8.2014 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband