Fýn grein

mynd
Ólafur R. Sigurðsson
Vísir, 10. maí. 2007 10:48

Leiguliðar athugið!

Kvótakerfinu var, illu heilli, komið á fyrir um 24 árum síðan. Yfirlýstur
tilgangur þess var að vernda fiskistofnana og tryggja byggðir við
sjávarsíðuna. Skemmst er frá því að segja að hvorugt markmiðið hefur náðst.
Vegna kvótakerfisins er þorskstofninn ekki svipur hjá sjón og margar byggðir eiga í vök að verjast. Þrátt fyrir að fiskverð hafi margfaldast að raungildi hafa skuldir sjávarútvegsins aukist með enn risavaxnari skrefum. Þannig hafa skuldir sjávarútvegsins aukist um 350% á tíu árum þó umsetningin sé nánast sú sama. Eina leið stjórnvalda til að taka á brottkasti og sóun í kvótakerfinu er að setja upp rándýrt en gagnslaust eftirlitskerfi og refsa þeim sem eru svo heiðarlegir að viðurkenna brot sín. Þrátt fyrir þetta augljósa árangursleysi hefur verið haldið áfram á sömu braut.

Ekki hef ég getað varist þeirri hugsun að raunverulegur tilgangur þeirra er réðu för hafi verið sá að koma á lénsskipulagi í sjávarútvegi. Eða eigum við kannski að trúa því að það sé hrein tilviljun að guðfaðir kvótakerfisins hafi komið þeim breytingum á að "sameign þjóðarinnar" erfðist og hann yrði þannig lénsherra í fyllingu tímans?

Óvenju lítið fer þó fyrir umræðu um sjávarútvegsmál þó sá atvinnuvegur skili enn, meira en helmingi þjóðartekna okkar Íslendinga. Ekki er öll sú umræða frumleg enda hafa allir flokkar að undanskildum Frjálslynda flokknum gefist upp fyrir þeirri sögulegu nauðsyn að brjótast út úr kerfinu.

Þessa dagana eru flokkarnir í óða önn að viðra fjaðrirnar fyrir kjósendum.
Sumir flokkarnir reyna, að því er virðist, fremur af vilja en mætti að hafa
skoðun á öllum málum, s.s. sjávarútvegsmálum. Jafnvel Vinstri grænir eru þar engin undantekning. Kosningaloforð þeirra í sjávarútvegsmálum er að gera upptæk í ríkissjóð 5% af leigukvóta. Þetta myndi draga úr framboði leigukvóta og hækka hann til muna. Hagsmunir okkar leiguliðanna eru þeir, að meðan við þurfum að búa við þetta kerfi, sé nægt magn kvóta til leigu og á skikkanlegu verði.


Í dag þurfum við að borga 7 krónur af hverjum 10 til kvótagreifanna. Af þessum 30% sem eftir eru þurfum við að greiða allan útgerðakostnað. Af þessu má sjá að þetta forréttindakerfi hefur ekki skapað okkur neitt sældarlíf. Ef Vinstri grænir gefa sig út fyrir vera flokk jafnaðar, þá heggur sá er hlífa skyldi, því tillögur þeirra miða að því að auka á þjáningar okkar leiguliðanna og skaða byggðirnar. Leiguliðar, oft var þörf en nú er nauðsyn, tölum við vini og vandamenn og kjósum F fyrir frelsi 12. maí.

Ólafur R. Sigurðsson skipstjóri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Ef Margrétar framboð hefði ekki komið fram þá værum við sennilega með 7 þingmenn og ríkisstjórnin fallinn.

Georg Eiður Arnarson, 16.5.2007 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband