14.1.2017 | 22:57
2016 gert upp
Loksins búinn að finna tíma til þess að gera árið 2016 upp, en það hefur verið ótrúlega annasamt hjá mér í kring um áramótin.
2016 er hjá mér ár mikilla öfga og stórra ákvarðana. Sú stærsta var að sjálfsögðu mjaðmakúliskipti sem ég fór í 23. maí. Ég hafði að sjálfsögðu vitað þetta með árs fyrirvara en ekki fengið nákvæma dagsetningu fyrr en ca. 2 mánuðum fyrir aðgerð.
Síðasti vetur var erfiðasti veturinn minn í útgerð hér í Eyjum og sem dæmi um það, að þrátt fyrir að ég hafði fiskað 140 tonn sl. vetur, þá þurfti ég samt að fara niður í banka og biðja um fyrirgreiðslu í sömu viku og ég fór í aðgerðina. Þar hafði mest áhrif aðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar, sem ég hef áður fjallað um.
Það var mjög sérstakt að ganga frá öllu tengdu útgerðinni í maí og undirbúa fyrir lengsta sumarfríið, sem ég hef tekið eftir að ég fór að vinna og þá fyrst sem strákur í bæjarvinnu á vegum Vestmannaeyjabæjar.
Aðgerðin tókst mjög vel, en hún fór fram á borgarspítalanum, en margt samt rosalega skrítið eins og t.d. hvernig mér leið eftir mænudeyfinguna, þar sem líkaminn dofnaði allur upp, en heilinn mundi samt eftir því, í hvaða stellingu ég var þegar ég fór í mænudeyfinguna, sem var svolítið óþægilegt. Það að liggja síðan reyrður á hlið og hlusta á borvélar og hamarslátt, þar sem maður hristist allur og skalf meðan hamarshögginn dundu á mjöðminni, án þess þó að ég fyndi nokkuð fyrir því. Ég var svo heppinn að fá einkaherbergi og fékk líka leyfi til þess að liggja þar í 3 nætur, enda erfitt ferðalag að fara í fólksbíl austur í Landeyjahöfn og sigla svo yfir. Allt tókst þetta nú vel og í framhaldinu hófust síðan þrotlausar æfingar. Það leið reyndar ekki nema mánuður þangað til ég var farinn að dunda aðeins í bátnum og kom honum m.a. á flot aftur fyrir goslokahelgina, svo hann væri ekki fyrir á planinu. Fór svo út með sjóstöng að ná mér í soðið 6 vikum eftir aðgerð og prufuróður á sjó 2 mánuðum eftir aðgerð.
Allt gekk þetta bara nokkuð vel, þó að maður væri að sjálfsögðu svolítið aumur, en þetta m.a. varð til þess að ég ákvað að breyta út af 40 ára hefð og sleppa því að mæta á Þjóðhátíð og nota tímann í staðinn til þjálfunar, enda hafði ég þá þegar tekið ákvörðun ásamt félögum mínum að kíkja aftur til Grímseyjar helgina eftir Þjóðhátíð. Náðum við þar m.a. í lundann fyrir lundaballið. Því hafði nú verið spáð af nánum ættingjum að ég næði að snúa af mér löppina í þeirri ferð, en ég leit hins vegar á þessa ferð sem ákveðna prófraun, en ég hafði þá þegar gengið 2svar á Heimaklett. Allt gekk þetta vel og því kom það mér ekki á óvart að skurðlæknirinn minn úrskurðaði mig seinni partinn í ágúst tilbúinn í hvaða vinnu sem er.
Eitt af því sem ég hafði ákveðið þá þegar um vorið, og í raun og veru fyrir aðgerð, var að hætta í útgerð enda hefur meiningin með minni útgerð aldrei verið sú að starfa í þessu í einhverri sjálfboða vinnu. Reyndar hefur gengið ansi rólega að selja útgerðina og m.a. er ég þegar búinn að taka prufuróður eftir vinnu núna í janúar 2017, sem hefur ákveðna merkingu fyrri mig vegna þess að ég keypti fyrsta bátinn 1987 og hef því gert út nákvæmlega í 30 ár, þó að þessir róðrar að undanförnu séu nú meira svona til gamans.
Fljótlega eftir að ég var kominn af stað í sumar fór ég að leita mé að atvinnu í landi og sótti um hjá höfninni í lok júli og fékk vinnu og hóf störf þann 1. sept. Mér líkar bara nokkuð vel hjá höfninni, enda starfað við höfnina alla mína ævi. Breytingin er þó ofboðslega mikil, en svona ef ég skoða síðasta ár í heild sinni, þá verð ég bara að viðurkenna eins og er að þessir síðustu 4 mánuðir ársins eru einu mánuðurnir á árinu sem maður fékk eitthvað útborgað.
Pólitíkin var að sjálfsögðu til staðar hjá mér á árinu. Fyrst aðeins að Alþingiskosningunum. Mér voru boðin sæti á 3 listum en ég hafnaði því öllu. Fyrir því voru margar ástæður, kannski fyrst og fremst það að maður hafði bara hreinlega ekki tíma í þetta og kannski takmarkaðan áhuga. Kosningaúrslitin í sjálfu sér komu mér ekkert á óvart, nema kannski árangur Viðreisnar en mér þótti mjög skrítið að hitta fólk sem kaus Viðreisn og trúði því í alvöru að Viðreisn myndi aldrei fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Í bæjarpólitíkinni var þetta svolítið átaka ár hjá mér og hófst með flugelda sýningu á fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 6. janúar í fyrra. Meirihlutinn var afar ósáttur með grein sem ég skrifaði fyrir þar síðustu áramót. Nú er það þannig að ég hef skrifað margar greinar í gegn um árin. Nokkrum sinnum áður hef ég reynt að skrifa mjög vandaðar greinar, þar sem ég fer yfir aftur og aftur, laga og leiðrétti. Þær greinar hafa nánast alltaf endað í ruslinu hjá mér, svo ég hef valið frekar að skrifa greinar um það sem ég hef verið að hugsa að undanförnu á þeim tíma og/eða fjalla um það sem fólk er að segja mér. Að sjálfsögðu er öllum velkomið að gagnrýna mínar greinar, en túlkun meirihlutans á grein minni fyrir rúmu ári síðan, hefur ekkert með það að gera hvað ég var að hugsa þegar ég skrifaði greinina og viðbrögð meirihlutans í framkvæmda og hafnarráði voru alls ekki við hæfi.
Í ágætu viðtali sem ég fór í í bæjarblaðinu Fréttum í byrjun febrúar sagði ég frá þessu og þeirri skoðun minni að meirihlutinn bæri að biðjast afsökunar á framkomu sinni í minn garð. Viðbrögð meirihlutans voru þau að senda erindi til bæjarstjórnar strax þarna í febrúar, þar sem þeir óskuðu eftir því að fundir ráðsins yrðu teknir upp hér eftir, vegna þess að fulltrúi minnihlutans væri með einhverjar dylgjur í þeirra garð. Að sjálfsögðu var þetta fellt í bæjarstjórn, og bara svo það sé alveg á hreinu, enginn í þessu ráði hefur beðið mig afsökunar. En ég hef í bili að minnsta kosti ákveðið að afgreiða þetta allt saman með orðum móður minnar sem hún kenndi mér strax á unga aldri: Sá á vægið sem vitið hefur.
Fundir í framhaldi af þessu voru nokkuð venjulegir, en margt af því sem gerðist á næstu vikum og mánuðum eftir þennan fund olli mér miklu meiri vonbrigðum, heldur en þessi fundur frá því í janúar. Og í lok sumars, eftir að mér bauðst starf hjá höfninni, var strax ljóst að ég gæti ekki líka starfað í hafnarráði. Ég bauð þá félaga mínum og oddvita Eyjalistans, Stefáni Jónassyni, að ég myndi draga mig út úr þessu og hleypa yngri manni að, en Stefán bauð mér að skipta við sig um ráð og gerði ég það og hóf ég störf í umhverfis og skipulagsráði í haust.
Það er töluvert öðruvísi fólk í því ráði en því fyrra og störfin að mörgu leyti allt öðruvísi en mjög mikilvæg, enda held ég að það dyljist engum sem fer á rúntinn um bæinn okkar, allar þær miklu breytingar sem eru að verða, bæði varðandi lagnir í allar áttir sem og uppbygging á hafnarsvæðinu í kring um Fiskiðjuna og að þessu leytinu til má segja að framundan séu mjög spennandi tímar.
Margir sem gera upp árið reyna að spá fyrir um nýja árið og yfirleitt á frekar jákvæðan hátt, sem er nú bara eðlilegt. Mér finnst hins vegar vera mikil óvissa um þetta nýja ár. Jújú, það er búið að mynda ríkisstjórn, en hún hefur bara einn mann í meirihluta. Klárlega ríkisstjórn sem ég myndi aldrei kjósa, en hún verður dæmd af störfum sínum, hvort sem hún endist eða ekki.
Nýbúið að skrifa undir smíði á nýrri ferju sem sumir telja mjög jákvætt. Afstaða mín er hins vegar óbreytt. Ef ekki verða settir alvöru fjármunir í nauðsynlegar breytingar í Landeyjahöfn, þá held ég að þessi ferja verði klárlega afturför.
Það var í fréttunum í gær, að lánshæfnismat Íslands hefði verið hækkað. Ekki ósvipað því sem gerðist reglulega rétt fyrir hrun. Fyrir nokkru síðan heyrði ég í hátt settum bankamanni, að að óbreyttu væri ekki nema ca. 2 ár í næsta hrun. Og hana nú!
Höfum þó í huga að sólin er farin að hækka og dagurinn að lengjast. Lundinn kemur í vor í milljónatali og hver veit, kannski leysist sjómannaverkfallið í vikunni.
Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.