Grand seduction

Er kvikmynd sem ég horfði á snemma í haust. Myndin vakti athygli mína vegna þess að hún fjallar um lítið sjávarþorp í Canada, þar sem fiskimiðin eru uppurin, unga fólkið flest farið í burtu og flestir sem eftir eru frekar í eldri kantinum og þurfa að sætta við það að þurfa, um hver mánaðamót, að mæta niður á félagsmálastofnun og sækja bæturnar sínar þar. 

Bæjarbúar una þessu ílla og ákveða að bregðast við, í fyrsta lagi með því að ráða til sín ungan lækni sem er eitthvað sem lengi hefur vantað í þorpið. Ýmsum brögðum er beitt til þess að fá hann til þess að setjast þarna að, en fyrir mig sjómanninn var kannski broslegast, þegar farið er með unga læknirinn út að dorga og til þess að tryggja það, að hann fái nú fisk, þá er kafari sendur með frosinn fisk til þess að krækja á krókinn hjá lækninum unga, og svolítið sérstakt að fylgjast með útskýringum heimamanna á því, hvers vegna fiskurinn er óvenju kaldur. 

Hitt baráttumálið er að sannfæra olíufyrirtæki um að setja upp einhvers konar hreinsistöð í þorpinu. Fulltrúar fyrirtækisins eru ekki vissir um að það búi nógu margir í þorpinu til þess að hægt sé að reka litla verksmiðju þar og reynir því mikið á hina brögðóttu heimamenn, og ná ma. með brögðum að fá fulltrúa fyrirtækisins til þess að telja heimamenn tvisvar sinnum.

Ég hef oft fjallað um kvótakerfið á Íslandi og ég neita því ekki, að oft á meðan ég horfði á myndina, þá komu í huga mér hin ýmsu þorp á landinu okkar, sem reyndar búa ekki við dauð fiskimið, heldur mun verra ástand, vegna þess einfaldlega að allar aflaheimildir hafa verið seldar í burtu og eftir situr fólkið í þorpunum, sem unnið hefur oft á tíðum lungann úr sinni ævi hörðum höndum í fiski, hvort sem er til sjós eða lands, atvinnulaust og með eignir og skuldir þar sem eignirnar eru orðnar algjörlega verðlausar oft á tíðum og við sjáum ma. reglulega fréttir af því, þar sem heimamenn leita að sjálfsögðu allra ráða til þess að skapa sér atvinnu og tekjur og við þekkjum öll fréttirnar um álver, fiskeldi og margt mætti telja, en mér finnst einmitt það gleymast algjörlega í umræðunni um kvótann, fólkið í þorpunum, byggðirnar sem sitja að gríðarlega mikilli auðlind með fram allri strönd landsins okkar, en eiga engan rétt til þess að nýta sér hann. 

Ég hef oft velt uppi ýmsum hugmyndum um það, hvernig og hvort það sé hægt að breyta þessu á einhvern hátt og án þess að skaða þá sem veðsett hafa fyrirtæki sín upp í rjáfur við að kaupa upp hina, en þegar maður horfir á stöðuna í dag og reynir að finna eitthvað, sem hægt er að tala um sem jákvætt fyrir byggðir landsins, þá er það eina sem að maður sér svona sem vott um tækifæri, það eru þessar svokölluðu strandveiðar. Því miður eru þær aðeins 4 mánuði á ári og því enginn möguleiki fyrir nokkurn mann að lifa á þeim á ársgrundvelli, en því verður hins vegar ekki neitað, að það lifnar verulega yfir byggðum landsins, þessa 4 mánuði sem strandveirarnar eru virkar.

En svo til gamans, smá hugmynd frá mér. Fyrir tæplega hálfum mánuði gaus upp ágætis ufsaveiði hér við Vestmannaeyjar hjá færabátum og fengu sumir fullfermi eftir daginn. Það entist hins vegar ekki lengi, vegna þess að um leið og þetta fréttist, þá mættu hingað 2 aðkomu netabátar og hreinlega hreinsuðu upp miðin á örfáum dögum, en þetta hefur einmitt verið vandamálið hjá smábátum víða um landið. Ef þeir lenda í fiski, þá mætir eitthvert stórt veiðiskip að kvöldlagi, leggur undir sig miðin og fer ekki fyrr en það er búið að hreínsa upp allt sem er í boði. En hvernig væri, ef byggðir landsins, og þar með talið Vestmannaeyjar, fengju t.d. 3 mílna landhelgi, þar sem allar veiðar væru bannaðar, nema krókabátum og með því skilyrði að þeir yrðu að landa á fiskmarkaði í sínum heimabæ. Hverju myndi þetta skila t.d. fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Jú, bátum myndi fjölga verulega, veiðarnar væru vistvænar þannig að miðin biðu ekki tjón af. Að mínu mati hefið þetta óveruleg áhrif á fiskistofnana. Störfum myndi fjölga, möguleikar fyrir nýliðun í sjávarútveginum yrðu aftur að veruleika og öll stórútgerðin yrði alveg brjáluð.

Ég endurtek, að ég set þetta fram bara til gamans, en allir sjómenn þekkja orðið kostnað hagræðingannar. Störfum sjómanna hefur fækkað gríðarlega á síðustu árum, en þarna væri kannski tækifæri fyrir eldri sjómenn sérstaklega, en ég tók eftir því að í umræðum á Alþingi í síðustu viku, þá fór Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, mikinn í umræðunni um mikla fjölgun ungra öryrkja, sem að í mörgum tilvikum væru orðnir öryrkjar eiginlega vegna þess fyrst og fresmt, að hafa búið við atvinnuleysi árum saman, en þegar ég horfi á mín unglingsár hér í Vestmannaeyjum, þá einfaldlega fengu allir vinnu sem vildu. Vissulega var margt að því kvótakerfi sem var í gildi á mínum unglingsárum, en ég velti þessu svona upp með það í huga, hvort það sé þess virði, öll þessi hagræðing í sjávarútvegi með tilheyrandi atvinnuleysi og hörmungum allt í kring um landið og bara til þess eins að geta sagt að við séum með sjálfbæran sjávarútveg. 

Tek það annars skýrt fram, að ég er algjörlega á móti öllum hugmyndum um að taka aflaheimildir af þeim sem hafa þær í dag, til þess eins að afhenda þeim einhverjum öðrum, en það má klárlega laga þetta kerfi töluvert.

Hér í Vestmannaeyjum erum við rosalega heppin. Hér er gríðarlega öflug útgerð og útgerðin er lífæð okkar Eyjamanna. Sem betur fer hafa flestir þeirra sem hætt hafa og selt á undanförnum árum selt innanbæjar, sem er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega eftir að það var staðfest að lögin um forkaupsrétt sjávarbyggða á kvótanum, er ekki pappírsins virði og gríðarlega mikilvægt að taka á því. 

Í myndinni, Grand seduction, endar þetta allt saman vel. Sama er ekki hægt að segja um því miður allt of mörg þorp á Íslandi sem berjast í bökkum, eftir að kvótinn er seldur í burtu. Það er hins vegar hægt að breyta þessu og ég tel t.d. að breytingum væri mikið aðuveldara að koma á, ef tillit væri tekið til skoðanna sjómanna á stöðu fiskistofnana. Auknir skattar á stórútgerðina breyta þar engu um. Allt er hægt, ef við bara viljum það nógu mikið. Eða eins og Forest Gump orðaði það á sínum tíma: Lífið er eins og konfektkassi, þú veist aldrei hvernig næsti biti smakkast. 

Fyrir mína hönd og fjölskyldu minnar óska ég öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegra jóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

"Tek það annars skýrt fram, að ég er algjörlega á móti öllum hugmyndum um að taka aflaheimildir af þeim sem hafa þær í dag, til þess eins að afhenda þeim einhverjum öðrum, en það má klárlega laga þetta kerfi töluvert ".

Hvernig ætlaru að ná fram breytingum ef þetta er málið ?

Níels A. Ársælsson., 28.12.2015 kl. 00:14

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Niels

Þetta er rétt hjá þér, og eins og þú veist, þá tók ég á sínum tíma þátt í baráttuni gegn kvótakerfinu með Frjálslynda flokknum, vegna þess að mér fannst hugmyndir þeirra vera það skársta sem var í boði, eða þangað til að í ljós kom að forsvarsmenn flokksins voru ekki heilir í afstöðu sinni um það hvernig ætti að breyta kerfinu. Á þessum tíma síðan þá hefur mér verið orðið ljóst að þó þjóðin sem er á móti kvótakerfinu og öllu því braski sem því fylgir, þá er hún ekki sammála þeirri skoðun að það eigi að taka kvótann af þeim sem hafa, í mörgum tilvikum, keypt hann til þess að afhenda einhverjum öðrum, og er ég því sammála í dag, en ég er hins vegar á þeirri skoðun að það séu margar leiðir til þess að opna fyrir nýliðun í sjávarútvegi, eins og sú sem ég nefni í greininni t.d. En á meðan enginn stjórnmálaflokkur (þar á meðal Píratar) kemur með neitt vitrænt um það hvernig eigi að breyta kerfinu, þá ætla ég að halda mig við mínar skoðanir, byggðar á minni reynslu um það hvað sé hægt og hvað ekki.

Kveðja Georg

Georg Eiður Arnarson, 29.12.2015 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband