12.11.2014 | 19:44
Á flótta undan ýsu
Það er undarleg staða á fiskimiðunum við Eyjar eins og reyndar allt í kringum landið. Allt vaðandi í ýsu sem Hafró segir að sé ekki til og enginn hefur aflaheimildir til þess að veiða og ástandið farið að minna ískyggilega mikið á stöðuna fyrir liðlega áratug síðan, en þá var það þáverandi sjávarútvegsráðherra sem greip inn í og tók fram fyrir hendurnar á Hafró og jók ýsukvótann, en í framhaldi af því rumskaði Hafró úr værum svefni og á árunum á eftir fylgdi gríðarleg aukning á aflaheimildum á ýsu og þegar mest var, fór ýsukvótinn yfir 100 þúsund tonn með tilheyrandi verðfalli á afurðum, en er aðeins 30 þúsund tonn í dag og mörg dæmi um það að útgerðarmenn línubáta sendi báta sína austur á land, eða þar sem mestur möguleiki er á að fá blóðsíld í beitu, sem ýsan er ekki hrifin af og heyrði ég nýlega af dæmi um útgerðarmann, sem hreinlega bannaði sinni áhöfn að róa nema með blóðsíld.
Ég hef gert út hér í Vestmannaeyjum í tæp 30 ár og ég er á þeirri skoðun að togararall Hafró nái alls ekki að fylgjast nægilega vel með því hvernig sumir fiskistofnar þróast, og veit að sumar aðferðir við að stofnmæla sumar tegundir, eru ansi vafasamar eins og t.d. varðandi keiluna.
Á sama tíma og allt logar í verkföllum og ríkiskassinn er tómur, þá finnst mér frekar furðulegt að ekki sé gripið til þeirra leiða sem alltaf hafa bjargað okkur, eða amk. síðustu 100 árin úr hinum ýmsu kreppum, þeas. vinna meira, eða í þessu tilviki að veiða meira, en það er að mínu mati óhætt að auka töluvert við í flest öllum bolfisktegundum sem við Íslendingar veiðum, en til þess þarf kjark og inngrip frá Ríkisstjórninni.
Það er ljóst að núverandi sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að "rugga bátnum" með því að fara gegn tillögum Hafró og ég beini þessu því til annarra þingmanna, hvort sem er í meiri eða minni hluta. Ég tel augljóst að varðandi ýsuna sérstaklega, þá muni Hafró reyna að hanga á sínum útreikningum í einhver ár í víðbót, síðan mun verða sprenging og ýsukvótinn aftur ná sömu hæðum og í síðustu uppsveiflu með tilheyrandi verðfalli á afurðum og ótrúlegt að þessi stofnun skyldi leggja blessun sína yfir það að öll fjaran við suðurströndina varð opnuð fyrir snurvoð, bara til þess að einhverjir örfáir bátar gætu náð ýsukvótanum sínum á meðan kvótinn var í 100 þús tonnum en gríðarlegt magn af smáýsu var drepin hérna eftir að fjaran var opnuð 2007, en merkilegt nokkuð, ýsukvótinn er kominn niður í 30 þús tonn, en enn er fjaran opin.
Ég skora hér með á alla þingmenn að gefa nú okkur sjómönnum og þjóðinni betra tækifæri til að takast á við þau fjárhagslegu vandamál sem þjóðin á í í dag og auka við aflaheimildir. Ekki bara í ýsu, heldur einnig í öðrum tegundum. Það er óhætt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.