10.9.2014 | 20:05
Lunda sumarið 2014
Afar sérstakt lunda sumar að baki og að venju ætla ég að stikla á því helsta.
Fyrst af veiðidögunum sem áttu að vera 5, en voru reyndar 6. Eins og ég bjóst við þá fór háfurinn hjá mér ekki út úr húsi að venju, enda lítið af lunda þessa veiðidaga og veiðin eftir því hjá þeim sem reyndu, en margir veiðimenn úr ýmsum félögum og eyjum nýttu sér einmitt þessa daga til þess að gera þessa ferð út í eyjar og það þrátt fyrir að menn hafi almennt ekki reynt að veiða, þá hef ég þegar heyrt í mörgum veiðimönnum sem eru ánægðir með það að einhverjir dagar séu leyfðir og vilja að því sé haldið áfram.
Ekki eru komnar margar pysjur í þessum skrifuðu orðum (ca. 40 á sædýrasafninu), en það verður þó að hafa það í huga, að nokkrar bæjarpysjur þýða að sjálfsögðu nokkur þúsund pysjur úr öllum fjöllum Vestmannaeyja og um síðustu helgi var t.d. mikið um lunda í mörgum úteyjum, sem eru á fullu að bera síli ennþá, sem er í samræmi við það sem ég hef séð á sjónum að undanförnu og því nokkuð ljóst að reikna má með, að einhverjar pysjur verði hugsanlega enn á ferli í byrjun október, en ég frétti einmitt af því í sumar að það hafði sést pysja í höfninni 10. okt. í fyrra.
Það hefur lítið heyrst í Erpi að undanförnu, en ég var mjög ánægður með tvö viðtöl sem birtust við hann á rúv í sumar. Í fyrra viðtalinu, sem bæði voru reyndar tekin vestur í Akurey, þá voru einmitt óvæntar gleði fregnir að mjög gott varp var í Akurey eftir nokkur mögur ár, en í seinna viðtalinu kom hann inn á stöðuna í Eyjum og orðaði þetta nokkurn veginn svona: "Stærsta vandamál lundans í Vestmannaeyjum er að lundinn er svo heimakær í Eyjum, að hann fer ekkert annað þrátt fyrir ætisskort og afrækir frekar eða sleppir varpi, heldur en að fara eitthvað annað þar sem aðstæður eru betri." Þarna var ég mjög ánægður með Erp, enda gagnrýndi ég hann harðlega fyrir ca. 3 árum síðan, þegar hann talaði um að mikill ungfugl við Eyjar það sumarið væri að öllum líkindum aðkomu- og flækings lundar. Það er alltaf gott þegar menn leiðrétta sjálfa sig.
Lífríkið við Vestmannaeyjar hefur að mörgu leyti verið stór furðulegt í sumar, t.d. hafa hvalveiðiskipin verið djúpt suður að Vestmannaeyjum lengst af sumri og veitt vel og það, eftir því sem mér er sagt,hval sem hefur verið þar í mikilli sílis veislu á þeim slóðum meðal annars. Einnig er það stór furðulegt að hér sé allt vaðandi í túnfisk við Eyjar. Nú makríllinn kom og margir hafa orðið miklar áhyggjur af því, hvort og þá hversu mikill skaðvaldur hann er fyrir lífríkið í hafinu við Ísland og eiginlega alveg með ólíkindum að ekki skuli vera veitt meiri af honum. Framtíðin er því óvenju óljós. Góðu fréttirnar eru þó þær að það komu dagar í sumar þar sem gríðarlegt magn af lunda sást við Eyjar. Nokkur þúsund pysjur munu greinilega viðhalda stofninum enn um sinn amk og lundinn mun mæta aftur næsta sumar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.