1.1.2018 | 23:15
Áramót 17/18
Að venju geri ég upp árið með mínum augum séð.
Margt merkilegt er búið að gerast á árinu, en að mínu mati kannski merkilegast tengt fótboltanum, en eins og flestir vita þá náðum við Eyjamenn þeim einstaka árangri að verða bikarmeistarar, bæði karla og kvenna og framtíðin því bara nokkuð björt þar.
Árangur landsliða okkar var líka góður og þá sérstaklega hjá karlaliðinu að komast áfram á HM í fyrsta skipti, en mér verður oft hugsað til baka þegar karlalið okkar berst í tal, að ég man eftir því þegar ég var svona kannski 12 ára gamall að leika mér í fótbolta uppi í barnaskóla nánast alla daga og þegar maður var orðinn einn af eldri strákunum og farinn að velja í lið, þá man ég vel eftir litlum ljóshærðum strák, sem var svolítið linur á þeim árum, en ég tók eftir því, að hann var strax sem peyji nokkuð sleipur spilari og valdi ég hann því oft í lið með mér. Fylgdist svo með honum að vaxa úr grasi og er í dag þjálfari Íslenska karlalandsliðsins og stolt okkar Eyjamanna og ég efast ekkert um það, að ef einhver getur gert kraftaverk á HM í sumar þá er það Heimir Hallgrímsson.
Hápunkturinn hjá mér á árinu var, eins og í fyrra, ferð til Grímseyjar, perlu norðursins. Var svo heppinn að komast loksins bátsferð í kring um eyjuna með heimamönnum og er nú þegar búinn að panta fyrir næsta sumar. Vonandi kemst ég í þá ferð.
Er enn í útgerð og er byrjaður mitt 31. ár í trilluútgerð. Reyndar aðeins í frítímum, enda má að vissu leyti segja að það fari nú ekkert vel saman að vera í fullri vinnu hjá höfninni og róa í frítímum, enda ekki svo mikið um frí, en það gengur bara því miður ansi rólega að selja bátinn. Áhuginn á að róa er frekar takmarkaður, enda lét ég frá mér í sumar þessi fáu tonn sem ég átti, en á móti kemur að það er afskaplega gott að vera laus við bankann, en alltaf er jafn gaman að draga fisk úr sjó.
Tíðarfarið í haust hefur verið alveg með ólíkindum gott og sést það kannski best á sennilega met nýtingu á Landeyjahöfn í haust, en svo gerði brælu í einhverja daga og þá lokast um leið.
Pólitíkin spilaði þó nokkra rullu hjá mér á árinu, en fyrst og fremst er ég frekar dapur yfir því hvernig mál hafa þróast á árinu.
Framtíðin er að sjálfsögðu óskrifað blað, en mín tilfinning fyrir 2018 er kannski fyrst og fremst sú, að þetta er klárlega ár tækifæra og uppgjörs að einhverju leyti við það sem er að baki. Það eru jú kosningar í vor, enn er algjörlega á huldu hvort ég taki þátt í vor, en ég fór í þetta fyrir tæplega 4 árum síðan. Bæði vegna áhuga, en ekki hvað síður fyrir forvitnis sakir.
Klárlega verða einhver uppgjör á næstu mánuðum og vonandi breytingar. Vonandi munu Eyjamenn hafa meira að segja um okkar lykil baráttu mál en hingað til, en ég ætla ekki að telja upp allt sem þarf að laga hér í Eyjum, enda er það efni í amk. 2 greinar í viðbót.
Vonandi verður árið bara gott fyrir okkur öll og í þeim anda óska ég öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gleðilegt nýtt ár til þín og þinna Georg, og þakka þér fyrir samskiptin á síðasta ári.
Kær kveðja.
Helgi Þór Gunnarsson, 3.1.2018 kl. 07:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.