Elding mótmælir

Elding mótmælir harðlega togveiðum í hrygningarstoppi

Ólgu hefur gætt hjá félagsmönnum Eldingar - félagi smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum - vegna togveiða í Ísafjarðardjúpi. Stjórn Eldingar hefur nú brugðist við og krefst þess að sjávarútvegsráðherra stöðvi veiðarnar nú þegar. Samþykktin er eftirfarandi:

„Stjórn Eldingar samþykkti á fundi í dag 18. apríl að krefjast þess að sjávarútvegsráðherra stöðvi nú þegar togveiðar á þorski í Ísafjarðardjúpi.

Forsenda þess friðar sem ríkt hefur um veiðibann á hrygningarsvæði þorsks er að það hefur náð til allra þorskveiða. Óánægja hefur hins vegar alltaf kraumað undir þar sem við línu- og handfæraveiðar hefur þorskurinn val um hvort hann bíti á eða ekki, auk þess sem ekkert skark er við veiðarnar. Þessu er öfugt farið við togveiðar þar sem veiðarfærin eru dregin um slóðina og þorskur sem verður á leið þeirra á ekki undankomuleið. Hæpið er því að halda því fram að línu- og handfæraveiðar valdi truflun við hrygningu.

Í skjóli reglugerðarákvæðis eru nú stundaðar ábyrgðar- og eftirlitslausar togveiðar á þorski í Ísafjarðardjúpi. Þéttriðin rækjuvarpa er dregin í gegnum viðkvæm hrygningarsvæði á sama tíma og allar aðrar veiðar eru bannaðar á svæðinu. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þann skaða sem slíkt hefur í för með sér.

Stjórn Eldingar krefst þess af sjávarútvegsráðherra að hann stöðvi nú þegar þessar veiðar, þannig að markmiðum um verndun og frið við hrygningu þorsks í Ísafjarðardjúpi nái fram að ganga.

 


Fh stjórnar Eldingar

Gunnlaugur Á Finnbogason formaður“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ekki skrítið þó þorskinum fækki ef svona vinnubrögð líðast!

Ester Sveinbjarnardóttir, 19.4.2007 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband