Söngur teistunnar

Ég hef oft fengið að heyra það að ég sé hálfgert náttúrubarn og ætla mér ekki að neita því, enda verið svo heppinn að alast upp í Vestmannaeyjum og upplifa allt það sem eyjarnar hafa upp á að bjóða, bæði klifrað eftir eggjum á unga aldri og stundað lundaveiðar á árum áður að maður tali nú ekki um sjómennskuna á smábátum í tæp 30 ár. Smátt og smátt lærir maður ósjálfrátt að lesa í veður og vindáttir og lendir m.a. ansi oft í því, að vakna við það að vindinn lægi.

Það að hafa haft þessi forréttindi að upplifa náttúruna hér i Vestmannaeyjum á jafn sterkan hátt og ég hef gert kennir manni líka að meta það sem kannski ekki allir sjá og þegar ég horfi til baka þá man ég eftir mörgum veiðiferðum hér í fjöllunum, þar sem stundum var lítið um veiði en samt hægt að sitja jafnvel klukkutímum saman og dáðst að því, sem fyrir augum bar. 

Fyrir nokkrum árum síðan var keypt til Vestmannaeyja lítil trilla sem er í sömu flotbryggju og ég og fékk mér til mikillar ánægju nafnið á besta vini mínum, Dolli á Sjónarhól. Það hefur verið ansi skemmtilegt á síðustu árum að koma stundum á nóttuni á bryggjuna á leiðinni á sjó og upplifa það, að teystu fjölskylda virtist hafa mikið dálæti á flapsanum aftan á Dollanum og ótrúlega skemmtilegt stundum að horfa á teisturnar sitja þarna saman og syngja . Síðasta vetur voru teisturnar orðnar 6 sem söfnuðust þarna saman, en í vetur aðeins 4. Ég hafði ekki tekið eftir teistunum í svolítinn tíma núna fyrir jól, þegar ég rakst á fésbókar færslu hjá ungum sjómanni hér í bæ, sem sagði frá því að hann hefði skroppið út til að sjá, hvort hann fengi nokkurn svartfugl en fékk ekki, en sýndi svo stoltur mynd af því, að á heimleiðinni hefði hann rekist á hóp af teistum og náð að skjóta 3. Í framhaldi af þessu fjölgaði ég ferðum mínum niður að bát og lifnaði nú yfir mér þegar ég heyrði flaut í teistu, en dofnaði heldur þegar ég sá að þar var aðeins 1 teista, enda var flautið í henni ekkert líkt söngi lengur heldur miklu frekar eins og neyðarkall. 

Ég ætla ekki að álasa hinum unga sjómanni, en beini því kannski fyrst og fremst til þeirra sem hafa gaman af því að fara út á skytterí að ganga kannski aðeins hægar um gleðinnar dyr og stundum er miklu skemmtilegra að horfa heldur en skjóta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband