Hafró mætti stundum hlusta á sjómenn

14. maí 2007 :

Lélegir þorskárgangar gefa furðugóðan afla

Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 11. maí sl.

Vart líður sá dagur að sjómenn tjái sig ekki um ástandið á miðunum. Nánast án undantekninga er það á einn veg – „þvílíkt mok, þetta er ótrúlegt“.

Svæðisfélög Landssambands smábátaeigenda hafa hvert af öðru ályktað um stöðuna á miðunum og skorað á sjávarútvegsráðherra að bæta við heimildir þessa árs um 25 – 30 þúsund tonn. Enn sem komið er hefur hann ekki orðið við kalli þeirra.

Sú spurning gerist æ áleitnari hvort Hafrannsóknastofnun hafi vanmetið þorskstofninn. Hvort þorskstofnar sem halda sig á grunnslóð þar sem togararallið nær ekki til séu í raun teknir með í útreikninga stofnunarinnar varðandi stærð veiðistofns? Hvort hin góðu skilyrði í hafinu undanfarið hafi leitt til minni náttúrulegra affalla en Hafrannsóknastofnun gerir ráð fyrir.

 

Á skjön við skýrslu Hafró

Undrun vekur að uppvaxandi árgangar frá og með 2001 sem stofnunin hefur mælt að meðaltali lélega sem nýliðun skuli vera svo áberandi í veiðinni sem raun ber vitni. Það er í það minnsta á skjön við það sem fram kemur í skýrslu Hafró – „Nytjastofnar sjávar 2005/2006 – aflahorfur 2006/2007“. Þar segir um nýliðun árganganna:

 

 

2001..... „lélegur“, „næst minnsti árgangur sem fram hefur komið síðan 1955, aðeins 61 milljón nýliðar“.
Árgangurinn var 4 ára þegar mælingar fóru fram sem skýrslan byggði á og var þá lægra hlutfall í afla en gert hafði verið ráð fyrir. Nú er þessi slaki árgangur orðinn 6 ára og verður forvitnilegt að vita hvernig hann kemur út í skýrslu Hafró í byrjun júní þá mældur í maí 2006, því vissulega hefur hann verið drjúgur í veiði línumanna á grunnslóð nú í ár og í fyrra.

2002 „er metinn á 164 milljónir“

2003..... „er lítill eða 127 milljónir“

2004..... „mjög lítill eða um 88 milljónir þriggja ára nýliða“.

Árgangurinn hefur nú skilað sér inn í veiðistofninn. Það er ein ástæðan fyrir því að spáð var lélegri veiði á þessu ári. Það er af og frá, aflahrotan heldur áfram.

 

,,Ótrúlegt fiskirí“

Þegar ég spyr mína menn um aflabrögðin og hvernig ástandi sé, er algengt að heyra: „Ótrúlegt fiskerí“; „Ég man vart eftir öðru eins“; „Það er mikið æti á slóðinni og gott ástand á þorskinum“; „Sjórinn hefur verið óvenjuhlýr undanfarin misseri, fiskurinn hlýtur því að hafa bætt verulega við sig“.

 

Skyldi framanritað vera ein skýringin á vanmati, að þyngdaraukning hefur orðið meiri en Hafró hafði reiknað með?
Vissulega sýna niðurstöður togararalls í mars síðastliðinn slíkt. Í því mældist vísitala 7-10 ára fisks (árganga 2000-1997) 20% hærri en í rallinu 2006 og 100% hærri en hún var á tímabilinu 2001-2003.

 

Gríðarleg fjölgun skyndilokana

En fleira kemur til sem ýtir undir að stofnunin vanmeti stærð veiðistofnsins. Gríðarleg fjölgun skyndilokana vegna smáþorsks sem veiddur er á línu. Skoðað var tímabilið 1. janúar til 8. apríl. Niðurstaðan var eftirfarandi:

 

2004.............fjöldi skyndilokana 12
2005.............fjöldi skyndilokana 11
2006.............fjöldi skyndilokana 15
2007.............fjöldi skyndilokana 27

Hvorki meira né minna en 80% aukning milli ára. En mátti búast við því? Varla –því í áðurtilvitnaðri skýrslu Hafró er eftirfarandi ritað: „Árið 2006 verður hlutfall ungfisks nokkuð hátt en 2007 verður aflasamsetning hagstæðari“.

Að lokum skal vitnað til viðtals sem Fiskifréttir áttu við skipstjóra tveggja línubáta frá Tálknafirði, Tryggva Ársælsson og Þór Magnússon og birtist hér 30. mars sl.:

„Rannsóknaskipin létu ekki einu sinni sjá sig þegar allt fylltist af þorski í kjölfar hafíssins. Fiskurinn var allt öðruvísi en sá þorskur sem við eigum að venjast. Hann var dekkri, haussmærri og lifrarmeiri og að öllum líkindum kominn hingað frá Grænlandi.“

Ég tel að Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Björn Ævarr Steinarsson sviðsstjóri veiðiráðgjafarsviðs skuldi þjóðinni haldbetri skýringar en að gríðarleg aflabrögð stafi af langvinni brælu. Þeir sem umgangast auðlindina allan ársins hring óska eftir meiri vigt í viðbrögð þeirra. Framsetningu sem skýrir misræmi þess sem fram kemur í ástandsskýrslu og þess sem hér hefur verið vakin athygli á.

 


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband